28.12.01 - Stjórnin skipti með sér verkumÁ stjórnarfundi hjá KÞÍ fyrir stuttu skipti stjórnin með sér verkum. Njáll Eiðsson tekur við varaformannsembættinu af Bjarna Jóhannssyni og Jóhann Gunnarsson er ritari stjórnar í stað Elísabetar. Aðrir stjórnarmenn halda áfram þeim embættum sem þeir voru í en það eru Sigurður Þórir formaður, Ómar gjaldkeri og Magnús spjaldskrárritari. Í varastjórn eru síðan Elísabet og Jörundur Áki sem kom nýr inn á síðasta aðalfundi.

 

17.12.01 - Nýr þjálfari ráðinn hjá KSÍKSÍ ákvað fyrir nokkru að fjölga landsliðsþjálfurum karla um einn og mun hann taka að sér að fylgjast með og þjálfa leikmenn 14 og 15 ára. Valgeir Freyr Sverrisson hefur verið ráðinn í starfið og mun hann meðal annars annast stjórn á árlegum knattspyrnuskóla og úrtökumóti KSÍ. Með þessu hyggst KSÍ byrja fyrr og skipulegar að kortleggja unga og efnilega knattspyrnumenn þjóðarinnar.
 

 

11.12.01 - ÍSÍ gefur út bækling um kynferðislega áreitniSíðast liðið vor framkvæmdu tveir nemendur við íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands, þær Hanna Björg Kjartansdóttir og Ingibjörg Harpa Ólafsdóttir rannsókn á tíðni kynferðislegrar áreitni í íþróttum. Rannsóknin var gerð með stuðningi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Á síðustu árum hafa erlendar rannsóknir sýnt að kynferðisleg áreitni er til staðar innan íþrótta. Þessi rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og eru niðurstöður hennar þess eðlis að nauðsynlegt er fyrir alla aðila innan íþróttahreyfingarinnar að vera á varðbergi gagnvart kynferðislegri áreitni. Í framhaldi af þessari rannsókn hefur ÍSÍ látið útbúa lítinn fræðslubækling um kynferðislega áreitni sem hefur nú verið sendur út til allra sambandsaðila ÍSÍ. Hægt er að panta bæklingin með því að hringja á skrifstofu ÍSÍ, í síma: 514-4000 eða í gegnum netfang: isi@isisport.is

 

10.12.01 - Skýrsla stjórnar KÞÍÁgætu knattsyrnuþjálfarar!

Á síðasta aðalfundi KÞÍ tók ný stjórn til starfa. Sigurður Þórir hélt áfram sem formaður og á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skipti hún með sér verkum. Bjarni Jóhannsson, varaformaður, Elísabet Gunnarsdóttir, ritari, Ómar Jóhannsson, gjaldkeri og Magnús Pálsson spjaldskrárrritari. Í varastjórn voru Jóhann Gunnarsson og Njáll Eiðsson.

Þessi stjórn hefur því starfað í eitt ár. Á starfsárinu voru haldnir 10 fundir, auk funda þar sem hluti stjórnar hittist til að undirbúa ýmis sérverkefni. Við höfðum sama markmið og í fyrra með lengd stjórnarfunda, þ.e. að þeir væru ekki lengur en ein og hálf klukkustund.

Helstu viðburðir félagsins á starfsárinu voru ráðstefna í tengslum við bikarúrslitaleik karla sem haldin var í lok september og tókst að flestra mati mjög vel. Matarfundur á Naustinu sem var haldinn í vor og er orðinn fastur liður í starfinu hjá okkur, auk þess sem við gáfum út nokkur fréttabréf og fréttatilkynningar.

Okkur hefur verið tíðrætt um fjárhag félagsins. Nú er svo komið að við teljum hann vera kominn á réttan kjöl. Það er samt alltaf hættan þegar menn eru búnir að ná markmiðum sínum að þá verði menn værukærir. Það má ekki gerast hjá okkur hvað fjárhaginn varðar. Við verðum að vera á varðbergi og leita allra leiða til að fjárhagurinn verði áfram í lagi. Um 200 félagsmenn greiddu árgjaldið eins og undanfarin ár og fengu þeir háskólapeysu senda eins og stjórnin lofaði á síðasta aðalfundi.

Styrktaraðilar KÞÍ eru: Tóbaksvarnarnefnd, Íslandsbanki-FBA hf, Íslenskar getraunir og Meba. Þökkum við þessum aðilum fyrir stuðninginn við félagið og vonumst til að eiga gott samstarf við þá áfram.

Eins og oft áður brugðu margir landi undir fót nú á haustmánuðum. Sigurður Þórir Þorsteinsson og Ómar Jóhannsson fóru 13. – 17. október s.l. til Bratislava í Slóvakíu á ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins. Kristján Guðmundsson fór á ráðstefnu í Noregi í tengslum við bikarúrslitaleikina þar í landi, fyrstu helgina í nóvember og Aðalsteinn Víglundsson, Ólafur Þórðarson og Þorlákur Már Árnason hafa fylgst með æfingum hjá Bolton í Englandi. Eflaust hafa fleiri farið erlendis sem við vitum ekki af og gaman væri ef þeir og þeir sem hér hafa verið taldir upp myndu skrifa greinargerð og senda okkur til að birta á heimasíðu okkar. Sigurður Þórir og Ómar munu koma sinni skýrslu á heimasíðuna fyrir áramót.

Á þessum aðalfundi fara fram kosningar til stjórnarsetu, eins og á flestum aðalfundum. Elísabet Gunnarsdóttir, ritari gefur ekki kost á sér áfram í aðalstjórn, en hún gefur kost á sér í varastjórn. Bjarni Jóhannsson, varaformaður sem setið hefur í stjórn KÞÍ í 10 ár gefur ekki kost á sér áfram. Við þökkum honum fyrir frábær störf í þágu félagsins og vonum að hann komi sem fyrst til stjórnarstarfa aftur.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands þakkar ykkur öllum fyrir samstarfið og þann mikla velvilja sem félagið hefur og hvetur ykkur til að vinna ykkar störf af heilindum í framtíðinni.
 

 

4.12.01 - Jörundur Áki þjálfari ársins í efstu deild kvennaÁ aðalfundi KÞÍ var Jörundur Áki Sveinsson útnefndur þjálfari ársins í efstu deild kvenna. Jörundur Áki hóf sinn þjálfaraferil hjá Stjörnunni þar sem hann þjálfaði yngri flokka og síðar mfl. kvenna en færði sig um haustið 1997 yfir til Breiðabliks, sem hann stýrði til sigur bæði í deild og bikar í fyrra og til sigurs á Íslandsmótinu í sumar. Jörundur Áki var þjálfari U-21 kvenna árið 2000 og mun stjórna þeim áfram. Jörundur Áki þjálfar einnig A-lansliðlið kvenna á næsta ári. Í haust tók Jörundur Áki við meistaraflokki karla hjá Breiðablik. Jörundur Áki hefur lokið öllum stigum KSÍ í knattspyrnuþjálfun. Jörundur Áki var einnig útnefndur þjálfarar ársins í efstu deild kvenna í fyrra og er þetta í þriðja sinn sem hann hlítur þennan titil. Til hamingju Jörundur Áki.

