23.12.04 -

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi knattspyrnu ár

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendir öllum knattspyrnuþjálfurum, sínar bestu óskir um gleðileg jól, með ósk um gott og farsælt komandi knattpsyrnu ár.
 

 

22.12.04 -

Ráðstefna UEFA um útbreiðslu knattspyrnu

Halldór Örn Þorsteinsson, starfsmaður mótadeildar KSÍ, sótti í október fimmtu ráðstefnu UEFA um útbreiðslu knattspyrnunnar (grassroots). Halldór hefur tekið saman áhugaverðar upplýsingar frá ráðstefnunni og gert skýrslu sem sjá má á fræðsluvef KSÍ undir Greinar og viðtöl, ásamt öðru áhugaverðu efni.
 

 

14.12.04 -

Eiður Smári og Margrét Lára knattspyrnufólk ársins 2004

Leikmannaval KSÍ valdi Eið Smára Guðjohnsen og Margréti Láru Viðarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2004 og var valið tilkynnt í móttöku á Hótel Nordica. Hermann Hreiðarsson og Laufey Ólafsdóttir höfnuðu í öðru sæti, og Heimir Guðjónsson og Olga Færseth í þriðja. Í leikmannavali KSÍ eru aðallega fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni.
 

 

10.12.04 -

Ólafur og Elísabet þjálfarar ársins 2004

Á aðalfundi KÞÍ 9. desember s.l. voru Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Vals, útnefnd þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna fyrir árið 2004. Bæði náðu þau góðum árangri með lið sín í sumar og því vel að útnefningunni komin.


Ólafur hóf þjálfaraferilinn fyrir tuttugu og þrem árum þegar hann þjálfaði meistaraflokk og 3. flokk karla hjá Einherja á Vopnafirði, en síðan þá hefur Ólafur eingöngu þjálfað meistaraflokk karla. Ólafur hefur þjálfað tvisvar hjá Skallagrími í Borgarnesi. Hann hefur einnig þjálfað hjá Þrótti Reykjavík, Haukum og Selfossi en mest hefur Ólafur þjálfað hjá FH, en þrisvar hefur Ólafur verið ráðinn til starfa þar á bæ, nú síðast haustið 2002. Í vor varð FH Deildarbikarmeistari og náðu einnig mjög góðum árangri í evrópukeppninni í sumar. Í haust hampaði FH svo langþráðum Íslandsmeistaratitli undir stjórn Ólafs, þeim fyrsta í sögu félagsins. Ólafur er vel menntaður þjálfari, hefur lokið UEFA B þjálfaragráðu, þ.e. efsta stigi í knattspyrnuþjálfun á Íslandi. Þetta er í þriðja sinn sem Ólafur er kjörinn þjálfari ársins hjá KÞÍ, en fyrst hlaut Ólafur þessa viðurkenningu árið 1996.

Elísabet Gunnarsdóttir er 28 ára íþróttakennari að mennt og hefur lokið sex þjálfarastigum KSÍ. Elísabet stýrði Val til sigurs á Íslandsmótinu í sumar á sínu fyrsta ári með liðið. Elísabet hefur þjálfað knattspyrnu í tólf ár, þar af níu ár með yngri flokka hjá Val, eitt ár með meistaraflokk kvenna hjá ÍBV og eitt ár með 2. fl. kvenna hjá Breiðabliki og stýrði þeim til sigurs á Íslandsmótinu það ár. Elísabet hefur sýnt mikinn metnað við þjálfunina og er ötul við að hafa aukaæfingar fyrir leikmenn sína. Í dag tók Elísabet við starfi landsliðsþjálfara kvenna U21 og einnig mun hún verða aðstoðarþjálfari Jörundar Áka Sveinssonar hjá A landsliði kvenna.

Bæði Ólafur og Elísabet voru kosin þjálfarar ársins af blaðamönnum á lokahófi KSÍ í haust.
 

 

10.12.04 -

Viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Björn Kristinn Björnsson, Garðar Gunnar Ásgeirsson og Mist Rúnarsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka á aðalfundi KÞÍ. Björn Kristinn hefur þjálfað hjá KA á Akureyri til fjölda ára en var að flytja sig yfir til Breiðabliks. Garðar Gunnar á heiðurinn að öflugu unglingastarfi Leiknis í Breiðholti, en er nú þjálfari mfl. karla hjá Leikni. Mist hefur þrátt fyrir ungan aldur, þjálfað hjá Þrótti í Reykjavík í fjölmörg ár, og á mestan heiðurinn af öflugu starfi yngri flokka kvenna hjá Þrótti. Öll hafa þau lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín.
 

 

10.12.04 -

Skoðunarmenn til eins árs

Félagarnir Halldór Örn Þorsteinsson og Birkir Sveinsson, starfsmenn KSÍ, voru endurkjörnir skoðunarmenn reikninga til eins árs með dynjandi lófaklappi.
 

 

10.12.04 -

Skýrsla stjórnar KÞÍ starfsárið 2003 – 2004

Ágætu knattspyrnuþjálfarar !

Umgjörð í kringum aðalfund síðasta árs var mjög sérstök. Við höfðum tekið ákvörðun um að halda hann í tengslum við bikarúrslitaleik karla með svipuðu sniði og gert er í Noregi. Það er skemmst frá því að segja að þetta form tókst mjög vel og var auk venjulegra aðalfundastarfa veittar viðurkenningar fyrir þjálfara ársins í m.fl. karla og kvenna og fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. Einnig voru veittar heiðursviðurkenningar KÞÍ í fyrsta skipti í langan tíma. Þar hlutu Guðni Kjartansson, Helgi Þorvaldsson og Kjartan Másson gullmerki KÞÍ. Þrátt fyrir þetta tókum við ákvörðun um að halda aðalfundinn að þessu sinni í desember til að bera saman kosti og galla þessara forma og gaman væri að heyra frá félagsmönnum hvað þeim finnst um tímasetningarnar.

Stjórn KÞÍ var kjörin í fyrra og skipti með sér verkum. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Njáll Eiðsson, varaformaður, Úlfar Hinriksson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri og Jörundur Áki Sveinsson spjaldskrárritari. Í varastjórn voru Elísabet Gunnarsdóttir og Þórir Bergsson.
Nýir í stjórn komu Úlfar Hinriksson og Þórir Bergsson í stað Jóhanns Gunnarssonar og Magnúsar Pálssonar.

Á starfsárinu voru haldnir sjö fundir, auk funda þar sem hluti stjórnar hittist til að undirbúa ýmis sérverkefni. Við höfðum sama markmið og áður með lengd stjórnarfunda, þ.e. að þeir væru ekki lengur en 90 mínútur.

Helstu viðburðir félagsins á árinu voru : Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikarkeppni karla sem var haldin á Grand hótel í samvinnu við KSÍ. Dagskráin var þannig að undirritaður setti ráðstefnuna. Að því loknu kom Ólafur Kristjánsson, þjálfari m.fl. karla hjá Fram og flutti erindi sem hann kallaði ,,Hugrenning og tækni við knattspyrnuþjálfun”. Að því loknu kom Peter Bonde fræðslustjóri danska knattspyrnusambandsins og flutti erindi um hvernig Danir stóðu að málum varðandi EM í Portúgala í sumar. Magnús Gylfason fyrrverandi þjálfari m.fl. karla ÍBV og nýráðinn þjálfari m.fl. karla hjá K.R. kom til að spá í spilin varðandi bikarúrslitaleikinn og fara yfir tölfræði liða K.A. og Keflavíkur. Síðan komu þjálfarar liðanna og sögðu okkur frá því hvernig þau undirbjuggu sig fyrir leikinn. Þorvaldur Örlygsson þjálfari K.A. kom fyrir hádegismatinn og Jakob Már Jónharðsson aðstoðarþjálfari Keflavíkur kom á meðan menn snæddu áður en farið var á völlinn og horft á leikinn með tilliti til þess hvernig leikurinn var lagður upp af þjálfurum liðann.
Einnig stóð Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands í samvinnu við Breiðablik að ráðstefnu með yfirþjálfara barna og unglingastarfs Feyenoord, Patric’s van Leewen og tókst hún mjög vel.

