21.12.02 - ÍBV íþróttafélag harmar vinnubrögð kvennaráðs ÍBVAðalstjórn ÍBV íþróttafélags harmar vinnubrögð kvennaráðs ÍBV við uppsögn Elísabetar Gunnarsdóttur, þjálfara kvennaliðs ÍBV, í sumar og hefur náð samkomulagi við hana um starfslok. Um leið hefur Elísabet fellt niður málsókn á hendur félaginu, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá aðalstjórn ÍBV íþróttafélags í dag.

Fréttatilkynning aðalstjórnar ÍBV er svohljóðandi:
„ÍBV íþróttafélag harmar þau vinnubrögð er viðhöfð voru við brottrekstur Elísabetar Gunnarsdóttur úr starfi þjálfara m.fl.kv. í sumar og vill koma á framfæri afsökunarbeiðni varðandi þau ummæli sem fráfarandi formaður kvennaráðs ÍBV, lét hafa eftir sér í garð Elísabetar við hina ýmsu fjölmiðla í kjölfar málsins.
Undanfarnar vikur hafa farið fram samningaviðræður milli félagsins og Elísabetar um sáttaleið og niðurstaðan er sú að Elísabet hefur fellt niður málsókn og náð samkomulagi við ÍBV um starfslok. Aðalstjórn ÍBV íþróttafélags.“

Þetta verða að teljast talsverð tíðindi í ljósi viðbragða ÍBV frá því í haust þegar KÞÍ sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði að KÞÍ harmaði vinnubrögð ÍBV við uppsagnir Elísabetar og Njáls Eiðssonar hjá ÍBV.

 

21.12.02 - Gleðileg jól, gott og farsælt komandi knattspyrnu árKnattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendir öllum knattspyrnuþjálfurum sínar bestu óskir um gleðileg jól, með ósk um gott og farsælt komandi knattpsyrnu ár.

 

21.12.02 - Uppgjör á HM 2002Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, og Guðni Kjartansson, aðstoðarmaður A-landsliðsþjálfara karla, sóttu UEFA-ráðstefnu í Varsjá í september síðastliðnum. Efni ráðstefnunnar var uppgjör á HM 2002 og hefur Sigurður Ragnar tekið saman skýrslu sem unnin er upp úr þeim gögnum sem kynnt voru á ráðstefnunni. Hægt er nálgast skýrsluna á heimasíðu KSÍ.

 

17.12.02 - Stjórnin eins skipuð áframÁ stjórnarfundi KÞÍ var ákveðið að stjórnarmenn héldu áfram þeim störfum sem þeir gengdu í fyrra, þ.e. Sigurður Þórir formaður, Njáll varaformaður, Ómar gjaldkeri, Jóhann ritari, Magnús spjaldskrárritari og Elísabet og Jörundur Áki meðstjórnendur.

 

9.12.02 - Íslensk knattspyrna 2002Bækurnar um íslenska knattspyrnu eftir Víði Sigurðsson eru öllum áhugamönnum um knattspyrnu að góðu kunnar. Í bókinni "Íslensk knattspyrna 2002" er fjallað um allt sem gerðist í boltanum á árinu sem er að líða. Frásagnir af öllum leikjum í Símadeild karla og kvenna og fjallað um allar deildir og flokka á Íslandsmótinu, Coca-Cola bikarinn og bikarkeppni yngri flokka, landsleikina, Evrópuleiki félagsliða, atvinnumennina erlendis, utandeildakeppnina og margt fleira. Bókin er ríkulega myndskreytt, en í henni eru rúmlega 250 myndir úr leikjum og af einstaklingum og liðum.

 

 

9.12.02 - Þjálfararáðstefna í FinnlandiSigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, Atli Eðvaldsson, þjálfari A landsliðs karla, Ólafur Þórðarson, þjálfari U21 karla, og Magnús Gylfason, fráfarandi þjálfari U17 karla, munu sækja norræna þjálfararáðstefnu þann 10. - 13. desember næstkomandi í Eerikkila í Finnlandi fyrir hönd KSÍ. Ráðstefnan er ætluð landsliðsþjálfurum og topp þjálfurum á Norðurlöndunum, ásamt þeim sem sjá um þjálfaramenntun innan þessara landa. Helstu umræðuefni eru uppgjör á HM í Kóreu og Japan, staða kvennaknattspyrnu í dag og í framtíðinni, þjálfun leikmanna á Norðurlöndunum og hæfileikamótun þeirra, en einnig munu þjálfarar frá hverju landi sýna æfingar fyrir unga og efnilega leikmenn.
 

 

5.12.02 - Lúkas Kostic ráðinn þjálfari U-17 ára landsliðsinsLúkas Kostic hefur verið ráðinn þjálfari U-17 ára landsliðs karla í knattspyrnu í stað Magnúsar Gylfasonar sem í haust tók við þjálfun úrvalsdeildarliðs ÍBV. Lúkas er reyndur þjálfari sem á undanförnum árum hefur þjálfað karlalið Þórs, KR, Grindavíkur og nú síðast Víkings þar sem hann lét af störfum í haust.

 

30.11.02 - Willum Þór Þórsson kjörin þjálfari ársins í efstu deild karlaWillum Þór var kjörinn þjálfari ársins í efstu deild karla af þjálfurum liðanna í deildinni. Willum Þór Þórsson er fæddur 17. mars 1963. Lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1983 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1987 og fór þá til Danmerkur og lauk meistaragráðu í Hagfræði frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn. Willum Þór hefur lokið öllum stigum KSÍ í knattspyrnuþjálfun, síðast E stigi KSÍ 1999. Willum Þór hóf þjálfaraferil sinn 1986 sem aðstoðarþjálfari 3. flokks KR sem þá var undir stjórn Sigurðar Arnar Helgasonar, þess þekkta kappa. Willum Þór lék með KR, Breiðablik, Þrótti og Haukum, auk þess að þjálfa tvö þau síðast töldu. Árin 1996-1999 þjálfaði Willum Þrótt og síðan Hauka frá 1999-2001. Willum tók síðan við KR í fyrra. Willum er fyrsti knattspyrnuþjálfarinn sem nær þeim einstaka árangri að vinna Íslandsmeistaratitil í öllum deildum. Til hamingju Willum Þór Þórsson.
 

 

30.11.02 - Valdimar Pálsson kjörin þjálfari ársins í efstu deild kvennaValdimar var kjörinn þjálfari ársins í efstu deild kvenna af þjálfurum liðanna í deildinni. Valdimar er 34 ára og spilaði knattspyrnu með Þór Akureyri, Dalvík, Val, Þrótti og Létti. Valdimar byrjaði að þjálfa 1991 er hann þjálfaði 6. flokk karla hjá Dalvík. 1991 þjálfaði Valdimar mfl. kvenna hjá Dalvík. Frá 1996 til 2000 þjálfaði Valdimar Létti í Reykjavík auk þess að leika með liðinu. Valdimar þjálfaði og lék með Magna frá Grenivík 2001, auk þess að þjálfa yngri flokka Magna. Í sumar þjálfaði Valdimar sameiginlegt lið Þórs/KA/KS í Símadeild kvenna sem náði besta árangri í sögu félagsins undir stjórn Valdimars í sumar. Valdimar hefur lokið 1. og 2. stigi KSÍ í knattspyrnuþjálfun. Til hamingju Valdimar.

 

30.11.02 - Traustur fjárhagurFram kom í reikningum félagsins sem lagðir voru fram á aðalfundinum að fjárhagur félagsins hefur lagast mikið og er traustur. Félagsmönnum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum og um leið fjárhagurinn, en félagið á um þessar mundir ágætan sjóð í banka. Hægt er að skoða ársreikninginn undir liðnum fróðleikur hér á heimasíðunni.

 

30.11.02 - Óbreytt stjórnStjórn KÞÍ var öll endurkjörin á aðalfundi KÞÍ. Sigurður Þórir, Magnús og Ómar voru kosnir til tveggja ára, en Jörundur Áki og Elísabet voru kosin til eins árs í varastjórn KÞÍ. Stjórnin á eftir að hittast til að skipta með sér verkum, en fastlega er búist við að stjórnin verði óbreytt að öllu leiti.

 

30.11.02 - Viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokkaGunnar Magnús Jónsson Keflavík, Hlynur Svan Eiríksson Þór Akureyri, Sigurlás Þorleifsson ÍBV og Þrándur Sigurðsson Víkingi fengu á aðalfundi KÞÍ viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka félaga sinna. Allir hafa þeir lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín. Á myndinni eru Þrándur og Gunnar Magnús, en Hlynur og Sigurlás voru fjarverandi. Til hamingju allir.

 

30.11.02 - Skoðunarmenn til eins ársFélagarnir Guðni Kjartansson og Birkir Sveinsson hafa verið skoðunarmenn reikninga félagsins undanfarin ár, en á aðalfundi KÞÍ var Halldór Örn Þorsteinsson kosin skoðunarmaður reikninga í stað Guðna. KÞÍ þakkar Guðna vel unnin störf.
 

 

30.11.02 - Óbreytt árgjaldÁ aðalfundi KÞÍ lagði stjórn KÞÍ til að árgjald félagsins yrði óbreytt næsta ár. Halldór Örn Þorsteinsson lagði fram tillögu um að hækka árgjaldið í 3000 krónur og spunnust talsverðar umræður um tillögu Halldórs. Tillaga stjórnar KÞÍ um að hafa árgjald félagsins óbreytt á næsta ári var síðan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, nema að Halldór Örn sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Stefnt er að því að hafa eitthvað innifalið í árgjaldinu, en hvað það verður kemur í ljós næsta sumar.

