29.12.03 - Undirbúningsfundur fyrir UEFA-B prófiðMinnt er á að KSÍ hefur ákveðið að bjóða þjálfurum upp á undirbúningsfund fyrir UEFA-B prófið. Fundurinn fer fram í fundarsal ÍSÍ fimmtudaginn 8. janúar klukkan 18:00, en UEFA-B prófið sjálft fer fram 24. janúar. Á fundinum geta þjálfarar fræðst um uppbyggingu prófsins og spurt um atriði sem tengjast UEFA-B þjálfaragráðunni. Þjálfarar sem ætla í UEFA-B prófið eru sérstaklega hvattir til að mæta og einnig þeir sem hyggjast taka UEFA-A (næstu þjálfaragráðu UEFA) í framtíðinni. Aðgangur er ókeypis. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).
 

 

24.12.03 - Gleðileg jól, gott og farsælt komandi knattspyrnu árKnattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendir öllum knattspyrnuþjálfurum, sínar bestu óskir um gleðileg jól, með ósk um gott og farsælt komandi knattpsyrnu ár.
 

 

18.12.03 - Þjálfarar sem lokið hafa D og E stigi KSÍ þurfa ekki í UEFA-B prófKnattspyrnuþjálfarafélag Íslands hefur að undanförnu verið í viðræðum við KSÍ um framkvæmd vegna UEFA-B prófs í knattpsyrnuþjálfun og bent KSÍ á að annarstaðar á Norðurlöndum þurfi D og E stigs þjálfararar ekki að fara í próf til að fá UEFA-B réttindi. Þetta kom meðal annars fram í samtölum við fulltrúa Norðurlanda á ráðstefnu UEFT í Tyrklandi sem Sigurður Þórir og Ómar fóru á fyrr í vetur. Þetta hefur nú leitt til þess að stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum á miðvikudag tillögu fræðslunefndar KSÍ um að þeir þjálfarar sem lokið hafa D- og E-stigum í þjálfaramenntun KSÍ þurfi ekki að þreyta UEFA-B próf, heldur geti viðkomandi sótt um réttindin með skriflegu erindi til fræðslustjóra KSÍ. Þeir þjálfarar sem hafa hug á að þreyta UEFA-B prófið, sem fram fer 24. janúar næstkomandi, þurfa að hafa lokið fyrstu fjórum stigum þjálfaramenntunar KSÍ.
 

 

16.12.03 - Nú hafa 233 þjálfarar greitt félagsgjaldiðNú hafa 233 knattspyrnuþjálfarar greitt félagsgjald KÞÍ fyrir árið 2003. Þetta er aðeins færri en greiddu í fyrra, en ef einhvejir eru ekki vissir um hvort þeir hafi greitt félagsgjaldið þá má sjá það undir liðnum félagsmenn hér fyrir ofan. Stjórn KÞÍ þakkar öllum þeim sem greitt hafa og þannig eflt starf félagsins og skorar á þá sem enn eiga eftir að greiða að gera það sem allra fyrst.

 

15.12.03 - Þjálfaranámskeið í EyjumKnattspyrnudeild ÍBV og KSÍ hafa ákveðið að hrinda af stað þjálfaranámskeiði, KSÍ-1, 18.,19. og 20. desember n.k. og er þetta samstarfsverkefni til eflingar knattspyrnuþálfaramenntunar í Eyjum. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem knattspyrnuþjálfaranámskeið er haldið í Vestmannaeyjum.

 

11.12.03 - Íslensk knattspyrna 2003Bækurnar um íslenska knattspyrnu eftir Víði Sigurðsson eru öllum áhugamönnum um knattspyrnu að góðu kunnar. Í bókinni Íslensk knattspyrna 2003 er fjallað um allt sem gerðist í boltanum á árinu sem er að líða. Frásagnir af öllum leikjum í Landsbankadeildum karla og kvenna, fjallað um allar deildir og flokka á Íslandsmótinu, VISA-bikarinn og bikarkeppni yngri flokka, landsleikina, Evrópuleiki félagsliða, atvinnumennina erlendis, utandeildakeppnina og margt fleira. Bókin er ríkulega myndskreytt, en í henni eru rúmlega 250 myndir úr leikjum og af einstaklingum og liðum. Bókin er stærri en nokkru sinni fyrr, 208 blaðsíður, og í henni eru ítarleg viðtöl við Eyjólf Sverrisson og Guðna Bergsson, sem báðir lögðu skóna á hilluna á árinu 2003. Það er Bókaútgáfan Tindur á Ólafsfirði sem gefur út bókina og hægt er að panta bókina í gegnum vefsíðu fyrirtækisins (www.tindur.is).

 

10.12.03 - Undirbúningsfundur fyrir UEFA-B prófiðKSÍ hefur ákveðið að bjóða þjálfurum upp á ókeypis undirbúningsfund fyrir UEFA-B prófið. Fundurinn fer fram í fundarsal ÍSÍ fimmtudaginn 8. janúar klukkan 18:00, en UEFA-B prófið sjálft fer svo fram 24. janúar. Á fundinum geta þjálfarar fræðst um uppbyggingu prófsins og spurt spurninga sem tengjast UEFA-B þjálfaragráðunni. Þjálfarar sem ætla í UEFA-B prófið eru sérstaklega hvattir til að mæta og einnig þeir sem hyggjast taka UEFA-A (næstu þjálfaragráðu UEFA) í framtíðinni. Aðrir þjálfarar eru einnig boðnir velkomnir. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).
 

 

4.12.03 - Kynning á Sideline Organizer og Video AnalyzerLaugardaginn 6. desember mun Brynjar Karl Sigurðsson halda námskeið og kynningu á hugbúnaði Sideline Sports. Hugbúnaðurinn sem um ræðir er Sideline Organizer og Sideline Video Analyzer. Kynningin byrjar kl. 13:00 í Valsheimilinu að Hlíðarenda. Síðasta Námskeið/Kynning sem haldið var í lok ágúst var mjög vel sótt. Í dag nota um 400 íslenskir þjálfarar hugbúnað frá Sideline Sports. Sideline Organizer er skipulagstól fyrir þjálfara í Körfubolta, Fótbolta, Handbolta, Blaki, Tennis, Júdó, Badminton o.s.frv. Sideline Video Analyzer er fullkomið leikgreiningartól. Það hefur nú verið uppfært og er tvímælaust besta leikgreingarforit á markaðnum. Forritið er mjög öflugt og getur sparað tíma þjálfarans í myndbandvinnslu á sama tíma og það gefur mjög ítarlegar upplýsingar um frammistöðu liðs og leikmanna yfir lengri tíma eða skemmri. Við skorum á þá þjálfara sem nota hugbúnaðinn að mæta á svæðið, kynna sér nýjungar og skerpa sögina (komið með ferðavélarnar!). Aðra þjálfara hvetjum við til að kynna sér hvernig nýta má tölvur til að gera starf sitt áhrifameira og markvissara. Eins og áður gerir Sideline Sports íslenskum íþróttaþjálfurum kleift að kaupa hugbúnaðinn á lægra verði. Brynjar Karl hefur ferðast vítt og breitt um Bandaríkin í sumar og haldið erindi á ráðstefnum fyrir þjálfara. Einnig hefur Brynjar starfað sem ráðgjafi fyrir NBA lið og Háskóla í Bandaríkjunum. Aðilar sem nota hugbúnað frá Sideline Sports: Aston Villa, Bolton, Sunderland, Ipswich, Breska Knattspyrnusambandið, Memphis Grizzlies NBA, Houston Rockets NBA, New York Liberty WNBA, Georgia Tech, University of Alabama, University of Mississippi, University of South Carolina, University of Memphis, Wake Forest University, University of Iowa, Northen State University, University of Wisconsin Milwaukee, Birmingham Southern College, Illinois State University ásamt fjölda annarra bandarískra háskóla og miðskóla. Innlendir: Landsliðþjálfarar KSÍ, Guðmundur Guðmundsson HSÍ, Knattspyrnuþjálfarar yngriflokka KR, ÍA, FH, Fylkis, Fjölnis og Breiðabliks, Íþróttakennarháskóli Íslands ásamt fjölda annarra þjálfara.

 

2.12.03 - Gunnar og Zakaria Elías fá styrk frá ÍSÍGunnar Guðmundsson þjálfari mfl. HK í knattspyrnu og Zakaria Elías Anbari þjálfari 3. deildarliðs Afríku hlutu í dag styrk frá ÍSÍ til að kynna sér þjálfun erlendis. Gunnar hyggst kynna sér þjálfun og uppbyggingu knattspyrnumanna í Þýskalandi. Gunnar útskrifaðist sem íþróttafræðingur frá Háskólanum í Hamborg árið 1998 og hefur lokið öllum þjálfarastigum KSÍ. Zakaria Elías Anbari hefur sótt fjölmörg námskeið hérlendis í knattspyrnu og hlýtur styrk til að kynna sér þjálfun hjá Charlton Athletic í Englandi

 

19.11.03 - KSÍ-II þjálfaranámskeið um helginaKSÍ II (B-stigs) þjálfaranámskeið er um næstu helgi (21-23.nóvember). Námskeiðið fer fram í Félagsheimili Þróttar og í Laugardalshöll, þar sem verklegi hlutinn fer fram. Þátttakendur þurfa að hafa viðeigandi útbúnað með sér. Skráning er hafin. Þátttökugjald er 12.000 krónur. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900.
 

 

11.11.03 - KSÍ II (B-stigs) þjálfaranámskeið á Akureyri 21-23.nóvemberÁkveðið hefur verið vegna fjölda áskorana að bjóða upp á KSÍ II (B-stigs) þjálfaranámskeið á Akureyri. Námskeiðið fer fram 21-23.nóvember og skráning á námskeiðið er hafin. Námskeiðið kostar 12.000 krónur og er bóklegt og verklegt. Best er að skrá sig á tölvupósti (siggi@ksi.is). Taka þarf fram nafn, kennitölu, heimilisfang, félag, GSM síma og netfang. Þátttakendur þurfa að hafa með sér útbúnað til knattspyrnuiðkunar. Dagskrá námskeiðsins verður birt síðar. Að auki verða KSÍ II þjálfaranámskeið haldin í Reykjavík/Keflavík 14-16. nóv og 21-23. nóv. Þá er líka stefnt að því að hafa KSÍ II námskeið í janúar á austurlandi.
 

 

11.11.03 - ÍþróttalæknisfræðiráðstefnaDagana 13. - 15. nóvember stendur Heilbrigðisráð ÍSÍ fyrir Íþróttalæknisfræðiráðstefnu. Ráðstefnan fer fram í Íþróttamiðstöðinni Laugardal. Aðalfyrirlesari verður Prof. Paul Wyellman frá Virje háskólanum í Brussel, (Psychology of Sport, Exercise and Leisure).

Ráðstefnan er ætluð, læknum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, þjálfurum íþróttahreyfingarinnar og öðrum áhugasömum. Ein breyting hefur orðið á áður auglýstri dagskrá. Af óviðráðanlegum orsökum fellur niður erindi Kristjáns Erlendssonar um brottfall barna og unglinga úr íþróttum. Í staðinn kemur inn erindi um AFKASTAGETUMÆLINGAR ÍÞRÓTTAFÓLKS, flutt af Sigurbirni Árna Arngrímssyni, kennara við Íþróttafræðasetur KHÍ. Námskeiðsgjald er kr. 2.500 og er léttur kvöldverður, fimmtudag og föstudag innifalinn ásamt hádegisverði á laugardag. Skráning í síma 514-4000 eða á netfang: kjr@isisport.is

 

4.11.03 - Þjálfaranámskeið KSÍEftirfarandi þjálfaranámskeið eru framundan hjá KSÍ. KSÍ IV er núna um helgina 7-9.nóvember. Þátttakendur þurfa að hafa lokið KSÍ III (C-stigi og/eða fyrri hluta D-stigs). Námskeiðið kostar 14.000 krónur og dagskráin er komin á heimasíðu KSÍ.

KSÍ II verður haldið 14-16.nóvember og 21-23.nóvember (semsagt tvö námskeið). Námskeiðið kostar 12.000 krónur.

Skráning er hafin á ofangreind námskeið og þau fara fram í Reykjavík á föstudeginum og Keflavík á laugardeginum og sunnudeginum.

Einnig er stefnan að halda KSÍ II námskeið eftir áramót á Akureyri og líka fyrir austan (líklega Egilsstöðum eða Seyðisfirði).

Að lokum má nefna að á næsta ári mun KSÍ reyna að halda KSÍ I þjálfaranámskeið á Ísafirði og í Vestmannaeyjum.

Nánari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ eru veittar á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900.
 

 

2.11.03 - Zeljko Sankovic næsti þjálfari GrindvíkingaKnattspyrnudeild UMFG og Zeljko Sankovic hafa gert með sér munnlegt samkomulag um að hann taki að sér þjálfun á meistaraflokki karla næstu fjögur tímabil. Hann verður einnig til aðstoðar við þjálfun 2. flokks, markmannsþjálfun og séræfingar yngri flokka. Sankovic hefur mikla reynslu af þjálfun og með háskólagráðu á þessu sviði.