Fjárhagur félagsins stendur mjög vel. Núna eru hvorki fleiri né færri en 305 búnir að greiða félagsgjaldið í ár sem er 2500 krónur. Fengu þeir sem greiddu fyrir 10. september veglegan regnjakka frá JAKO með merki félagsins. Við í stjórn KÞÍ höfum verið dugleg að fara á þjálfaranámskeið KSÍ og kynna félagið og fá þannig inn nýja félagsmenn. Fjölgunin hefur verið gríðarleg síðustu árin og til samanburðar má segja frá því að fyrir sex árum borguðu um 90 félagsgjaldið. Samstarfið við Knattspyrnusamband Íslands er mjög gott og er það er mjög mikilvægt fyrir okkar félag. KSÍ tók að sér að greiða árgjaldið til evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, UEFT, sem er 1200 evrur eða rúmlega 100.000 krónur. Um leið og við þökkum veittan stuðning væntum við enn meira og betra samstarfs á næstu árum.
Styrktaraðilar KÞÍ eru : ÍSLANDSBANKI hf, LYRA , MEBA og JAKO. Við þökkum þessum aðilum kærlega fyrir stuðninginn við félagið og vonumst til að eiga gott samstarf við þá áfram.

Skýrsla frá 24. ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, UEFT sem haldin var í Kuzadasi í Tyrklandi nóvember í fyrra er komin á heimasíðu KÞÍ (undir fróðleikur). Hvetjum við alla til að skoða hana vel en efni ráðstefnunnar var ,,Skipulagið felldi Þjóðverjana í úrslitaleiknum” og er þar vitnað í Luiz Felipe Scolari fyrrum þjálfara heimsmeistara Brasilíu sem var aðalfyrirlesari á ráðstefnunni.

Eins og við sögðum frá í fyrra opnaði KSÍ sérstakan fræðsluvef á heimasíðu sinni, ksi.is, en þar er að finna ýmsan gagnlegan fróðleik fyrir þjálfara, dómara, leikmenn og alla áhugamenn um knattspyrnu og menn geta skoðað þar bókasafn og myndbandasafn KSÍ. Þar er mikið æfingasafn fyrir knattspyrnuþjálfara, þar sem menn geta skipst á æfingum við aðra þjálfara svo og kennslugögn frá þjálfaranámskeiðum KSÍ. Núna eru komnar um 160 æfingar í æfingasafnið. Þjálfurum og íþróttakennurum er frjálst að nota kennslugögnin af þjálfaranámskeiðunum í kennslu og þjálfun hjá sér.

4. apríl s.l. var stór dagur hjá íslenskum knattspyrnuþjálfurum en þá útskrifuðust 123 þjálfarar með svokallað UEFA B próf með viðhöfn hér í Smáranum.
Næsta þjálfaragráða er UEFA A þjálfaragráða og er KSÍ að vinna að þeirri umsókn. Æðsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA Pro og þá gráðu þurfa þjálfarar í efstu deild karla á Íslandi að hafa árið 2010 samkvæmt leyfiskerfinu. KSÍ mun líklega gera samkomulag við erlend knattspyrnusambönd um að þjálfarar á Íslandi hafi tækifæri til að sækja sér þessa gráðu hjá þeim.
Enn er fjölgun á þjálfaranámskeiðum KSI og er það hið besta mál hve áhuginn er mikill en félögin furða sig samt á því hversu erfitt er að fá þjálfara fyrir yngri flokka en mörg félög og þjálfarar nýta sér þjónustu okkar um að auglýsa á heimasíðu okkar.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands hvetur þjálfara áfram til þess að vanda gerð samninga og hafa samninga sína skothelda, það er að segja þeir gangi tryggilega frá þeim þegar samið er og bíði ekki með að gera það þangað til seinna eins og við heyrum svo marga gera. Menn vita aldrei hvað gerist hvað gengi liðs síns varðar og því er betra að hafa allan varann á. Eins hefur það gerst að heilu stjórnirnar hafi hætt á miðju tímabili og þá er bara orð gegn orði. Ef menn verða fyrir því að vera sagt upp störfum ætlumst við til þess að menn leiti réttar síns og eins og margoft hefur komið fram erum við með lögfræðing á okkar snærum sem ég bendi mönnum á þegar ég hringi í þá. Einnig hvetjum við þjálfara sem eru að taka við störfum að ganga úr skugga um það að búið sé að gera upp við þann þjálfara sem var á undan.

Á eftir verða þjálfarar í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Í fyrra var Ólafur Jóhannesson valinn þjálfari ársins í efstu deild karla og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir í efstu deild kvenna. Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir vel unning störf við þjálfun yngri flokka. Í fyrra hlutu Lárus Rúnar Grétarsson, Sigurlín Jónsdóttir og Úlfar Hinriksson þessa viðurkenningu.

Einn stjórnarmaður hefur ákveðið að hætta í stjórninni. Það er Elísabet Gunnarsdóttir sem hefur verið sex ár í stjórninni. Árið 1998 byrjaði hún í varastjórn, síðan var hún tvö ár ritari og síðustu þrjú árin hefur hún verið í varastjórn. Við þökkum henni kærlega fyrir hennar framlag við stjórnarstörf og vonumst að sjálfsögðu til að hún vinni áfram fyrir félagið.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands þakkar ykkur öllum fyrir samstarfið og þann mikla vilvilja sem félagið hefur og hvetur ykkur áfram í starfi.

Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður.

 

10.12.04 -

Góður fjárhagur KÞÍ

A aðalfundinum kom fram í ársreikningi KÞÍ að félagið stendur vel fjárhagslega. Hagnaður var af starfseminni upp á 257.000 krónur og eignir félagsins í lok rekstrarársins voru tæplega ein milljón, allt í peningum. Það er því ljóst að félagið stendur vel fjárhagslega.
 

 

10.12.04 -

Elísabet hætti í stjórn KÞÍ

Elísabet Gunarsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í stjórn KÞÍ og kom Jóhann Gunnarsson í varastjórn í hennar stað. Elísabet hefur verið í stjórn KÞÍ undanfarin sex ár. KÞÍ þakkar henni vel unnin störf fyrir félagið.
 

 

10.12.04 -

Ómar og Þórir endurkjörnir í stjórn KÞÍ

Á aðalfundinum var Ómar Jóhannsson kjörinn í aðalstjórn til tveggja ára og Þórir Bergsson í varastjórn til eins árs. Ómar hefur verið gjaldkeri KÞÍ undanfarin sex ár og Þórir er að hefja sitt annað ár í stjórn KÞÍ.
 

 

10.12.04 -

Sigurður Þórir kosinn formaður KÞÍ

Á aðalfundinum var Sigurður Þórir Þorsteinsson endurkjörinn formaður til eins árs.
 

 

10.12.04 -

Fámennur aðalfundur og óbreytt árgjald

Aðalfundur KÞÍ var haldinn 9. desember s.l. í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi, og var frekar fámennt. Einungis um tuttugu félagsmenn mættu og er það minnsta mæting í nokkur ár. Umræður á fundinum urðu hinsvegar nokkrar og var fundurinn málefnalegur. Á fundinum lagði stjórn KÞÍ til að árgjald félagsins yrði óbreytt næsta ár, aðeins 2.500 krónur. Eins og áður er stefnt er að því að hafa eitthvað innifalið í árgjaldinu, en hvað það verður kemur í ljós næsta sumar. Félagsmenn hafa líst yfir mikilli ánægju með regnjakann sem fylgdi með félagsgjaldinu á þessu ári og vonandi náuim við að gera eitthvað svipað næsta ár.
 

