24.12.05 - Gleðileg jól, gott og farsælt komandi knattspyrnu ár

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendir öllum knattspyrnuþjálfurum og öðrum velgjörðarmönnum KÞÍ, sínar bestu óskir um gleðileg jól, með ósk um gott og farsælt komandi knattspyrnu ár.

 

21.12.05 - Sjö knattspyrnuþjálfarar fengu styrk frá ÍSÍ

Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, afhenti í dag þjálfarastyrki að upphæð kr. 50.000 hvern. Þessir styrkir hafa verið veittir síðan 1998 og þetta er í 15. sinn sem þessi afhending fer fram. Það sem er helst áberandi að þessu sinni að umsóknir frá knattspyrnuþjálfurum voru mjög margar og fáar konur sóttu um styrk að þessu sinni.
Þeir knattspyrnuþjálfarar sem hlutu styrk að þessu sinni voru:
Sigurjón Magnússon, Páll V. Gíslason, Arnar Bill Gunnarsson, Dragi Pavlóv, Guðjón Þorvarðarson, Garðar Gunnar Ásgeirsson og Andri Marteinsson.

 

19.12.05 - Bjarni og Birkir verða Eyjólfi til aðstoðar

Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu karla, hefur ráðið sér tvo aðstoðarmenn. Annarsvegar er um að ræða Bjarna Jóhannsson og hins vegar Birki Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörð, en honum er ætlað að sjá um markvarðaþjálfun. Bjarni er afar reyndur þjálfari og hefur lokið hæsta stigi í þjálfaramenntun sem boðið er upp á hér á landi. Bjarni núverandi þjálfari karlaliðs Breiðabliks sem í haust vann sér sæti í efstu deild, Landsbankadeildinni.
Birkir er einn reynslumesti markvörður íslenskrar knattspyrnu og leikjahæsti leikmaður í efstu deild frá upphafi með 320 leiki. Hann hefur leikið 74 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þann síðasta á móti Ítalíu á Laugardalsvelli sumarið 2003.

 

15.12.05 - Eiður Smári og Ásthildur knattspyrnufólk ársins 2005

Leikmannaval KSÍ hefur valið Eið Smára Guðjohnsen og Ásthildi Helgadóttur knattspyrnufólk ársins 2005. Tilkynnt var um valið í hófi á Hótel Nordica á mánudagskvöld að viðstöddu fjölmenni.

 

9.12.05 - Stjórnin skipti með sér verkum

Stjórnarfundur var haldinn hjá KÞÍ 23. nóvember. Auk venjulegra fundarstarfa skipti stjórnin með sér verkum. Sigurður Þórir Þorsteinsson verður áfram formaður, Þórir bergsson verður varaformaður, Ómar Jóhannsson áfram gjaldkeri og Úlfar Hinriksson áfram ritari, Jóhann Gunnarsson verður spjaldskrárritari og í varastjórn eru Arnar Bill Gunnarsson og Kristján Guðmundsson.

 

23.11.05 - Ólafur og Úlfar þjálfarar ársins 2005

Á aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 12. nóvember síðastliðinn voru Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Úlfar Hinriksson þjálfari Breiðabliks útnefndir þjálfarar ársins í Landsbankadeildum karla og kvenna fyrir árið 2005. Báðir náðu þeir mjög góðum árangri með lið sín í sumar og því vel að útnefningunni komnir.