 

 

30.11.02 - Góður aðalfundurUm 20 þjálfarar mættu á aðalfund KÞÍ í Smáranum föstudaginn 29. nóvember s.l. Fundarmenn voru ánægðir með það sem fram fór en auk venjulegra aðalfundarstarfa var boðið upp á léttar veitingar að fundi loknum og mæltist það sérlega vel fyrir.

 

30.11.02 - Skýrsla stjórnar KÞÍ starfsárið 2001 - 2002Ágætu knattspyrnuþjálfarar !

Á síðasta aðalfundi KÞÍ tók ný stjórn til starfa. Sigurður Þórir hélt áfram sem formaður og á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skipti hún þannig með sér verkum, Njáll Eiðsson varaformaður, Jóhann Gunnarsson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri og Magnús Pálsson spjaldskrárritari. Í varastjórn voru Elísabet Gunnarsdóttir og Jörundur Áki Sveinsson. Breytingin milli ára var því þannig að Bjarni Jóhannsson hætti sem varaformaður eftir 10 ár í stjórn. Njáll Eiðsson kom úr varastjórn og gerðist varaformaður og Jóhann Gunnarsson kom úr varastjórn og gerðist ritari. Elísabet Gunnarsdóttir gaf ekki kost á sér í aðalstjórn og fór í varastjórn og var þar ásamt Jörundi Áka Sveinssyni sem kom nýr inn í stjórnina.

Þessi stjórn hefur því starfað í eitt ár. Á starfsárinu voru haldnir 7 fundir, auk funda þar sem hluti stjórnar hittist til að undirbúa ýmis sérverkefni. Við höfðum sama markmið og áður með lengd stjórnarfunda, þ.e. að þeir væru ekki lengur en ein og hálf klukkustund.

Helstu viðburðir félagsins á starfsárinu voru : Ráðstefna í tengslum við bikarúrslitaleik karla sem haldin var 28. september s.l.í samvinnu við KSI og tókst að flestra mati mjög vel. Dagskráin var þannig að Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ setti ráðstefnuna og þvi næst flutti Sigurður Magnússon formaður Lyfjaráðs ISI erindi um lyfjamál og hlutverk þjálfarans. Fyrirlestur Sigurðar er undir liðnum fróðleikur á heimasíðu KÞI og einnig listi Alþjóðlegu ólympíunefndarinnar um ólögleg lyf og aðferðir. Freyr Sverrsisson, þjálfari hjá KSI og Njarðvík sagði frá störfum sínum. Bjarni Stefán Konráðsson kynnti nýjung fyrir knattspyrnuþjálfara. Jörundur Áki Sveinsson og Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfarar ræddu síðan um lið sín og verkefnin framundan. Aðalsteinn Víglundsson og Kristinn Rúnar Jónsson þjálfarar liðanna sem léku til úrslita mættu og ræddu um undirbúning liða sinna fyrir leikinn. Bjarni Jóhannsson flutti erindi um tölfræði liðanna og sagði frá væntanlegri þjálfararáðstefnu sem haldin verður á Kanaríeyjum í janúar. Þá var komið hádegishlé og fór allur hópurinn á Veitingahúsið Ask og borðaði þar. Eftir mat var farið á leikinn. Í lokin voru síðan pallborðsumræður um leikinn og fóru Njáll Eiðsson, Atli Eðvaldsson og Guðmundur Hreiðarsson yfir leikinn. Á heildina litið tókst ráðstefnan með miklum ágætum en rúmlega 30 þjálfarar sóttu ráðstefnuna og voru mjög ánægðir með það sem var boðið upp á. Matarfundur á Naustinu sem var haldinn í maí og er orðinn fastur liður í starfinu hjá okkur, tókst með miklum glæsibrag. Um 35 þjálfarar mættu og skemmtu sér vel. Bjarni Jóhannsson var veislustjóri, Freyr Sverrisson sá um glens og gamanmál og loks flutti Arnar Björnsson íþróttafréttamaður fróðlegt erindi um samskipti þjálfara við fjölmiðla. Auk þessara viðburða gáfum við út nokkur fréttabréf og fréttatilkynningar.

Okkur hefur verið tíðrætt um fjárhag félagsins. Nú er svo komið að við teljum hann vera kominn á réttan kjöl. Það er samt alltaf hættan þegar menn eru búnir að ná markmiðum sínum verði að menn verði værukærir. Það má ekki gerast hjá okkur hvað fjárhaginn varðar. Við verðum að vera á varðbergi og leita allra leiða til að hann verði áfram í lagi. Hvorki fleiri né færi en 227 félagsmenn hafa greitt félagsgjaldið í ár og hafa þeir aldrei verið fleiri. Fengu þeir sem greiddu félagsgjaldið fyrir 10. september afhenda glæsilega möppu eins og stjórnin lofaði. Vissulega er þetta dýrt fyrir félagið og reyndar óframkvæmanlegt ef ekki kæmi til stuðningur frá Tóbaksvarnarnefnd og þökkum við þeim fyrir stuðninginn hér með. Með þessu telur stjórn KÞÍ að það sé verið að koma verulega til móts við félagsmenn, sem hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. I fyrra greiddu 210 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar af landinu félagsgjaldið. Þegar þessi stjórn tók við fyrir fjórum árum borguðu tæplega 90 manns félagsgjaldið þannig að sjá má á þessum tölum að virkum félögum fjölgar ört og teljum við að það sé merki þess að menn eru almennt ánægðir með störf stjórnarinnar.

Styrktaraðilar KÞÍ eru: Tóbaksvarnarnefnd, Íslandsbanki hf, VISA, Lyra og Meba. Þökkum við þessum aðilum fyrir stuðninginn við félagið og vonumst til að eiga gott samstarf við þá áfram.

Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður og Ómar Jóhannsson, gjaldkeri fóru á ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, sem haldin var í París í Frakklandi 2. - 6.nóvember s.l. Efni ráðstefnunnar var straumar og stefnur frá HM í S-Kóreu og Japan í sumar og uppbygging Frakka á knattspyrnuþjálfun. Efni frá ráðstefnunni verður komið á heimasíðuna fyrir lok janúar 2003.

Sprenging varð á þátttöku á þjálfaranámskeiðum KSÍ nú í haust. Um 70 manns skráðu sig á KSÍ 1 og þurfti því að kenna það stig ásamt KSÍ 2 á tveimur helgum, sem annars hefur verið kennt á einni helgi. Það er mikið ánægjuefni að svo margir mæti á knattspyrnuþjálfaranámskeið á Islandi. Vonandi skilar það sér í meiri gæði við þjálfun. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda á námskeiðunum eru þó nokkur félög sem hafa haft samband við okkur og auglýst eftir þjálfurum. Einnig er þó nokkuð um að þjálfarar auglýsi eftir þjálfun á heimasíðu okkar. Um seinni helgi KSÍ 2 kom maður frá UEFA, Svíi, sem tók út kennsluna á námskeiðinu, en KSÍ er að sækja um svokallað B – licence við knattspyrnuþjálfun, síðan kemur A – licence og að lokum Pro – licence sem stefnt er að allir þjálfarar í úrvalsdeild verði með árið 2010. Samstarf og samvinna KÞÍ við KSÍ hefur verið mjög gott og er stefnt að því að þessir aðilar fundi um enn meira samstarf um ýmsa hluti. Viljum við benda þjálfurum á að hafa samband við KSÍ, þar sem hægt er að fá lánað ýmislegt, bækur, myndbönd, tvo færanlega skallatennisvelli, uppstökksmottu sem mælir lóðréttan stökkkraft leikmanna og nákvæmt mælingatæki til að mæla spretthraða. Því ber líka að fagna að KSÍ ákvað að fjölga landsliðsþjálfurum karla um einn og mun hann taka að sér að fylgjast með og þjálfa leikmenn 14 og 15 ára. Freyr Sverrisson var ráðinn í starfið og mun hann meðal annars annast stjórn á árlegum knattspyrnuskóla og úrtökumóti KSÍ. Með þessu hyggst KSÍ byrja fyrr og skipulegar að kortleggja unga og efnilega knattspyrnumenn þjóðarinnar.Við stjórnarskipti á aðalfundi KÞÍ árið 1999 var nýrri stjórn falið að láta teikna merki fyrir félagið og var það eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar. Það merki hefur verið notað frá þeim tíma. Við eftirgrennslan og skoðun á gögnum sem til eru um KÞÍ, kom hinsvegar í ljós að KÞÍ hefur átt félagsmerki frá stofnun félagsins, árið 1970. Núverandi stjórn KÞÍ fannst því algjör óþarfi að vera að nota nýja merkið og samþykkti á stjórnarfundi að rétt væri að halda sig við upprunalega merkið, sem er bæði einfalt og segir allt sem segja þarf um félagsskapinn sem stendur á bak við merkið.