 

9.12.04 -

Nýir þjálfarar A og U21 kvenna ráðnir

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Jörund Áka Sveinsson sem þjálfara A landsliðs kvenna og Elísabetu Gunnarsdóttir sem þjálfara U21 landsliðs kvenna næstu tvö árin. Elísabet verður jafnframt aðstoðarmaður Jörundar með A landsliðið. Jörundur og Elísabet eru á meðal virtustu þjálfara landsins og hafa náð mjög góðum árangri með þau lið sem þau hafa þjálfað. Jörundur Áki og Elísabet hafa lengi starfað í stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands.
 

 

9.12.04 -

Aðalfundur KÞÍ í kvöld kl. 20:00 í kvöld

Minnum félagsmenn á aðalfund KÞÍ í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi kl. 20:00 í kvöld.
 

 

9.12.04 -

Námskeið um forvarnir í knattspyrnu

Fimmtudaginn 16. desember 2004 kl. 18 – 21:30
Á námskeiðinu verður farið yfir mikilvægustu þætti forvarna í knattspyrnu. Rannsóknir hafa sýnt að með skipulögðu forvarnarstarfi er hægt að draga mikið úr meiðslatíðni í íþróttum. Einnig hafa þær sýnt að því færri meiðsladagar sem eru hjá liðinu, því betri árangur. Forvarnarstarf er því mjög mikilvægur þáttur til þess að ná árangri.
Lögð verður sérstök áhersla á verklegar forvarnaræfingar og sprengikraftsþjálfun.
Dagskrá:
18:00 – 19:30 Fyrirlestur um forvarnir í knattspyrnu.
19:30 – 20:00 Kaffi.
20:00 – 21:30 Verklegt: Farið verður yfir forvarnaræfingar og æfingar til
að þjálfa upp sprengikraft í tækjasal Sjúkraþjálfunar
Íslands (3. hæð).
Hámarksfjöldi á námsskeiðið er 24. Ef það verða fleiri sem sækjast eftir því að komast á þetta námskeið, þá verður sennilega haldið annað námskeið á milli jóla og nýárs eða í byrjun janúar.
Námskeiðsgjald er 2.000 kr. Vinsamlegast staðfestið þátttöku fyrir þriðjudaginn 14. desember. Þeir fyrstu sem skrá sig fá forgang á námskeiðið. Námsskeiðið fer fram í Orkuhúsinu, Suðurlandsbraut 34, 6. hæð.
Fyrirlesarar: Friðrik Ellert Jónsson, Sjúkraþjálfari
Jóhannes Marteinsson, Sjúkraþjálfari og frjálsíþróttaþjálfari
Ef frekari upplýsinga er þörf hafðu þá samband við Friðrik í síma 695-2902 eða sendu tölvupóst á fridrik@sjukratjalfun.is
 

 

2.12.04 -

Lárus Rúnar og Hermann fengu þjálfarastyrki hjá ÍSÍ

Í gær afhenti Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, þjálfarastyrki Verkefnasjóðs ÍSÍ fyrir haustið 2004. Tveir knattspyrnuþjálfarar, þeir Lárus Rúnar Grétarsson og Hermann Valsson, voru á meðal þeirra sem hlutu styrk að þessu sinni. Lárus Rúnar ætlar að kynna sér þjálfun og uppbyggingu hjá Empoli á Ítalíu og Hermann ætlar að kynna sér markmannsþjálfun hjá Ipswich á Englandi.
 

 

1.12.04 -

Ókeypis áskrift að Sideline þjálfarahugbúnaði

MasterCard og KB Banki hafa fært KSÍ og KÞÍ að gjöf tveggja ára áskrift á Sideline Organizer þjálfarahugbúnaði fyrir alla þjálfara aðildarfélaga KSÍ og meðlimi KÞÍ og einnig Sideline Viewer fyrir alla iðkendur félaganna. Að auki fær KSÍ tveggja ára áskrift að Sideline Video Analyzer fyrir sex landslið. Þjálfarar geta skráð sig á slóðinni www.sidelinesports.com/icereg.php.
Eftir skráningu fá þjálfarar sendan tölvupóst sem inniheldur notendanafn og slóð á niðurhalningu forritanna Sideline Organizer og Sideline Organizer Viewer.
KÞÍ þakkar MasterCard, KB Banka og Sideline Sports fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem á eftir að koma knattspyrnuþjálfurum og iðkendum til góða og efla þjálfarastéttina í landinu.
Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Sideline Sports.


 

 

25.11.04 -

Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands

Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi, fimmtudaginn 9. desember n.k. klukkan 20:00.

Dagskrá:
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Kosning formanns, meðstjórnenda og varamanna skv. ákvæði 7. gr. laga
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald skv. 6. gr. laga
Önnur mál

Þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir
Veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Boðið verður upp á léttar veitingar að loknum aðalfundi.

Stjórn KÞÍ hvetur félagsmenn sína til að mæta.
 

 

10.11.04 -

KSÍ IV þjálfaranámskeið um helgina

KSÍ IV þjálfaranámskeið fer fram um helgina og hefst klukkan 14:00 á föstudag í sal Laugardalshallar (gengið inn að ofanverðu og upp stigann á hægri hönd). Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og því þarf að hafa með sér búnað til knattspyrnuiðkunar. Þátttökugjald er kr 16.000. 100% mætingarskylda er á námskeiðið og þátttakendur þurfa að hafa lokið við KSÍ III (C-stig). Allar nánari upplýsingar á skrifstofu KSÍ.
 

 

28.10.04 -

KSÍ II þjálfaranámskeið næstu tvær helgar

KSÍ II (B-stigs) þjálfaranámskeið verður haldið um næstu helgi í fundarsal ÍSÍ í Laugardal, í félagsheimili Keflavíkur og í Reykjaneshöllinni. Mjög góð þátttaka er á námskeiðinu og því verður boðið upp á annað sams konar námskeið helgina 5. - 7. nóvember og þar eru ennþá sæti laus. Skráning er með tölvupósti (siggi@ksi.is) eða í síma 510-2909.
 

 

20.10.04 -

KSÍ VI þjálfaranámskeið á Englandi

Alls eru 27 íslenskir þjálfarar nú staddir á Englandi, ásamt 4 kennurum, til að taka þátt í KSÍ VI þjálfaranámskeiði. Námskeiðið, sem nú er haldið í fyrsta sinn, fer fram í Lilleshall dagana 15. - 22. október.
 

 

20.10.04 -

KSÍ II þjálfaranámskeið í Eyjum

KSÍ heldur 2. stigs þjálfaranámskeið helgina 21. - 23. október næstkomandi í Týsheimilinu í Vesmtannaeyjum. Tólf þjálfarar eru skráðir á námskeiðið, sem er bæði bóklegt og verklegt, og fjallar um þjálfun barna undir 16 ára aldri. Nánari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ má sjá á fræðsluvef KSÍ.
 

 

20.10.04 -

Sigurður Þórir og Ómar fara á ráðstefnu UEFT í Portúgal

Þeir félagar Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ fara á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin verðu í Portúgal 23. - 27. október n.k. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verða José Mourinho ( Chelsea ), Carlos Queiroz ( Man. Utd. ), Otto Rehagel ( Grikkland ), Luiz Felipe Zcolari ( Portúgal ), og vænta má mikils fróðleiks frá þeim félögum að ráðstefnunni lokinni, en skýrsla um ráðstefnuna verður sett á heimasíðuna um leið og hún verður tilbúin.
 