 

2.11.03 - Rúmeni þjálfar FramRúmeninn Ion Geolgau var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Geolgau hefur þjálfað í Færeyjum undanfarin sex ár en hann er 42 ára gamall og lék á sínum ferli 24 leiki með A-landsliði Rúmena. Með þessu er ljóst að Fram hefur ekki bara ákveðið að leita út fyrir Safamýrina, heldur út fyrir landsteinana líka. Jörundur Áki Sveinsson spjaldskrárritari KÞÍ verður aðstoðarþjálfari Geolgau.

 

2.11.03 - Sigurður og Ómar til TyrklandsÞeir félagar Sigurður Þórir formaður KÞÍ og Ómar gjaldkeri KÞÍ halda í vikunni til Tyrklands á árlega ráðstefnu UEFT. Skýrsla frá ferðinni mun koma á heimasíðuna sem allra fyrst.

 

2.11.03 - 65 þjálfarar á markmannsþjálfunarnámskeiðiKSÍ hélt námskeið með markmannsþjálfaranum Frans Hoek fyrir stuttu í Fífunni og Smáranum. Alls sóttu 65 þjálfarar námskeiðið sem tókst með afbrigðum vel. Þeir sem komust ekki á námskeiðið geta keypt námskeiðsgögnin á skrifstofu KSÍ fyrir 1.000 krónur. Hafið samband við Sigurð Ragnar fræðslustjóra KSÍ.
 

 

1.11.03 - Ritgerð um KÞÍUndir liðnum fróðleikur má finna ritgerð sem Unnar Þór Garðarsson og Sveinn Þórðarson skrifuðu um sögu Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands í Kennaraháskóla Íslands, íþróttaskori.

 

1.11.03 - Vantar þjálfara víðaHér á heimasíðu KÞÍ auglýsa nokkur félög eftir þjálfurum, bæði fyrir yngri flokka og þá eldri, farið á þjálfarastörf og kannið málið.

 

25.10.03 - Eyjólfur Sverrisson ráðinn þjálfari U21Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Eyjólf Sverrisson þjálfara U21 landsliðs karla og mun hann stjórna liðinu næstu tvö árin eða út riðlakeppni EM 2006. Jafnframt því að vera þjálfari U21 liðsins hefur Eyjólfur verið ráðinn starfsmaður KSÍ og verða sérverkefni hans sparkvalla- og útbreiðsluátak KSÍ.
 

 

22.10.03 - Ásbjorn er þjálfarinn á heimasíðunniNú eru æfingar frá Ásbirni Sveinbjörnssyni komnar á heimasíðuna undir liðnum þjálfarinn. Ásbjörn hefur þjálfað mikið hjá ÍK og HK í Kópavogi.

 

17.10.03 - Ólafur og Halldóra Vanda þjálfarar ársins 2003Á aðalfundi KÞÍ 27. september s.l. voru Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari KR, útnefnd þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna fyrir árið 2003. Bæði náðu þau góðum árangri með lið sín í sumar og því vel að útnefningunni komin.

Ólafur hóf þjálfaraferilinn fyrir tuttugu og tveimur árum er hann þjálfaði mfl. og 3. flokk karla hjá Einherja á Vopnafirði, en síðan þá hefur Ólafur eingöngu þjálfað meistaraflokk karla. Ólafur hefur einnig þjálfað tvisvar hjá Skallagrím í Borgarnesi, Þrótt Reykjavík, Hauka og Selfoss en mest hefur Ólafur þjálfað hjá FH, en þrisvar hefur Ólafur verið ráðinn til starfa þar á bæ, nú síðast haustið 2002. Það gekk hvorki né rak í æfingaleikjum vetrarins og í vor var því ekki óeðlilegt að menn spáðu þeim slöku gengi á Íslandsmótinu. Þeir blésu á allar hrakspár og FH var svo sannarlega spútniklið sumarsins og endaði FH í 2. sæti Íslandsmótsins og tapaði síðan úrslitaleik bikarkeppninnar fyrir ÍA. Ólafur er vel menntaður þjálfari, hefur lokið E – stigi KSÍ, þ.e. efsta stigi í knattspyrnuþjálfun á Íslandi. Þetta er í annað sinn sem Ólafur er kjörin þjálfari ársins, en fyrst hlaut Ólafur þessa viðurkenningu árið 1996.

Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir hefur lengi þjálfað, bæði hjá ÍA og Breiðabliki, þaðan lá leið hennar til KSÍ, en hún þjálfaði kvennalandsliðið og 20 ára landslið kvenna í tvö ár. Þá tók hún við KR og gerði þær að Íslands- og Bikarmeisturum í fyrsta sinn í sögu KR árið 2000. Þá hafði lið sem hún þjálfaði ekki tapað leik í deildarkeppni og var það og er einstakur árangur. Árið 2001 tók Halldóra Vanda við 3. deildarlið Neista á Hofsósi og var þar með fyrsta konan til að þjálfa meistaraflokk karla á Íslandi. Aftur snéri Halldóra Vanda til KR árið 2002 og gerði hún KR þá aftur að Íslands- og bikarmeisturum, og í sumar fögnuðu KR stúlkur Íslandsmeistaratitlinum. Halldóra Vanda er vel menntaður þjálfari, útskrifaðist af E stigi KSÍ í september 2000. Þetta er í fjórða sinn sem Halldóra Vanda er kosin þjálfari ársins í efstu deild kvenna, en áður hefur Halldóra Vanda verið kosin þjálfari ársins, 1996, 1997 og 1999.

 

17.10.03 - Ólafur og Vanda þjálfarar ársins hjá íþróttafréttamönnumÁ lokahófi knattspyrnumanna á Brodway voru þau Ólafur Jóhannesson og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir kjörin þjálfarar ársins í Landsbankadeildunum í sumar af íþróttafréttamönnum. Ólafur og Halldóra Vanda voru einnig kjörin þjálfarar ársins 2003 hjá Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands.

 

17.10.03 - Viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka
Lárus Rúnar Grétarsson, Sigurlín Jónsdóttir og Úlfar Hinriksson fengu á aðalfundi KÞÍ viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. Öll hafa þau lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín. Á myndinni eru Lárus og Sigurlín, en Úlfar var því miður ekki viðstaddur.

 

17.10.03 - Húfan og merkið farið í póstHúfurnar og merkið sem fylgdi félagsgjaldinu að þessu sinni fóru í póst til félagsmanna fyrir stuttu. Þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og ekki hafa fengið sendingu eru beðnir að tilkynna það með því að senda póst á kthi@isl.is.

Fjölmennur aðalfundur

Um 40 þjálfarar sóttu aðalfund KÞÍ eftir að ráðstefnu í tengslum við úrslitaleik VISA bikarsinsl. Fundarmenn voru ánægðir með það sem fram fór en auk venjulegra aðalfundarstarfa var boðið upp á léttar veitingar að fundi loknum og mæltist það sérstaklega vel fyrir meðal fundarmanna.

 

17.10.03 - Skýrsla stjórnar KÞÍ starfsárið 2002 - 2003Ágætu knattspyrnuþjálfarar !

Á síðasta aðalfundi sem haldinn var í lok nóvember í fyrra var ákveðið að næsti aðalfundur félagsins yrði haldinn á ráðstefnu KÞÍ í tengslum við bikarúrslitaleik meistaraflokks karla. Það er nú orðið að veruleika og er það í fyrsta skipti sem það er gert. Þessi nýbreytni hjá okkur á vonandi eftir að takast vel og er þetta meðal annars gert til þess að þjálfarar á landsbyggðinni eigi auðveldara með að komast á aðalfundinn í kjölfarið á bikarúrslitaráðstefnunni. Yfirleitt hafa aðalfundirnir verið haldnir í lok nóvember þegar margir þjálfarar eru mjög uppteknir við nám eða kennslu. Þetta hefur einnig verið gert með þessu sniði í Noregi með góðum árangri. Stjórn KÞÍ var endurkjörin í fyrra og urðu því engar mannabreytingar milli ára. Sigurður Þórir Þorsteinsson hélt áfram sem formaður, Njáll Eiðsson sem varaformaður, Jóhann Gunnarsson sem ritari, Ómar Jóhannsson sem gjaldkeri og Magnús Pálsson sem spjaldskrárritari. Í varstjórn voru áfram Elísabet Gunnarsdóttir og Jörundur Áki Sveinsson.

Þessi stjórn hefur því starfað í tvö ár. Á starfsárinu voru haldnir 8 fundir, auk funda þar sem hluti stjórnar hittist til að undirbúa ýmis sérverkefni. Við höfðum sama markmið og áður með lengd stjórnarfunda, þ.e. að þeir væru ekki lengur en 90 mínútur.

Helstu viðburðir félagsins á árinu voru : Ráðstefnan í dag í tengslum við úrslitaleik VISA bikarkeppni karla. Dagskráin var þannig að undirritaður setti ráðstefnuna. Að því loknu kom Logi Ólafsson, landsliðsþjálfari og ræddi málefni A landsliðs karla. Eftir kaffihlé kom Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ og ræddi um menntunarkerfi KSÍ. Þá var komið að því að kryfja bikarúrslitaleikinn til mergjar og fengum við Bjarna Jóhannsson, eins og undanfarin ár til að spá í bikarúrslitaleikinn og fara yfir tölfræði liðanna. Rétt fyrir matinn komu þjálfarar liðanna sem leika til úrslita, nafnarnir Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH og Ólafur Þórðarson, þjálfari ÍA og sögðu okkur hvernig undirbúningur þeirra var fyrir leikinn og hvernig þeir lögðu leikinn upp. Strax að leik loknum voru pallborðsumræður um leikinn, þar sem Bjarni Jóhannsson, Logi Ólafsson og Willum Þór Þórsson fjölluðu um leikinn.

Matarfundur var haldinn á Naustinu í vor. Um 30 þjálfarar sóttu þann matarfund þar sem Bjarni Jóhannsson var veislustjóri og Logi Ólafsson flutti erindi um muninn á þjálfun íslenskra og norskra knattspyrnumanna. Auk þessara viðburða gáfum við út fréttabréf.

Fjárhagur félagsins stendur ágætlega. Það er nú svo komið að 203 félagsmenn hafa greitt félagsgjaldið í ár. Fengu þeir sem greiddu fyrir 10. september senda derhúfu með merki félagsins, ásamt barmmerki félagsins.
Samstarfið við Knattspyrnusamband Íslands er orðið mun meira en áður var og nú hafa þeir tekið að sér að greiða árgjaldið til evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem nú er 1200 evrur eða rúmlega 100.000 krónur. Um leið og við þökkum þeim veittan stuðning væntum við enn meira og betra samstarfs á næstu árum.
Styrktaraðilar KÞÍ eru : Íslandsbanki hf, VISA, Lyra og MEBA. Við þökkum þessum aðilum kærlega fyrir stuðninginn við félagið og vonumst til að eiga gott samstarf við þá áfram.

Skýrsla frá ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í París í Frakklandi 2. – 6. nóvember s.l. er komin á heimasíðu KÞÍ. Hvetjum við alla til að skoða hana vel en efni ráðstefnunnar var straumar og stefnur frá HM í S–Kóreu og Japan.Knattspyrnusamband Íslands opnaði sérstakan fræðsluvef 7. mars síðastliðinn á heimasíðu KSÍ, WWW.ksi.is, en þar er að finna ýmsan gagnlegan fróðleik fyrir þjálfara, dómara, leikmenn og alla áhugamenn um knattspyrnu og menn geta skoðað þar bókasafn og myndbandasafn KSÍ. Þar er mikið æfingasafn fyrir knattspyrnuþjálfara,þar sem menn geta skipst á æfingum við aðra þjálfara svo og kennslugögn frá þjálfaranámskeiðum KSÍ. Þjálfurum og íþróttakennurum er frjálst að nota kennslugögnin af þjálfaranámskeiðunum í kennslu og þjálfun hjá sér.

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að það er komið í gang leyfiskerfi í efstu deild karla og hluti af kröfum þess varðar menntun þjálfara. Í efstu deild karla verður gerð krafa um eftirfarandi menntun hjá þjálfurum viðkomandi flokka. Þjálfarar í meistaraflokki þurfa að hafa lokið æðstu þjálfaragráðu KSÍ sem er nú E-stig og mun væntanlega í framtíðinni verða UEFA A gráða og svo UEFA Pro gráða fyrir árið 2010. Þjálfarar í 2., 3., og 4. flokki þurfa að hafa lokið UEFA B prófi (KSÍ IV, fyrri hluti D-stigs) sem verður haldið í janúar næstkomandi og er það skriflegt próf. Þjálfarar í yngri aldurshópum þurfa að hafa lokið KSÍ II (B-stig KSÍ)

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands hvetur þjálfara til þess að hafa samninga sína skothelda, það er að segja að þeir gangi tryggilega frá þeim þegar samið er og bíði ekki með að gera það þangað til seinna. Menn vita aldrei hvað gerist hvað gengi liðs síns varðar og því er betra að hafa allan varann á. Ef menn verða fyrir því að vera sagt upp störfum ætlumst við til þess að menn leiti réttar sín og eins og margoft hefur komið fram erum við með lögfræðing á okkar snærum sem ég bendi mönnum á þegar ég hringi í þá. Einnig hvetjum við þjálfara sem eru að taka við störfum að ganga úr skugga um það að búið sé að gera upp við þann þjálfara sem var á undan.