Knattspyrnuþjálfarafélag Islands sendi frá sér fréttatilkynningu í sumar varðandi brottrekstra þjálfara meistaraflokka ÍBV í kvenna og karla flokki
Hún hljóðaði þannig : Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við brottrekstra Elísabetar Gunnarsdóttur og Njáls Eiðssonar frá ÍBV íþróttafélagi.
Mikið er lagt upp úr því að knattspyrnuþjálfarar séu vel menntaðir og faglegir í öllum sínum vinnubrögðum. Knattspyrnuþjálfarafélagið skorar á íþróttafélög að gera sömu kröfur til stjórnarmanna sem starfa á þeirra vegum.
Stjórn knattspyrnudeildar ÍBV sendi einnig frá sér fréttatilkynningu. Fréttamenn töluðu við mig og spurðu mikið út í það að þau sitja bæði í stjórn félagsins. Að okkar mati skiptir það ekki máli. Allir þjálfarar sem lenda í því að verða sagt upp störfum fá sömu málsmeðferð. Ég tala við þá þjálfara sem lenda í því og býð þeim aðstoð f.h. félagsins.Willum Þór Þórsson þjálfari Íslandsmeistara karla hjá KR varð um leið fyrstur þjálfara til að stýra félagi sínu til sigurs í öllum deildum Íslandsmótsins. Willum þjálfaði Þrótt sem sigraði í 1. deild árið 1997 og Hauka sem sigruðu í 3. deild árið 2000 og í 2. deild í fyrra. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands óskar Willum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Hér á eftir verða þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Þjálfarar liðanna í efstu deild karla og kvenna velja sjálfir einn af kollegum sínum og verður fróðlegt að sjá hverjir verða útnefndir að þessu sinni. Ólafur Þórðarson,þjálfari ÍA og Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari Breiðabliks hlutu þessar útnefningar í fyrra.
Einnig verður fjórum þjálfurum veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. KÞÍ vill með þessu þakka þeim þjálfurum fyrir vel unnin störf og góða framkomu innan vallar sem utan og fyrir að sýna gott fordæmi við störf sín og vera öðrum þjálfurum góð fyrirmynd. Það er alveg ljóst að margir koma til greina og ég vil benda mönnum á að það kemur ár eftir þetta ár. Í fyrra hlutu Björn Elíasson IBV, Þórir Bergsson HK og Aðalsteinn Örnólfsson Haukum slíka viðurkenningu hjá félaginu.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands þakkar ykkur öllum fyrir samstarfið og þann mikla velvilja sem félagið hefur og hvetur ykkur til að vinna ykkar störf af heilindum í framtíðinni.

Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður.

 

22.11.02 - Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags ÍslandsAðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn í Smáranum, félagsaðstöðu Breiðabliks í Kópavogi föstudaginn 29. nóvember klukkan 20:00.

Dagskrá.
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Kosning formanns, meðstjórnenda og varamanna skv. ákvæði 7. gr. laga KÞÍ
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald skv. 6. gr. laga KÞÍ
Önnur mál

Þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna
Viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Boðið verður upp á veitingar í boði KÞÍ að loknum aðalfundi.

 

22.11.02 - Allir stjórnarmenn gefa kost á sér áframÁ aðalfundi KÞÍ í Smáranum 29. nóvember n.k. verður kosið um þrjá menn í aðalstjórn KÞÍ og tvo varamenn. Sigurður Þórir Þorsteinsson, Ómar Jóhannsson og Magnús Pálsson gefa allir kost á sér til áframhaldandi starfa í aðalstjórn og Elísabet Gunnarsdóttir og Jörundur Áki Sveinsson gefa kost á sér áfram í varastjórn.

 

22.11.02 - Þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvennaÁ aðalfundi KÞÍ í Smáranum 29. nóvember n.k. verða þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Þjálfarar liðanna í efstu deild karla og kvenna velja sjálfir einn af kollegum sínum og verður fróðlegt að sjá hverjir verða útnefndir að þessu sinni. Ólafur Þórðarson þjálfari ÍA og Jörundur Áki Sveinsson þjálfari Breiðabliks hlutu þessar útnefningar í fyrra.

 

22.11.02 - Viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokkaÁ aðalfundi KÞÍ í Smáranum 29. nóvember n.k. verður fjórum þjálfurum veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. KÞÍ vill með þessu þakka nokkrum þjálfurum fyrir vel unnin störf og góða framkomu innan vallar sem utan og þjálfurunum fyrir að sýna gott fordæmi við störf sín og vera öðrum þjálfurum góð fyrirmynd.

 

22.11.02 - Fræðslukvöld um forvarnir gegn eineltiFyrir stuttu stóðu Íþróttabandalag Hafnarfjarðar og Forvarnanefnd Hafnarfjarðar fyrir fræðslukvöldi um forvarnir gegn einelti í íþrótta-og tómstundastarfi. Í máli frummælenda kom glögglega í ljós að hér er um samfélagslega vá að ræða. Frummælendur nálguðust viðfangsefnið á áhugaverðan en ólíkan hátt. Frummælendur voru Guðjón Ólafsson sérkennslufræðingur, Stefán Karl Stefánsson leikari, Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur og Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari kennari og frítímafræðingur. Fjallað var um vandamálið frá mörgum hliðum allt frá því að útskýra hvað einelti er, afleiðingar þess og aðgerðir gegn því. Fjallað var um hvernig hin frjálsu félagasamtök íþrótta og tómstunda geta skapað sinn grundvöll gegn einelti. Mikilvægast var, og kom það fram í máli allra frummælenda, að samvinna allra aðila frá heimili, skóla, íþróttafélags eða tómstundafélags og félagsmiðstöðva sé mikilvægt til þess að skapa fylkingu gegn einelti.

 

14.11.02 - Ráðstefna um leyfiskerfiLúðvík S. Georgsson, stjórnarmaður KSÍ, og Ómar Smárason, leyfisstjóri KSÍ, munu sitja ráðstefnu um Leyfiskerfi UEFA (Licensing System), sem fram fer í Amsterdam dagana 14. og 15. nóvember. Leyfiskerfi mun verða tekið upp í öllum aðildarlöndum UEFA á næstunni og mun Leyfiskerfi KSÍ öðlast gildi fyrir næsta keppnistímabil í Símadeild karla. Félög í deildinni munu þurfa að uppfylla ákveðnar forsendur til að fá þátttökuleyfi, en forsendurnar snúa að laga- og fjárhagslegum þáttum, mannvirkjum, starfsfólki og stjórnun, auk þjálfunar og þjálfunaraðstöðu. Kerfinu er ætlað að efla enn frekar stöðu knattspyrnufélaga og bæta gæði á öllum sviðum knattspyrnunnar.


 

 

14.11.02 - Þjálfaraskipti bæta árangur verulegaViðar Halldórsson íþróttasálfræðingur hefur nýlokið meistaraprófsritgerð sinni þar sem staða knattspyrnuþjálfara er tekin fyrir. Meðal helstu niðurstaðna er að vinningshlutfall eykst um 17 % og þjálfaraskipti er mjög tíð á Íslandi. Viðar notaðist við gögn frá tuttugu ára tímabili, frá 1981 til 2001, við vinnslu ritgerðarinnar. Þetta er athyglisverð ritgerð og KÞÍ er að reyna að fá Viðar til að leyfa birtingu hennar hér á heimasíðunni undir liðnum fróðleikur.

 

12.11.02 - Fræðslukvöld um forvarnir gegn einelti fyrir þjálfaraÍþróttabandalag Hafnarfjarðar og Forvarnarnefnd kaupstaðarins, standa fyrir fræðslukvöldi um forvarnir gegn einelti fyrir þjálfara og leiðbeinendur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Fræðslukvöldið fer fram í Álfafelli, íþróttahúsinu við Strandgötu þriðjudaginn 19. nóvember og hefst kl. 18:00.
Nánari upplýsingar veitir Óskar Ármannsson, framkvæmdastjóri ÍBH, í síma: 555-2300.

 

7.11.02 - Félagsmenn aldrei fleiriNú hafa 225 knattspyrnuþjálfarar greitt félagsgjaldið fyrir árið 2002 og hafa aldrei áður jafnmargir greitt félagsgjaldið. Ljóst er að félagsmenn eru ánægðir með það sem verið er að gera í félaginu en við viljum endilega heyra frá ykkur ef það er eitthvað sem þið viljið koma á framfæri. Þó svo að svo margir hafi greitt félgsgjaldið vitum við að það eru þó nokkrir sem sem ætla að greiða en bara trassað það fram að þessu og hvetjum við þá til að greiða sem fyrst.

 

7.11.02 - Póstlisti KÞÍÁ forsíðunni hér á heimasíðunni er hægt að skrá sig á póstlista kÞÍ og hvetjum við félaga til að skrá sig þar, en hann ætlum við að nota til að koma tilkynningum til félagsmanna um hina ýmsu atburði auk þess sem við erum oft beðin um að koma ákveðnum auglýsingum á þjálfara.

 

7.11.02 - 23. ráðstefna UEFTSigurður Þórir Þorsteinsson formaður og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ fóru á 23. ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í París 2. - 6. nóvember. Efni frá ráðstefnunni verður komið á heimasíðuna fljótlega, vonandi fyrir aðalfund KÞÍ sem haldinn verður í lok mánaðarins.

 

1.11.02 - Þórir fékk þjálfarastyrk frá ÍSÍÞórir Bergsson fékk fyrir stuttu úthlutað styrk frá ÍSÍ til að kynna sér þjálfun erlendis. Þórir var eini knattspyrnuþjálfarinn sem hlaut styrk að þesu sinni. KÞÍ hvetur félaga sína til að sækja um styrki ÍSÍ þegar þeir eru auglýstir.

 

31.10.02 - Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samvinnu
við GlaxoSmithKline, býður til opins málþingsÍþróttir og astmi, 7. nóvember 2002 á Grand Hótel kl. 20:00

Dagskrá:
20:00 Setning málþings
Sigríður Jónsdóttir, varaforseti ÍSÍ
20:10 Áreynsluastmi og íþróttir
Björn Magnússon, sérfræðingur í lungnasjúkdómum
20:30 Astmi hjá börnum
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, séfræðingur í ónæmis- og ofnæmissjúkdómum barna
20:50 Íþróttir og astmi - Sjónarhorn íþróttamansins
Þorvaldur Makan Sigurbjörnsson, fyrirliði KA í knattspyrnu
21:00 Umræður
21:30 Málþingslok
Fundarstjóri:
Kristján Erlendsson læknir og formaður Heilbrigðisráðs ÍSÍ

Málþingið er hugsað fyrir íþróttafólk, þjálfara,
íþróttakennara, foreldra og aðra sem áhuga hafa.