 

20.10.04 -

Regnjakkarnir fyrir landsbyggðarþjálfarana farnir í póst

Regnjakkarnir sem fylgdu félagsgjaldinu í ár eru farnir í póst til þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa sent tölvupóst til KÞÍ um stærðina sem þeir óskuðu eftir, auk nokkurra annarra sem við þekktum frá fyrri tíð og þóttumst vita stærðina á. Félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sækja sinn regnjakka á skrifstofu KSÍ, vegna mikils kostnaðar við að senda regnjakkana með pósti. Hvetjum við félagsmenn til að sækja regnjakkana sína á skrifstofu KSÍ við fyrsta tækifæri, en þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa ekki sent okkur tölvupóst með stærðinni sem þeir óska eftir er bent á að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is
 

 

13.10.04 -

Vantar víða þjálfara til starfa

Hér á heimasíðunni, undir liðnum þjálfarastörf geta íþróttafélög auglýst eftir þjálfurum eða einstaklingar auglýst eftir þjálfarastörfum. Kíkið á þjálfarastörf og kannið hvort þar er eitthvað sem hentar ykkur.
 

 

12.10.04 -

Ólafur Jósefsson er þjálfarinn

Ólafur Jósefsson yfirþjálfari yngri flokka ÍA er þjálfarinn hér á heimasíðu KÞÍ. Ólafur sýnir okkur fjölmargar skemmtilegar og gagnlegar æfingar, kíkið á undir liðnum þjálfarinn.
 

 

10.10.04 -

Yfirþjálfari barna- og unglingastarfs Feyenoord með fyrirlestur í Smáranum

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands, í samvinnu með Knattspyrnudeild Breiðabliks býður áhugasömum þjálfurum og áhugafólki um knattspyrnuþjálfun á fyrirlestur Patrick´s van Leeuwen, yfirþjálfara barna- og unglingastarfs Feyenoord. Patrick van Leeuwen mun lýsa áherslum Feyenoord í sínu akademíustarfi og lýsa uppbyggingu félagsins. Fyrirlesturinn verður á efri hæð Smárans þriðjudaginn 12. október kl. 19:30 – 20:30 Aðgangur er ókeypis.
 

 

5.10.04 -

KSÍ býður upp á annað 1. stigs þjálfaranámskeið

Vegna mikillar þátttöku á 1. stigs þjálfaranámskeiðinu sem fer fram næstu helgi (8. - 10. október) hefur verið ákveðið að halda annað 1. stigs þjálfaranámskeið helgina á eftir (15. - 17. október). Skráning er hafin á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900. Nánari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ má sjá á fræðsluvef KSÍ.
 

 

3.10.04 -

KSÍ I (A-stig) þjálfaranámskeið 8-10. október

KSÍ heldur 1. stigs þjálfaranámskeið helgina 8-10 október næstkomandi í Félagsheimili Þróttar, Félagsheimili Keflavíkur og í Reykjaneshöllinni. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og kostar 14.000 krónur. Skráning er þegar hafin á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900 eða á tölvupósti (ragga@ksi.is). Yfirleitt er góð þátttaka á þjálfaranámskeiðum KSÍ og því er best að skrá sig sem fyrst.
 

 

3.10.04 -

Ólafur og Elísabet þjálfarar ársins hjá íþróttafréttamönnum

Á lokahófi knattspyrnumanna á Brodway voru þau Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Vals kjörin þjálfarar ársins í Landsbankadeildunum í sumar af íþróttafréttamönnum.
 

 

2.10.04 -

Vel heppnuð ráðstefna í tengslum við bikarúrslitaleikinn

Laugardaginn 2. október s.l. stóð KÞÍ í samvinnu við KSÍ fyrir ráðstefnu í tenslum við úrslitaleik VISA bikarsins í knattspyrnu á Grand Hótel við Sigtún. Ráðstefnan tókst mjög vel í alla staði og voru þeir þjálfarar sem ráðstefnuna sóttu ánægðir með það sem boðið var upp á. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna á sjöttu ráðstefnu KÞÍ í tengslum við bikarúrslitaleikinn í karlaflokki. Því næst flutti Ólafur Kristjánsson þjálfari Fram erindi sem kallaðist "Hugrenningar og tækni við knattpsyrnuþjálfun" en var víst að sögn Ólafs fundið upp af fyrrum aðstoðarmanni hans Jörundi Áka Sveinssyni. Ólafur talaði um muninn á þjálfun og líkamlegu ástandi knattspyrnumanna í Danmörku og Íslandi og var erindi hans mjög fróðlegt og spunnust miklar og góðar umræður um hugrenningar Ólafs. Því næst flutti Peter Bonde, fræðslustjóri Danska knattspyrnusambandsins mjög fróðlegt erindi um þátttöku Dana á EURO 2004. Mjög margt forvitnilegt kom fram í máli Peters og ljóst að erindi hans vekur upp margar spurningar varðandi þjálfun knattspyrnumanna og hvernig við berum okkur að við þjálfunina. Peter sýndi okkur einnig mörg atriði á tölvutæku formi úr leikjum Dana í keppninni og ljóst að tæknin við þjálfun er alltaf að verða meiri og meira og því fyrr því betra fyrir knattspyrnuþjálfara að tileinka sér nýjustu tækni. Magnús Gylfason þjálfari KR fór yfir tölfræði liðanna sem léku til úrslita og kom þar margt athyglisvert í ljós. Því næst mætti Þorvaldur Örlygsson þjálfari KA og fór yfir undirbúning KA fyrir leikinn, liðsuppstillingu, leikkerfi, veikleika/styrkleika andstæðingsins og var virkilega gaman að heyra í Þorvaldi, en hann sagðist óttast sitt lið meira en lið Keflavíkur og þetta væri spurningin um að sínir menn næðu að standast álagið. Því næst var komið matarhlé, og kættist þá Jörundur Áki, og borðaði allur hópurinn á Grand hótel góðan mat og þangað mætti Jakob Már Jónharðsson aðstoðarþjálfari Keflavíkur og gerði grein fyrir undirbúningi Keflavíkur fyrir leikinn, en í máli hans kom fram að Keflavík lagði mikla áherslu á að kenna sínum mönnum hvernig það væri að vinna titilinn og notaði liðið sem vann Bikarmeistaratitilinn með Keflavík 1997 óspart í undirbúningi sínum fyrir úrslitaleikinn. Eftir matinn var farið á leikinn og sértaklega fylgst með leikskipulagi liðanna með tilliti til þess er Þorvaldur og Jakob Már höfðu sagt fundarmönnum fyrr um daginn. Á heildina litið tókst ráðstefnan með miklum ágætum, en um 30 þjálfarar sóttu ráðstefnuna að þessu sinni og hafa oftast verið fleiri, en þó er ljóst að ráðstefna í tengslum við bikarúrslitaleik er komin til að vera, ánægja var meðal ráðstefnugesta og voru flestir mjög ánægðir með það sem boðið var upp á.
 

 

27.9.04 -

Þjálfararáðstefna í tengslum við VISA bikarúrslitaleik karla

Eins og mörg undanfarin ár mun KÞÍ, í samvinnu við KSÍ, standa fyrir ráðstefnu í tengslum við VISA bikarúrlsitaleik karla. Ráðstefnan verður laugardaginn 2. október n.k. á Grand Hótel við Sigtún.