 

4.12.01 - Ólafur Þórðarson þjálfari ársins í efstu deild karlaÁ aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 30. nóvember s.l. var Ólafur Þórðarson þjálfari Akraness útnefndur þjálfari ársins í efstu deild karla fyrir árið 2001. Ólafur hóf þjálfaraferil sinn hjá Fylki 1997 og kom þeim í efstu deild karla, en tók síðan við liði Skagamanna í lok tímabilsins 1999 og stýrði þeim til sigurs í Coca Cola bikarkeppni KSÍ og í sumar unnu Skagamenn Íslandsmeistartitilinn með glæsibrag og ljóst að Ólafur er að gera góða hluti sem þjálfari. Í haust tók Ólafur við sem þjálfari íslenska ungmennalandsliðsins undir 21 árs. Til hamingju Ólafur.
 

 

4.12.01 - Lítið breytt stjórnÁ aðalfundi KÞÍ var kosið um tvo stjórnarmenn, þá Bjarna Jóhannsson og Elísabetu Gunnarsdóttur og varamennina Njál Eiðsson og Jóhann Gunnarsson. Bjarni gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa og Elísabet óskaði eftir að flytjast í varastjórn. Njáll og Jóhann voru kosnir í aðalstjórn til tveggja ára og Elísabet og Jörundur Áki Sveinsson, sem kom nýr inn, voru kosin í varastjórn til eins árs.

 

4.12.01 - Bjarni hættir í stjórnBjarni Jóhannsson varaformaður KÞÍ gaf ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi KÞÍ. Bjarni hefur verið í stjórn KÞÍ umndanfarin tíu ár. Sigurður Þórir formaður KÞÍ þakkaði Bjarna vel unnin störf fyrir KÞÍ og færði honum að skjöld að gjöf sem þakklætisvott frá KÞÍ.

 

4.12.01 - Björn, Þórir og Aðalsteinn hlutu viðurkenningarBjörn Elíasson ÍBV, Þórir Bergsson HK og Aðalsteinn Örnólfsson Haukum fengu á aðalfundi KÞÍ viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka félaga sinna. Allir hafa þeir lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín. Til hamingju allir.

 

4.12.01 - Traustur fjárhagurFram kom í reikningum félagsins sem lagðir voru fram á aðalfundinu að fjárhagur félagsins hefur lagast mikið og er trautur. Félagsmönnum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum og um leið fjárhagurinn, en félagið á um þessar mundir ágætan sjóð í banka.

 

 

4.12.01 - Óbreytt árgjaldÁ aðalfundi KÞÍ var samþykkt að hafa árgjald félagsins óbreytt á næsta ári. Stefnt er að því að hafa peysu eða eitthvað slíkt innifalið í árgjaldinu, en hvað það verður kemur í ljós næsta sumar.
 

 

4.12.01 - Skoðunarmenn til eins ársFélagarnir á skrifstofu KSÍ, þeir Guðni Kjartansson og Birkir Sveinsson voru endukjörnir sem skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs.

 

4.12.01 - Góður aðalfundurUm 25 þjálfarar mættu á aðalfund KÞÍ í Valsheimilinu föstudaginn 30. nóvember s.l. Fundarmenn voru ánægðir með það sem fram fór en auk venjulegra aðalfundarstarfa var boðið upp á léttar veitingar að fundi loknum og mæltist það sérlega vel fyrir.

 

 

21.11.01 - Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags ÍslandsAðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn í Valsheimilinu að Hlíðarenda föstudaginn 30. nóvember klukkan 20:00.

Dagskrá.
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Kosning formanns, meðstjórnenda og varamanna skv. ákvæði 7. gr. laga KÞÍ
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald skv. 6. gr. laga KÞÍ
Önnur mál

Boðið verður upp á léttar veitingar í boði KÞÍ að loknum aðalfundi.

 

14.11.01 - Sideline Organizer fyrir knattspyrnuþjálfaSideline Sports, www.sideline-sports.com hefur kynnt hugbúnaðinn Sideline Organizer fyrir knattspyrnuþjálfurum frá 15.september. Á þessum tíma hefur mikil þróunarvinna átt sér stað og nú er svo komið að gefin verður út dýrari útgáfa sem markaðssett verður á íþróttafélög. Í henni verður meðal annars hægt að tengja stafrænar kvikmyndir inn í æfinga- og leikaðferðasafn.
Markaðsetning erlendis er hafin og er hugbúnaðurinn að fá góðar viðtökur hjá erlendum þjálfurum. Tekin hefur verið sú stefna hjá Sideline Sports að selja íslenskum þjálfurum enterprise útgáfuna á kynningarverðinu 32.900 til 1.des. Verðið eftir fyrsta desember verður 89.900 m.vsk, enda hafa orðið miklar breytingar á hugbúnaðinum frá því að hann var kynntur fyrst.
Þeir þjálfarar sem hafa hug á að kaupa á kynningarverðinu vinsamlegast komið á skrifstofu Sideline Sports að Ármúla 36 3h. eða hafi samband við skrifstofuna fyrir fyrsta desember. Skrifstofan er opin á milli 10 og 14 alla virka daga.
Þetta er einstakt tækifæri til að festa kaup á kraftmiklu skipulagstóli fyrir þjálfara á afar hagstæðu verði.

 

12.11.01 - Þjálfaramenntun - 4. stigi frestað4. stigs þjálfaranámskeiði KSÍ, sem fara átti fram um næstkomandi helgi, hefur verið frestað vegna dræmrar þátttöku. Stefnt er á að halda námskeiðið í janúar á næsta ári.
 

 

12.11.01 - Þjálfaramenntun - 2. stigFræðslunefnd KSÍ heldur 2. stigs þjálfaranámskeið í Reykjavík 23. - 25. nóvember næstkomandi samkvæmt kennsluskrá um þjálfaramenntun. Þátttakendur þurfa að hafa lokið 1. stigi KSÍ (A-stigi). Þátttaka tilkynnist fyrir 19. nóvember í síma 510-2900 eða með tölvupósti á gudni@ksi.is. Námskeiðsgjald er kr. 12.000 , en nánari upplýsingar fást á skrifstofu KSÍ.
 

 

8.11.01 - Þjálfaranámskeið - almennur hluti 1cHelgina 17. og 18. nóvember n.k. stendur ÍSÍ fyrir þjálfaranámskeiði. Námskeiðið sem er samræmt fyrir allar íþróttagreinar er 20 kennslustundir, að meginhluta bóklegt, og er ætlað leiðbeinendum barna í íþróttum. Haldið verður áfram að fjalla starfsemi líkamans og íþróttameiðsl. Farið verður yfir stefnu ÍSÍ í forvarnarmálum og einnig verður kynning á notkun tölvu- og upplýsingatækni við þjálfun.
Þátttakandi verður að hafa lokið almennum hluta 1b til að komast á þetta námskeið.
Nemandi sem lýkur þessu námskeiði ásamt því að ljúka sérgreinahluta þjálfarastigs 1c hlýtur réttindi sem þjálfari hjá börnum 12 ára og yngri. Námskeiðið verður haldið í íþróttamiðstöðinni Laugardal.
Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ, sími: 514-4000 Netfang: kjr@isisport.is
Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 14. nóv. n.k.
Verð: 8.000 kr.

 

7.11.01 - Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands á afmæli 13. nóvemberKÞÍ verður 31. árs 13. nóvember n.k. en félagið var stofnað og fyrsta stjórn þess kosin þann dag árið 1970 í Austurbæjarskóla í Reykjavík. Fyrstu stjórn KÞí skipuðu, Sölvi Óskarsson, formaður, Reynir G. Karlsson varaformaður, Örn Steinsen ritari, og í varastjórn voru þeir Lárus Loftsson og Ríkharður Jónsson.
 