Í hádeginu voru þjálfarar í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Í fyrra var Willum Þór Þórsson valinn þjálfari ársins í efstu deild karla og Valdimar Pálsson í efstu deild kvenna. Á eftir aðalfundinum verður þremur þjálfurum veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. Í fyrra hlutu Gunnar Magnús Jónsson, Hlynur Svan Eiríksson, Sigurlás Þorleifsson og Þrándur Sigurðsson þessa viðurkenningu.

Í dag fá einnig þrír knattspyrnuþjálfarar afhenda heiðursviðurkenningu KÞÍ og er það í fyrsta skipti í langan tíma sem það er gert.

Tveir stjórnarmenn hafa ákveðið að hætta í stjórninni. Það eru þeir Jóhann Gunnarsson, ritari sem var áður í varastjórn og hefur verið samtals fjögur ár í stjórn og Magnús Pálsson, spjaldskrárritari lætur nú einnig af störfum eftir fimm ár í stjórn KÞÍ. Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag við stjórnarstörf og vonumst að sjálfsögðu til að þeir vinni áfram fyrir félagið.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands þakkar ykkur öllum fyrir samstarfið og þann mikla velvilja sem félagið hefur og hvetur ykkur áfram í starfi.

Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður.

 

17.10.03 - Pistill frá Fræðslustjóra KSÍÁgætu knattspyrnuþjálfarar,

Nú er knattspyrnusumrinu lokið og í hönd fer annatími í námskeiðahaldi hjá KSÍ. Síðustu misseri hefur orðið mikil aukning í aðsókn á þjálfaranámskeið KSÍ og það mun vonandi skila sér í hæfari þjálfurum og betri knattspyrnu. Á fræðsluvef KSÍ er nú búið að koma fyrir öllum helstu upplýsingum um þau þjálfaranámskeið sem framundan eru. Þar má t.d. sjá dagsetningar allra námskeiðanna og þau námskeið sem við bjóðum upp á úti á landi í fyrsta skipti. Fræðsluvefur KSÍ er aðgengilegur efst á heimasíðu KSÍ (www.ksi.is).

Það eru spennandi tímar framundan í þjálfaramenntun. Þjálfarar á Íslandi fá nú loksins tækifæri til að öðlast þjálfaragráðu sem er viðurkennd af UEFA og í 35 af 52 knattspyrnusamböndum í Evrópu. Um er að ræða svokallaða UEFA B þjálfaragráðu. Það er ljóst í mínum huga að allir metnaðarfullir þjálfarar ættu að sækjast eftir að fá þessa þjálfaragráðu. Ég bið þjálfara að athuga strax hvort þeir hafa þátttökurétt eða þurfi að skrá sig á KSÍ IV þann 7-9.nóvember næstkomandi því það eru komnar nýjar reglur hvað varðar þátttökurétt í prófinu.

UEFA B prófið átti að vera 22.nóvember en hefur nú verið frestað til janúar 2004 til að gefa þjálfurum og KSÍ betri tíma til að undirbúa sig. Skráning í prófið hefst þó 15. nóvember. Þá hefur verið ákveðið að halda undirbúningsfund eina kvöldstund fyrir þjálfara sem vilja undirbúa sig sem best fyrir prófið. Áhugasamir þjálfarar geta skráð sig á þennan undirbúningsfund hjá mér í síma 510-2909.

Í fyrsta skipti í nokkur ár mun KSÍ nú bjóða upp á svokölluð KSÍ V og VI námskeið. KSÍ V er sett á í mars/apríl 2004 og KSÍ VI í október 2004. Það námskeið verður spennandi vikunámskeið haldið í Englandi. Athugið að til þess að komast á þessi námskeið þurfa þjálfarar að hafa lokið UEFA B prófinu með einkuninni 70/100 og sækja um leyfi til fræðslunefndar KSÍ.

KSÍ hefur ákveðið að bjóða þjálfurum upp á markmannsþjálfunarnámskeið með hinum heimsþekkta markmannsþjálfara Frans Hoek þann 24 - 26.október næstkomandi. Frans Hoek er mjög skemmtilegur fyrirlesari og hefur starfað í mörg ár við markmannsþjálfun hjá Ajax, hollenska landsliðinu og nú síðustu ár hjá Barcelona. Markmannsþjálfun er nokkuð sem margir þjálfarar vilja kynna sér betur og því er þetta einstakt tækifæri. Þátttökugjald er aðeins 5.000 krónur og fyrirlestrarnir fara fram á ensku. Þegar þetta er skrifað hafa 82 þjálfarar skráð sig á námskeiðið og því er það að fyllast. Ég hvet því þjálfara til að skrá sig fljótt.

KSÍ lætur ekki staðar numið við UEFA B þjálfaragráðuna því nú þegar höfum við hafið undirbúning að umsókn um UEFA A þjálfaragráðuna sem er sú næsta í röðinni. Þessi undirbúningur er kominn ágætlega af stað og ætlunin er að skila inn umsókn okkar til UEFA á næsta ári. Æðsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA Pro og þá gráðu þurfa þjálfarar í efstu deild karla á Íslandi að hafa árið 2010 samkvæmt leyfiskerfinu. KSÍ mun líklega gera samkomulag við erlend knattspyrnusambönd um að þjálfarar á Íslandi hafi tækifæri til að sækja sér þessa gráðu hjá þeim.

Á fræðsluvef KSÍ er hægt að skrá sig á Póstlista KSÍ, en um 130 manns hafa skráð sig á listann nú þegar. Í gegnum póstlistann eru sendar tilkynningar og fréttir af starfi KSÍ, upplýsingar um þjálfaranámskeið og fleira sem tengist knattspyrnu og knattspyrnuþjálfun. Ég hvet þjálfara eindregið til að skrá sig á póstlistann okkar og fá þannig fréttir frá okkur í gegnum tölvupóst. Þjónustan er ókeypis.

Ég vona að knattspyrnusumarið hafi verið skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir ykkur og hvetji ykkur til dáða og frekari afreka í þjálfuninni. Sjáumst á þjálfaranámskeiðunum í haust!

Knattspyrnukveðja
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ

 

17.10.03 - Magnús og Jóhann að hættaFélagarnir Magnús og Jóhann, þó ekki dúettinn vinsæli úr Keflavík, heldur stjórnarmenn í KÞÍ gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í stjórn KÞÍ á aðalfundi KÞÍ, en Magnús hefur verið í stjórn KÞÍ undanfarin fimm ár, en Jóhann fjögur ár. Stjórn KÞÍ þakkar þeim vel unnin störf. Í þeirra stað koma Úlfar Hinriksson og Þórir Bergsson inn í stjórnina og eru þeir boðnir velkomnir.

Skoðunarmenn til eins árs

Félagarnir Halldór Örn Þorsteinsson og Birkir Sveinsson voru kjörnir skoðunar-menn reikninga til eins árs.

Óbreytt árgjald

Á aðalfundi KÞÍ lagði stjórn KÞÍ til að árgjald félagsins yrði óbreytt næsta ár. Stefnt er að því að hafa eitthvað innifalið í árgjaldinu, en hvað það verður kemur í ljós næsta sumar.

 

17.10.03 - Sæmdir gullmerki KÞÍ
Á aðalfundi KÞÍ í september s.l. voru þeir heiðursmenn, Guðni Kjartansson, Kjartan Másson og Helgi Þorvaldsson sæmdir gullmerki KÞÍ fyrir áratuga löng störf við knattspyrnuþjálfun. Allir hafa þeir starfað lengi við þjálfun og ávallt verið faglegir í vinnubrögðum við þjálfunina.

Guðni Kjartansson

Byrjði að þjálfa 1974, hefur mikið þjálfað hjá KSÍ, m.a. A landslið karla, en er núna þjálfari U-19 karla hjá KSÍ. Hefur lokið öllum stigum KSÍ í knattspyrnuþjálfun og sótt fjölmörg námskeið á vegum UEFA og FIFA.

Kjartan Másson

Byrjaði að þjálfa 1965 í Eyjum, hefur verið mest á Suðurnesjunum í seinni tíð og þjálfað fjölmörg lið þaðan, auk þess að þjálfa í Færeyjum. Hefur lokið öllum stigum KSÍ í knattspyrnuþjálfun. Starfar nú við sérþjálfun hjá Keflavík.

Helgi Þorvaldsson

Hefur starfað frá 1969 við þjálfun, mest hjá Þrótti í Reykjavík og Breiðabliki. Hefur lokið D stigi KSÍ í knattspyrnuþjálfun.

 

17.10.03 - Þjálfararáðstefna í tengslum við bikarúrslitaleikinnLaugardaginn 27. september s.l. stóð KÞÍ í samvinnu við KSÍ fyrir ráðstefnu í tenslum við úrslitaleik VISA bikarsins í knattspyrnu á ÍSÍ. Ráðstefnan tókst mjög vel í alla staði og voru þeir fjölmörgu þjálfarar sem ráðstefnuna sóttu ánægðir með það sem boðið var upp á. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna á fimmtu ráðstefnu KÞÍ í tengslum við bikarúrslitaleikinn í karlaflokki. Því næst flutti Logi Ólafsson landsliðsþjálfari erindi um málefni A landsliðs karla og kom þar margt forvitnilegt í ljós, en eftir að þeir félagar Logi og Ásgeir tóku við sem landsliðsþjálfarar má segja að nýtt lið hafi komið til keppni og loksins á litla Ísland möguleika á að komast í úrslit á stórmóti. Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ fór yfir fræðslumál KSÍ og þá sérstaklega væntanlegt UEFA B próf í knattspyrnuþjálfun sem verður í janúar n.k. og má lesa um annarstaðar í blaðinu, einnig fór Sigurður yfir leyfiskerfi KSÍ, sérstaklega þann þátt er snýr að knattspyrnuþjálfurum og kom margt forvitnilegt þar í ljós og ættu þjálfarar að vera betur varðirmeð samninga sína gagnvart félögunum í framtíðinni, þegar leyfiskerfið verður að fullu komið í gagnið. Bjarni Jóhannsson þjálfari Grindavíkur fór yfir tölfræði liðanna sem léku til úrslita og kom þar margt athyglisvert í ljós. Því næst mættu þjálfarar liðanna, þeir Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Ólafur Þórðarson þjálfari ÍA og fóru yfir undirbúning liða sinna fyrir leikinn, liðsuppstillingu, leikkerfi og var virkilega gaman að heyra í þeim félögum og eiga þeir hrós skilið fyrir hversu opnir þeir þeir voru á fundinum. Þá var komið hádegishlé og fór allur hópurinn á Grand hótel og borðaði þar góðan mat. Eftir matinn var skundað á leikinn og sértaklega fylgst með leikskipulagi liðanna með tilliti til þess er þjálfarar liðanna höfðu sagt fundarmönnum fyrr um daginn. Að loknum leik var aftur haldið á ÍSÍ og voru pallborðsumræður um leikinn og fóru þeir Willum Þór Þórsson þjálfari KR, Bjarni Jóhannsson þjálfari Grindavíkur og Logi Ólafsson landsliðsþjálfari yfir leikinn og kom margt forvitnilegt fram í þeim umræðum og sitt sýndist hverjum um leikinn og leikskipulag liðanna. Þessu næst sleit Sigurður Þórir formaður KÞÍ ráðstefnunni og þakkaði mönnum góða mætingu og við tók aðalfundur KÞÍ. Á heildina litið tókst ráðstefnan með miklum ágætum, en tæplega 50 þjálfarar sóttu ráðstefnuna að þessu sinni og ljóst að hún er komin til að vera, mikil ánægja var meðal ráðstefnugesta og voru flestir mjög ánægðir með það sem boðið var upp á.

 

17.10.03 - Ætlar þú á þjálfaranámskeið í haust?

Eftirfarandi þjálfaranámskeið eru framundan hjá KSÍ:
KSÍ-I 17/10 - 19/10 og 31/10 - 02/11 í Reykjavík, 31/10 - 02/11 á Akureyri, 07/11 - 09/11 á Seyðisfirði
KSÍ-II 14/11 - 16/11 og 21/11 - 23/11 í Reykjavík
KSÍ-IV 07/11 - 09/11
Markmannþjálfunarnámskeið KSÍ og Frans Hoek 24/10 - 26/10
Hægt er að skrá sig á námskeiðin á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900.