Dagskrá:
09:00 Ávarp
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
09:05 Hugrenningar og betri tækni við þjálfun
Ólafur Kristjánsson, þjálfari mfl. karla hjá Fram
09:35 Danska landsliðið á EURO 2004 í Portúgal
Peter Bonde, Fræðslustjóri Danska Knattspyrnusambandsins
og aðstoðarþjálfari Danska landsliðsins
11:30 Spáð í VISA bikarúrslitaleikinn
Farið yfir tölfræði liðanna sem leika til úrslita
12:00 Fulltúar liðanna sem leika til úrslita
Fulltrúar Keflavíkur og KA mæta
12:30 Hádegisverður á Grand Hótel
14:00 Úrslitaleikur VISA bikarsins
Keflavík - KA

Ráðstefnustjóri er Jörundur Áki Sveinsson

Verð Kr. 2.500,- fyrir félagsmenn KÞÍ Kr. 5.000,- fyrir ófélagsbundna
Skráning fer fram með því að senda tölvupóst hér eða í síma hjá:
Sigurður Þórir 861-9401, Ómar 844-3252, Jörundur Áki 821-9294,
eða hjá KSÍ í síma 510-2900 fyrir kl. 15:00 föstudaginn 1. október.
 

 

17.9.04 -

Regnjakkarnir frá JAKO afhentir á skrifstofu KSÍ

Eins og félagsmönnum Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands er kunnugt um fylgdi regnjakki með félagsgjaldinu að þessu sinni. Regnjakkarnir verða afhentir þeim sem greitt hafa félagsgjaldið nú þegar á skrifstofu KSÍ frá kl. 16:00-17:00 miðvikudaginn 22., fimmtudaginn 23., og föstudaginn 24. september n.k. Óframkvæmanlegt er að senda regnjakkana til félagsmanna vegna stærðarvandamála. Félagsmönnum á landsbyggðinni sem ekki geta sótt regnjakkann á þessum tíma er bent á að senda tölvupóst til KÞÍ á netfangið kthi@isl.is og taka fram þá stærð á regnjakka sem þeir óska og verða þeir þá sendir viðkomandi í pósti við fyrsta tækifæri.
 

 

9.9.04 -

Ætlar þú á þjálfaranámskeið í haust?

Eftirfarandi þjálfaranámskeið eru framundan hjá KSÍ:
- KSÍ I verður haldið 8. - 10. október í Reykjavík/Keflavík
- KSÍ II verður haldið 29. - 31. október í Reykjavík/Keflavík
- KSÍ IV verður haldið 12. - 14. nóvember í Reykjavík/Keflavík

Mjög góð þátttaka hefur verið undanfarin ár á þjálfaranámskeiðum KSÍ og því er gott að skrá sig sem fyrst. Skráning hefst mánuði fyrir hvert námskeið og er skráning hafin á KSÍ I námskeiðið í síma 510-2900. Fleiri námskeiðum verður bætt við ef þörf krefur.
 

 

7.9.04 -

KSÍ skilar inn UEFA-A umsókn í þjálfaramenntun

KSÍ skilaði á mánudag inn til UEFA svonefndri UEFA-A umsókn í þjálfaramenntun. Sótt er um að KSÍ V, VI og VII þjálfaranámskeiðin verði metin sem hin alþjóðlega UEFA-A þjálfaragráða. KSÍ hefur nú þegar hafið kennslu eftir þessari nýju námskrá. Frekari upplýsingar um umsóknina og þjálfaramenntun KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).
 

 

6.9.04 -

Aldrei hafa fleiri greitt félagsgjaldið

Nú hafa 253 knattspyrnuþjálfarar greitt félagsgjald KÞÍ fyrir árið 2004, en aldrei áður hafa eins margir greitt. Ljóst er að ánægja er með regnjakkann sem fylgir félagsgjaldinu, en það skal ítrekað að greiða verður fyrir 10. september til að tryggt sé að fá regnjakka. Regnjakkarnir eru í merkingu og verða tilbúnir til afhendingar í næstu viku, hvernig þeim verður komið til félagsmanna er ekki komið á hreint en skýrist fljótlega. Stjórn KÞÍ vil þakka þeim sem þegar hafa greitt og hvetja alla hina sem eftir eru, til að greiða félagsgjaldið sem allra fyrst.
 

 

6.9.04 -

Fjölgar í formannsfjölskyldunni

Sigurður Þórir formaður KÞÍ og Hildur Hrönn sambýliskona hans eignuðust á laugardaginn kl 19.59 stúlku sem vó 12 merkur og er 53 cm á lengd. Öllum heilsast vel og óskum við hjá KÞÍ þeim til hamingju og óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni.


 

 

11.8.04 -

200 Knattspyrnuþjálfarar hafa nú þegar greitt félagsgjaldið

Mjög góð viðbrögð hafa verið við félagsgjaldinu hjá KÞÍ að þessu sinni. Nú hafa 200 knattspyrnuþjálfarar þegar greitt félagsgjaldið, en aldrei áður hafa eins margir greitt svo fljótt. Ljóst er að ánægja er með regnjakkann sem fylgir félagsgjaldinu, en það skal ítrekað að greiða verður fyrir 10. september til að tryggt sé að fá regnjakka.
 

 

8.7.04 -

Glæsilegur regnjakki frá JAKO fylgir félagsgjaldinu

Nú fer knattspyrnuþjálfurum um allt land að berast greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2004. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og hingað til og greiði greiðsluseðilinn sem allra fyrst. Allir þeir sem greiða félagsgjaldið fyrir 10. september 2004 munu fá glæsilegan og vandaðan regnjakka frá JAKO (sjá mynd) með merki KÞÍ á. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að unnið væri að því að láta eitthvað fylgja félagsgjaldinu eins og undandfarin ár, og telur stjórn KÞÍ að með þessu sé verulega verið að koma á móts víð félagsmenn, sem reyndar hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. Í fyrra greiddu um 240 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar að af landinu félagsgjaldið og vonumst við eftir jafn góðum viðbrögðum í ár. Vissulega er þetta dýrt, en góð fjárhagsstaða KÞÍ leyfir að hafa gjöfina jafn veglega og raun ber vitni að þessu sinni. Regnjökkunum verður síðan komið til félagsmanna eins fljótt og mögulegt er. Stjórn KÞÍ óskar að endingu öllum félagsmönnum sínum góðs gengis í sumar og vonar að þeir verði félagi sínu til sóma á knattspyrnuvöllum landsins.

 

6.7.04 -

Íþróttasálfræði - Námskeið í þjálfun barna

Knattspyrnuþjálfurum og öðrum áhugasömum gefst nú tækifæri á að taka þátt í námskeiði á vegum enska knattspyrnusambandsins sem fjallar um þjálfun barna. Námskeiðið skiptist í 6 flokka: Íþróttasálfræði fyrir knattspyrnu, áhugahvöt, hvernig börn læra færni í knattspyrnu, andlegur þroski barna, umhverfi barnsins og námskeiðsmat. Námskeiðið fer fram á netinu, er gagnvirkt og þátttökugjald er um 7.500 kr. Nánari upplýsingar má sjá á Fræðsluvef KSÍ.

 

 

28.6.04 -

KSÍ VI þjálfaranámskeið á Englandi

Í haust verður haldið í fyrsta skipti KSÍ VI þjálfaranámskeið og fer það fram í Lilleshall á Englandi 15. - 22. október. Alls eiga 40 þjálfarar (KSÍ V þjálfarar) möguleika á að komast á námskeiðið, en skila þarf umsókn til KSÍ í síðasta lagi 14. júlí næstkomandi. Reiknað er með því að um 20 þjálfarar geti tekið þátt. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)

 

 

22.6.04 -

Fótboltasumarið 2004 er komið út

Tímaritið Fótboltasumarið 2004 er komið út. Fjallað er um íslenska boltann og liðunum í Landsbankadeildum karla og kvenna gerð góð skil með umfjöllun, samantekt og myndum. Finna má gríðarlegt magn af upplýsingum um alla þætti íslenska boltans, dómara, áhorfendur, félög, þjálfara og leikmenn. Einnig eru í blaðinu pistlar eftir fjölda sérfræðinga og áhugamanna um íslenska boltann. Fótboltasumarið 2004 er sannkölluð handbók um íslenska boltann. Tímaritið er gefið út í 25 þúsundum eintökum og er dreift frítt í öllum útibúum Landsbanka Íslands og verslunum Nóatúns.