Á málþinginu verður einnig kynntur nýr
fræðslubæklingur, Íþróttir og astmi sem
kemur út sama dag.

Nánari upplýsingar og skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ
s: 514-4000, netfang: kjr@isisport.is

 

24.10.02 - Aðalfundur KÞÍAðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verðu haldinn í lok nóvember. Staður og stund verður auglýst síðar.

 

24.10.02 - Möppurnar komnar til félagsmannaNú eiga möppurnar sem fylgdu árgjaldinu fyrir árið 2002 að vera komnar til félagsmanna. Til að spara kostnað dreifðu stjórnarmenn KÞÍ sjálfir möppunum á höfuðborgarsvæðinu og tengiliðir KÞÍ á Suðurnesjum og Akureyri dreiðu möppunum á sínum svæðum. Möppur til landsbyggðarfélaga voru síðan sendar í pósti. Hafi einhverjir ekki fengið möppu eru þeir beðnir að senda tölvupóst á omarjoh@isl.is

 

17.10.02 - Sprenging í þátttöku á þjálfaranámskeiðum KSÍUm 70 manns hafa skráð sig á KSÍ I (A-stigs) námskeiðin sem fara fram næstu tvær helgar og hafa aldrei fleiri skráð sig á það stig. Skráning er hafin fyrir KSÍ IV (fyrri hluti D-stigs) sem verður haldið 1. - 3. nóvember næstkomandi. KSÍ II (B-stig) verður svo haldið 15. - 17. nóvember. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að halda verklegan hluta þessara þjálfaranámskeiða í Reykjaneshöllinni og því þurfa þátttakendur ekki að hafa áhyggjur af veðri og vindum. Frekari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ gefur Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ í síma 510-2909 og ennþá má skrá sig á þjálfaranámskeiðin á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900 (Margrét og Erna).
 

 

15.10.02 - Þjálfaranámskeið - IV. stigFræðslunefnd KSÍ heldur þjálfaranámskeið IV (fyrri hluti D-stigs) 1. - 3. nóvember næstkomandi samkvæmt námsskrá um þjálfaramenntun. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og því þurfa þátttakendur að hafa með sér útbúnað til knattspyrnuiðkunar, en námskeiðið verður haldið í Reykjavík og í Reykjaneshöllinni. Skráning er hafin á námskeiðið og fer fram á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900 (Margrét og Erna). Þátttökugjald er kr. 14.000 og ganga þarf frá greiðslu fyrir 25.október. Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, í síma 510-2909. Vert er að benda á að ýmsan fróðleik um þjálfaranámskeið KSÍ má finna á heimasíðu KSÍ undir Allt um KSÍ / fræðslumál.
 

 

10.10.02 - Endurmenntunarnámskeið - Næring íþróttafólksÍþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samvinnu við Íþróttafræðasetur KHÍ á Laugarvatni og Íþróttakennarafélag Íslands stendur fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir þjálfara og íþróttakennara um næringu íþróttafólks. Námskeiðið fer fram helgina 25. - 27. október. Á námskeiðinu sem er bæði bóklegt og verklegt verður m.a. fjallað um; mælingar á orkuþörf mismunandi íþróttahópa, fitumælingar, fæðubótarefni o.fl. ATH: Þátttakendur skulu í 3 daga fyrir námskeiðið skrá allt niður sem þeir borða (hvað er borðað og hversu mikið af því er borðað). Ekki gleyma neinu (ekki heldur vatninu). Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ, sími: 514-4000, netfang: kjr@isisport.is
Síðasti skráningardagur er mánudagurinn, 14. október. Allar nánari upplýsingar veitir Kristinn Reimarsson, ÍSÍ. Verð: 12.000 kr.
 

 

8.10.02 - Þjálfaranámskeið KSÍ VI (E-stig) - KönnunFræðslunefnd KSÍ er um þessar mundir að kanna áhuga þjálfara fyrir að taka KSÍ VI (E-stigs) námskeið. Slíkt námskeið hefur ekki verið haldið um nokkurt skeið því skort hefur nægan þátttökufjölda til að námskeiðið gæti staðið undir sér. Þeir þjálfarar sem hafa áhuga á að skrá sig á slíkt námskeið eru beðnir um að hafa samband við Sigurð Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóra KSÍ í síma 510-2900 eða á tölvupósti. KSÍ VI (E-stigs) námskeið myndi líklega vera u.þ.b. vikunámskeið erlendis og ekki er óeðlilegt að slíkt námskeið kosti á bilinu 80.000-120.000 krónur. Þátttakendur þurfa að hafa lokið KSÍ V (seinni hluti D-stigs) námskeiði. Rétt er að geta þess að hér er aðeins um könnun á áhuga að ræða en ekki er búið að skipuleggja neitt.
 

 

8.10.02 - Þjálfaranámskeið KSÍ I (A-stig)Fræðslunefnd KSÍ heldur þjálfaranámskeið I (A-stig) 25. - 27. október næstkomandi samkvæmt námsskrá um þjálfaramenntun. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og er hámarksfjöldi þátttakenda 30 manns. Skráning á námskeiðið fer fram á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900 (Margrét og Erna) og er þátttökugjald kr. 12.000, en ganga þarf frá greiðslu fyrir 18.október. Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, í síma 510-2909. Vert er að benda á að ýmsan fróðleik um þjálfaranámskeið KSÍ má finna í heimasíðu KSÍ undir Allt um KSÍ / fræðslumál.
 

 

6.10.02 - Willum Þór og Halldóra Vanda þjálfarar ársins hjá KSÍÁ lokahófi KSÍ voru KR-ingarnir Willum Þór Þórsson og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir útnefnd þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna ár. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands óskar þeim báðum til hamingju með útnefninguna.

 

3.10.02 - Þjálfararáðstefna í tengslum við úrslitaleik Coca Cola bikarsinsLaugardaginn 28. september s.l. stóð KÞÍ í samvinnu við KSÍ fyrir þjálfararáðstefnu í tenslum við úrslitaleik Coca Cola bikarsins í knattspyrnu. Ráðstefnan þótti takast mjög vel og voru þeir þjálfarar sem ráðstefnuna sóttu ánægðir með útkomuna.
Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ setti ráðstefnuna og því næst flutti Sigurður Magnússon formaður Lyfjaráðs ÍSÍ erindi um lyfjamál og hlutverk þjálfarans. Fyrilestur Sigurðar er undir liðnum fróðleikur hér á heimasíðunni og einnig listi Alþjóðlegu ólympíunefndarinnar um ólögleg lyf og aðferðir. Freyr Sverrisson, þjálfari hjá KSÍ og Njarðvík sagði frá störfum sínum. Bjarni Stefán Konráðsson kynnti nýjung fyrir knattspyrnuþjálfara. Jörundur Áki Sveinsson og Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfarar ræddu síðan um lið sín og verkefnin framundan. Aðalsteinn og Kristinn Rúnar þjálfarar liðanna sem léku til úrslita mættu og ræddu um undirbúning liða sinna fyrir leikinn. Bjarni Jóhannsson flutti erindi um tölfræði liðanna og sagði frá væntanlegri þjálfararáðstefnu sem haldin verður á Kanaríeyjum í janúar. Þá var komið hádegishlé og fór allur hópurinn á Veitningahúsið Ask og borðaði þar. Eftir mat var skundað á leikinn. Í lokin voru síðan pallborðsumræður um leikinn og fóru Njáll Eiðsson, Atli Eðvaldsson og Guðmundur Hreiðarsson yfir leikinn. Á heildina litið tókst ráðstefnan með miklum ágætum en rúmlega 30 þjálfarar sóttu ráðstefnuna, og voru mjög ánægðir með það sem boðið var upp á.

 

3.10.02 - Þjálfaranámskeið KSÍ I (A-stig)Fræðslunefnd KSÍ heldur þjálfaranámskeið I (A-stig) 18. - 20. október næstkomandi samkvæmt námsskrá um þjálfaramenntun. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og er hámarksfjöldi þátttakenda 30 manns. Skráning á námskeiðið fer fram á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900 (Margrét og Erna) og er þátttökugjald kr. 12.000, en ganga þarf frá greiðslu fyrir 11.október. Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, í síma 510-2909. Vert er að benda á að ýmsan fróðleik um þjálfaranámskeið KSÍ má finna á heimasíðu KSÍ undir Allt um KSÍ / fræðslumál.
 

 

26.9.02 - Þjálfarastyrkir ÍSÍVerkefnasjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands auglýsir til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 8 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.-
Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina.
Umsóknum með lýsingu á náms- og starfsferli, auk greinargóðrar lýsingar á fyrirhugaðri ráðstöfun styrksins og ávinningi íþróttahreyfingarinnar af henni, skal skilað til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir fimmtudaginn 10. október nk.

 

23.9.02 - Þjálfarar á lausuMargir knattspyrnuþjálfarar eru á lausu um þessar mundir og vill KÞÍ benda félögum á að hér á heimasíðunni undir liðnum þjálfarastörf má sjá auglýsingar frá þjálfurum sem eru að óska eftir þjálfun. Einnig höfum við boðið íþróttafélögum að auglýsa á heimasíðunni. Aðeins er auglýst fyrir félagsmenn í KÞÍ.