 

13.10.03 - Hefur þú rétt á að fara í UEFA B prófið?Reglur um þátttökurétt á UEFA B prófinu
*Allir sem hafa lokið KSÍ IV hafa þátttökurétt á UEFA B prófinu.
*Þeir sem luku E-stigi eða seinni hluta D-stigs á síðustu 3 árum hafa líka þátttökurétt á prófinu.
*Þeir þjálfarar sem luku E-stigi eða seinna hluta D-stigs fyrir meira en 3 árum síðan þurfa að sækja um þátttökurétt til fræðslunefndar KSÍ og þar skal koma fram endurmenntun og þjálfun þeirra síðastliðin 3 ár (þetta má gera á tölvupósti: siggi@ksi.is).
*Þeir sem hafa lokið fyrri hluta D-stigs þurfa að sitja KSÍ IV (7-9.nóvember) til að mega taka prófið.
 

 

13.10.03 - UEFA-B prófinu frestað fram í janúarFræðslunefnd KSÍ hefur tekið þá ákvörðun að fresta UEFA-B prófinu sem var fyrirhugað þann 22. nóvember næstkomandi og í staðinn verður prófið haldið í janúar. Þetta var gert fyrst og fremst vegna þess að þjálfarar hafa komið þeim óskum á framfæri að þeir vilji meiri tíma til undirbúnings fyrir prófið. KSÍ vill koma til móts við þjálfara og því hefur verið ákveðið að bjóða upp á undirbúningsfund fyrir prófið sem auglýstur verður síðar. Að auki eru komnar nýjar reglur um þátttökurétt á UEFA-B prófinu sem KSÍ þarf tíma til að kynna fyrir þjálfurum og því kemur frestunin sér vel fyrir alla aðila. Nánari upplýsingar um UEFA-B prófið veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).
 

 

13.10.03 - Fréttabréf á leiðinniFréttabréf Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands er nú á leiðinni til félagsmanna, uppfullt að efni frá ráðstefnu KÞÍ í tengslum við VISA bikarúrslitaleikinn, aðalfundi og fróðleik frá fræðslustjóra KSÍ.

 

5.10.03 - Ólafur og Vanda þjálfarar ársins hjá íþróttafréttamönnumÁ lokahófi knattspyrnumanna á Brodway voru þau Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari KR kjörin þjálfarar ársins í Landsbankadeildunum í sumar af íþróttafréttamönnum. Ólafur og Halldóra Vanda voru í síðustu viku einnig kjörin þjálfarar ársins í efstu deildum karla og kvenna hjá Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands.

 

4.10.03 - Málþing um íþróttalögfræði, fjármálaráðstefna og námskeið hjá ÍSÍFöstudaginn 17. október næstkomandi fer fram í húsnæði ÍSÍ í Laugardal málþing um Íþróttalögfræði. Það er von á góðum gestum frá Danmörku og Svíþjóð og munu þeir auk Ólafs Garðarssonar hrl. flytja erindi um þá þætti lögfræðinnar er snúa að íþróttum. Málþingið hefst kl. 14:00 og er aðgangur ókeypis.

Hin árlega Fjármálaráðstefna ÍSÍ fara fram föstudaginn 31. október nk. Að þessu sinni verður hún haldin á Grand Hótel Reykjavík og hefst hún kl. 16:00.

Þá eru fjölmörg þjálfaranámskeið á dagskrá í mánuðinum auk annarra viðburða hjá sambandsaðilum. Frekari upplýsingar um alla þessa viðburði má finna á heimasíðu ÍSÍ.

 

1.10.03 - Þjálfarastyrkir ÍSÍVerkefnasjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands auglýsir til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að sækja námskeið eða kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 10 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.- Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina.
Umsóknum með lýsingu á náms- og starfsferli, auk greinargóðrar lýsingar á fyrirhugaðri ráðstöfun styrksins og ávinningi íþróttahreyfingarinnar af henni, skal skilað til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir fimmtudaginn 23. október nk. Umsóknareyðublöð (pdf.skjal) er hægt að nálgast á heimasíðu ÍSÍ og á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal.

 

27.9.03 - Vel heppnuð og fjölmenn ráðstefna og aðalfundur KÞÍÍ tengslum við VISA bikarúrslitaleikinn milli FH og ÍA hélt Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands í samvinnu við KSÍ ráðstefnu, og á sama tíma fór fram aðalfundur KÞÍ. Ráðstefnan var vel sótt og ríkti mikil og almenn ánægja með það sem þar var á dagskrá. Ólafur Davíð Jóhannesson þjálfari FH og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari KR voru útnefnd þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna fyrir árið 2003. Fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka voru þau Sigurlín Jónsdóttir, Lárus Rúnar Grétarsson og Úlfar Hinriksson heiðruð. Að auki voru á sama tíma þeir Kjartan Másson, Guðni Kjartansson og Helgi Þorvaldsson sæmdir gullmerki Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands fyrir áratuga löng störf þeirra við knattspyrnuþjálfun. Fleiri fréttir frá ráðstefnunni og aðalfundinum munu berast félagsmönnum í fréttabréfi KÞÍ og birtast hér á heimasíðunni fljótlega.

 

26.9.03 - Frans Hoek með þjálfaranámskeiðKSÍ stendur fyrir komu markmannsþjálfarans Frans Hoek, en hann mun halda hér námskeið 24. - 26. október næstkomandi í Fífunni í Kópavogi. Frans Hoek hefur undanfarin 6 ár verið markmannsþjálfari Barcelona og hefur einnig starfað sem markmannsþjálfari Ajax og hollenska landsliðsins. Þá hefur hann einnig verið fyrirlesari á vegum FIFA og UEFA til fjölda ára. Það er því ljóst að hér er toppþjálfari á ferð og KSÍ vonast eftir því að sem flestir sjái sér fært að mæta á námskeiðið. Frans Hoek hélt námskeið á Íslandi árið 1996 og þá mættu um 60 þjálfarar og almennt ríkti mikil ánægja með það námskeið. Þjálfun markvarðarins er líka eitthvað sem flestir þjálfarar geta bætt sig í. KSÍ vonast eftir fjölmennu og áhugaverðu námskeiði.

Verð er aðeins 5.000 krónur. Fyrirlestrarnir fara fram á ensku.

Skráning er hafin hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni fræðslustjóra KSÍ í síma 510-2909 og á tölvupósti siggi@ksi.is

 

26.9.03 - Breyting á dagskrá ráðstefnu KÞÍVegna forfalla Guðna Bergssonar hefur orðið breyting á dagskrá ráðstefnunnar sem haldin verður í tengslum við úrslitaleik VISA bikarsins. Rétta dagskrá má sjá hér neðar. Einnig má geta þess vegna fjölda fyrirspurna að hádegisverður og aðgöngmiði á leikinn er innifalið í verði ráðstefnunar.

 

26.9.03 - Háttvísidagur FIFA laugardaginn 27. septemberLaugardaginn 27. september verður háttvísidagur Alþjóða Knattspyrnusambandsins (FIFA Fair Play Day) haldinn hátíðlegur í 7. sinn, en hann var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1997. Minnt verður á háttvísidaginn um allan heim með ýmsum hætti.

Háttvísi er nokkuð sem aldrei má gleymast í knattspyrnu, því háttvísi er veigamikill þáttur í því að gera knattspyrnuna að vinsælustu íþróttagrein í heimi. Á háttvísidegi minna leikmenn, þjálfarar, dómarar og knattspyrnuáhugafólk um allan heim á að besta leiðin til að leika knattspyrnu er að leika af háttvísi. Háttvísi er það sem gerir knattspyrnuna þess virði að leika hana. Hjálpumst því öll að við að gera háttvísidag FIFA eftirminnilegan!

 

22.9.03 - Húfan og merkið á leiðinni í póstiÍ dag, 22. september, fóru húfurnar og merkið sem fylgdi félagsgjaldinu að þessu sinni í póst til félagsmanna. Þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og ekki hafa fengið sendingu í lok vikunnar eru beðnir að tilkynna það með því að senda póst til KÞÍ.

 

22.9.03 - Magnús og Jóhann ætla að hættaFélagarnir Magnús og Jóhann, þó ekki dúettinn vinsæli úr Keflavík, heldur stjórnarmenn í KÞÍ hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í stjórn KÞÍ á aðalfundi KÞÍ á laugardaginn kemur, en Magnús hefur verið í stjórn KÞÍ undanfarin fimm ár, en Jóhann fjögur ár.

 

19.9.03 - Þjálfararáðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikarsinsÞjálfararáðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikarsins
Laugardaginn 27. september n.k. í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal

Dagskrá:
10:00 Ávarp
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ.
10:05 Málefni A landsliðs karla
Logi Ólafsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.
10:55 Kaffi
11:05 UEFA B próf í knattspyrnuþjálfun
Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ.
11:25 Spáð í VISA bikarúrslitaleikinn
Bjarni Jóhannsson, knattspyrnuþjálfari fer yfir liðin sem leika til úrslita.
12:00 Þjálfarar liðanna sem leika til úrslita
Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Ólafur Þórðarson þjálfari ÍA
12:20 Þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna
Þjálfarar ársins útnefndir
12:30 Hádegisverður á Grand hótel
14:00 Úrslitaleikur VISA bikarsins, FH – ÍA
16:00 Pallborðsumræður um leikinn
Logi Ólafsson, Willum Þór Þórsson og Bjarni Jóhannsson.
17:00 Aðalfundur KÞÍ
Venjuleg aðalfundarstörf.
17:30 Léttar veitingar í boði KÞÍ.

Ráðstefnustjóri er Magnús Pálsson

Verð Kr. 2.500,- fyrir félagsmenn KÞÍ
Kr. 5.000,- fyrir ófélagsbundna

Skráning fer fram með því að senda póst hér eða í síma hjá:
Sigurður Þórir 861-9401, Njáll 862-5616, Magnús 897-4157, Ómar 664-4498, Jóhann 899-1971, Jörundur Áki 821-9294, Elísabet 899-12769 eða hjá KSÍ í síma 510-2900 fyrir kl. 12:00 föstudag 26.september.

 

19.9.03 - Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags ÍslandsAðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn í tengslum við ráðstefnu KÞÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal laugardaginn 27. september n.k. klukkan 17:00.

Dagskrá:
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Kosning formanns, meðstjórnenda og varamanna skv. ákvæði 7. gr. laga
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald skv. 6. gr. laga
Önnur mál

Þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir
Veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka
Heiðursviðurkenningar

Boðið verður upp á léttar veitingar að loknum aðalfundi.

Stjórn KÞÍ hvetur félagsmenn sína til að mæta.

 

16.9.03 - Þjálfaranámskeið KSÍ I (A-stig)KSÍ I þjálfaranámskeiðið verður haldið 17-19.október næskomandi í sal
Þróttaraheimilisins, Félagsheimili Keflavíkur og í Reykjaneshöll. Athugið að námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og því þurfa þátttakendur að hafa með sér útbúnað til knattspyrnuiðkunar á laugardag og sunnudag. Í fyrra var gríðarleg aðsókn og því mælum við með að fólk skrái sig sem fyrst. Skráning er hafin á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900. Frekari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðstustjóri KSÍ, í síma 510-2909.

 

15.9.03 - Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikarsinsEins og undanfarin ár stendur KÞÍ í samvinnu við KSÍ fyrir ráðstefnu í tengslum við úrslitaleik VISA bikarsins. Að þessu sinni verður ráðstefnan í salarkynnum ÍSÍ í Laugardal og hefst kl. 10:00 laugardaginn 27. september n.k. Dagskráin er ekki endanlega ákveðin en verður með svipuðu sniði og áður. Aðalfundur KÞÍ verður haldinn í lok ráðstefnunnar og þar verða þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Nánar auglýst síðar.

 

12.9.03 - KSÍ með knattspyrnukynningu í SmáralindÍ tilefni Heilsu- og hvatningardaga ÍSÍ verður KSÍ með kynningu á knattspyrnu í Vetrargarðinum í Smáralind á morgun (laugardag) á milli klukkan 13.00 og 15.30. U-19 ára landslið kvenna mun verða á staðnum í landsliðstreyjum og leika listir sínar ásamt því að gefa plaköt af landsliðunum. Þá verður Íslandsbikarinn í meistaraflokki karla til sýnis, en KR-ingar fá hann svo afhentan á sunnudaginn. Börnum mun einnig gefast kostur á að reyna skothittni sína, en KSÍ verður með mark sem hægt verður að skjóta á og KSÍ dúkinn. Það er tilvalið að kíkja til okkar í Smáralindina og mæta svo á Laugardalsvöllinn klukkan 16.00 og styðja A-landslið kvenna til sigurs gegn Póllandi.