 

7.11.01 - Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags ÍslandsAðalfundur KÞÍ verður haldinn föstudaginn 30. nóvember n.k. kl. 20.00 Valsheimilinu við Hlíðarenda. Á dagskra fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf og viðurkenningar til þjálfara ársins í efstu deild karla og kvenna og einnig fá tveir þjálfarar viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. Á fundinum verður kosið um tvo stjórnarmenn til tveggja ára, það er þau Bjarna Jóhannsson og Elísabetu Gunnarsdóttur og tvo varamenn til eins árs, þá Njál Eiðsson og Jóhann Gunnarsson. Bjarni ætlar líklega að taka sér hlé frá störfum en öll hin ætla að gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Félagar eru hvattir til að mæta. Í lok fundar mun verða boðið upp á léttar veitingar eins og á síðasta aðalfundi, sem þóttist takast mjög vel.

 

26.10.01 - Þjálfaramenntun KSÍ - KSÍ - IV 9. - 11. nóvember.Fræðslunefnd KSÍ heldur KSÍ - IV þjálfarnámskeið í Reykjavík 9. - 11. nóvember 2001 samkvæmt kennsluskrá um þjálfaramenntun ef næg þátttaka næst. Þátttakendur þurfa að hafa lokið KSÍ I, II, III eða A, B og C-stigum KSÍ.
Þátttaka tilkynnist til skrifstofu KSÍ fyrir 5. nóvember í síma 510-2900 eða með tölvupósti: gudni@ksi.is
Námskeiðsgjald er kr. 14.000.
Nánari upplýsingar fást á skrifstofu KSÍ.

 

26.10.01 - Ráðstefna UEFT í BratislavaUm miðjan október fóru Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ á 23. ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, sem að þessu sinni var haldin í Bratislava í Slóvakíu. Efni frá ráðstefnunni verður sett undir liðinn fróðleikur hér á heimasíðunni fyrir lok nóvember.

 

11.10.01 - Þjálfarafundur í samvinnu við KR og BreiðablikKnattspyrnuþjálfarafélag Íslands, Knattspyrnudeild KR og Breiðablik halda þjálfarafund laugardaginn 13. október n.k. kl. 13:30 í Félagsheimli KR.
Fundarefni:
Hæfileikamótun
Svæðisvörn
Samhæfingarþjálfun

Fyrirlesari er Peter Hyballa, þýskur þjálfari og greinahöfundur. Hann mun m.a. kynna ný myndbönd um svæðisvörn og samhæfingarþjálfun.
Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari kemur á fundinn.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn, jafnt þjálfurum yngri og eldri flokka.
Kaffiveitingar á staðnum.

 

3.10.01 - Þjálfaranámskeið - almennur hluti 1bÍþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir framhaldsnámskeiði fyrir þjálfara helgina 13. - 14. október n.k. Námskeiðið er framhald af þjálfaranámskeiði 1a - almennum hluta. Námskeiðið sem er samræmt fyrir allar íþróttagreinar er 20 kennslustundir, að meginhluta bóklegt, og er ætlað leiðbeinendum barna í íþróttum. Haldið verður áfram að fjalla um þroskaferli barna, þ.e. vaxtarþroska og hreyfiþroska. Einnig er fjallað um undirstöðuatriði kennslufræði, mikilvægi rétt mataræðis, fyrstu viðbrögð við íþróttameiðslum og fleira. Nemandi sem lýkur þessu námskeiði ásamt því að ljúka sérgreinahluta þjáfarastigs 1b hlýtur réttindi sem þjálfari hjá börnum 12 ára og yngri undir eftirliti yfirþjálfara.
Námskeiðið verður haldið í íþróttamiðstöðinni Laugardal frá kl. 09.00 - 16.40 báða dagana.
Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ í síma 514-4000. Netfang: kjr@isisport.is
Verð: 8.000 kr.
Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 10. október
Vakin er athygli á því að námskeiðið verður haldið á Selfossi helgina 20. - 21. október ef næg þátttaka fæst.


 

 

3.10.01 - Breyting á listanum yfir félagsmennNú hefur listanum yfir félagsmenn verið breytt hér á síðunni. Í stað þess að vera með nöfn allra sem eru á skrám okkar eru einungis nöfn þeirra sem greitt hafa félagsgjaldið einhvern tímann á undanförnum þremur árum. Þetta er gert vegna þess að við höfum orðið vör við það að félög séu að skoða listann og hafa samband við þjálfara vegna lausra starfa og finnst okkur að félagsmenn eigi að hafa þar forgang og því er eingöngu hægt að sjá nöfn þeirra er greitt hafa félagsgjöldin. Einnig má geta þess að þeir sem auglýsa eftir starfi undir liðnum þjálfarastörf verða einnig að hafa greitt félagsgjaldið til að auglýsing þeirra birtist.

 

3.10.01 - Þjálfaranámskeið - 1. stigKSÍ stendur fyrir 1. stigs þjálfaranámskeiði 19. - 21. október næstkomandi, en 1. stig er fyrsta þrep þjálfaramenntunar í knattspyrnu. Áhugasamir geta skráð sig með því að senda tölvupóst á margret@ksi.is, í síðasta lagi miðvikudaginn 17. október. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram: Nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer / GSM, netfang.

 

 

30.9.01 - Þjálfararáðstefna norska knattspyrnuþjálfarafélagsins í nóvemberEins og á Íslandi er þjálfararáðstefna í tengslum við úrslitaleik bikarkeppninnar í Noregi og hefur norska knattspyrnuþjálfarafélagið boðið Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands að senda tvo aðila á ráðstefnuna. Ráðstefnan verður 2. - 4. nóvember n.k. Ráðstefnan verður haldin rétt við Osló í Íþróttaháskóla Noregs. Um 350 þjálfarar sóttu ráðstefnuna í fyrra og fóru þeir Sigurður Örn Helgason þjálfari KS og Kristján Guðmundsson þjálfari Þórs á ráðstefnuna í fyrra, en ferðasöguna má sjá undir liðnum fróðleikur hér á síðunni. Boðið gildir fyrir þátttökugjöldum og mat báða dagana en þeir sem fara þurfa sjálfir að sjá um gistingu og ferðir á staðinn. Þeir sem áhuga hafa á að nýta sér þetta boð er bent á að hafa samband við Sigurð Þórir Þorsteinsson formann KÞÍ í síma 861-9401 eða Ómar Jóhannsson gjaldkera KÞÍ í síma 897-3438.