 

23.9.02 - Willum Þór fyrstur til að sigra í öllum deildum ÍslandsmótsinsWillum Þór Þórsson þjálfari nýbakaðra Íslandsmeistara KR varð um leið fyrstur þjálfara til að stýra félagi til sigurs í öllum deildum Íslandsmótsins. Willum þjálfaði Þrótt sem sigraði í 1. deild árið 1997 og Hauka sem sigrðuðu í 3. deild árið 2000 og 2. deild í fyrra. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands óskar Willum til hamingju með frábæran árangur.

 

12.9.02 - KSÍ leitar að starfsmanni í mótadeildKSÍ leitar að starfsmanni í mótadeild og er starfið laust strax til umsóknar. Mótadeild KSÍ skipuleggur og heldur utan um öll knattspyrnumót á vegum KSÍ og KRR, auk þess að skipuleggja Faxaflóamót. Nánari upplýsingar veitir mótastjóri KSÍ, Birkir Sveinsson. Umsóknum skal skila á tölvupósti til ksi@ksi.is

 

11.9.02 - Þjálfararáðstefna í tengslum við bikarúrslitaleikinnLaugardaginn 28. september 2002
í Íþóttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal

09:00 Ávarp
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
09:05 Lyfjamál, lyfjaeftirlit og hlutverk þjálfarans
Sigurður Magnússon, formaður Lyfjaráðs ÍSÍ
09:50 Hæfileikamótun KSÍ og uppbygging yngri flokka Njarðvíkur
Freyr Sverrisson, þjálfari hjá KSÍ og Njarðvík
10:30 Staða kvennaknattspyrnunnar á Íslandi
Jörundur Áki Sveinsson ræðir um stöðu kvennaknattspyrnunnar
10:50 Nýjung fyrir þjálfara
Bjarni Stefán Konráðsson kynnir nýjung fyrir knattspyrnuþjálfara
10:55 Landsliðsmál og Evrópukeppni landsliða
Atli Eðvaldsson ræðir um verkefni karlalandsliðsins
11:40 Þjálfaraspjall
Kristinn R Jónsson og Aðalsteinn Víglundsson þjálfarar liðanna mæta
12:00 Þjálfaranámskeið á Kanaríeyjum
Bjarni Jóhannsson kynnir knattspyrnuþjálfaranámskeið á Kanaríeyjum
12:10 Spáð í liðin sem leika til úrslita
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur fer yfir tölfræði liðanna
12:45 Hádegisverður á Veitingahúsinu Aski
14:00 Úrslitaleikur Coca-Cola bikars karla, Fram – Fylkir
16:30 Ráðstefnuslit

Verð kr. 2500 – fyrir félagsmenn í KÞÍ sem búnir eru að greiða árgjaldið fyrir 2002
Verð kr. 5000 – fyrir ófélagsbundna

Skráning hjá KÞÍ, Sigurður Þórir 861-9401, Njáll 862-5616, Ómar 664-4498, Magnús 897-4157, Jóhann 899-1971, Elísabet 899-1276, Jörundur Áki 895-9472 eða hjá KSÍ í síma 510-2900
 

 

10.9.02 - Vel gengur að innheimta félagsgjaldiðNúna hafa 193 knattspyrnuþjálfarar greitt félagsgjaldið fyrir árið 2002. Félagsmenn munu á allra næstu dögum fá afhentar möppurnar sem fylgja félagsgjaldinu að þessu sinni. Stjórnarmenn KÞÍ munu koma þeim til félagsmanna, en mikill kostnaður hlýst af því að senda þær í pósti og því ætla stjórnarmnenn að taka það að sér að koma þeim til skila. Þeir sem vilja geta nálgast þær hjá einhvejum stjórnarmanni.

 

10.9.02 - Krefja Knattspyrnuþjálfarafélagið svaraStjórn knattspyrnudeildar ÍBV karla hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna ályktunar Knattspyrnuþjálfarafélgsins frá því í morgun.

„Knattspyrnudeild ÍBV-karla óskar eftir útskýringum á fréttatilkynningu sem Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendi frá sér þar sem uppsögn Njáls Eiðssonar er gagnrýnd harðlega. Einnig óskar knattspyrnudeild eftir upplýsingum um hvaða vinnubrögð Knattspyrnuþjálfarafélagið harmar varðandi uppsögn Njáls og spyr hvar félagið hefur leitað sér upplýsingar varðandi uppsögnina.

ÍBV-knattspyrnudeild vill benda á að mjög sjaldan hefur komið til þess að þurft hafi að segja þjálfara upp hjá meistaraflokki karla ÍBV. Einnig vill deildin benda á að liðum félagsins, bæði í fótbolta og handbolta, hefur verið vel stjórnað á undanförnum árum af mönnum í sjálfboðavinnu sem lagt hafa á sig mikla vinnu við að halda öllum liðum félagsins á meðal þeirra bestu á Íslandi. Knattspyrnudeild ÍBV-karla harmar að Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands álíti svo að þessir einstaklingar séu ekki starfi sínu vaxnir. Knattspyrnuþjálfarafélagið er einnig beðið að upplýsa hvaða hæfniskröfur þeir telja æskilegt að stjórnarmenn knattspyrnufélaga hafi.

Einnig vill stjórn knattspyrnudeildar ÍBV-karla benda á að í stjórn Þjálfarafélags Íslands sitja bæði Njáll Eiðsson sem er varaformaður og Elísabet Gunnarsdóttir,“ segir í fréttatilkynningu frá ÍBV sem Jóhann Ingi Árnason, framkvæmdastjóri skrifar undir.

 

6.9.02 - Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands harmar brottrekstra þjálfara ÍBVKnattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendir frá sé svohljóðandi fréttatilkynningu til fjölmiðla varðandi brottrekstra þjálfara ÍBV í kvenna og karla flokki:

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands harmar vinnubrögð þau sem viðhöfð voru við brottrekstra Elísabetar Gunnarsdóttur og Njáls Eiðssonar frá ÍBV íþróttafélagi.
Mikið er lagt upp úr því að knattspyrnuþjálfarar séu vel menntaðir og faglegir í öllum sínum vinnubrögðum.
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands skorar á íþróttafélög að gera sömu kröfur til stjórnarmanna sem starfa á þeirra vegum.

 

24.8.02 - Háttvísdagur FIFAUm helgina ( 24. - 25. ágúst ) verður háttvísidagur Alþjóða Knattspyrnusambandsins (FIFA Fair Play Day) haldinn hátíðlegur í 6. sinn, en hann var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1997. KSÍ hefur ákveðið að bæði laugardagur og sunnudagur verði háttvísidagur á Íslandi, en fjölmargir leikir fara fram um helgina í allflestum aldursflokkum. Minnt verður á háttvísidaginn um allan heim með ýmsum hætti. Háttvísi er nokkuð sem aldrei má gleymast í knattspyrnu, því háttvísi er veigamikill þáttur í því að gera knattspyrnuna að vinsælustu íþróttagrein í heimi. Á háttvísidegi minna leikmenn, þjálfarar, dómarar og knattspyrnuáhugafólk um allan heim á að besta leiðin til að leika knattspyrnu er að leika af háttvísi. Háttvísi er það sem gerir knattspyrnuna þess virði að leika hana. Hjálpumst því öll að við að gera háttvísidag FIFA eftirminnilegan!

 

23.8.02 - Endurmenntunarnámskeið - Næring íþróttafólks - ÞjálfaranámskeiðÍþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samvinnu við Íþróttafræðasetur KHÍ á Laugarvatni og Íþróttakennarafélag Íslands stendur fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir þjálfara og íþróttakennara um næringu íþróttafólks. Námskeiðið fer fram helgina 25. - 27. október. Á námskeiðinu sem er bæði bóklegt og verklegt verður m.a. fjallað um; mælingar á orkuþörf mismunandi íþróttahópa, fitumælingar, fæðubótarefni o.fl. ATH: Þátttakendur skulu í 3 daga fyrir námskeiðið skrá allt niður sem þeir borða (hvað er borðað og hversu mikið af því er borðað). Ekki gleyma neinu (ekki heldur vatninu). Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ, sími: 514-4000, netfang: kjr@isisport.is Síðasti skráningardagur er þriðjudagurinn, 1. október. Allar nánari upplýsingar veitir Kristinn Reimarsson, ÍSÍ. Verð: 12.000 kr.
 

 

23.8.02 - Þjálfaranámskeið ÍSÍ - Almennur hluti 1bÍþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir framhaldsnámskeiði fyrir þjálfara helgina 4.- 6. október n.k. Námskeiðið er framhald af þjálfaranámskeiði 1a - almennum hluta. Námskeiðið sem er samræmt fyrir allar íþróttagreinar er 20 kennslustundir, að meginhluta bóklegt, og er ætlað leiðbeinendum barna í íþróttum. Haldið verður áfram að fjalla um þroskaferli barna, þ.e. vaxtarþroska og hreyfiþroska. Einnig er fjallað um undirstöðuatriði kennslufræði, mikilvægi rétt mataræðis, fyrstu viðbrögð við íþróttameiðslum og fleira. Nemandi sem lýkur þessu námskeiði ásamt því að ljúka sérgreinahluta þjáfarastigs 1b hlýtur réttindi sem þjálfari hjá börnum 12 ára og yngri undir eftirliti yfirþjálfara. Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ í síma 514-4000. Netfang: kjr@isisport.is Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 02. október. Verð: 8.000 kr.