 

2.9.03 - Námskrá þjálfaranámskeiða KSÍ á fræðsluvefinnNú er námskrá þjálfaranámskeiða KSÍ komin á Fræðsluvefinn. Námskráin var upphaflega gerð á ensku þar sem hún þurfti að vera samþykkt af UEFA, en nú hefur samþykki UEFA náðst og því hefur námskráin verið þýdd yfir á íslensku. Hægt er að sjá námskrána með því að velja Þjálfaranámskeið á Fræðsluvefnum. Í námskránni kemur fram heildarskipulag þjálfaranámskeiðanna, dagskrá hvers námskeiðs (KSÍ I,II,III, og IV), upplýsingar um UEFA-B prófið og margt fleira. Þess má geta að áætlað er að halda UEFA-B prófið 22. nóvember næstkomandi. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).
 

 

2.9.03 - Knattspyrnuskóli fyrir stráka og stelpur, 13 ára og eldriSkólinn er fyrir 4., 3., 2., og meistaraflokk karla og kvenna. Skipt verður niður í hópa eftir getu svo allir fái sem mest út úr námskeiðinu. Sérstaklega verður lögð áhersla að fá stráka og stelpur sem æfa í 2. og 3. flokki og er farið í styrkleika og veikleika hvers nemanda. Skólanum er ekki ætlað að fara í samkeppni við æfingar íþróttafélaganna, en frekar sem öflug viðbót sem vinna á í samstarfi við félögin og í góðu sambandi. Sérstök markmannsþjálfun er á námskeiðinu og er Bjarni Sigurðsson fyrrverandi landsliðsmarkvörður yfirþjálfari markmanna. Nokkrir hæfustu þjálfarar landsins munu sjá um þjálfunina auk þess sem Arnór Guðjohnsen, Guðni Bergsson, Eyjólfur Sverrisson og Sigurður Jónsson munu miðla af sinni ómetanlegu reynslu. Yfirþjálfarar eru Þorlákur Árnason og Zeljko Zankovic.

Námskeiðin verða haldin í Fífunni og Egilshöll. Í boði eru 3 námskeið á hvorum stað:
• 10 vikur, hefst 22. september
• 5 vikur, hefst 22. september
• 5 vikur, hefst 29. október

Athugið að einungis er pláss fyrir 80 nemendur á hverju námskeiði. Allar frekari upplýsingar á www.kreditkort.is/fotboltiwww.knattspyrnuskoli.com. Skráning í símum 896 1523, 820 5769 og á skraning@knattspyrnuskoli.com.

 

 

19.8.03 - Dagatal þjálfaranámskeiða uppfærtUppfærður hefur verið listi yfir þjálfaranámskeið ÍSÍ og sérsambanda á komandi hausti. Búið er setja inn dagsetningar á flest námskeið ÍSÍ en til viðbótar eiga eftir að koma dagsetningar á almenn þjálfaranámskeið á Vestfjörðum (Ísafirði og Patreksfirði), Vesturlandi (Snæfellsnesi) og Suðurlandi. Þá hafa nokkur sérsambönd fest dagsetningar á sínum námskeiðum en mörg sérsambönd eru þessa stundina að setja saman mótatöflu og dagskrá vetrarins og má því búast við frekari upplýsingum á næstunni. Í næstu viku munu nánari upplýsingar um þessi námskeið verða sett á vefinn og því er um að gera að fylgjast vel með. Sjá nánar á heimasíðu ÍSÍ
 

 

19.8.03 - Ný ritgerð á FræðsluvefnumEysteinn Pétur Lárusson og Ingvi Sveinsson hafa gefið KSÍ leyfi fyrir því að birta ritgerð þeirra félaga til B.Ed. gráðu með von um að hún nýtist þjálfurum og félögum í starfi þeirra. Þeir félagar eru báðir leikmenn Þróttar R. og þjálfa yngri flokka þar. Ritgerðina má skoða á Fræðsluvef KSÍ ef smellt er á Greinar og viðtöl.

 

12.8.03 - Góð viðbrögð við félagsgjaldinuNú hafa 171 knattspyrnuþjálfari greitt félagsgjaldið fyrir árið 2003 og er það stjórn KÞÍ mikið fagnaðarefni hversu vel knattspyrnuþjálfarar hafa brugðist við heimsendum greiðsluseðlum. Í fyrra greiddu rúmlega 240 manns félagsgjaldið og er það von stjórnar KÞÍ að þeir verði enn fleiri að þessu sinni, en þess má geta að derhúfa og barmmerki KÞÍ fylgir með félagsgjaldinu að þessu sinni eins og sjá má í frétt hér neðar.

 

12.8.03 - Lyfjapróf í knattspyrnuLyfjaeftirlit ÍSÍ hefur lyfjaprófað eftirtalda leikmenn í sumar: Slobodan Milisic og Sören Byskov KA, Þórhall Dan Jóhannsson og Helga Val Daníelsson Fylki, Eddu Garðarsdóttur og Hólmfríði Magnúsdóttur KR, Valdísi Rögnvaldsdóttur og Sif Atladóttur FH, Elfu Ásdísi Ólafsdóttur og Svövu Sigurlásdóttur ÍBV, Lilju Kjalarsdóttur og Hörpu Þorsteinsdóttur Stjörnunni. Samkvæmt frétt á vef ÍSÍ liggja niðurstöður nú fyrir og fundust engin lyf af bannlista í sýnunum. Þess má geta að eftir landsleik Íslands og Færeyja í júní voru tveir leikmenn úr hvoru liði teknir í lyfjapróf á vegum UEFA. Arnar Þór Viðarsson og Helgi Sigurðsson voru dregnir út og fóru í próf. Niðurstöður úr þessum prófum hafa einnig borist og fundust engin lyf af bannlista í sýnunum.
 

 

11.7.03 - Derhúfa og barmmerki til þeirra sem greiða félagsgjaldiðUm þessar mundir er félagsmönnum að berast greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2003. Félagsgjaldið er kr. 2500 eins og undanfarin ár og hefur stjórn KÞÍ reynt að hafa eitthvað innifalið í því fyrir félagsmenn. Að þessu sinni fá félagsmenn sem greiða félagsgjaldið fyrir 10. september veglega derhúfu með ísaumuðu merki félagsins í auk þess sem barmmerki KÞÍ fylgir með. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og áður og greiði félagsgjaldið semm fyrst, en þess má geta að tæplega 250 knattspyrnuþjálfarar greiddu árgjaldið í fyrra.

 

1.7.03 - Breyting á kynningu á æfinga og keppnisaðstöðu í TyrklandiKynningarfundurinn verður á fimmtudaginn 3. júlí kl. 20:00 á sama tíma. Sjá nánar neðar.

 

1.7.03 - Gögn af ráðstefnu um þjálfun barnaFjöldi fólks hefur haft samband við KSÍ og beðið um gögnin sem voru afhend á sameiginlegri ráðstefnu KSÍ og ÍSÍ um þjálfun barna í knattspyrnu þann 31. maí síðastliðinn. Gögnunum hefur nú verið komið fyrir á fræðsluvef KSÍ ásamt svörum við spurningum ráðstefnugesta. Farið á Fræðsluvef KSÍ og smellt er á Greinar og viðtöl.

 

1.7.03 - Viðtöl á fræðsluvefnumKSÍ mun öðru hvoru birta viðtöl á fræðsluvefnum við þjálfara og aðra sem tengjast knattspyrnunni. Viðtölin eru hugsuð þannig að þau séu lærdómsrík og fræðandi fyrir þá sem tengjast knattspyrnunni á Íslandi. Fyrsta viðtalið er við Mist Rúnarsdóttur, þjálfara 5. og 6. flokks kvenna um eflingu kvennaknattspyrnunar í Þrótti Reykjavík. Í viðtalinu kemur m.a. fram að hjá Þrótti hefur stelpum sem æfa knattspyrnu fjölgað um 238% á tveimur árum. Viðtalið má sjá á Fræðsluvef KSÍ ef smellt er á Skýrslur og viðtöl.
 

 

1.7.03 - Ætlar þú á þjálfaranámskeið í haust ?Á fræðsluvef KSÍ er nú komin áætlun um hvenær stefnt er á að hafa þjálfaranámskeið KSÍ í haust. Öll námskeið eru háð því að lágmarksþátttaka fáist en hún hefur miðast við 12-15 manns. Stefnt er að því að halda KSÍ-I námskeiðin einnig á landsbyggðinni í haust. Farið á ksi.is og á Fræðsluvefur og veljið þar Þjálfaranámskeið til að sjá fyrirhugaðar dagsetningar á þjálfaranámskeiðunum. Skráning hefst 3 vikum fyrir viðkomandi námskeið. Einnig er stefnt að því að halda UEFA- B próf laugardaginn 22.nóvember. Það er líklegt að þjálfurum á landsbyggðinni gefist kostur á að þreyta prófið nálægt sinni heimabyggð og þurfi því ekki að koma til Reykjavíkur til að taka prófið. Nánari upplýsingar um framkvæmd prófsins verða veittar síðar.

 

30.6.03 - Kynning á æfinga og keppnisaðstöðu í TyrklandiFimmtudaginn 3. júli n.k. kl. 20:00 munu tveir aðilar frá tyrkneskri ferðaskrifstofu i samráði vid Þór Hinriksson knattspyrnuþjálfara verða með kynningu á glæsilegri æfinga og keppnisaðstöðu i Tyrklandi fyrir knattspyrnufélög og golfara. Ætlunin er að vera með beint flug frá Íslandi næsta vetur og gist verður á fimm stjörnu hóteli og verð pr. mann er um 65.000 með fullu fæði. Knattspyrnuþjálfarar eru hvattir til að kynna sé þessa nýjung og mæta á kynninguna sem verður í salarkynnum ÍSÍ í Laugardal, 3. hæð á fimmtudaginn kl. 20:00.

 

19.6.03 - Cardaklija hættur með SindraHajrudin Cardaklija er hættur sem þjálfari Sindra frá Hornafirði en hann hefur stjórnað því hálft fjórða ár. Sindri féll úr 1. deildinni í fyrra og situr nú í botnsæti 2. deildar. Hann hefur verið leikmaður og síðan þjálfari hjá Sindra í 5 ár. Nihad "Sober" Hasesic er tekinn við þjálfun Sindra en hann hefur spilað með liðinu frá árinu 1998.

 

19.6.03 - Ásgeir og Logi ráðnir landsliðsþjálfararKnattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson sem þjálfara A- landsliðs karla. Þeir höfðu áður verið ráðnir tímabundið en nú hefur verið gengið frá því að þeir munu stjórna liðinu til haustsins 2005 eða út riðlakeppni HM 2006. Ásgeir og Logi munu í sameiningu stjórna landsliðinu næstu tvö árin. Stjórn KSÍ hafði í byrjun maí samþykkt að freista þess að fá erlendan þjálfara í starf landsliðsþjálfara en í ljósi góðs árangurs Ásgeirs og Loga hefur stjórn KSÍ samþykkt að ráða þá í starfið. Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands fagnar þessari ákvörðun stjórnar KSÍ og lýsir yfir ánægju með það að stjórn KSÍ hafi snúist hugur frá fyrri ákvörðun. Stjórn KÞÍ óskar Ásgeiri og Loga velfarnaðar í starfi.

 

19.6.03 - Gögn af ráðstefnu um þjálfun barnaFjöldi fólks hefur haft samband við KSÍ og beðið um gögnin sem voru afhend á sameiginlegri ráðstefnu KSÍ og ÍSÍ um þjálfun barna í knattspyrnu þann 31. maí síðastliðinn. Gögnunum hefur nú verið komið fyrir á fræðsluvef KSÍ ásamt svörum við spurningum ráðstefnugesta. Gögnin er þar að finna undir Skýrslur. Farið á ksi.is

 

16.6.03 - Jörundur Áki leystur frá störfumStjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks hefur ákveðið að leysa Jörund Áka Sveinsson frá störfum sem þjálfara meistaraflokks karla. Stjórnin harmar að þurfa að grípa til þessara ráðstafana en telur þær óhjákvæmilegar í ljósi núverandi stöðu liðsins. Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur átt gott samstarf við Jörund Áka um langt árabil og óskar honum velfarnaðar. Jón Þórir Jónsson hefur tekið við stjórn liðsins.

 

6.6.03 - Kristinn Rúnar hættur með FramKristinn Rúnar Jónsson hefur látið af störfum sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Fram í knattspyrnu. Ekki er ljóst á þessari stundu hver tekur við þjálfun liðsins. Fram er í neðsta sæti deildarinnar með tvö stig eftir fjóra leiki.

 

6.6.03 - Póstlisti fyrir þjálfaraKSÍ hefur sett á fót póstlista fyrir knattspyrnuþjálfara og er hægt að skrá sig á listann á forsíðu fræðsluvefs KSÍ. Skráningin er ókeypis og er hugsuð sem þjónusta fyrir knattspyrnuþjálfara og aðra áhugasama um knattspyrnuþjálfun. Þeir sem skrá sig á póstlista KSÍ munu fá sendar ýmsar upplýsingar sem tengjast þjálfurum á Íslandi, upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ, auglýstar ráðstefnur og fleira sem tengist knattspyrnuþjálfun og knattspyrnuiðkun.