 

30.9.01 - Vel heppnuð þjálfararáðstefna í tengslum við úrslitaleik Coca Cola bikarsinsLaugardaginn 29. september stóð KÞÍ í samvinnu við KSÍ fyrir þjálfararáðstefnu í tenslum við úrslitaleik Coca Cola bikarsins í knattspyrnu. Ráðstefnan þótti takast mjög vel og voru þeir þjálfarar sem ráðstefnuna sóttu ánægðir með útkomuna.
Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ setti ráðstefnuna og því næst sagði Bjarni Stefán Konráðsson yfirþjálfari KR frá uppbyggingu yngri flokka þjálfunarinnar hjá KR. Næstur á dagskrá var Mika Laine frá Finnlandi sem kynnti það nýjasta varðandi þolþjálfun knattspyrnumanna frá POLAR. Brynjar Karl Sigurðsson kynnti því næst nýtt tölvuforrit fyrir knattspyrnuþjálfara. Bjarni Jóhannsson þjálfari Fylkis kom síðan og sagði frá undirbúningi síns liðs fyrir úrslitaleikinn og tilkynnti byrjunarliðið sitt og fór yfir leikskipulagið sem lagt yrði upp með. Því miður sáu þjálfara KA sér ekki fært að mæta en Njáll Eiðsson þjálfari ÍBV og Kristján Guðmundsson þjálfari Þórs fóru yfir lið og leikaðferðir KA liðsins. Þá var komið hádegishlé og fór allur hópurinn á Grand Hótel við Sigtún og borðaði þar.
Eftir mat var skundað á leikinn. Í lokin voru síðan pallborðsumræður um leikinn og fóru Njáll, Kristján og Willum Þór Þórsson þjálfari Hauka yfir leikinn
Á heildina litið tókst ráðstefnan með ágætum en um 40 þjálfarar sóttu ráðstefnuna og erum við ánægð með þann fjölda.

 

28.9.01 - Þjálfararáðstefna í tengslum við bikarúrslitaleikinn09:00 Ávarp
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
09:05 Hugleiðing um yngri flokka þjálfun
Bjarni Stefán Konráðsson, yfirþjálfari hjá KR
09:30 Team trainer frá POLAR
Mika Laine kynnir það nýjasta varðandi þolþjálfun
11:00 Kaffi
11:05 Tölvuforrit fyrir knattspyrnuþjálfara
Brynjar Karl Sigurðsson kynnir nýtt tölvuforrit fyrir knattspyrnuþjálfara
11:55 Þjálfaraspjall
Bjarni Jóhannsson og Þorvaldur Örlygsson þjálfarar liðanna sem leika til úrslita ræða um bikarúrslitaleikinn
12:30 Hádegisverður á Grand Hótel
14:00 úrslitaleikur Coca-Cola bikars karla, Fylkir - KA
16:15 Pallborðsumræður
Willum Þór Þórsson, Kristján Guðmundsson, Njáll Eiðsson
17:15 Ráðstefnuslit
Léttar veitingar í boði KÞÍ

Verð kr. 2500,- fyrir félagsmenn KÞÍ
Verð kr. 5000,- fyrir ófélagsbundna

 

 

27.9.01 - Þjálfarastyrkir ÍSÍVerkefnasjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands auglýsir hér með til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 8 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.- Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina. Umsóknum skal skilað, á þar til gerðum eyðublöðum , til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir 15. október n.k. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu ÍSÍ. Frekari upplýsingar veitir Kristinn Reimarsson sviðsstjóri Fræðslu- og útbreiðslusviðs á skrifstofu ÍSÍ. Sími 514 4000


 

 

26.9.01 - Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik Coca-Cola bikarsinsEins og undanfarin ár stendur KÞÍ fyrir ráðstefnu í tengslum við úrslitaleik Coca-Cola bikarsins. Að þessu sinni verður ráðstefna í salarkynnum ÍSÍ í Laugardal og hefst kl. 09:00 á laugardaginn. Dagskráin hefur verið send öllum starfandi knattsyrnuþjálfurum og ljóst að um verulega spennandi dagskrá er að ræða. Sjá nánar auglýsingu á forsíðu.

 

26.9.01 - Willum Þór er þjálfarinnWillum Þór Þórsson sem náð hefur frábærum árangri með meistaraflokk Hauka úr Hafnarfirði er þjálfarinn í boði KÞÍ að þessu sinni. Sjá nánar undir liðnum þjálfarinn hér á síðunni.

 

14.9.01 - Íþróttasjóður - styrkumsóknirUmsóknir um stuðning úr Íþróttasjóði Ríkisins vegna ársins 2002 skulu berast Íþróttanefnd, menntamálaráðuneytinu á þar til gerðum eyðublöðum, fyrir 1. október n.k. Veitt eru framlög til eftirfarandi verkefna á sviði íþrótta:
1. Sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar.
2. Útbreiðslu- og fræðsluverkefna.
3. Íþróttarannsókna.
4. Verkefna samkvæmt 13. gr. íþróttalaga.

Umsóknir um stuðning úr Íþróttasjóði vegna ársins 2002 skulu berast Íþróttanefnd, menntamálaráðuneytinu, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum, fyrir 1. október n.k. Eyðublöðin fást í afgreiðslu menntamálaráðuneytisins og einnig á heimasíðu ráðuneytisins www.menntamalaraduneytid.is

 

14.9.01 - Þjálfararáðstefna 29. september n.k.KÞÍ mun eins og undanfarin ár standa fyrir þjálfararáðstefnu í tengslum við bikarúrlitaleikinn hjá KSÍ. Ráðstefnan verður haldinn í sal ÍSÍ í Laugardal og hefst klukkan 09:00 með setningu Sigurðar Þóris Þorsteinssonar formanns KÞÍ. Verið er að setja dagskrána saman en ljóst er að um mjög áhugaverða dagskrá verður að ræða. Aðalfundur KÞí verður síðan í lok ráðstefnunnar. Meira síðar.

 

5.9.01 - Þjálfaranámskeið - Almennur hluti 1aAð loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta skipulagt og stjórnað æfingatíma hjá börnum og unglingum á byrjendastigi. Til þess þarf hann að hafa grundvallarþekkingu á líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga. Hann þarf að þekkja starfsemi líkamans auk helstu aðferða við kennslu. Sá sem lýkur þessu námskeiði ásamt sambærilegu sérgreinanámskeiði hlýtur réttindi sem aðstoðarmaður eða leiðbeinandi hjá íþróttaskóla eða yngstu flokkum. Er áætlað að námskeiðið fari fram milli kl. 18.00 - 22.00.föstudaginn, 07. og frá 09.00 - 16.00 bæði laugardag og sunnudag, (08.09. og 09.09).
Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ í síma 514-4000. Netfang: kjr@isisport.is Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 05. september.


 

 

5.9.01 - Ljósmyndir af dómurunumFimmtudaginn 6. september næstkomandi kl. 20:00 verður haldin sýning á ljósmyndum eftir Brian Sweeney á Atlantic bar/bistro (Austurstræti 8, 101 Rvk.). Brian hefur verið að taka myndir af knattspyrnudómurum og knattspyrnuvöllum á Íslandi í sumar og afar áhugavert yrði að sjá afraksturinn. Því hvetjum við alla sem áhuga hafa, að kíkja á sýninguna, sem sýnir dómara og velli í öðru ljósi.

 

 

16.7.01 - Háskólapeysurnar farnar í póst til félagsmannaHáskólapeysurnar sem þeir fá sem greiða árgjaldið fóru í póst í dag, 16. júlí og ættu að berast félagsmönnum fljótlega. Alls hafa 132 greitt árgjaldið og eiga allir þeir von á peysunni í þessari viku, en Íslandspóstur mun sjá um dreifingu peysanna og keyra þær heim til félagsmanna. Ef einhverjir sem hafa greitt fá ekki peysu, er þeim bent á að hafa samband við einhvern stjórnarmann og eins ef stærðin er ekki rétt.

 

16.7.01 - Jörundur Áki er þjálfarinnÞjálfarinn í boði KÞÍ hér á heimasíðunni er að þessu sinni Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari kvenna og þjálfari mfl. kvenna hjá Breiðabliki. Þjálfarinn er að þessu sinni með breyttu sniði, þ.e. Jörundur Áki sýnir okkur viku æfingaáætlun Breiðabliks og myndir eru af nokkrum æfinganna.
 