 

23.8.02 - Þjálfaranámskeið ÍSÍ - Almennur hluti 1aAð loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta skipulagt og stjórnað æfingatíma hjá börnum og unglingum á byrjendastigi. Til þess þarf hann að hafa grundvallarþekkingu á líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga. Hann þarf að þekkja starfsemi líkamans auk helstu aðferða við kennslu. Sá sem lýkur þessu námskeiði ásamt sambærilegu sérgreinanámskeiði hlýtur réttindi sem aðstoðarmaður eða leiðbeinandi hjá íþróttaskóla eða yngstu flokkum. Er áætlað að námskeiðið fari fram milli kl. 18.00 - 22.00 föstudaginn, 06. og frá 09.00 - 16.00 bæði laugardag og sunnudag, (07.09. og 08.09).
Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ í síma 514-4000. Netfang: kjr@isisport.is Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 04. september. Nánari upplýsingar er hægt að fá á heimasíðu ÍSÍ, isisport.is

 

22.8.02 - Glæsileg mappa fylgir með félagsgjaldinuMeð síðasta fréttabréfi KÞÍ fylgdi greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2002. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og hingað til og greiði greiðsluseðilinn sem allra fyrst. Allir þeir sem greiða félagsgjaldið fyrir 10. september 2002 munu fá glæsilega og vandaða möppu (sjá mynd) með merki félagsins á. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að unnið væri að því að láta eitthvað fylgja félagsgjaldinu og telur stjórn KÞÍ að með þessu sé verulega verið að koma á móts víð félagsmenn, sem reyndar hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. Í fyrra greiddu um 210 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar að af landinu félagsgjaldið og vonumst við eftir jafn góðum viðbrögðum að þessu sinni. Vissulega er þetta dýrt fyrir félagið og reyndar óframkvæmanlegt ef ekki kæmi til stuðningur frá Tóbaksvarnarnefnd og þökkum við þeim fyrir stuðninginn hér með. Stjórn KÞÍ óskar að endingu öllum félagsmönnum sínum góðs gengis í sumar.

 

22.8.02 - Próf fyrir umboðsmenn leikmannaFimmtudaginn 26. september næstkomandi verður haldið próf fyrir umboðsmenn leikmanna á skrifstofu KSÍ. Þeir aðilar sem vilja þreyta prófið verða að hafa samband við framkvæmdastjóra KSÍ eigi síðar en 12. september.
 

 

22.8.02 - Lyfjaeftirlitsnefnd hefur lokið rannsókn hjá kvennaliði ÍBVLyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ hefur nú lokið við að rannsaka hugsanlega lyfjamisnotkun hjá kvennaliði ÍBV í knattspyrnu í kjölfar brottreksturs Elísabetar Gunnarsdóttur sem þjálfara liðsins í lok júlí s.l. Nefndin hefur gert ítarlega greinagerð um málið og má finna stytta útgáfu hennar á heimasíðu ÍSÍ.
Rannsókn nefndarinnar snérist um fá niðurstöðu í tvö atriði. Annars vegar hvort einn eða fleiri leikmenn ÍBV hefðu notað lyf af bannlista og þar með brotið 44. grein laga ÍSÍ um lyfjamisnotkun. Hins vegar hvort þjálfarinn hefði átt þátt í lyfjamisnotkun meðal leikmanna eða reynt að hylma yfir henni og brotið þannig 45. grein laga ÍSÍ um önnur brot.
Niðurstöður greinargerðarinnar eru í stuttu máli þær að allir meintir aðilar, bæði þjálfari og leikmenn, neita að hafa gerst brotlegir við lög ÍSÍ. Grunur um lyfjamisnotkun virðist aðeins hafa beinst að einu ákveðnu tilviki snemma í sumar. Mikið er af vangaveltum og sögusögnum í gangi og erfitt að henda reiður á hvað nákvæmlega hefur gerst. Mjög óljóst er hvort brot hafa verið framin á lögum ÍSÍ og engin gögn eru tiltæk til að reka mál af slíku tagi fyrir dómstólum ÍSÍ. (Sjá nánar í styttri útgáfu af greinargerð um málið).
Komi ekki fram nýjar upplýsingar mun Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ ekki aðhafast frekar í málinu.
Lyfjaeftirlisnefnd ÍSÍ mun beina þeirri hugmynd til þjálfarafélaga á Íslandi og sérsambanda innan ÍSÍ, að athugað verði hvort ekki megi koma á fót siða- og/eða vinnureglum fyrir þjálfara og stjórnir íþróttafélaga þegar upp kemur grunur um ólöglega lyfjanotkun meðal íþróttamanna. Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ er tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu ef þess verður óskað.
Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ vill beina þeim tilmælum, enn og aftur, til sérsambanda innan ÍSÍ og aðildarfélaga þeirra, að þau kynni vel fyrir íþróttafólki sínu reglur um bönnuð lyf og efni. Ekki má gleyma að hver og einn einstaklingur ber alltaf sjálfur ábyrgð á gjörðum sínum og hvað finnst í líkama hans. Jafnframt minnir Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ á að hún er, nú sem áður, tilbúin að taka þátt i fræðslufundum fyrir íþróttafólk um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit í íþróttum.
Ólögleg notkun lyfja til að bæta íþróttaárangur er alltaf stóralvarlegt mál sem taka þarf á af fullum þunga. Fátt skaðar ímynd íþróttanna meira en ólögleg lyfjanotkun

 

14.8.02 - Fyrirlestur um lýðheilsu barnaFöstudaginn 23. ágúst n.k. kl. 15:00-16:00 stendur Heilsuverndarstöð Reykjavíkur fyrir fyrirlestri sem nefnist: Evidence based health promotion for children and adolescents. The roles of municipalities for child and school health services.
Fyrirlesari er Sven Bremberg, sænskur barnalæknir og starfar að lýðheilsu barna við sænsku Lýðheilsustöðina og Karolinska institutet í Stokkhólmi. Núverandi rannsóknir hans varða heilsueflingu og fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir börn og unglinga með sérstaka áherslu á efnahagslega áhrifaþætti á heilsu þeirra og slysatíðni og á hvern hátt sveitarfélög bregðast við til forvarna.
Fyrirlesturinn verður haldinn í fræðslusal Heilsuverndarstöðvarinnar, 1. hæð. Þetta er opinn fundur, ætlaður fyrir allt áhugafólk um málefnið

 

8.8.02 - Formannspistill úr 2. tbl. 4. árg. Fréttabréfs KÞÍÁgætu þjálfarar !

Íslandsmótið í knattspyrnu árið 2002 er núna hálfnað í flestum deildum og flokkum þegar þetta er ritað. Fyrir þetta keppnistímabil spáðu forráðamenn liðanna fyrir um gengi liðanna í þrem efstu deildunum í meistaraflokki karla og í eftstu deild kvenna. Staðan í sumum deildunum hefur ekki komið á óvart, en eins og oft áður eru alltaf einhver lið sem koma á óvart með góðu, eða slæmu gengi. Eins og einhver sagði þá er spá bara spá og enginn nær árangri í kaffisamsæti, heldur er það frammistaðan á vellinum sem skiptir máli. Ef hlutirnir ganga ekki alveg eins og menn ætluðu þá reynir virkilega á menn að taka á málunum í sameiningu í stað þess að brjóta niður, þannig að menn sökkvi ekki enn dýpra.

Ég vil gera að umtalsefni framgang sumra þjálfara, forystumanna og áhorfenda (foreldra) í yngri flokkunum. Það er gjörsamlega óþolandi að horfa upp á framgöngu sumra þessara aðila á leikjum yngri flokka. Talsmáti þeirra og hegðun er hvorki þeim né félögum þeirra til sóma hvað varðar köll á einstaka leikmenn í eigin liði, liði andstæðinganna eða dómara. Nauðsynlegt er að tekið sé á þessum málum og mín tillaga er sú að þar sem því er við komið að þjálfarar, liðsstjórar og varamenn séu á annarri línunni og áhorfendur hinum megin. Sem betur fer er þetta til sóma hjá sumum flokkum og félögum og menn njóta þess að horfa á leikinn og hvetja sín lið.

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu karla sem haldin var í S – Kóreu og Japan er nú að baki. Mörg mjög óvænt úrslit litu dagsins ljós og margir þjóðir duttu fyrr úr keppni heldur en búist hafði verið við. Þetta sýnir okkur það að bilið milli þjóða og liða er almennt að minnka og er ekki lengur á vísan að róa hjá liðunum.

Ég vil nota þetta tækifæri og óska íslenska kvennalandsliðinu til hamingju með að vera komið í umspil gegn Englendingum um sæti á HM og vonandi tekst liðinu að komast í lokakeppnina. Stúlknalandsliðið, skipað leikmönnum yngri en 17 ára hlaut bronsverðlaun á opna Norðurlandamótinu sem fram fór hér á landi og lauk nýlega. Sannarlega glæsilegur árangur hjá stelpunum okkar ! ! !

Eggert Magnússon formaður KSÍ var kjörinn í framkvæmdastjórn Knattspyrnusambands Evrópu ( UEFA ) fyrir stuttu. Glæsilegt hjá Eggerti og óskum við honum innilega til hamingju með þennan árangur og sýnir það vel hversu vel hann og íslensk knattspyrna er kynnt á alþjóðavettvangi og er þetta mikill persónulegur sigur fyrir Eggert og íslenska knattspyrnu almennt. Við erum ekki í nokkrum vafa að hann á eftir að koma sínum áherslum að.

Framkvæmdastjóri Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (UEFT), Lothar Meurer lést nýlega eftir erfið veikindi. Hann var einn af stofnendum félagsins árið 1980 og var framkvæmdastjóri félagsins allt til dauðadags. Hann var mjög virtur innan raða knattspyrnuþjálfara í Evrópu og verður sárt saknað á þeim vígstöðum.