 

26.5.04 -

160 æfingar í æfingasafni KSÍ

Á fræðsluvef KSÍ (undir æfingasafn) er nú búið að koma fyrir alls 160 æfingum. Til að fá aðgang að æfingunum þarf að vera með Homeground þjálfaraforritið en það er til sölu á skrifstofu KSÍ fyrir 5.000 krónur. Þjálfararnir sem sóttu KSÍ V þjálfaranámskeiðið um síðustu mánaðarmót hafa skilað inn um 130 af þessum æfingum og eiga þeir þakkir skilið að vera tilbúnir að deila sínum æfingum með öðrum þjálfurum. Þjálfarar eru stöðugt að leita að nýjum æfingum og það er því upplagt fyrir þá að ná sér í nýjar hugmyndir að æfingum með því að fara inn á æfingasafn KSÍ.

 

24.5.04 -

Mjög góð þátttaka á námskeiði Simons Smith

Alls sóttu 56 manns markmannsþjálfaranámskeið Simons Smith (markmannsþjálfara Newcastle United) þann 17. og 18. maí. Á meðal þátttakenda voru landsliðsþjálfarar, markmannsþjálfarar, markmenn og þjálfarar yngri jafnt sem eldri flokka. Námskeiðið tókst í alla staði mjög vel og skilar sér vonandi í betri markmannsþjálfun á Íslandi í framtíðinni. Þeir sem misstu af námskeiðinu geta fengið námskeiðsgögnin hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, fræðslustjóra KSÍ.

 

 

14.5.04 -

Menntun þjálfara í efstu tveimur deildum

Fræðslustjóri KSÍ hefur tekið saman upplýsingar um menntun þjálfara í Landsbankadeild karla og kvenna og í 1.deild karla. Ljóst er að félögin leggja mikla áherslu á að vera með vel menntaða þjálfara að störfum. Í sumar er svo ætlunin að gera stóra könnun á menntun allra knattspyrnuþjálfara á Íslandi. Nánari upplýsingar um þjálfaramenntun KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ.

Landsbankadeild karla

Fylkir, Þorlákur Árnason, KSÍ B þjálfari og E-stig
KR, Willum Þór Þórsson, KSÍ B þjálfari og E-stig
ÍA, Ólafur Þórðarson, KSÍ B þjálfari og E-stig
FH, Ólafur Jóhannesson, KSÍ B þjálfari og E-stig
Víkingur, Sigurður Jónsson, KSÍ B þjálfari og V.stig
Keflavík, Milan Stefán Jankovic, KSÍ B þjálfari og V.stig
ÍBV, Magnús Gylfason, KSÍ B þjálfari og V.stig
KA, Þorvaldur Örlygsson, KSÍ B þjálfari og V.stig
Fram, Ion Geolgau, UEFA A license frá Rúmeníu
Grindavík, Zeljko Sankovic, Hefur ekki verið metinn inn í kerfi KSÍ en er á undanþágu út þetta tímabil (er með háskólamenntun frá Króatíu)

Landsbankadeild kvenna

Fjölnir, Andrés Ellert Ólafsson, KSÍ B þjálfari og E-stig
Valur, Elísabet Gunnarsdóttir, KSÍ B þjálfari og V.stig
KR, Halldóra Sigurðardóttir, KSÍ B þjálfari og V.stig
Breiðablik, Margrét Sigurðardóttir, KSÍ B þjálfari og V.stig
ÍBV, Heimir Hallgrímsson, KSÍ B þjálfari og V.stig
Þór/KA/KS, Jónas L. Sigursteinsson, KSÍ B þjálfari og V.stig
FH, Sigurður Víðisson, C-stig
Stjarnan, Auður Skúladóttir, C-stig

1.deild karla

Breiðablik, Bjarni Jóhannsson, KSÍ B þjálfari og E-stig
HK, Gunnar Guðmundsson, KSÍ B þjálfari og E-stig
Njarðvík, Helgi Bogason, KSÍ B þjálfari og E-stig
Valur, Njáll Eiðsson, KSÍ B þjálfari og E-stig
Þróttur, Ásgeir Elíasson, KSÍ B þjálfari og E-stig
Haukar, Þorsteinn Halldórsson, KSÍ B þjálfari og V.stig
Fjölnir, Steinar Ingimundarson, KSÍ B þjálfari og V.stig
Þór, Sigurður Pétur Ólafsson og Júlíus Tryggvason, KSÍ B þjálfari og V.stig KSÍ B þjálfari
Stjarnan, Valdimar Kristófersson og Ragnar Gíslason, Báðir II.stig (eiga eftir að skila verkefni eftir sumarið til að fá III.stig)
Völsungur, Ásmundur Arnarsson, II.stig (á eftir að skila verkefni eftir sumarið til að fá III.stig)

Þjálfaramenntunarkerfi KSÍ

Gamla kerfið:
A-stig
B-stig
C-stig
D-stig fyrri hluti
D-stig seinni hluti
E-stig

Þegar KSÍ ákvað að sækja um að komast inn í þjálfarasáttmála UEFA þurftum við að breyta kerfinu okkar á eftirfarandi hátt:

Nýja kerfið:
I.stig (sambærilegt við A-stig í gamla kerfinu)
II.stig (sambærilegt við B-stig í gamla kerfinu)
III.stig (sambærilegt við C-stig í gamla kerfinu)
IV.stig
UEFA B próf (ef staðið þá ertu KSÍ B þjálfari eða UEFA B þjálfararéttindi öðru nafni)
V.stig (var haldið í fyrsta skipti 30. apríl - 2. maí 2004)
VI.stig (verður haldið í fyrsta skipti í haust, vikunámskeið í Englandi + æfingakennsla, unglingadómarapróf og þjálfaradagbók skv. núverandi hugmyndum KSÍ)

UEFA A próf bóklegt og verklegt (ef staðið þá ertu KSÍ A þjálfari)

Þjálfarar sem luku D-stigi fyrri hluta í gamla kerfinu þurfa að taka IV.stig í nýja kerfinu

Þjálfarar sem luku D-stigi seinni hluta fá UEFA B þjálfaragráðuna ef þeir sækja um hana til KSÍ og verða þá KSÍ B þjálfarar

Þjálfarar sem hafa lokið E-stigi fara á sérnámskeið á árinu 2005 sem bætir tímafjölda við menntun þeirra svo þeir fái UEFA A gráðuna og verði þá KSÍ A þjálfarar.

 

12.5.04 -

Handbók KSÍ komin út

Handbók KSÍ fyrir árið 2004 er komin úr prentun. Hún fæst á skrifstofu sambandsins á Laugardalsvelli og kostar kr. 1000. Handbókin er gefin út á hverju ári og inniheldur m.a. upplýsingar um stjórn og starfsfólk KSÍ, aðildarfélög, lög og reglugerðir, auk dagatals leikja 2004. Símaskrá KSÍ fyrir 2004 fæst einnig á skrifstofunni og kostar hún kr. 500. Í henni má finna upplýsingar um tengiliði hjá KSÍ og aðildarfélögum, upplýsingar um nefndir, eftirlitsmenn, dómara, o.fl.