 

17.6.01 - Háskólapeysa til þeirra sem greiða félagsgjaldið


Með fréttabréfinu að þessu sinni fylgir greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2001. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og hingað til og greiði greiðsluseðilinn sem allra fyrst. Allir þeir sem greiða félagsgjaldið fyrir 1. ágúst 2001 munu fá glæsilega og vandaða háskólapeysu (sjá mynd) með merki félagsins á. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að unnið væri að því að láta eitthvað fylgja félagsgjaldinu og telur stjórn KÞÍ að með þessu sé verulega verið að koma á móts víð félagsmenn, sem reyndar hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. Í fyrra greiddu um 210 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar að af landinu félagsgjaldið og vonumst við eftir jafn góðum viðbrögðum að þessu sinni. Vissulega er þetta dýrt fyrir félagið og reyndar óframkvæmanlegt ef ekki kæmi til stuðningur frá Tóbaksvarnarnefnd og Brosbolum og þökkum við þeim fyrir stuðninginn hér með. Þjálfarar eru beðnir að senda upplýsingar um stærðir sínar á netfangið kthi@isl.is og ef einhverjir fá senda peysu sem ekki passar þá er viðkomandi bent á að hafa samband við einhvern stjórnarmann í KÞÍ til að skipta á stærðum. Stjórn KÞÍ óskar að endingu öllum félagsmönnum sínum góðs gengis í sumar.

 

17.6.01 - Formannspistill úr 1. tbl. 3. árg. Fréttabréfs KÞÍ


Kæru félagar - Gleðilegt sumar!

Flautað hefur verið til leiks í fyrstu leikjum Íslandsmótsins 2001. Langt undirbúningstímabil er að baki og flestir knattpyrnuvellirnir orðnir grænir og tilbúnir til að taka á móti banhungruðum knattspyrnumönnum, sem hafa beðið þessa tíma frá því Íslandsmótinu lauk í fyrra.

Margt gerist á þessum tíma bæði jákvætt og neikvætt. Það er staðreynd að í fyrstu leikjum sumarins gerist ýmislegt sem á eftir að hafa talsverð áhrif á gang mála út keppnistímabilið. Lið sem tapa mörgum stigum í upphafi móts eru alltaf að elta hin liðin. Það er líka ákveðin kúnst að halda forystu og sumum liðum hentar einfaldlega að vera í því hlutverki að vera að elta önnur lið í stað þess að halda forystu. Þessar vangaveltur eiga þó að sjálfsögðu aðeins við um elstu flokkana en ekki þá yngstu, þar gilda allt önnur lögmál.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) hélt matarfund á Veitingahúsinu Naustinu laugardaginn 28. apríl s.l. Veislustjóri eins og áður, var hinn orðheppni þjálfari Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH), Logi Ólafsson sem stjórnaði samkomunni af mikilli röggsemi og glensi. Hann bað veislugesti að láta sig vita ef menn vildu koma einhverju skemmtilegu á framfæri og nýtti Helena Ólafsdóttir, fyrrum stjórnarmaður í KÞÍ, sér þetta boð við mikla ánægju Loga og annarra veislugesta. Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfari kom með mjög gott erindi, þar sem hann bar saman þá Oliver Kahn, markvörð Bayern Munchen og Fabien Barthez, markvörð Manchester United. Veislugestir voru um 40 og fengu þríréttaða máltið og skemmtu sér flestir mjög vel, en þetta er þriðja árið í röð sem við höldum slíkan matarfund fyrir Íslandsmótið.

Með þessu fréttabréfi verður sendur út greiðsluseðill fyrir félagsgjaldið 2001 og fá allir þeir sem greiða árgjaldið háskólapeysu með merki félagsins. Hvetjum við alla til að bregðast skjótt við og greiða greiðsluseðilinn svo að við getum komið peysunum til félagsmanna sem fyrst. Félagsmenn eru hvattir til að senda upplýsingar um stærð á peysunum sem þeir vilja fá á netfangið kthi@isl.is.

Ráðstefna verður haldin í tengslum við bikarúrslitaleik karla sem fram fer laugardaginn 29. september n.k. á Laugardalsvelli kl. 14.00. Dagskráin verður kynnt síðar en við hvetjum menn til að taka þessa helgi frá og þá þjálfara sem fara með lið sín alla leið í bikarúrslitaleikinn biðjum við hér með að koma á ráðstefnuna og segja frá undirbúningi liða þeirra fyrir bikarúrslitaleikinn og hvernig þeir leggja leik sinn upp. Til stendur að halda aðalfund KÞÍ á sama tíma og ráðstefnan verður, en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um það.

Því miður, þá er það nú nú þannig að það gerist á hverju tímabili að þjálfurum er sagt upp störfum, sem mönnum finnst oftar en ekki ósanngjörn uppsögn. Viljum við hvetja þjálfara til að sýna fagleg vinnubrögð og taka ekki við starfi fyrr en búið er að ganga úr skugga um að búið sé að ganga frá við fyrrverandi þjálfara. Þjálfarar, sýnum samstöðu, berum virðingu fyrir störfum hvers annars og sjáum til þess að faglega sé staðið að ráðningum. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að allir haldi störfum sínum og að endingu óskum við þess að öllum knattspyrnuþjálfurum gangi sem best og þeir eigi eftir að sjá góðan árangur af störfum sínum.

Með knattspyrnukveðju,
Sigurður Þórir Þorsteinsson,
formaður KÞÍ

 

17.6.01 - Rannsóknarstyrkur João HavelangeFIFA hefur í samvinnu við Alþjóðamiðstöð íþróttarannsókna í Neuchãtel í Sviss ákveðið að veita nokkra styrki til rannsóknaverkefna í knattspyrnu. Styrkirnir eru hugsaðir til að gera ódauðlegt það mikla starf sem João Havelange, sem var forseti FIFA í 24 ár, vann fyrir knattspyrnuna. Ekki hefur verið ákveðið hversu háir styrkirnir verða, né hve margir en allar nánari upplýsingar má fá hjá Guðna Kjartanssyni fræðslustjóra KSÍ.

 

17.6.01 - Knattspyrnuþjálfari í afleysingumAllir knattspyrnuþjálfarar hafa lent í því að komast einhverra hluta vegna ekki á æfingar og átt í miklum vandræðum með að útvega hæfan aðila í sinn stað. Nú hefur Davíð Bergmann ákveðið að bjóða fram krafta sína í knattspyrnuþjálfun til skemmri tíma. Davíð er unglingaráðgjafi og hefur starfað með unglingum frá 1995 og er að ljúka C stigi KSÍ í knattspyrnuþjálfun. Davíð þjálfaði 3. og 4. flokk hjá sameinuði liði Dalvíkur og Ólafsgjarðar í fyrra, en er fluttur á höfuðborgarsvæðið og bíður þjálfurum upp á að leysa þá af á æfingum. Allar frekari upplýsingar er að fá hjá Davíð í síma 891-8278.

 

3.5.01 - Fréttabréf á leiðinniFélagar í KÞÍ eiga von á fréttabréfi félagsins um miðjan maí mánuð. Með fréttabréfinu verður einnig greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2001. Eins og sagt var frá á aðalfundi KÞÍ í haust þá var verið að vinna í því að finna boli fyrir þá sem greiða félagsgjaldið. Það er stjórn KÞÍ gleðiefni að geta sagt frá því að í ár mun vandaður háskólabolur verða sendur þeim sem greiða félagsgjaldið. Stöndum saman þjálfarar og eflum félagið okkar enn frekar.