Við minnum félaga á ráðstefnuna sem verður í tengslum við bikarúrslitaleik karla sem verður laugardaginn 28. september n.k. Þar munu þjálfarar liðanna sem taka þátt í leiknum mæta (vonandi) og ræða um undirbúning fyrir leikinn og hvernig þeir leggja hann upp.

Þjálfarar eru minntir á að greiða greiðsluseðilinn sem sendur er með fréttabréfinu að þessu sinni, en eins og áður er nauðsynlegt að standa þétt saman um félagið okkar þannig að það verði áfram sterkt. Þjálfarar, greiðum sem fyrst. Að lokum hvet ég ykkur til áframhaldandi góðra starfa við þjálfunina.

Sigurður Þórir Þorsteinsson
Formaður K.Þ.Í

 

8.8.02 - Per Rud landsliðsþjálfari Dana með fyrirlestur um kvennaknattspyrnuPer Rud hefur starfað í nokkur ár að uppbyggingu á dönskum kvennafótbolta og gert það með góðum árangri. Danir hafa verið að leggja meiri rækt við kvennaknattspyrnu nú hin síðari ár. Þjálfari A-landsliðs kvenna, Poul Höjmose, er nú í fullu starfi hjá danska sambandinu, fyrstur kvennaþjálfara, og stýrir hann uppbyggingu kvennalandsliðanna. Öll landsliðin spila sama leikkerfi, 4-4-2.

Per Rud fór yfir það hvernig þeir vinna, þ.e.a.s. hvernig þeir haga vali á yngri landsliðum. Danmörku er skipt upp í svæði, þar koma síðan þjálfarar félagsliðana og aðstoða við að stýra úrtaksæfingum. Gaman var að sjá hversu gott samband var á milli landslisþjálfaranna og félagsþjálfaranna. Allt er unnið mjög faglega, hver leikmaður er metinn og er sérstakt matsblað þar sem hver leikmaður fær einkunn fyrir framistöðu sína. Þarna er tekið fyrir bæði knattspyrnulegir þættir sem og sálfræðilegir þættir. Annað sem vakti athygli þeirra sem voru á fundinum, var það hve mikinn tíma landsliðið fær til undirbúnings. Það virðist líka vera lítið um árekstra á milli landsliðsþjálfara og félagsþjálfara. U-17 ára liðið er til að mynda saman í tvo mánuði á ári. Per Rud fór svo yfir sínar áherslur í þjálfun, hvernig hann undirbjó sitt lið fyrir leiki, og var það mjög fróðlegt. Það var glæsilegt framtak hjá KSÍ að fá Per Rud til að tala við íslenska félaga sína, að ósekju hefðu mátt vera fleiri á fundinum en mætingin var þó alveg ágæt. En þetta er bara byrjunin, þar sem von er á fleiri áhugaverðum fyrirlesurum m.a. þjálfara Evrópumeistara Þjóðverja. Það hefur verið mikill uppgangur á íslenskri kvennaknattspyrnu undanfarið, sem og út í heimi. Mikilvægt er því fyrir íslenska þjálfara að fá meiri og betri sýn á hvað er að gerast annars staðar. Við getum að sjálfsögðu ekki heimfært allt hingað til lands sem gert er í útlöndum en það er alltaf eitthvað sem hægt er að nýta sér.

Per Rud er hinn fyrsti í röð þriggja fyrirlesara en áformað er að þjálfari Evrópumeistara Þjóðverja, Tina Tune Mayer, og þjálfari sænska kvennalandsliðsins, Marika Domanski Lyfors, komi hingað til lands síðar á árinu.

 

8.8.02 - Góður matarfundur á NaustinuMatarfundur KÞÍ á Naustinu í maí s.l. tókst með miklum glæsibrag. Um 35 þjálfarar mættu og skemmtu sér vel. Bjarni Jóhannsson var veislustjóri, Valgeir Freyr Sverrisson sá um glens og gamanmál og loks flutti Arnar Björnsson íþrótta-fréttamaður fróðlegt erindi um samskipti þjálfara við fjölmiðla.

 

8.8.02 - Rannsóknarstyrkur João HavelangeIFA hefur í samvinnu við Alþjóðamiðstöð íþróttarannsókna í Neuchãtel í Sviss ákveðið að veita nokkra styrki til rannsóknaverkefna í knattspyrnu. Styrkirnir eru hugsaðir til að gera ódauðlegt það mikla starf sem João Havelange, sem var forseti FIFA í 24 ár, vann fyrir knattspyrnuna. Ekki hefur verið ákveðið hversu háir styrkirnir verða, né hve margir en allar nánari upplýsingar má fá hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni fræðslustjóra KSÍ.

 

8.8.02 - Nýtt, en þó gamalt merkiVið stjórnarskipti á aðalfundi KÞÍ 1999 var nýrri stjórn falið að láta teikna merki fyrir félagið og var það eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar. Það merki hefur verið notað frá þeim tíma. Við eftirgrennslan og skoðun á gögnum sem til eru um KÞÍ, kom hinsvegar í ljós að KÞÍ hefur átt félagsmerki frá stofnun félagsins. Núverandi stjórn KÞÍ fannst því algjör óþarfi að vera að nota nýja merkið og samþykkti á stjórnarfundi fyrir stuttu að rétt væri að halda sig við upprunalega merkið, sem er bæði einfalt og segir allt sem segja þarf um félagsskapinn sem að stendur á bak við merkið. Frá og með þessu fréttablaði er því upprunalega merki KÞÍ orðið að merki félagsins aftur.

 

4.7.02 - Færanlegir skallatennisvellir, mælitæki o.fl.KSÍ hefur fjárfest í tveimur færanlegum skallatennisvöllum sem knattspyrnuþjálfarar geta fengið lánaða án endurgjalds. Vellina er hægt að setja upp á auðveldan og fljótlegan hátt og nýtast vel í þjálfun allra aldurshópa. Hjá KSÍ er einnig hægt að fá lánaða uppstökksmottu sem mælir lóðréttan stökkkraft leikmanna og nákvæmt mælingatæki til að mæla spretthraða. KSÍ á einnig ágætt safn af bókum og myndböndum sem nýtast knattspyrnuþjálfurum í starfi og lánast án endurgjalds. Lista yfir fræðsluefnið má sjá hér á heimasíðunni undir Allt um KSÍ / Fræðslumál / Fræðsluefni.
 

 

2.7.02 - Knattspyrnumenn í lyfjaprófÍ síðustu viku voru nokkrir knattspyrnumenn teknir í lyfjapróf á vegum Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ. Í leik KR og Fram í Símadeildinni voru þeir Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Nicholas Purdue, úr KR og Ágúst Gylfason og Ásgeir Halldórsson, úr Fram, teknir í próf.
Í leik Þróttar og Vals í fyrstu deildinni á föstudagskvöld voru einnig framkvæmd lyfjapróf. Úr liði Þróttar voru það Lárus Huldarsson og Páll Einarsson sem fóru í prófið en úr leikmannahópi Vals voru það Sigurbjörn Hreiðarsson og Ágúst Guðmundsson. Í öllum tilvikum voru knattspyrnumennirnir valdir af handahófi. Niðurstöður úr prófunum eru væntanlegar eftir 4-5 vikur

 

2.7.02 - Þjálfun knattspyrnukvenna í EvrópuFyrirlestraröð KSÍ til eflingar kvennaknattspyrnu á Íslandi hefst þriðjudaginn 9. júlí næstkomandi kl. 19:00, þegar Per Rud, þjálfari U17 og U19 kvennalandsliða Danmerkur, heldur fyrirlestur í sal félagsheimilis Þróttar í Laugardal. Fyrirlesturinn mun m.a. fjalla um undirbúning U17 liðs Dana fyrir NM, sem fram fer hér á Íslandi, hverjir eru mikilvægustu eiginleikar ungra leikmanna og samvinna landsliðsþjálfara yngri og eldri liða. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og aðgangur er ókeypis. Per Rud er hinn fyrsti í röð þriggja fyrirlesara en áformað er að þjálfari Evrópumeistara Þjóðverja, Tina Tune Mayer, og þjálfari sænska kvennalandsliðsins, Marika Domanski Lyfors, komi hingað til lands síðar á árinu.
 

 

6.5.02 - Góður matarfundur á NaustinuMatarfundur KÞÍ á Naustinu tókst með miklum glæsibrag. Um 35 þjálfarar mættu og skemmtu sér vel. Bjarni Jóhannsson var veislustjóri, Freyr Sverrisson sá um glens og gamanmál og loks flutti Arnar Björnsson íþróttafréttamaður fróðlegt erindi um samskipti þjálfara við fjölmiðla.

 

6.5.02 - Þjálfarastyrkir ÍSÍVerkefnasjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands auglýsir hér með til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 10 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.- Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina. Umsóknum með lýsingu á náms- og starfsferli, auk greinargóðrar lýsingar á fyrirhugaðri ráðstöfun styrksins og ávinningi íþróttahreyfingarinnar af henni, skal skilað til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir fimmtudaginn 23. maí nk. Umsóknareyðublöð (pdf.skjal) er hægt að nálgast á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal.

 

22.4.02 - Matarfundur á NaustinuEins og undanfarin ár mun KÞÍ standa fyrir matarfundi á Veitingahúsinu Naust við Vesturgötu í Reykjavík. Þrírétta máltíð er innifalin í verði aðgöngumiða sem er aðeins 3.500 krónur. Fundurinn verður 27. apríl n.k. og hefst kl. 19:30. Freyr Sverrisson knattspyrnuþjálfari fer með gamanmál og stjórnar glensi. Ræðumaður kvöldsins er Arnar Björnsson íþróttafréttamaður og fjallar hann um samskipti þjálfara og fjölmiðla, Meistaradeildina og lokabaráttuna í enska boltanum. þátttöku skal tilkynna til einhvers af stjórnarmönnum KÞÍ, en símanúmer þeirra má finna undir liðnum KÞÍ hér á heimasíðunni. Veislustjóri er Bjarni Jóhannsson fyrrum varaformaður KÞÍ. Félagar fjölmennið og takið með ykkur gesti.