 

25.5.03 - Á eftir bolta kemur barnKSÍ og ÍSÍ í samstarfi við Eimskip halda ráðstefnu undir yfirskriftinni Á eftir bolta kemur barn. Sjá dagskrá ráðstefnunnar.

 

22.5.03 - Ráðstefnu um þjálfun barna í knattspyrnuLaugardaginn 31. maí næstkomandi halda KSÍ og ÍSÍ saman ráðstefnu um þjálfun barna í knattspyrnu á Hótel Loftleiðum. Á ráðstefnunni koma m.a. fram þekktir knattspyrnuþjálfarar og leikmenn og ræða um þjálfun barna í knattspyrnu að 12 ára aldri. Stefnt er á að að gera ráðstefnuna að árvissum viðburði ef vel tekst til. Ráðstefnan stendur yfir frá 13.00 til 17.00, er öllum opin og aðgangur er ókeypis, en þó þurfa þátttakendur að skrá sig með því að senda tölvupóst á andri@isisport.is. Þjálfarar og foreldrar barna í knattspyrnu eru boðnir sérstaklega velkomnir. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson Fræðslustjóri KSÍ.

 

21.5.03 - Gagnagrunnur þjálfara 2003KSÍ vekur athygli á að nú er verið að koma upp gagnagrunni yfir þjálfara landsins hjá öllum aðildarfélögunum árið 2003, þannig að hægt sé að nálgast þær upplýsingar á www.ksi.is. KSÍ hefur beðið aðildarfélög sín um að senda eftirfarandi upplýsingar: Nafn þjálfara og hvaða flokk hann/hún þjálfar, kennitölu, símanúmer, GSM-númer og netfang. Vinsamlegast sendið upplýsingarnar á siggi@ksi.is.
 

 

21.5.03 - UEFA B umsókn KSÍ samþykkt af UEFAUEFA B umsókn KSÍ var samþykkt á fundi UEFA í dag. Á bak við umsóknina lá mikil vinna fræðslustjóra og fræðslunefndar KSÍ, ásamt kennurum þjálfaranámskeiða KSÍ. Samþykki UEFA á umsókninni eru jafnframt miklar gleðifregnir fyrir knattspyrnuþjálfara á Íslandi. Samþykki UEFA þýðir að þeir sem hafa lokið fyrstu 4 þjálfaranámskeiðum KSÍ (KSÍ I, II, III og IV - eða A, B, C og fyrri hluta D-stigs) gefst nú færi á að þreyta UEFA B prófið í haust. Prófið er skriflegt og mun verða auglýst með góðum fyrirvara. Þeir sem ná prófinu munu hljóta alþjóðleg þjálfararéttindi sem verða metin um alla Evrópu. Þetta mun auðvelda knattspyrnuþjálfurum á Íslandi að fá þjálfarastöður erlendis og að fá þjálfararéttindi sín metin þar. Nánari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ má finna á fræðsluvef KSÍ.

 

15.5.03 - Logi hægri hönd ÁsgeirsKSÍ hefur náð samkomulagi við Loga Ólafsson um að starfa sem þjálfari landsliðsins og hægri hönd Ásgeirs Sigurvinssonar landsliðsþjálfara í komandi leikjum. Þeir munu vinna náið saman að þjálfun og stjórnun liðsins.

 

15.5.03 - Handbók KSÍ er kominHandbók KSÍ fyrir árið 2003 er komin úr prentun. Hún fæst á skrifstofu Knattspyrnusambandsins á Laugardalsvelli og kostar kr. 1.000. Handbókin er gefin út á hverju ári og inniheldur m.a. upplýsingar um stjórn og starfsfólk KSÍ, aðildarfélög, lög og reglugerðir, auk dagatals leikja 2003. Símaskrá KSÍ fyrir 2003 fæst einnig á skrifstofunni og kostar hún kr. 500. Í henni má finna upplýsingar um tengiliði hjá KSÍ og aðildarfélögum, upplýsingar um nefndir, eftirlitsmenn, dómara, o.fl.

 

9.5.03 - Atli ákvað að hætta sem landsliðsþjálfariSameiginleg yfirlýsing frá Atla Eðvaldssyni og KSÍ: "Atli Eðvaldsson hefur ákveðið að draga sig í hlé og láta af starfi sínu sem þjálfari A landsliðs karla. Mikil og neikvæð umræða hefur verið um störf Atla með landsliðið sem í raun hefur haft slæm áhrif á gengi liðsins. Atli dregur sig í hlé í þeirri von að liðinu takist að snúa blaðinu við og fá stuðning þjóðarinnar í komandi leikjum sem eru gríðarlega mikilvægir fyrir íslenska knattspyrnu." Atli hafði samband við Eggert Magnússon, formann KSÍ, að loknum leiknum gegn Finnlandi á dögunum og óskaði eftir því að láta af störfum. Eftir nokkra umhugsun ákvað Eggert að fallast á ósk Atla. Atli hefur starfað hjá KSÍ sem þjálfari í tæp 8 ár, fyrst 4 ár með U21 landsliðið og síðan með A landsliðið. Ásgeir Sigurvinsson tekur við stjórn liðsins tímabundið. Ásgeir Sigurvinsson hefur verið í tengslum við íslenska landsliðið undanfarin ár, en hann hefur setið í landsliðsnefnd. Hann var einn af bestu knattspyrnumönnum Evrópu á 9. áratugnum og lék við góðan orðstír í Belgíu og Þýskalandi. Ásgeir lék á árunum 1972-1989 alls 45 landsleiki fyrir Íslands hönd, þar af 7 sem fyrirliði, og skoraði í þeim 5 mörk.

 

3.5.03 - Nýjungar í samningi við FÍÍ dag, 30. apríl, undirrituðu Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri ÍSÍ nýjan samning um flugfargjöld í innanlandsflugi. Samningurinn gildir til 31. desember 2003. Engar hækkanir urðu á flugfargjöldum á milli ára en sú breyting var gerð á, til hagsbóta fyrir íþróttahreyfinguna, að nú verður hægt að kaupa einnar leiðar fargjald á alla áætlunarstaði FÍ. Þetta á eftir að koma sér vel fyrir hreyfinguna og er forysta ÍSÍ afar ánægð með að samningar náðust um þetta hagsmunamál. Þessi samningur mun vonandi nýtast hreyfingunni vel og hvetjum við sambandsaðila ÍSÍ til að nýta sér þennan valkost eins og kostur er.

 

3.5.03 - Ráðstefna KSÍ og ÍSÍ um íþróttir barna og unglingaKnattspyrnusamband Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands munu standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu um íþróttir barna og unglinga laugardaginn 31. maí n.k. frá kl. 13:00 - 17:00. Nánar á isisport.is

 

3.5.03 - Guðmundur gaf KÞÍ myndband um markmannsþjálfunÁ matarfundi KÞÍ fyrir stuttu kvaddi Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfarinn góðkunni, sér hljóðs og kynnti nýtt myndband sem hann er að gefa út um markmannsþjálfun. Á myndbandinu fer Guðmundur í grunnþjálfun í markmannsþjálfun og er þetta fyrsta alíslenska myndbandið um þjálfun knattspyrnumanna svo vitað sé. Margir knattspyrnuþjálfarar hafa átt í erfiðleikum með markmannsþjálfunina hjá sér og ætti þetta myndband að gera mönnum kleift að haga þjálfun markmanna sinna eins og best verðurá kosið. Guðmundur afhenti Sigurði Þóri Þorsteinssyni myndband númer tvö, en áður hafði Guðmundur afhent KSÍ myndband númer eitt. Guðmundur býður félagsmönnum í KÞÍ að kaupa myndbandið með fimm hundruð króna afslætti, en nánari upplýsingar um hvernig það fer fram, má sjá hér neðar á síðunni.

 

3.5.03 - Góður matarfundur á NaustinuLaugardaginn 26. apríl s.l. stóð KÞÍ fyrir matarfundi á Veitingahúsinu Naustið við Vesturgötu. Um 30 þjálfarar mættu og áttu góða kvöldstund saman. Logi Ólafsson var ræðumaður kvöldsins og fræddi fundarmenn um muninn á þjálfun knattspyrnumanna í Noregi og á Íslandi. Bjarni Jóhannsson var veislustjóri og fórst það vel úr hendi. Gestir voru ánægðir með kvöldið og ljóst að matarfundir þessir eru komnir til að vera. Hér má sjá nokkrar myndir frá Matarfundinum.

 

1.5.03 - Markmannsþjálfun Guðmundar HreiðarssonarKennslumyndband Guðmundar Hreiðarssonar, MARKMANNSÞJÁLFUN er komið út og var framleitt af AXA.

Í myndbandinu er farið í ýmsar grunnæfingar í markmannsþjálfun þar sem markmennirnir Atli Knútsson, Kjartan Sturluson og Þóra Helgadóttir sýna okkur, ásamt markmannsþjálfaranum Guðmundi Hreiðarssyni. Einnig er farið á æfingu hjá íslenska landsliðinu í fótbolta þar sem landsliðsmarkmennirnir Árni Gautur Arason og Birkir Kristinsson eru í aðalhlutverki.

Þetta kennslumyndband er fyrir alla þjálfara og markmenn sem vilja bæta grunnþjálfun. Það er von mín að kennslumyndband þetta verði til þess að hjálpa markmönnum og þálfurum að gera hlutina enn betri og að áhugi á faglegri þjálfun markmanna komi til með að aukast og skila árangri í komandi framtíð, því við þurfum að eignast betri markmenn.

Myndbandið er komið í sölu og selt meðal annars í póstkröfu. Tekið er við pöntunum á axa@axa.is en myndbandið kostar aðeins kr. 3000,- tilboð til félagsmanna í KÞI kr 2.500,-

"Góður markmaður er hálfnað verk í að byggja upp gott lið
Sepp Maier Markmannsþjálfari Bayern Munchen og Þýska Landsliðsins"

 

24.4.03 - Ný heimasíðaHeimasíða KÞÍ var tekin í gegn um páskana og opnuð í dag sumardaginn fyrsta. Búið er að gera hana mun aðgengilegri og einfaldari og vonandi á hún eftir að slá í gegn. Ábendingar eru vel þegnar varðandi það sem betur má fara. Gleðilegt knattspyrnusumar.

 

24.4.03 - Formannspistill úr Fréttabréfi KÞÍ - 1.tbl 5. árgÁgætu knattspyrnuþjálfarar !

Það eru aðeins nokkrar vikur þar til að Íslandsmótið í knattspyrnu hefst. Eins og alltaf nota menn misjafnar aðferðir við þjálfunina, bæði á undirbúningstímabilinu og keppnistímabilinu sjálfu. Það er ekkert launungamál að knattspyrnuhallirnar hafa gjörbyllt allri umgjörð í knattspyrnumálum á Íslandi á undanförnum árum. Nú eru komnar fjórar slíkar hallir á landinu, nýlega komu EGILSHÖLL í Reykjavík, FÍFAN í Kópavogi, BOGINN á Akureyri til notkunar og REYKJANESHÖLLIN í Reykjanesbæ hefur verið í notkun í nokkur ár.

Talsvert hefur verið rætt um að fjölga liðum í efstu deild karla og var einmitt tillaga um það sett í milliþinganefnd á síðasta ársþingi KSÍ, en tillagan gerði ráð fyrir að breytingin kæmi til framkvæmda á árinu 2006. Með tilkomu knattspyrnuhallanna sé ég ekkert því til fyrirstöðu að sú breyting geti átt sér stað, og komi til framkvæmda 2006 og jafnvel fyrr.

Mörg félög leggja land undir fót um þessar mundir og fara í æfinga- og keppnisferðir, og þá aðallega til Spánar eða Portúgal að þessu sinni. T.d. er sterkt mót sem haldið er á Spáni, CANDELA CUP, þar sem sex úrvalsdeildarlið og eitt fyrstudeildarlið karla taka þátt. Veðurfarið hefur verið það gott í vetur hér á Íslandi að vitað er til þess að einhver félög eru nú þegar byrjuð að æfa á grasi og er það vel. Það þarf ekki alltaf að fara eftir dagatalinu hvenær byrjað er á grasi, heldur verða menn að fara eftir aðstæðum hverju sinni.

Eins og knattpyrnuþjálfarar vita höfum við tekið upp upprunalega merki KÞÍ aftur og nú hefur stjórn félagsins látið útbúa barmmerki og silfur- og gullmerki félagsins, en hugmyndirnar um þau eru kynntar nánar í þessu fréttabréfi.

Ég vil minna menn á hinn árlega matarfund Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands sem verður haldinn á Veitingahúsinu NAUST laugardaginn 26. apríl n.k. Veislustjóri verður Bjarni Jóhannsson þjálfari Grindavíkur. Logi Ólafsson, sá kunni knattspyrnuþjálfari, verður með fyrirlestur þar sem hann mun bera saman knattspyrnuþjálfun á Íslandi og í Noregi. Matarfundir þessir hafa heppnast mjög vel fram að þessu, en þetta er í fimmta sinn sem slíkur fundur er haldinn, og hvet ég alla sem hafa mætt á þessi kvöld til að mæta áfram og hvetja aðra knattspyrnuþjálfara sem ekki hafa komið áður til að mæta.