 

3.5.01 - Góður fundur á NaustinuÁ matarfundinn sem haldinn var á Naustinu um s.l. helgi mættu 36 knattspyrnuþjálfarar víðs vegar að af landinu. Almenn ánægja var með fundinn og var létt yfir mönnum. Guðmundur Hreiðarsson flutti fróðlegt erindi um markmannsþjálfun og Logi Ólafsson stjórnaði samkomuna af sinni alkunnu snilld. Ljóst er að þessir fundir eru komnir til að vera.

 

3.5.01 - Seinni hluti D-stigs um helginaUm næstkomandi helgi fer fram seinni hluti D-stigs þjálfaranámskeiðs KSÍ. Dagskráin hefst föstudaginn 4. maí kl. 14:50 í félagsaðstöðu ÍBR í Laugardal og lýkur um miðjan sunnudaginn 6. maí.
 

 

26.4.01 - Guðlaugur er þjálfarinnGuðlaugur Baldursson er þjálfarinn hjá okkur að þessu sinni á heimasíðunni. Guðlaugur er yfirþjálfari yngri flokka FH í Hafnarfirði og hlaut viðurkenningu á síðasta aðalfundi KÞÍ fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka.

 

19.4.01 - Matarfundur á NaustinuKÞÍ stendur fyrir matarfundi fyrir knattspyrnuþjálfara á Veitingahúsinu Naustinu við Vesturgötu í Reykjavík, laugardaginn 28. apríl n.k. klukkan 19:30 og kostar 3.000 krónur inn. Þetta er þriðja árið sem KÞÍ heldur slíkan fund og hafa þeir þótt takast vel í alla staði hingað til og hefur stjórn KÞÍ því ákveðið að halda annan slíkan nú. Logi Ólafsson þjálfari meistaraflokks karla hjá FH verður veislustjóri eins og áður og mun hann stjórna glensi og fara með gamanmál. Guðmundur Hreiðarsson markvarðaþjálfari hjá Fylki og Breiðablik og aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins flytur erindið “Hvernig undirbýr þjálfari markverðina sína fyrir mót” og ber síðan saman tvo af fremstu markvörðum heims, þá Oliver Kahn hjá Bayern Munchen og Fabian Barthez hjá Manchester United. KÞÍ hvetur alla knattspyrnuþjálfara til að mæta, ekki bara félagsmenn, en tilkynna þarf þátttöku til Sigurðar Þóris Þorsteinssonar formann KÞÍ í síma 861-9401, Bjarna Jóhannssonar varaformanns KÞÍ í síma 896-8566 eða Ómars Jóhannssonar gjaldkera KÞÍ í síma 897-3438.

 

19.4.01 - Þjálfaramenntun - KSÍ III (C-stig) 20. – 21. aprílFræðslunefnd KSÍ heldur KSÍ III (C-stigs) þjálfaranámskeið í Reykjavík 20. – 21. apríl 2001 samkvæmt kennsluskrá um þjálfaramenntun. Þátttakendur þurfa að hafa lokið KSÍ II (B-stigi). Þátttaka tilkynnist til skrifstofu KSÍ fyrir 18. apríl í síma 510-2900 eða með tölvupósti á gudni@ksi.is.
Námskeiðsgjald er kr. 12.000. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu KSÍ.
 

 

22.3.01 - Þjálfarastyrkir ÍSÍVerkefnasjóður Íþróttasambands Íslands auglýsir hér með til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 10 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.-
Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina. Umsóknum með lýsingu á náms- og starfsferli, auk greinargóðrar lýsingar á fyrirhugaðri ráðstöfun styrksins og ávinningi íþrótta-hreyfingar-innar af henni, skal skilað til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir 9. apríl nk. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal. Einnig á heimasíðu ÍSÍ; www.isisport.is

 

 

19.3.01 - Hörður Guðjónsson er þjálfarinnÁ aðalfundi KÞÍ á s.l. ári fékk Hörður Guðjónsson þjálfari hjá Fylki viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. Hörður er þjálfarinn á heimasíðunni hjá okkur núna og sýnir okkur nokkrar skemmtilegar æfingar. Sjá nánar undir liðnum þjálfarinn.

 

1.3.01 - Bjarni Jóhannsson er þjálfarinnBjarni Jóhannsson hinn kunni knattsyrnuþjálfari hjá Fylki í Árbæ sýnir okkur æfingar hér á heimasíðunni. Sjá nánar undir liðnum þjálfarinn.

 

21.2.01 - Aftanlæristognanir – fyrirbyggjandi aðgerðirNú er að hefjast þriðja ár rannsóknar á meiðslum í knattspyrnu á Íslandi. Undanfarin tvö ár hafa skilað mikilvægum upplýsingum, sem eiga eflaust eftir að nýtast vel til forvarna meiðsla í framtíðinni. Markmið rannsóknarinnar í ár er að fækka aftanlæristognunum sem eru algengustu meiðslin í knattspyrnu á Íslandi og í Noregi. Það er því mikið kappsmál að fá sem flest íslensk lið úr úrvalsdeild og fyrstu deild með í rannsóknina. Þess má geta að öll liðin í norsku úrvalsdeildinni (alls 14 lið) verða þátttakendur í rannsókninni á þessu ári.
Mánudaginn 26. febrúar verður haldinn fundur með þjálfurum og sjúkraþjálfurum liða í úrvalsdeild og fyrstu deild karla í knattspyrnu. Roald Bahr MD, PhD, professor í íþróttameiðslum við Norges Idrettshøgskole og forstöðumaður Oslo Sports Trauma Research Center mun kynna fyrirbyggjandi aðgerðir gegn aftanlæristognunum, sem byggðar eru á niðurstöðum rannsókna í Noregi og á Íslandi. Roald Bahr er þekktur vísindamaður og fyrirlesari á sviði íþróttameiðsla og er því mikill fengur að fá hann til liðs við okkur í þessu verkefni.
Aðgangur er ókeypis.
Vonast er til að sem flestir þjálfarar, sjúkraþjálfarar og aðstoðarmenn þeirra í úrvalsdeild og fyrstu deild karla sjái sér fært að mæta.

Aftanlæristognanir – fyrirbyggjandi aðgerðir
Íþróttamiðstöðin Laugardal
Mánudaginn 26. febrúar kl. 20:00-22:00
Dagskrá:
20:00 Opnun (Guðni Kjartansson fræðslustjóri KSÍ).
20:10 Aftanlæristognanir – fyrirbyggjandi aðgerðir (Roald Bahr MD, PhD, professor í íþróttameiðslum við Norges Idrettshøgskole og forstöðumaður Oslo Sports Trauma Research Center).
21:00 Skráning meiðsla 2001 (Árni Árnason).
21:20 Æfingar fyrir aftanlærisvöðva og umræður.