 

 

12.5.04 -

Markmannsþjálfaranámskeið

KSÍ í samvinnu við Breska Sendiráðið og Knattspyrnuakademíu Íslands standa fyrir markmannsþjálfunarnámskeiði Simon Smith dagana 17. og 18. maí í Fífunni og Smáranum í Kópavogi. Simon Smith er núverandi markmannsþjálfari Newcastle United og vinnur þar undir stjórn Bobby Robson og þjálfar því m.a. Shay Given markvörð Newcastle United, hann hefur einnig starfað fyrir U-16 landslið Englands og A-landslið kvenna hjá Englandi. Námskeiðið fer fram á ensku og er ókeypis, en þó þarf að skrá þátttöku á tölvupósti til Sigurður Ragnar Eyjólfssonar fræðslustjóra KSÍ – siggi@ksi.is

 

7.5.04 -

Ráðstefna UEFT í í Kuzadasi í Tyrklandi

Í nóvember fóru Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ á 24. ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, sem að þessu sinni var haldin í Kuzadasi í Tyrklandi. Skýrslu frá ráðstefnunni má finna hér á síðunni undir liðnum fróðleikur, skýrslan ber nafnið "Skipulagið felldi þjóðverja í úrslitaleiknum" en þar er vitnað í Luiz Felipe Scolari fyrrum þjálfara heimsmeistara Brasilíu sem var aðal fyrilesarinn á ráðstefnunni. Farið í liðinn fróðleikur hér að ofan og kynnið ykkur innihald skýrslunnar.

 

6.5.04 -

40 þjálfarar á KSÍ V

Um síðastliðna helgi fór fram KSÍ V þjálfaranámskeið í fyrsta skipti og tóku 40 þjálfarar þátt. Þar voru meðal annars saman komnir A-landsliðsþjálfari kvenna, 9 þjálfarar úr Landsbankadeildum karla og kvenna, 3 fyrrum knattspyrnumenn ársins og alls 9 þjálfarar sem hafa leikið 171 A-landsleik fyrir hönd Íslands. Kennslugögn námskeiðsins verða aðgengileg á Fræðsluvef KSÍ innan skamms.

 

 

26.4.04 -

Ávarp formanns KÞÍ við B–licence útskrift 4. apríl

Ágætu fræðslunefndarmenn, ágætu knattspyrnuþjálfarar.
Í dag er sunnudagurinn núll fjórði, núll fjórði núll fjögur. Þetta er merkisdagur fyrir okkur knattspyrnuþjálfarana. Það útskrifast 123 þjálfarar með svokallað B – licence þjálfaraskírteini. Við sem höfum hlotið þessa menntun erum mjög stolt að taka við þessu skírteini hér í dag og vona ég innilega að menn láti ekki staðar numið hér, heldur haldi áfram að mennta sig svo við fáum enn betri þjálfara hér á landi. Í þessari starfsgrein er baráttan hörð og samkeppni mikil en jafnframt er ágæt samvinna hjá þjálfurum.

Næsta skref er A–licence þjálfaraskírteini og verður það kynnt nánar á eftir hjá fræðslustjóra vorum, Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, en markmiðið er að útskrifa fyrstu þjálfarana árið 2006. Hæsta þjálfaragráðan er Pro–licence, eiga þeir þjálfarar sem ætla sér að þjálfa í efstu deild karla árið 2010 að hafa hlotið þá gráðu.

Eins og fram hefur komið hjá formanni fræðslunefndarinnar,Ingibjörgu Hinriksdóttur þá hefur legið gríðarleg vinna að baki þessu þjálfaraskírteini, sem ég ætla ekki að rekja hér. Sjálfur er ég nýkominn í fræðslunefnd KSÍ og veit að mikil vinna og vangaveltur eru um hvernig best sé að vinna hlutina, hvenær á að halda námskeið, hvernig og hvenær á að senda umsókn til UEFA og svo framvegis.

Einnig hef ég kennt á fyrstu tveimur þjálfarastigum KSÍ undanfarin ár og er þess fullmeðvitaður að mikill metnaður er lagður í það hjá KSÍ að hafa námskeiðin sem best úr garði gerð. Kom meðal annars fulltrúi frá UEFA og tók út námskeiðin og aðaláhersla hans var sú að við værum komin fram úr okkur, það er að við værum að kenna of djúpt of snemma.

Mjög mikill fjöldi þjálfaraefna hafa sótt námskeiðin undanfarin ár og hefur kennsluefni milli stiga verið samræmt, það er passað upp á að ekki sé verið að kenna sama eða svipað efni milli stiga.

Sem formaður Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands í að verða sex ár og samtals stjórnarmaður KÞÍ í að verða átta ár er ég mjög stoltur að standa hér og halda þessu stuttu ræðu. Samstarf KSÍ og KÞÍ hefur vægast sagt stórbatnað undanfarin ár og er ég alveg sannfærður um að það á eftir að verða enn betra á komandi árum. Það er engum til góðs að menn séu að vinna að sínum málum hver í sínu horni, heldur er mun gáfulegra að menn sameinist og stuðli að framþróun og bættri knattspyrnu hér á landi. Til að mynda kom KÞÍ með ábendingu til fræðslunefndar KSÍ um hvernig væri best að útskrifa þjálfara.

Að lokum langar mig til að óska öllum, til hamingju með þennan áfanga.

Sigurður Þórir Þorsteinsson.


 

 

18.4.04 -

Sparkvallaátak KSÍ

KSÍ hefur unnið að undirbúningi sparkvallaátaks undanfarna mánuði. Kveikjan að því var ákvörðun UEFA um að veita aðildarsamböndum sínum styrk að upphæð 1 milljón svissneskra franka til að byggja sparkvelli. KSÍ sótti um styrk til fjárlaganefndar Alþingis og leitaði eftir stuðningi fyrirtækja. Eftir jákvæð viðbrögð allra aðila liggur fyrir að KSÍ mun hafa úr um 150 milljónum íslenskra króna að spila á næstu tveimur árum og vonast KSÍ til þess að byggðir verði a.m.k. 40 sparkvellir í þessu átaki víða um land, helst við grunnskóla.

 

6.4.04 -

Útskrift KSÍ-B þjálfara

Síðastliðinn sunnudag hélt KSÍ fyrstu útskrift KSÍ-B þjálfara, en það eru þeir þjálfarar sem hafa lokið við UEFA-B þjálfaragráðuna hér á Íslandi. Við þetta hátíðlega tilefni var Guðna Kjartanssyni, þjálfara U19 landsliðs karla afhent þjálfaraskírteini númer 1. Aðrir þjálfarar fengu svo afhent viðurkenningarskjal og skírteini sem staðfestir menntun þeirra.


 

 

5.4.04 -

KSÍ V þjálfaranámskeiðið 30.apríl-2.maí

KSÍ V þjálfaranámskeiðið fer fram 30.apríl-2.maí næstkomandi. Valið verður inn á námskeiðið út frá menntun og ferli þjálfarans og þjálfarastöðu í dag. Skila þarf inn umsókninni til KSÍ fyrir 14.apríl. Námskeiðið er aðeins ætlað fyrir þá sem hafa UEFA B þjálfaragráðuna. Ekki verður tekið við umsóknum frá þjálfurum sem hafa lokið E-stigi KSÍ því haldið verður sérstakt námskeið fyrir þá síðar. Frekari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)

 

 

29.3.04 -

Vel sótt ráðstefna um gervigras og keppnisvelli

Mannvirkjanefnd KSÍ stóð fyrir ráðstefnu um gervigras og keppnisvelli 24. mars. Ráðstefnan, sem haldin var í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, var mjög vel sótt, en alls tóku um 60 manns þátt. Markmið ráðstefnunnar var m.a. að fá upplýsingar um reynslu af þriðju kynslóðar gervigrasvöllum á öðrum Norðurlöndum.

 

 

29.3.04 -

UEFA-ráðstefna um þjálfaramenntun

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, mun sækja ráðstefnu á vegum UEFA um þjálfaramenntun 29. mars til 2. apríl. Ráðstefnan ber heitið Football Philosophies in Europe og meðal viðfangsefna er hugmyndafræðin á bak við menntun þjálfara í hverju aðildarlandi UEFA fyrir sig.
 