Ég vil að lokum óska öllum knattspyrnuþjálfurum góðs gengis í lokaundirbúningi sínum fyrir Íslandsmótið og hvet um leið alla knattspyrnuþjálfara til að vera ákveðna en sanngjarna í sínu starfi. Það er eitt sem er óþolandi að horfa upp á, en það er þegar þjálfarar eru að munnhöggvast á hliðarlínunni við hvern annan. Talsvert hefur verið um þetta í vetur, þetta er barnalegt og hvet ég alla sem hafa verið að stunda þetta að láta af þessum ósið og það strax, þetta er knattspyrnuþjálfarastéttinni til skammar. Auðvitað geta menn misst eitthvað út úr sér í hita leiksins, en menn eiga að bera virðingu fyrir störfum hver annars, og skilja sáttir að leik loknum, annað er barnaskapur.

Einnig hvet ég knattspyrnuþjálfara til að vinna vel og skipulega með samstarfsfólki sínu og starfsfólki íþróttamannvirkja, það er gott fyrir okkur að hafa þetta fólk með okkur.

Gangi ykkur öllum vel í sumar !

Sigurður Þórir Þorsteinsson
Formaður K.Þ.Í.

 

24.4.03 - Pistill frá Fræðslustjóra KSÍÁgætu knattspyrnuþjálfarar,
Töluverðar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum misserum hvað varðar þjálfaramenntun KSÍ. Nú er loks búið að samræma allt námsefni á fyrstu fjórum þjálfarastigum KSÍ svo að endurtekningar á fyrirlestrum á milli stiga eiga að heyra sögunni til. Við höfum sótt um til UEFA að þessi fyrstu fjögur námskeið verði samþykkt sem UEFA B þjálfaragráða. Þetta hefur verið mikil vinna og er mikið hagsmunamál fyrir íslenska knattspyrnuþjálfara. Fari svo að KSÍ fái samþykki frá UEFA þann 20.maí næstkomandi þegar umsókn okkar verður tekin fyrir, mun öllum knattspyrnuþjálfurum á Íslandi sem lokið hafa KSÍ I, II, III og IV (A, B, C og fyrri hluta D-stigs), bjóðast að gangast undir skriflegt próf til að fá þessa gráðu. Þessi réttindi eru alþjóðleg og munu auðvelda íslenskum knattspyrnuþjálfurum að fá réttindi sín metin erlendis og eru um leið gæðastimpill á þjálfaranámskeiðum KSÍ. Einnig mun þessi stimpill auðvelda íslenskum þjálfurum að fá þjálfarastörf erlendis. Undirbúningur að næstu þjálfaragráðu UEFA (UEFA A) er þegar hafinn.

Eins og hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum, þá er komið í gang leyfiskerfi í efstu deild karla og hluti af kröfum þess varðar menntun þjálfara. Í efstu deild karla verður gerð krafa um eftirfarandi menntun hjá þjálfurum viðkomandi flokka. Þjálfarar í meistaraflokki þurfa að hafa lokið æðstu þjálfaragráðu KSÍ sem er nú E-stig og mun væntanlega í framtíðinni verða UEFA A gráða og svo UEFA Pro gráða fyrir árið 2010. Þjálfarar í 2., 3., og 4.flokki þurfa að hafa lokið UEFA B prófi (KSÍ IV, fyrri hluti D-stigs). Þjálfarar í aldurshópunum þar fyrir neðan þurfa að hafa lokið KSÍ II (B-stigi KSÍ).

Ofangreind menntun verður krafa hjá þeim félögum sem eiga lið í efstu deild karla en KSÍ mælir auðvitað með því að þjálfarar kvennaflokka og félög í öðrum deildum leitist eftir að ná þessum markmiðum einnig. Þjálfarar sem hyggjast í framtíðinni þjálfa einhvern flokk hjá liðum í efstu deild ættu að huga að því að afla sér tilskilinna þjálfararéttinda hjá KSÍ. Þjálfaranámskeið KSÍ gengu afbragðsvel á síðasta ári og alls voru 147 þjálfarar sem sóttu þau. Útlit er fyrir að aðsóknin verði ekki minni á þessu ári og til að mynda var langfjölmennasta KSÍ III (C-stig) frá upphafi haldið 21-23. mars síðastliðinn, en þar mætti 41 þjálfari. Gríðarleg aðsókn var einnig á KSÍ I (A-stig) síðastliðið haust en þar mættu 62 þjálfarar. Þetta er jákvæð þróun sem mun skila sér í framtíðinni í betri knattspyrnu og hæfari þjálfurum. Vert er að benda á að flest félög styrkja eða borga þjálfaranámskeiðin fyrir þjálfara sína.

Þann 7.mars síðastliðinn var Fræðsluvefur KSÍ opnaður en hann er að aðgengilegur efst á heimasíðu KSÍ. Alls hafa yfir 600 manns farið inn á fræðsluvefinn þessar rúmu 3 vikur sem hann hefur verið í gangi. Á Fræðsluvef KSÍ geta knattspyrnuþjálfarar sótt sér ýmsan fróðleik, skoðað bókasafn og myndbandssafn KSÍ, nálgast kennslugögn af þjálfaranámskeiðum KSÍ, skipst á æfingum við aðra þjálfara, lesið skýrslur frá fyrirlestrum erlendis, náð sér í knattþrautir KSÍ svo eitthvað sé nefnt. Fræðsluvefurinn er vefurinn ykkar og því væri ánægjulegt að fá að heyra frá ykkur hvernig ykkur líkar vefurinn, hvaða efni mætti setja þar inn o.s.frv. Sérstaklega myndi ég fagna því að fá sendar góðar æfingar frá ykkur þjálfurum til að setja í æfingasafnið svo að úr verði öflugt æfingasafn sem getur nýst öllum.

KSÍ hefur hafið sölu á þjálfaraforritinu "The Home Ground" sem er afbragðssniðugt og einstaklega einfalt þjálfaraforrit sem fæst á hlægilegu verði á aðeins 5.000 krónur. Forritið nýtist þjálfurum í að búa til æfingar og skiptast á þeim, í töflufundi, til að sýna leikmönnum færslur og hreyfingar (animation), föst leikatriði, liðsuppstillingar o.fl. Áhugasömum þjálfurum er bent á að hafa samband við undirritaðan.

Að lokum óska ég ykkur þjálfurum velfarnaðar í starfi og hvet ykkur til að leita eftir menntun og þekkingu eftir fremsta megni, því það getur aðeins bætt starf ykkar. Knattspyrnuþjálfarafélaginu þakka ég ánægjulegt samstarf og það tækifæri að fá að koma þessum upplýsingum á framfæri. Gangi ykkur vel þjálfarar á komandi keppnistímabili.

Knattspyrnukveðja
Sigurður Ragnar Eyjólfsson , fræðslustjóri KSÍ

 

24.4.03 - Enn fjölgar félagsmönnumNú hafa 242 knattspyrnuþjálfarar greitt árgjaldi fyrir árið 2002 og hafa aldrei fleiri greitt árgjald félagsins. Stjórn KÞÍ þakkar öllum þeim sem greitt hafa félagsgjaldið og vonast eftir áframhaldandi stuðningi knattspyrnuþjálfara vítt og breytt um landið. Stjórnin hvetur félagsmenn sína til að mæta á Matarfund félagsins 26. apríl n.k. á Veitingahúsinu NAUST við Vesturgötu. Sjá nánar auglýsingu hér neðar.

 

24.4.03 - Barmmerki KÞÍKÞÍ hefur látið útbúa barmmerki félagsins og meiningin er að þeir sem greiða árgjaldið fyrir árið 2003 fái afhent merki. Einnig hafa verið útbúin gull- og silfurmerki KÞÍ sem áætlað er að nota til að heiðra knattspyrnuþjálfara sem hafa starfað vel fyrir félagið eða unnið farsælt starf við knattpyrnuþjálfun. Stjórn KÞÍ hefur skipað nefnd sem er að útbúa reglugerð um veitingu heiðursmerkja félagsins.

 

24.4.03 - Ráðinn þjálfari U-21 liðs kvennaÚlfar Hinriksson hefur verið ráðinn þjálfari U-21 landsliðs kvenna í knattspyrnu næstu tvö árin og verður hann einnig aðstoðarmaður Helenu Ólafsdóttir, þjálfara A-landsliðs kvenna. Úlfar hefur undanfarin ár starfað sem tæknistjóri hjá Breiðabliki auk þess að þjálfa yngri flokka félagsins.

 

21.4.03 - Markmaður - Færni og þjálfunKSÍ hefur sent öllum aðildarfélögum sínum eintök af bókinni Markmaður - Færni og þjálfun, en hún er einnig afhend öllum sem sækja KSÍ III (C-stigs) þjálfaranámskeið. Það er oft þannig að þjálfurum finnst þeim sjálfum vanta ákveðna þekkingu til að þjálfa markmenn vel þar sem flestir þjálfarar voru útileikmenn sjálfir. Það er því von KSÍ að þessi bók muni hjálpa þjálfurum við þjálfun sinna markvarða. Þess má geta að KSÍ gefur bókina einnig öllum helstu bókasöfnum landsins. Markmaður - Færni og þjálfun er norsk bók að uppruna, gefin út af norska knattspyrnusambandinu árið 1995, en þýdd yfir á íslensku af Bjarna Sigurðssyni, fyrrverandi landsliðsmarkmanni.

 

 

16.4.03 - Nýtt þjálfaraforrit til söluKSÍ hefur tekið til sölu nýtt þjálfaraforrit sem heitir Homeground, er á ensku og er mjög einfalt í notkun. Í forritinu er hægt að vinna með liðsuppstillingar og liðsfundi, fara yfir föst leikatriði, færslur leikmanna og búa til hreyfimyndir (animation). Einnig er hægt að búa til ótakmarkaðan fjölda af æfingum í forritinu og skiptast á æfingum við aðra þjálfara sem eiga forritið með því að senda þær sem viðhengi í tölvupósti. KSÍ mun setja inn Homeground æfingar á fræðsluvefinn innan tíðar og mun þjálfurum þannig gefast tækifæri á að sækja sér æfingar og senda inn æfingar fyrir aðra ef þeir eiga forritið. Homeground kostar aðeins 5.000 krónur og krefst mjög lítillar tölvukunnáttu. Áhugasamir hafi samband við Sigurð Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóra KSÍ (siggi@ksi.is)

 

9.4.03 - Matarfundur KÞÍ á NaustinuHinn árlegi Matarfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn laugardaginn 26. apríl n.k. á Veitingahúsinu Naust við Vesturgötu. Þetta er í fimmta sinn sem slíkur fundur er haldinn og þátttaka hefur ávallt verið góð og menn almennt ánægðir með kvöldið. Bjarni Jóhannsson þjálfari Grindavíkur verður veislustjóri og Logi Ólafsson fyrrum þjálfari Litlalæks í Noregi mun verða ræðumaður kvöldsins og fjallar fyrirlestur Loga um muninn á þjálfun knattspyrnumanna á Íslandi og í Noregi. Knattspyrnuþjálfarar eru hvattir til að taka kvöldið frá, muna að vera góðir við konunar sínar í nokkra daga, og hvetja síðan félaga sína til að mæta. Boðið verður upp á þriggja rétta máltíð. Sama lága verðið og verið hefur, 3500 krónur fyrir manninn.

 

5.4.03 - Kennslugögn af þjálfaranámskeiðumÁ fræðsluvef KSÍ er nú hægt að skoða kennslugögn af fyrstu fjórum stigum þjálfaranámskeiða KSÍ. Gögnin eru ætluð knattspyrnuþjálfurum og kennurum á sviði knattspyrnu til upplýsingar. Smellið á tengilinn hér að ofan til að komast á fræðsluvefinn.
 

 

11.3.03 - Fræðsluvefur KSÍ opnaðurOpnaður hefur verið sérstakur fræðsluvefur á heimasíðu KSÍ, www.ksi.is, en þar er að finna ýmsan gagnlegan fróðleik fyrir þjálfara, dómara, leikmenn og alla áhugamenn um knattspyrnu. Ætlunin er að koma upp öflugu æfingasafni fyrir knattspyrnuþjálfara, svo og kennslugögnum frá þjálfaranámskeiðum KSÍ. Þjálfurum og íþróttakennurum er frjálst að nota kennslugögnin af þjálfaranámskeiðunum í kennslu og þjálfun hjá sér. Farið á ksi.is til að skoða fræðsluvefinn.
 

 

11.3.03 - Þjálfarastyrkir ÍSÍVerkefnasjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands auglýsir hér með til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 10 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.- Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina. Umsóknum með lýsingu á náms- og starfsferli, auk greinargóðrar lýsingar á fyrirhugaðri ráðstöfun styrksins og ávinningi íþróttahreyfingarinnar af henni, skal skilað til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir fimmtudaginn 27. mars nk. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, eða á isisport.is. KÞÍ hvetur félagsmenn sína til aðsækja um styrkina.