 

 

5.2.01 - Þjálfarastig 1aNámskeiðið er fyrsti hluti í nýju menntakerfi þjálfara og fer fram í íþróttamiðstöðinni Laugardal helgina 09. - 11. feb. Um er að ræða almennan hluta þjálfarastigs 1a og undanfari annara námskeiða sem síðar verður boðið uppá.
Námskeiðið er 20 kennslustundir, að meginhluta bóklegt, og er ætlað leiðbeinendum barna í íþróttum. Það fjallar að mestu um þroskaferli barna, þ.e. vaxtarþroska, hreyfiþroska, sálrænan þroska og félagsþroska. Einnig er fjallað um undirstöðuatriði kennslufræði og fleira. Verklegi hlutinn felur í sér alhliða leiki, sem stuðla að hreyfifærni og fjölþættum líkamlegum og andlegum þroska. Samhliða honum er fjallað um kennslufræði leikja. Nemandi sem lýkur þessu námskeiði ásamt því að ljúka sérgreinahluta þjálfarastigs 1a hlýtur réttindi sem aðstoðarmaður eða leiðbeinandi hjá íþróttaskóla eða yngstu flokkum.
Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ í síma 581-3377. Netfang: kjr@isisport.is
Skráningu þarf að vera lokð fyrir miðvikudaginn 07. feb. n.k.

 

16.1.01 - Líkams- og styrktarþjálfun fyrir almenning og íþróttafólkNámskeiðið er einkum ætlað fyrir íþróttakennara og aðra sem vinna við íþróttaþjálfun.
Forkunnátta:Æskilegt er að þátttakendur hafi einhverja íþróttafræðimenntun og/eða starfi við kennslu eða þjálfun 16 ára eða eldri.
Viðfangsefni:Námskeiðið er ætlað sem upprifjunar og framhaldsnámskeið í líkams- og styrktarþjálfun almennings og íþróttafólks. Farið er ítarleg í lífeðlisfræðilegar forsendur styrktarþjálfunar og fjallað um æfingar fyrir tiltekna vöðvahópa. Skoðað er hverjar eru helstu aðlaganir sem verða við styrktarþjálfun, mismunandi aðferðir til þjálfunar, mælingar á líkamsstyrk og gerð æfingaáætlana
Vinnulag: Fyrirlestrar, verklegar æfingar og verkefnavinna.
Umfang: 20 stundir
Tími: 1., 2. og 3. mars
Hám.fjöldi: 20
Staður: KHÍ við Stakkahlíð Rvk.
Umsjón: Kári Jónsson, lektor og Erlingur Jóhannsson dósent Íþróttaskor KHÍ
Skráning: Símenntunarstofnun KHÍ, s. 563-3980, netfang: simennt@khi.is, fax:563-3981
 

 

16.1.01 - Endurmenntunarnámskeið – Þjálffræði íþróttaNámskeiðið er hugsað sem upprifjunar- og framhaldsnámskeið í þjálffræði fyrir framhaldskólakennara og íþróttaþjálfara.
Markmiðið: að kynna og fara í helstu efnisþætti bókarinnar Þjálffræði eftir A. Gjerseth, K,.Haugen og P. Holmstrand. Að loknu námskeiði eiga þáttakenndur að hafa betri skilning og yfirsýn á mikilvægi þjálffræðinar og hvernig bókin nýtist sem best við kennslu í framhaldskólum.
Viðfangsefni: Á námskeiðinu verður leitast eftir að fara í gegnum mikilvægustu þætti íþróttaþjálfunar og þar tekið mið af efnisþáttum bókarinnar Þjálffræði.
- Inngangur um efnisþætti bókarinnar
- Þolþjálfun
- Styrktar og snerpuþjálfun
- Viðbragðs og hraðaþjálfun
- Liðleikaþjálfun
- Samhæfing og tækni
- Bygging og starfsemi líkamans
- Orkubúskapur líkamans
- Hreyfifræði
- Skipulag þjálfunar
Vinnulag: fyrirlestrar, verklegar æfingar og verkefni
Umfang: 20 stundir
Tími: 16.-18. febrúar
Staður: Kennaraháskóli Íslands v/Stakkahlíð
Kennarar: Örn Ólafsson og Ann-Helen Odberg
Verð: 10.000 kr.
Umsóknarfrestur til 24. janúar
Skráning: Símenntunarstofnun KHÍ, s. 563-3980, netfang: simennt@khi.is, fax:563-3981

 

 

8.1.01 - Góður aðalfundur


Um 30 þjálfarar mættu á aðalfund KÞÍ í Smáranum föstudaginn 24. nóvember s.l. Fundarmenn voru ánægðir með það sem fram fór en auk venjulegra aðalfundarstarfa var boðið upp á léttar veitingar að fundi loknum og mæltist það sérlega vel fyrir.


Fjárhagurinn batnar
Fram kom í reikningum félagsins sem lagðir voru fram á aðalfundinu að fjárhagur félagsins hefur lagast mikið. Félagsmönnum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum og er nú unnið í því að hafa eitthvað með árgjaldinu á næsta ári, en hvað það verður kemur ekki í ljós fyrr en líður að vori.


Stjórnin endurkjörin

Á aðalfundinu var kosið um fimm stjórnarmenn og gáfu allir þeir sem í stjórn voru kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Sigurður Þórir, Magnús og Ómar voru kosnir í stjórn KÞÍ til tveggja ára og Jóhann og Njáll kosnir varamenn til eins árs.


Skoðunarmenn til eins árs

Félagarnir á skrifstofu KSÍ, þeir Guðni Kjartansson og Birkir Sveinsson voru endukjörnir sem skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs.


Óbreytt árgjald

Eins og í ár verður árgjald KÞÍ 2500 krónur á næsta ári. Sumir höfðu af því áhyggjur þegar árgjaldið var hækkað í vor að færri myndu greiða árgjaldið, en annað hefur komið í ljós og ljóst að knattspyrnuþjálfarar ætla að standa saman að því markmiði að efla félagið, okkur öllum til framdráttar.


Hörður og Guðlaugur hlutu viðurkenningar

Hörður Guðjónsson, Fylki og Guðlaugur Baldursson, FH fengu á aðalfundi KÞÍ viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka félaga sinna. Báðir hafa þeir lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín. Til hamingju báðir tveir.

 

8.1.01 - Skýrsla stjórnar KÞÍÁgætu knattsyrnuþjálfarar!

Sunnudaginn 28. nóvemver s.l. tók ný stjórn til starfa. Sigurður Þórir hélt áfram sem formaður og á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skipti hún með sér verkum. Bjarni Jóhannson, varaformaður, Elísabet Gunnarsdóttir, ritari, Ómar Jóhannsson, gjaldkeri og Magnús Pálsson spjaldskrárritari. Í varastjórn komu nýir inn, Jóhann Gunnarsson og Njáll Eiðsson

Starfstími þessarar stjórnar hefur því verið eitt ár. Á þessu ári voru haldnir 10 fundir, auk funda þar sem hluti stjórnar hittist til að undirbúa ýmis sérverkefni. Við höfðum sama markmið og í fyrra með lengd stjórnarfunda, þ.e. að hann væri ekki lengri en einn knattspyrnuleikur, þ.e. 90 mínútur.

Í fyrra þegar ég var í sömu embættisverkum og núna lýsti ég yfir miklu stolti af árangrinum á þeim tíma. Það stolt er ekki minna núna. Félagið gaf út fjögur fréttabréf, en öll fréttabréf sem gefin hafa verið út má nú sjá á heimasíðu félagsins sem hefur verið töluvert notuð, matarfundur var haldinn á Naustinu í maí og ráðstefna í tengslum við bikarúslitaleik karla í samvinnu við KSÍ og KHÍ í lok september.

Fjárhagur félagsins batnaði mikið í fyrra og enn meira núna. Það eru um 200 þjálfarar sem greiddu árgjaldið eins og í fyrra. Við í stjórnininni erum mjög þakklát fyrir það traust sem er sýnt með með því að borga árgjaldið en það er sterkur kjarni sem er í félaginu í gegnum súrt og sætt og félagsmönnum fjölgar stöðugt.