Ólafur Jóhannesson og Úlfar Hinriksson

Ólafur hóf þjálfaraferilinn fyrir tuttugu og fjórum árum þegar hann þjálfaði meistaraflokk og þriðja flokk karla hjá Einherja á Vopnafirði. Síðan þá hefur hann eingöngu þjálfað meistaraflokk karla. Ólafur hefur þjálfað tvisvar hjá Skallagrími í Borgarnesi og hefur einnig þjálfað hjá Þrótti Reykjavík, Haukum og Selfossi en, mest hefur hann þjálfað hjá FH. Ólafur hefur þrisvar verið ráðinn til starfa þar á bæ, nú síðast haustið 2002. Fyrsta árið endaði FH í öðru sæti í deild og bikar, í fyrra varð FH undir stjórn Ólafs Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. Í ár varði FH Íslandsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum. Ólafur er vel menntaður þjálfari og hefur hann lokið UEFA B þjálfaragráðu. Þetta er þriðja árið í röð sem Ólafur er kjörinn þjálfari ársins hjá KÞÍ, en alls hefur Ólafur fjórum sinnum hlotið þessa útnefningu hjá KÞÍ, en fyrst hlaut Ólafur þessa viðurkenningu árið 1996.

Úlfar Hinriksson er 33 ára íþróttakennari að mennt og hefur lokið öllum stigum KSÍ samkvæmt eldra menntunarkerfi KSÍ. Úlfar stýrði Breiðabliki til sigurs í deild og bikar í sumar á sínu fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá Víkingi árið 1994, tók þá að þjálfa hjá Breiðablik þar sem hann þjálfaði yngri flokka í níu ár með glæstum árangri, auk þess að gegna stöðu yfirþjálfara síðustu þrjú ár. Haustið 2004 tók Úlfar við mfl. kvenna ásamt því að gegna starfi yfirþjálfara. Úlfar þjálfaði U21 kvennalandslið Íslands árin 2003 og 2004. Árið 2004 náði Ísland besta árangri sínum frá upphafi í Opna Norðurlandamótinu. Árin 2003 og 2004 gegndi Úlfar einnig starfi aðstoðarmanns hjá Helenu Ólafsdóttur, A landsliðsþjálfara kvenna. Úlfar hefur verið duglegur að sækja sér fróðleik bæði innanlands og utan og hefur meðal annars dvalist í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og á Ítalíu.

 

23.11.05 - Viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Aðalsteinn Aðalsteinsson, Garðar Smári Gunnarsson og Sævar Þór Gylfason
Aðalsteinn Aðalsteinsson, Garðar Smári Gunnarsson og Sævar Þór Gylfason hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka á aðalfundi KÞÍ. Aðalsteinn hefur þjálfað hjá Víkingi, Völsungi, Gróttu, Leiftri, Aftureldingu, Sindra og undanfarin níu ár hefur Aðalsteinn þjálfað yngri flokka hjá Fylki. Garðar Smári hefur þjálfað á Ísafirði, hjá FH og Haukum í Hafnarfirði, Stjörnunni og þjálfar nú 3. flokk karla hjá Val. Sævar Þór hefur þjálfað yngri flokka hjá Sindra á Hornafirði í fjölmörg ár. Allir hafa þeir lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín.

 

23.11.05 - Fjórir hlutu gullmerki KÞÍ

Bjarni Stefán Konráðsson, Bjarni Jóhannsson, Eggert Magnússon og Geir Þorsteinsson
Á ráðstefnu Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 12. nóvember síðastliðinn veitti formaður félagsins, Sigurður Þórir Þorsteinsson, fjórum aðilum gullmerki KÞÍ fyrir framlög sín til þjálfaramenntunar í knattspyrnu hér á landi. Eggert Magnússon, formaður KSÍ, og Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, fengu gullmerki KÞÍ fyrir framlag sitt til eflingu og uppbyggingu þjálfaramenntunar í íslenskri knattspyrnu. Bjarni Stefán Konráðsson og Bjarni Jóhannsson, sem báðir eru kunnir knattspyrnuþjálfarar hér á landi, fengu gullmerki KÞÍ fyrir störf sín við þjálfun og þjálfaramenntun í íslenskri knattspyrnu og langa stjórnarsetu í KÞÍ.