 

20.3.04 -

Útskrift UEFA B þjálfaragráðunnar í Smáranum 4. apríl

Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að halda útskrift fyrir þá þjálfara sem hafa lokið UEFA B þjálfaragráðunni og fer hún fram þann 4. apríl næstkomandi klukkan 14.00 í fundarsalnum á 2. hæð Smárans í Kópavogi (Íþróttahúsið við Fífuna). Á útskriftinni munu liggja frammi umsóknareyðublöð fyrir KSÍ V sem fer fram 30.apríl – 2.maí. KSÍ V er upphafið að næstu þjálfaragráðu UEFA (UEFA A). Þeir þjálfarar sem sjá sér ekki fært að koma á útskriftina eru vinsamlegast beðnir um að láta vita á tölvupósti siggi@ksi.is og munu þeir þá fá viðurkenningarskjalið og þjálfaraskírteinið sitt sent í pósti eftir að búið er að greiða skírteinisgjaldið (1.000 krónur).

 

 

20.3.04 -

Reglugerð um veitingu heiðursviðurkenninga KÞÍ.

Á stjórnarfundi KÞÍ 18. mars s.l. var samþykkt eftirfarandi reglugerð um veitingu heiðursviðurkenninga KÞÍ.

Reglugerð um veitingu heiðursviðurkenninga KÞÍ.

1. Heiðrun til knattspyrnuþjálfara vegna vel unninna starfa og góðs árangurs í knattspyrnuþjálfun.

2. Heiðursviðurkenningar skulu afhentar verðlaunahafa á aðalfundi félagsins eða við önnur sérstök tilefni.

3. Stjórn KÞÍ útnefnir verðlaunahafa og þarf samþykki meirihluta stjórnarmanna.

4. Félagsmenn í KÞÍ geta komið tilnefningum um verðlaunahafa á framfæri við stjórn KÞÍ eigi síðar en hálfum mánuði fyrir auglýstan aðalfund. Tilnefningum er einnig hægt að koma á framfæri á heimasíðu KÞÍ.

5. Heiðursviðurkenningarnar eru þrennskonar; Silfurmerki KÞÍ, Gullmerki KÞÍ og heiðursfélagi KÞÍ.

6. Silfurmerki KÞÍ: Verðlaunahafi skal hafa starfað við knattspyrnuþjálfun í langan tíma. Verðlaunahafi skal hafa náð góðum árangri í starfi, lagt sig fram um að afla sér góðrar menntunar og sýnt starfi sínu metnað.

7. Gullmerki KÞÍ: Verðlaunahafi skal hafa starfað við knattspyrnuþjálfun í langan tíma. Verðlaunahafi skal hafa náð góðum árangri í starfi og lagt mikinn metnað í starfið og verið knattspyrnunni til fyrirmyndar.

8. Heiðursfélagi í KÞÍ. Stjórn KÞÍ útnefnir heiðursfélaga KÞÍ aðeins þeim aðila sem að mati stjórnar hefur unnið að málefnum knattspyrnunnar og knattpyrnuþjálfara óeigingjarnt og þýðingarmikið starf til langs tíma.
 

 

16.3.04 -

66 þjálfarar á KSÍ-III

KSÍ-III (C-stigs) þjálfaranámskeið voru haldin í Reykjavík helgarnar 5. - 7. og 12. - 14. mars síðastliðinn. Metþátttaka var á námskeiðunum því alls voru það 66 þjálfarar sem sátu þau. Til samanburðar var 41 þjálfari sem sótti námskeiðið í fyrra og 17 þjálfarar árið 2001. Aðsókn þjálfara að námskeiðum KSÍ hefur því margfaldast á aðeins tveimur árum.

 

 

2.3.04 -

Góð heimasíða með fræðsluefni

Oft eru menn að leita sér að fræðsluefni um knattspyrnuþjálfun. Hér er ein mjög góð síða með bókum, vídeóspólum og DVD diskum. heimasíða Reedswain

 

 

1.3.04 -

Tilboð til félagsmanna KÞÍ

Fljótlega er væntanlegt tilboð til félagsmanna KÞÍ á knattspyrnutímaritinu Success in Soccer. Það er talsmaður tímaritsins á Íslandi sem sér um að koma tilboðinu til félagsmanna, en stjórn KÞÍ samþykkti að gefa útgáfunni nafnalista félagsins þar sem þetta var talið til hagsbóta fyrir félagsmenn.

 

1.3.04 -

Úlfar fulltrúi KÞÍ á ársþingi KSÍ

Í reglugerð um ársþing KSÍ segir að Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands megi senda tvo fulltrúa á þingið. Að þessu sinni sótti Úlfar Hinriksson ritari KÞÍ þingið en Sigurður Þórir formaður KÞÍ komst ekki vegna veikinda.

 

1.3.04 -

Reglugerð um heiðursviðurkenningar KÞÍ

Stjórn KÞÍ vinnur um þessar mundir að undirbúningi á reglugerð um veitingu heiðursviðurkenninga félagsins. Vonast KÞÍ til að reglugerðin verði tilbúin í lok næsta mánaðar og mun hún verða birt á heimasíðunni um leið og hún er tilbúin.

 

1.3.04 -

Sigurður Þórir í fræðslunefnd KSÍ

Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður Knattspyrnuþjálfarafélgs Íslands hefur tekið sæti í Fræðslunefnd KSÍ. Undanfarið hefur KÞÍ unnið að því að efla samvinnuna við KSÍ og er þetta enn ein sönnunin á því góða samstarfi sem á milli KÞÍ og KSÍ.

 

17.2.04 -

Ætlar þú á þjálfaranámskeið hjá KSÍ?

Eftirfarandi þjálfaranámskeið eru framundan hjá KSÍ:

KSÍ II (B-stig) á Akureyri helgina 5. - 7. mars (ath. breytt dagsetning)
KSÍ II (B-stig) á Egilsstöðum helgina 5. - 7. mars
KSÍ III (C-stig) í Reykjavík helgina 5. - 7. mars (ath. breytt dagsetning)
KSÍ V í Reykjavík helgina 30. apríl - 2. maí

Skráning er hafin á öll þessi námskeið nema á KSÍ V námskeiðið, en skráning fyrir það verður auglýst síðar. Skráningargjald á KSÍ II er kr. 14.000 og á KSÍ III kr. 16.000 (öll námsgögn innifalin). Námskeiðin eru bæði bókleg og verkleg og krafist er 100% mætingar. Skráning er í síma 510-2900 eða með tölvupósti (siggi@ksi.is).

 

 

13.2.04 -

Ráðstefna um konur og íþróttir

Laugardaginn 21. febrúar næstkomandi standa ÍSÍ og KHÍ fyrir ráðstefnu um konur og íþróttir sem ber yfirskriftina Stelpurnar okkar. Markmiðið með ráðstefnunni er að skoða nánar þætti sem hafa áhrif á íþróttaþátttöku stúlkna, s.s. heimilið, skólaíþróttir, íþróttafélög og fjölmiðla. Leitast er við að meta hvernig staðan er í dag og koma með hugmyndir um hvernig hægt er að gera enn betur. Ráðstefnan er ætluð öllum þeim sem koma að íþróttum og öðru tómstundastarfi almennt, s.s. þjálfurum, kennurum, iðkendum, stjórnendum, foreldrum og öllum öðrum áhugasömum.

 

 

13.2.04 -

108 þjálfarar verða KSÍ B þjálfarar

Þann 24. janúar síðastliðinn fór fram UEFA-B próf og stóðust það alls 42 þjálfarar. Þessir þjálfarar hljóta UEFA-B þjálfararéttindi við útskrift og hafa því leyfi til að kalla sig KSÍ-B þjálfara. Til viðbótar hafa 66 þjálfarar sótt um þessi réttindi, þar sem þeir luku D eða E-stigi KSÍ, og alls verða því 108 þjálfarar sem fá þessi réttindi í fyrstu atrennu.

Samstarfsaðilar