 

7.3.03 - Úlfar ráðinn þjálfari U-21 árs liðs kvennaÚlfar Hinriksson hefur verið ráðinn þjálfari U-21 landsliðs kvenna í knattspyrnu næstu tvö árin og verður hann einnig aðstoðarmaður Helenu Ólafsdóttir, þjálfara A-landsliðs kvenna. Úlfar hefur undanfarin ár starfað sem tæknistjóri hjá Breiðabliki auk þess að þjálfa yngri flokka félagsins. Fyrsta verkefni Úlfars er vináttuleikur á móti Svíum sem fram fer í Egilshöllinni laugardaginn 15. mars.

 

4.3.03 - KSÍ-III þjálfaranámskeiðHaldið verður KSÍ-III (C-stigs) þjálfaranámskeið í Reykjavík 21. - 23. mars næstkomandi. Mikil þátttaka er á námskeiðinu og hafa 30 manns skráð sig nú þegar. Þátttakendur þurfa því að gera upp námskeiðið við skrifstofu KSÍ sem fyrst til að halda sæti sínu. Minnt er á að námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og þurfa þátttakendur því að hafa með sér útbúnað til knattspyrnuiðkunar. Dagskrá námskeiðsins má sjá með því að smella hér fyrir neðan, en gera má ráð fyrir lítilvægum breytingum. Námskeiðsgjald er 12.000 krónur. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu KSÍ.
 

 

2.3.03 - Þjálfaranámskeið ÍSÍ Almennur hluti 1bÞjálfaranámskeið ÍSÍ - almennur hluti 1b fer fram föstudaginn 7. mars kl. 18:00 - 21:00, laugardaginn 8, mars kl. 9:00 - 16:00 og sunnudaginn 9. mars kl. 10:00 - 16:00.
Þátttökugjald er kr. 8.000,- og eru námsgögn innifalin. Nánari upplýsingar á skrifstofu ÍSÍ.
 

 

2.3.03 - UEFA-B próf - Í fyrsta lagi næsta sumarUndanfarið hafa áhugasamir þjálfarar spurst fyrir á skrifstofu KSÍ um hvenær hið svokallaða UEFA-B próf í þjálfaramenntun verður lagt fyrir. Þeim sem lokið hafa fyrstu fjórum þjálfaranámskeiðum KSÍ mun bjóðast í framtíðinni að taka þetta skriflega próf, en það mun ekki verða haldið fyrr en í fyrsta lagi í sumar. Eins og sjá má neðar í fréttum á heimasíðunni var KSÍ að senda frá sér breytta umsókn að UEFA-B gráðunni og mun sú umsókn verða tekin fyrir á fundi UEFA í maí næstkomandi. Fari svo að samþykki fáist mun fræðslunefnd KSÍ ákveða dagsetningu fyrir UEFA-B prófið og gefa þjálfurum góðan fyrirvara til að lesa undir prófið.
 

 

2.3.03 - Viltu spila með Einherja í sumar ?Knattspyrnulið Einherja frá Vopnafirði auglýsir eftir metnaðarfullum leikmönnum fyrir komandi sumar. (markmann og útileikmenn) Tilvalið tækifæri fyrir þá sem taka vilja þátt og spila 16 leiki undir góðri stjórn og traustum þjálfara. Áhugasamir hafi sambandi við þjálfara liðsins Helga Má Þórðarson í gegnum netfangið: helgith@mi.is

 

21.2.03 - KSÍ sækir um UEFA B þjálfaragráðuKSÍ hefur sent breytta umsókn að þjálfarasáttmála UEFA, umsókn um svokallaða UEFA-B þjálfaragráðu. KSÍ sótti um þessi réttindi þann 1. maí 2002 og UEFA sendi aðila til KSÍ til að skoða þjálfaranámskeið sambandsins í nóvember 2002. UEFA fór fram á lítilvægar breytingar á námskeiðunum sem KSÍ hefur nú unnið í að breyta. Þessi breytta umsókn verður tekin fyrir á fundi UEFA í maí næstkomandi. Í stuttu máli hefur KSÍ sótt um að fyrstu fjögur þjálfaranámskeið KSÍ veiti þjálfurum UEFA-B þjálfararéttindi og munu þau réttindi þá nýtast þjálfurum til starfa alls staðar í Evrópu. Um leið yrði þetta gæðastimpill á þjálfaranámskeið KSÍ. Þá mun þetta auðvelda íslenskum þjálfurum mjög að fá réttindi sín metin erlendis. KSÍ hefur einnig hafið undirbúning að UEFA-A þjálfaragráðunni, en hún er næst í röðinni á eftir UEFA-B. Hæsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA-Pro og er stefnt að því að allir þjálfarar í efstu deild karla hafi slíka gráðu árið 2010. Nánari upplýsingar um þjálfaramenntun veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).
 

 

11.2.03 - Helena Ólafsdóttir ráðin þjálfari A kvennaHelena Ólafsdóttir hefur verið ráðin þjálfari A landsliðs kvenna til loka ársins 2004. Helena er íþróttakennari að mennt og hefur lokið III. stigi (C-stigi) í þjálfun hjá KSÍ. Hún hefur þjálfað yngri flokka KR í mörg ár, en tók við mfl. kvenna hjá Val 2002. Helena mun áfram þjálfa kvennalið Vals. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands óskar Helenu til hamingju og óskar henni velfarnaðar í starfi.

 

11.2.03 - Ráðstefna UEFA um þjálfaramenntunSigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, situr ráðstefnu UEFA um þjálfaramenntun í Vilamoura í Portúgal dagana 10. - 14. febrúar. Ráðstefnan, sem nú er haldin í 13. sinn, er sérsniðin fyrir þá aðila sem sjá um menntun þjálfara og er áherslan eins og svo oft áður lögð á meðhöndlun ungra og efnilegra leikmanna.
 

 

10.2.03 - Valdimar Pálsson er þjálfarinnValdimar Pálsson þjálfari mfl. kvenna hjá Þór/KA/KS er þjálfarinn hér á heimasíðunni hjá okkur að þessu sinni. Valdimar sem kosinn var þjálfari ársins í efstu deild kvenna í fyrra af þjálfurum liðanna í deildinni sýnir okkur þrjár skemmtilegar æfingar. Sjá ÞJÁLFARINN á forsíðunni.

 

5.2.03 - Þjálfaranámskeið 1a - almennur hlutiFöstudaginn 14. febrúar til 16. febrúar fer fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal þjálfaranámskeið 1a - almennur hluti.
Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta skipulagt og stjórnað æfingatíma hjá börnum og unglingum á byrjendastigi. Til þess þarf hann að hafa grundvallarþekkingu á líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga. Hann þarf að þekkja starfsemi líkamans auk helstu aðferða við kennslu.Vinnulag: Fyrirlestrar, verkefnavinna og verkleg æfing. Umfang: 20 kennslust. Tími: Föstudag 14. feb. kl. 18.00 - 22.00, laugardag 15. feb. kl. 09.00 - 16.00, sunnudag 16. feb. kl. 10.00 - 16.00 Skráning: ÍSÍ, sími: 514-4000 eða netfang: andri@isisport.is Skráningu þarf að vera lokið fyrir miðvikudaginn 12. febrúar Verð: 10.800 kr. og innifalið eru öll námsgögn.

 

30.1.03 - KSÍ-III (C-stigs) þjálfaranámskeiðÁkveðið hefur verið að halda KSÍ- III (C-stigs) þjálfaranámskeið í Reykjavík 21.-23.mars næstkomandi. Þátttakendur þurfa að hafa lokið KSÍ- I og KSÍ-II (A og B stigi). Helstu námskeiðsþættir eru þol- og styrktarþjálfun, grunnatriði í markvörslu, íþróttasálfræði, skyndihjálp og meiðsli í knattspyrnu, leikfræði hóps, leikgreining, reglugerðir KSÍ og háttvísi og knattspyrnuleg markmið félags. Þá verður einnig kynning á nýjungum í þjálfun og þjálfaraforritunum Tactfoot, Hjemmebanen og Sideline organizer. Námskeiðið er að mestu leyti bóklegt en þó er krafist þátttöku í nokkrum verklegum tímum. Skráning er hafin hjá Margréti á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900, en dagskrá námskeiðsins mun verða birt síðar. Ýmsar upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ má sjá á heimasíðu KSÍ, undir Allt um KSÍ, Fræðslumál / Námskeið.
 

 

24.1.03 - Vantar þjálfara austur á landHuginn á Seyðisfirði og Einherja á Vopnafirði vantar þjálfara fyrir meistaraflokk karla fyrir komandi sumar. Bæði félögin hyggjast senda lið í 3. deildina í sumar og auglýsa því eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér verkefnið. Nánari upplýsingar hér á heimasíðunni undir liðnum þjálfarastörf.

 

12.1.03 - Jón Pétur Róbertsson er þjálfarinnHinn kunni knattspyrnuþjálfari Jón Pétur Róbertsson er þjálfarinn hér á heimasíðunni að þessu sinni. Jón Pétur er nú þjálfari 3. flokks karla hjá Fylki. Jón Pétur sýnir okkur þrjár skemmtilegar æfingar sem nota má fyrir hina ýmsu aldursflokka. Kíkið á þjálfarinn.

 

8.1.03 - 57. ársþing KSÍ57. ársþing Knattspyrnusambands Íslands verður haldið á Hótel Loftleiðum laugardaginn 8. febrúar 2003. Þingið verður sett kl. 10:00 og gert er ráð fyrir að því ljúki sama dag um kl. 16:00, en þingið fer nú aðeins fram á einum degi. Nánar á ksi.is

 

4.1.03 - Skjávarpi til útlánsKSÍ hefur eignast nýjan skjávarpa sem aðildarfélögin og þjálfarar geta fengið lánaðan án endurgjalds. Skjávarpinn er tilvalinn til allrar fræðslu, t.d. til foreldra og leikmanna, fyrir liðsfundi o.s.frv. Aðeins þarf að tengja skjávarpann við fartölvu. KSÍ býður einnig þjálfurum að fá lánaðar bækur, myndbönd og fræðsluefni, ásamt nákvæmum hraðamælingatækjum og uppstökksmottu til að mæla stökkkraft. Þá er einnig hægt að fá lánaða færanlega skallatennisvelli (á sumrin). Áhugasömum er bent á að hafa samband við skrifstofu KSÍ í síma 510-2900.

 

 

4.1.03 - Fréttabréf um heilbrigðis- og lyfjamálUm þessar mundir er fréttabréf ÍSÍ um heilbrigðis- og lyfjamál og bæklingur um íþróttir og asma að berast félagsmönnumí KÞÍ í pósti. Eins og kunnugt er var rætt um lyfjamál á þjálfararáðstefnu KÞÍ í haust og vakti áhugi KÞÍ á málinu athygli innan ÍSÍ sem falaðist eftir því að fá lista með nöfnum allra sem til eru á skrá hjá KÞÍ. Stjórn KÞÍ fannst eðlilegast að þeir félagsmenn sem greitt hafi árgjaldið fái að njóta þess fremur en hinir, og er fréttabréfið eingöngu sent til þeirra að þessu sinni. Þess má einnig geta að stjórn KÞÍ er að vinna með ÍSÍ í því að útbúa leiðbeinandi bækling um hlutverk þjálfarans og hvernig skuli taka á málum ef grunur um lyfjamisnotkun kemur upp innan knattspyrnunnar.

 

2.1.03 - Nýr listi yfir bönnuð efni og aðferðirÞann 1. janúar nk.tekur gildi nýr listi Alþjóða Ólympíunefndarinnar (IOC) og Alþjóða Lyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) yfir bönnuð efni og aðferðir. Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest listann, að fenginni umsögn Lyfjaráðs ÍSÍ. Hægt er að skoða listann á heimasíðu ÍSÍ, isisport.is.

 

2.1.03 - Íþróttir og lífsgildiMiðvikudaginn 8. janúar kl. 17:00 stendur ÍSÍ fyrir sérstakri afmælisráðstefnu vegna 90 ára afmælis ÍSÍ á árinu 2002. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Íþróttir og lífsgildi og mun ráðstefnan fara fram á Grand Hótel Reykjavík.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni verða:
Ólafur Stefánsson, atvinnumaður í handknattleik,
Vanda Sigurgeirsdóttir, þjálfari, kennari og tómstundafræðingur,
Halldór Reynisson, verkefnisstjóri hjá Biskupsstofu og
Olaf Ballisager, Háskólakennari í Árósum.

Ráðstefnustjóri verður Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ og mun hann einnig stjórna pallborðsumræðum í lok ráðstefnunnar.

Skráning óskast send með tölvupósti á andri@isisport.is og er þátttakan ókeypis.

Samstarfsaðilar