 

23.11.05 - Vel heppnuð afmælisráðstefna KÞÍ

Um eitthundrað þjálfarar mættu á afmælisráðstefnu KÞÍ á Grand Hóteli laugardaginn 12. nóvember. Ljóst var að fyrirlesarar dagsins drógu að sér mikla athygli.

EYJÓLFUR SVERRISSON

Eyjólfur SverrissonFyrsti ræðumaður ráðstefnunnar var hinn nýráðni A landsliðsþjálfari karla, Eyjólfur Sverrisson. Ræddi Eyjólfur um störf sín með U21 landsliðinu og þær áherslur sem hann ætlar að koma með inn í A landsliðið. Sagði Eyjólfur frá reynslu sinni sem atvinnumaður og hvaða þjálfarar hefðu haft mest áhrif á hann þar.

“Það er ekkert gríðarlega mikill munur á leikmönnum okkar og á Norðurlöndum í yngri landsliðunum. Við erum þó aðeins á eftir sterkari mótherjum okkar hvað varðar spyrnugetu og tækni. Hallirnar eiga þó eftir að skila okkur betri spilurum í framtíðinni. Við megum þó ekki láta hallirnar bitna á líkamlegu atgervi. Í yngri flokka þjálfun er mikilvægt að styrkja leikmanninn og bæta veikleika hjá honum en þó er enn mikilvægara að taka styrkleikana og bæta þá og gera þá einstaka. Að leikmaðurinn nái að verða mjög góður og áberandi góður í sínum styrkleika. Sem dæmi þá er David Beckham ekki sérlega góður skallamaður og ekki liggur hans styrkur í sprettum, en hann hefur frábæra spyrnugetu og hann gerir út um leiki með sínum hæfileika. Að sama skapi getur góður skallamaður, hraður leikmaður og leikmenn með einstaka hæfileika gert út um jafna leiki. Það er betra að vera frábær í einu atriði en að vera meðalmaður í ölllu.”

ELÍSABET GUNNARSDÓTTIR

Elísabet GunnarsdóttirÍ kjölfar Eyjólfs kom Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Val en Valsstúlkur komust lengra en nokkuð annað íslenskt kvennalið hefur komist áður í Evrópukeppni félagsliða kvenna. Sagði Elísabet frá reynslu liðsins og hennar sem þjálfara. Ljóst er að árangur Vals hefur opnað augu stóru liðanna í Evrópu fyrir gæðum íslenskra liða og leikmanna.

“Sú reynsla sem við fengum úr keppninni var góð. Við fengum bæði liðin sem spiluðu úrslitaleikinn í fyrra. Ég segi að við áttum fullt erindi þangað sem við komumst. Jákvæð reynsla sem leikmenn og þjálfarar fengu gegn sterkum mótherjum sem spiluðu öðruvísi en við voru vanar. Mikil persónuleg reynsla fyrir þjálfara og samningstilboð erlendis frá til leikmanna og þjálfara. Tveir leikmenn með mjög góð tilboð í höndunum. Má segja að þetta góða gengi sé búið að opna fyrir áhuga sterkustu liðanna á íslenskum leikmönnum. Við eigum mjög sterk yngri landslið og efnilegt A landslið og við þurfum að fá leikmenn sem spila erlendis til að þeir haldi áfram að verða betri. Mikilvægt að koma þeim út til að efla þá. Ljóst að einn til tveir leikmenn og jafnvel fleiri munu fara erlendis, jafnvel fyrir næsta tímabil, t.d. er Margrét Lára svo gott sem búin að gera munnlegt samkomulag við Potsdam um að koma til þeirra þegar hún er búin með skólann eftir næsta tímabil.”

ÓLAFUR JÓHANNESSON

Ólafur JóhannessonSíðasta erindið fyrir matarhlé var erindi Ólafs Jóhannessonar sem sagði á mjög svo skemmtilegan hátt frá upphafi sigurgöngu FH. Ásamt því að fara vítt og breitt um völlinn og salinn í ræðu sinni. Er ljóst á ræðu Óla að FH ingar ætla sér ekki að gefa neitt eftir á komandi árum.