Eftir átta ára viðreisnarstarf erum við loks farin að sjá til sólar í fjármálunum undir öruggri stjórn gjaldkerans Ómars Jóhannssonar. Sjáum við fram á að geta með góðu móti látið eitthvað fylgja með árgjaldinu í framtíðinni. Hvað það verður, bolur, peysa, galli eða eitthvað annað kemur í ljós síðar.

Styrktaraðilar KÞÍ eru: Tóbaksvarnarnefnd, Verðbréfamarkaður Íslandsbanka (VÍB), Íslandsbanki, Íslenskar getraunir, Adidas, Meba, Úrval Útsýn, Fríkort og Visa Island. Þökkum við þessum aðilum að sjálsögðu fyrir stuðninginn og vonumst til að eiga samstarf við þá áfram. Það er ekki stefna félagsins að safna sjóðum, heldur láta félagsmenn njóta árangursins

Eins og svo oft áður brugðu margir landi undir fót nú á haustmánuðum. Einnig var gífurlrga góð þátttaka á námskeiðum KSÍ. Ómar Jóhannsson og Magnús Pálsson fóru í október á ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í Frankfurt í Þýskalandi, ásamt Bjarna Stefáni Konráðssyni, sem fór á eigin vegum. Kristján Guðmundsson og Sigurður Örn Helgason fóru á ráðstefnu í Noregi í tengslum við bikarúrslitaleikina í lok október og ýmsir aðrir fóru erlendis sem við höfum ekki frétt af. Sumir hafa nú þegar sent okkur skýrslu um ferðir sínar og erum við afar þakklát fyrir það. Hvetjum við hér með alla sem eiga eftir að senda okkur skýrslu að gera það. Einnig þau sem eiga í fórum sínum ritgerðir úr skólum eða námskeiðum KSÍ. Slóðin á heimasíðu KÞÍ er: toto.is/felog/kthi/ Einnig er hægt að komast inn á síðuna í gegnum heimasíðu KSÍ en slóðin á henni er ksi.is. Netfang KÞÍ er: kthi@isl.is.

Samkvæmt lögum Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (3.grein) skulu markmið og tilgangur félagsins vera:

> að sameina alla knattspyrnuþjálfara í eitt félag.
> að vinna að hagsmunmálum knattspyrnuþjálfara í hvívetna.
> að auka áhuga á knattspyrnuþjálfun.
> að stuðla að því að allir þeir sem starfa við þjálfun, hafi hlotið undirstöðumenntun í knattspyrnuþjálfun.
> að auka menntun þeirra, er starfa að tilsögn og þjálfun í knattspyrnu.
> að kappkosta að eiga sem best samstarf við KSÍ og alla þá sem vinna að eflingu og útbreiðslu knattspyrnunnar.
> að koma á og viðhalda samskiptum við knattspyrnuþjálfarafélög erlendis.

Við höfum lagt okkur fram við að kappkosta að ná þessum markmiðum en þau eru þess eðlis að alltaf er hægt er gera betur.

Að lokum viljum við beina þeim tilmælum til þjálfara að sýna heiðarleika og sanngirni í verki, sín á milli innan vallar, sem utan, ekki veitir af í því mikla og fjölbreytileg starfi sem við sinnum.

Nú er átta ára viðreisnartíð lokið. Það hefur gengið á ýmsu og margir, ekki eingöngu í þessari stjórn, lagt ýmislegt á vogarskálarnar. Nauðsynlegt er að við stöndum öll saman um félagið okkar og gerum það enn sterkara.

Það eru ekki eingöngu stjórnarmenn sem vinna fyrir félagið, heldur eru tengiliðir og hinn almenni félagsmaður mikilvægur hlekkur í KÞÍ. Samvinna þessarar stjórnar hefur verið mjög góð og óskar hún öll eftir endurkjöri sem er mjög sérstakt og sýnir samtakamátt hennar.

 

8.1.01 - Vel heppnuð þjálfararáðstefnaLaugardaginn 23. september stóð KÞÍ fyrir þjálfararáðstefnu í tenslum við úrslitaleik Coca Cola bikarsins í knattspyrnu. Ráðstefnan þótti takast mjög vel og voru þeir þjálfarar sem ráðstefnuna sóttu ánægðir með útkomuna. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ setti ráðstefnuna og því næst var Guðmundur Hreiðarsson markmannsþjálfari með fyrirlestur um markmannsþjálfun. Þjálfara liðanna sem léku til úrslita um bikarinn, þeir Ólafur Þórðarson og Kristinn Rúnar Jónsson komu síðan og gerðu grein fyrir undirbúningi liðanna fyrir leikinn og voru síðan spurðir spurninga af þáttakendum á ráðstefnunni. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Fylkis kom síðan með fróðlegar tölur um bæði liðin og var farið víða í umræðum um þær. Þá var komið hádegishlé og fór allur hópurinn á Ask við Suðurlandsbraut og borðaði þar. Eftir mat fluttu Atli Eðvaldsson og Logi Ólafsson landsliðsþjálfar erindi um leikaðferðir íslensku landsliðanna. Að loknum erindum Atla og Loga skýrði Guðni Kjartansson Fræðslustjóri KSÍ frá því helsta sem hann heyrði á þjálfararáðstefnu í Sviss fyrir stuttu, þar sem allir landsliðsþjálfararnir í Evrópu auk Fræðslustjóra knattspurnusambandanna voru saman komnir. Í lokin sagði síðan Guðni stuttlega frá Fræðslukerfi KSÍ og voru ekki allir á eitt sáttir við þá kynningu og ræddi Kristinn Reimarsson sviðsstjóri Fræðslu- og útbreiðslusviðs ÍSÍ um að ekki væri allt sem sýndist í þessum efnum og bað þjálfara að vera vakandi vegna breytinga sem væru að verða á uppbyggingu menntunar þjálfara.

 

8.1.01 - Knattspyrnuþjálfarar ársinsÁ aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 24. nóvember s.l. voru Bjarni Jóhannsson þjálfari Fylkis og Jörundur Áki Sveinsson þjálfari Breiðabliks útnefndir þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna fyrir árið 2000. Bjarni byrjaði sinn þjálfaraferil hjá Þrótti í Neskaupstað og hefur að auki þjálfað hjá Tindastól, Grindavík, Fram, Breiðablik og ÍBV og er nú þjálfari hjá Fylki. Bjarni stýrði nýliðum efstu deildar í sumar og komu Fylkismenn mjög á óvart í deildinni og þóttu leika mjög skemmtilega knattspyrnu. Þetta er í þriðja sinn sem Bjarni hlýtur þessa útnefningu hjá KÞÍ. Jörundur Áki hóf sinn þjálfaraferil hjá Stjörnunni þar sem hann þjálfaði yngri flokka og síðar mfl. kvenna en færði sig um haustið 1997 yfir til Breiðabliks, sem hann stýrði til sigur bæði í deild og bikar í sumar. Báðir hafa þeir Bjarni og Jörundur Áki lokið öllum stigum KSÍ í knattspyrnuþjálfun. Bjarni og Jörundur Áki voru einnig útnefndur þjálfarar ársins á lokahófi knattspyrnumanna í haust. Óskum við þeim félögum til hamingju með sæmdarheitin.

Samstarfsaðilar