 

10.4.02 - Þjálfaramenntun KSÍFræðslunefnd KSÍ heldur KSÍ - IV þjálfaranámskeið í Reykjavík 3. - 5. maí næstkomandi samkvæmt kennsluskrá um þjálfaramenntun, ef næg þátttaka næst. Þátttakendur þurfa að hafa lokið KSÍ I, II og III eða A, B og C stigi KSÍ. Þátttaka tilkynnist til skrifstofu KSÍ fyrir 2. maí í síma 510-2900 eða með tölvupósti. Námskeiðsgjald er kr. 14.000. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu KSÍ.

 

10.4.02 - Auður aðstoðar JörundAuður Skúladóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarmaður Jörundar Áka Sveinssonar, landsliðsþjálfara U21 kvenna, og mun hún stýra liðinu á Norðurlandamótinu í Finnlandi í lok júlí. Auður hefur lokið KSÍ III stigi (C-stigi) í þjálfaramenntun.

 

9.4.02 - Matarfundur á NaustinuEins og undanfarin ár mun KÞÍ standa fyrir matarfundi á Veitingahúsinu Naust við Vesturgötu í Reykjavík. Dagskrá fundarins er ekki alveg komin á hreint en fundurinn verður 27. apríl n.k. kl. 19:30. Takið frá kvöldið. Meira síðar.

 

8.4.02 - Sideline Organizer kynningar- og fræðslufundurLaugardaginn 13. apríl næstkomandi klukkan 11:00 verður haldinn Sideline
Organizer kynningar- og fræðslufundur í sal Íþróttasambands Íslands að
Engjavegi.

Tilgangur fundarins:
· Kynna nýjar einingar í hugbúnaðinum.
· Nokkrir þjálfarar sýna dæmi um þeirra notkun á kerfinu.
· Almennar umræður og spurningar um notkun kerfisins.

Á síðustu mánuðum hefur verið unnið hörðum höndum að því að gera Sideline
Organizer að enn betri heildarlausn fyrir þjálfara. Viðbætur tengjast meðal
annars öflugri og einfaldri video vinnslu og því að gera notendum mögulegt
búa til hreyfimyndir í teiknikerfi Sideline Organizer.

Vinsamlegast skráið ykkur á fundinn með því að senda t-póst á:
sideline@sideline-sports.com

Í tilefni fundarins verður hægt að kaupa Sideline Organizer á kynningarverði,
39.900- kr. m. vsk.

Allir þjálfarar velkomnir.

 

4.4.02 - Kynning á Álftamýri - SportklinikLaugardaginn 6.apríl verður kynning á Álftamýri - Sportklinik fyrir
þjálfara milli klukkan 18:00 og 20:00 í Borgarapóteki Álftamýri 1.
Sjúkraþjálfun Íslands, Stoðtækni Gísli Ferd, Læknastöðin Álftamýri,
Össur og Heilsuráðgjöf kynna þjónustu sína til íþróttamanna og hópa.
Létt spjall og skraf og ráðagerðir yfir öli og pizzu á eftir

Gaman væri að sjá sem flesta, allir knattspyrnuþjálfarar hvattir til að mæta.

Sjúkraþjálfun Íslands

 

1.4.02 - Þjálfaramenntun KSÍ - III (C-stig)Fræðslunefnd KSÍ heldur KSÍ III (C-stigs) þjálfaranámskeið í Reykjavík 19. – 21. apríl næstkomandi samkvæmt kennsluskrá um þjálfaramenntun og þurfa þátttakendur að hafa lokið KSÍ II (B-stigi). Þátttaka tilkynnist til skrifstofu KSÍ fyrir 17. apríl í síma 510-2900 eða með tölvupósti, en námskeiðsgjald er kr. 12.000. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu KSÍ.
 

 

11.3.02 - Næring íþróttafólksÍþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samvinnu við Íþróttafræðasetur KHÍ á Laugarvatni og Íþróttakennarafélag Íslands stendur fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir þjálfara og íþróttakennara um næringu íþróttafólks.
Á námskeiðinu sem er bæði bóklegt og verklegt verður m.a. fjallað um; mælingar á orkuþörf mismunandi íþróttahópa, fitumælingar, fæðubótarefni o.fl.
ATH: Þátttakendur skulu í 3 daga fyrir námskeiðið skrá allt niður sem þeir borða (hvað er borðað og hversu mikið af því er borðað). Ekki gleyma neinu (ekki heldur vatninu).
Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ, sími: 514-4000, netfang: kjr@isisport.is
Síðasti skráningardagur er föstudagurinn, 5. apríl. Allar nánari upplýsingar veitir Kristinn Reimarsson, ÍSÍ.
Verð: 12.000 kr.
 

 

15.2.02 - Sigurður Ragnar ráðinn fræðslustjóri KSÍKSÍ hefur gengið frá ráðningu Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar sem fræðslustjóra sambandsins og tekur hann við af Guðna Kjartanssyni, sem hætti störfum um síðustu áramót. Sigurður er íþróttafræðingur og íþróttakennari að mennt, og hefur Mastersgráðu í æfinga- og íþróttasálfræði frá háskólanum í Greensboro, Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Undanfarin ár hefur Sigurður leikið knattspyrnu erlendis sem atvinnumaður, m.a. með Walsall í Englandi og síðast með Harelbeke í Belgíu.

 

12.2.02 - Fræðslufundur um aftanlæristognanirMiðvikudaginn 13. febrúar verður haldinn fræðslufundur í Þróttarheimilinu undir yfirskriftinni: "Getum við fækkað aftanlæristognunum í knattspyrnu og dregið úr umfangi þeirra?" Fyrirlesari verður Árni Árnason, sjúkraþjálfari, en hann hefur á undanförnum árum rannsakað aftanlæristognanir, sem eru algengustu meiðslin í efstu deildum karla á Íslandi og í Noregi. Í fyrirlestrinum mun hann segja frá þessum rannsóknum, niðurstöðum þeirra og mögulegum forvörnum gegn þessum meiðslum. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og eru allir áhugasamir aðilar velkomnir.
 

 

29.1.02 - Þjálfaranámskeið ÍSÍ - almennur hluti 1aAð loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta skipulagt og stjórnað æfingatíma hjá börnum og unglingum á byrjendastigi. Til þess þarf hann að hafa grundvallarþekkingu á líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga. Hann þarf að þekkja starfsemi líkamans auk helstu aðferða við kennslu. Sá sem lýkur þessu námskeiði ásamt sambærilegu sérgreinanámskeiði hlýtur réttindi sem aðstoðarmaður eða leiðbeinandi hjá íþróttaskóla eða yngstu flokkum. Skráning fer fram á skrifstofu ÍSÍ, í síma 514-4000. Netfang: kjr@isisport.is Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 6. febrúar.

 

23.1.02 - Námskeið um íþróttalækisfræði og skyld efniHeilbrigðisráð ÍSÍ heldur námskeið um íþróttalæknisfræði og skyld efni dagana 31. janúar - 2. febrúar nk. Námskeiðið er haldið með stuðningi Olympic Solidarity. Meginefni námskeiðsins er að þessu sinni á sviði íþróttasálfræði, en einnig verður fjallað um lífeðlisfræði, lyfjamál, íþróttameiðsli og næringarfræði. Námskeiðið verður haldið á Grand Hótel fimmtudaginn 31. janúar og föstudaginn 1. febrúar kl. 18:00 - 21:00 og í fundarsal ÍSÍ laugardaginn 2. febrúar kl. 10:00 - 15:00. Tekið er við skráningum á skrifstofu ÍSÍ og þar eru einnig veittar frekari upplýsingar, sími 5144000, fax 5144001, netfang isi@isisport.is Námskeiðið er öllum opið. Námskeiðsgjald er kr. 1.000 og greiðist á staðnum. Léttar veitingar innifaldar.
 

 

15.1.02 - Hefur þú brennandi áhuga á knattspyrnu?KSÍ óskar að ráða starfsmann á skrifstofu sambandsins. Meginverkefni er umsjón með fræðslu- og útbreiðslustarfi KSÍ. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gott vald á íslensku, ensku og hvers kyns tölvuvinnslu. Þá er æskilegt að umsækjandi hafi góða þekkingu á knattspyrnu - þjálfun og vald á dönsku, norsku eða sænsku. Upplýsingar veitir framkvæmdastjóri í síma 510 2900. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 21. janúar til KSÍ, Laugardal, 104 Reykjavík. Umsóknum má einnig skila með tölvupósti - til ksi@ksi.is.
 

 

8.1.02 - Guðni aðstoðar AtlaGuðni Kjartansson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Atla Eðvaldssonar landsliðsþjálfara næstu tvö árin jafnframt því sem hann mun þjálfa U19 landslið karla. Guðni er nú staddur með landsliðinu í Mið-Austurlöndum þar sem liðið leikur vináttulandsleiki gegn Kuwait og Saudi-Arabíu. Guðni Kjartansson hefur sl. tvö ár gegnt starfi fræðslustjóra KSÍ en hann lætur nú af því starfi og starfar á nýjan leik með A landsliði karla, en hann var landsliðsþjálfari 1980-1981 og í einum leik 1989. Guðmundur Hreiðarsson mun áfram aðstoða Atla við þjálfun markvarða A landsliðsins.

Samstarfsaðilar