“Líkamlegt form manna skiptir miklu máli. Margir vilja meina að það sé óþarfi að fara í langhlaup. Ég hef alltaf viljað láta menn hlaupa og lyfta nokkuð mikið. Það er mjög gott að geta gert allar æfingar með bolta en það er ekki alltaf hægt. Ég hef notað mikið af langhlaupum og ég hef og mun halda áfram að notast við langhlaup. Í janúar, febrúar og mars er mikið um hlaup og lyftingar hjá mér. Byrjuðum að spila æfingaleiki seint í janúar og svo kom deildabikarinn. Ég breytti aldrei neinu í æfingaprógramminu og lyfti og hljóp ef það var svoleiðis æfing daginn fyrir leik. Töpuðum og töpuðum aftur og aftur í deildarbikarnum. Þeta ræddi ég við reynslumeiri leikmenn liðsins. Heimir Guðjóns hélt því fram að við værum að æfa vel og þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur. Afsökunin var að við vorum þyngri en hin liðin. En einhverra hluta vegna vorum við mjög daprir. Svo kemur að páskaferð og þá komu Danirnir með okkur og Sverrir Garðarsson líka. Úti æfðum kannski meira en aðrir, við gáfum aldrei frí og við töpuðum öllum leikjunum þar líka. Þá spurði Tommy hvort þetta væru bestu liðin á íslandi og ég játti því þá sagði hann að við værum ekki lélegri en þessi lið. Það breyttist margt með komu þessara leikmanna. Tommy Nielsen var mikilvægasti leikmaðurinn, hann kom með atvinnumannahugsun í hópinn sem hafði áhrif á alla leikmennina, hann vildi gera þetta að alvöru.”

TEITUR ÞÓRÐARSON

Teitur ÞórðarsonFyrri fyrirlesarinn eftir hádegishlé var Teitur Þórðarson sem er kominn heim eftir 30 ára veru í útlöndum sem leikmaður og þjálfari. Ræddi Teitur fyrst um feril sinn sem leikmaður og fór svo yfir þjálfaraferil sinn til dagsins í dag og hans nýja starf sem aðalþjálfara KR.

“Ég spekuleraði aldrei neitt mikið í því að gerast þjálfari þegar ég var að spila. Ég var heppinn að hafa mjög fína þjálfara sem leikmaður í Frakklandi, Arsene Wenger og Gerard Houilier sem eru heimsþekktir í dag. Á sama tíma þá byrjaði ég að skrifa dagbækur um æfingar og leikaðferðir. Einnig var ég beðinn um að þjálfa 2.fl.ka þegar ég lék með Cannes og tók ég því. Í Frakklandi tók ég nokkur námskeið í unglingaþjálfun. Þegar ég fór svo aftur til Svíþjóðar þá var mér boðið að verða skólastjóri í Markaryds akademíu og það var þar sem ég byrjaði að fá áhuga á því fyrir alvöru að verða þjálfari. Öll mín þjálfun byggðist upp á því sem ég hafði reynt sjálfur sem leikmaður. Ég hef aldrei lent í eins miklum hlaupum og þrekæfingum eins og þegar ég var í Frakklandi. Þar sem ég átti von á miklum tækni og sendingaræfingum sem voru líka en áherslan á hlaup og þrekæfingar voru miklar. Hjá okkur þjálfurum er það þannig að við þurfum að sjá til þess að leikmenn séu í formi. Mér fannst í Frakklandi vera góð blanda af þrek, tækni og spilæfingum. Hvernig ég vil þjálfa er að mestu leyti tekið frá Frakklandi. Frá því ég hóf að þjálfa hef ég farið á hverju einasta ári til að fylgjast með þjálfun, oftast til Frakklands en seinni árin hef ég líka farið til Englands og Ítalíu.”

VIÐAR HALLDÓRSSON

Viðar HalldórssonSíðasti fyrirlesari dagsins og sá eini sem ekki er starfandi þjálfari í meistaraflokki var Viðar Halldórsson, lektor í íþróttafræðum. Fór Viðar yfir helstu atriði úr meistaraprófsverkefni sínu um knattspyrnu-þjálfarann. Var mjög áhugavert fyrir alla þjálfara að heyra hvernig Viðar greindi hlutverk og hættur knattspyrnuþjálfara í dag.

“Erindið byggir á meistaraprófsverkefni í íþróttafélagsfræði. Rannsóknin beindi sjónum að knattspyrnuþjálfaranum sem lykilaðila í íþróttinni í dag og fjallar sérstaklega um hinar félagslegu hliðar þjálfaraskipta í knattspyrnu. Annars vegar var gerð tölfræðileg greining á Úrvalsdeild karla á Íslandi, með það fyrir augum að meta tíðni þjálfaraskipta og starfsöryggi knattspyrnu-þjálfara. Hins vegar voru tekin fjölmörg viðtöl við knattspyrnuþjálfara og stuðst við önnur gögn með það fyrir augum að öðlast skilning á starfi þjálfarans sem og ástæðum og afleiðingum þjálfaraskipta í knattspyrnu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að starf knattspyrnuþjálfarans er flókið og margþætt og að þjálfaraskipti eru mjög tíð í íþróttinni hér á landi. Líftími þjálfara í starfi er stuttur og benda niðurstöðurnar til þess að þau þjálfaraskipti sem eiga sér stað á leiktímabilinu séu fyrst og fremst vegna slælegs árangurs í leikjum. Einnig gefa niðurstöðurnar til kynna að knattspyrnuþjálfarinn sé mikilvægur þar sem frammistaða liða batnar í flestum tilvikum þegar skipt er um knattspyrnuþjálfara á leiktímabilinu. Niðurstöðurnar benda enn fremur til þess að knattspyrnuþjálfarar séu í stöðu þar sem ekki er samræmi milli markmiða íþróttarinnar og þeirra leiða sem þeim eru færar til að ná árangri. Þetta ósamræmi er ein af meginorsökum tíðra þjálfaraskipta í knattspyrnu og í íþróttum yfirhöfuð.

Viðar bendir í framhaldi af því á leiðir til að auka samræmi milli markmiða og leiða, með það fyrir augum að gera þjálfarastarfið að öruggari starfsvettvangi, leiðir eins og t.d. markvissari fræðsla til þjálfara um ákveðna þætti starfsins sem og fræðslu til annarra um eðli þjálfarastarfsins.”

 

23.11.05 - Skýrsla stjórnar KÞÍ starfsárið 2004 – 2005

Tímamót eru í sögu Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands. Það var stofnað 13. nóvember árið 1970 í Austurbæjarskóla í Reykjavík. Tuttugu og einn þjálfari ásamt fimm fulltrúum frá KSÍ mættu á stofnfundinn sem Albert Guðmundsson þáverandi formaður KSÍ var aðalhvatamaður að. Fyrsta stjórn KÞÍ var skipuð þeim Sölva Óskarssyni sem var formaður, Reynir G Karlssyni sem var varaformaður, Erni Steinsen sem var ritari og meðstjórnendunum Lárusi Loftssyni og Ríkharði Jónssyni. Félagið er því 35 ára í ár. Við ákváðum því að boða til þjálfararáðstefnu í samvinnu við KSÍ og halda jafnframt aðalfund félagsins hér á Grand Hótel.

Dagskráin var mjög glæsileg: Byrjað var á ávarpi formanns KÞÍ, Sigurðar Þóris Þorsteinssonar, síðan tók Eyjólfur Sverrisson þjálfari A-landsliðs karla við: Framtíðarhugmyndir landsliðsþjálfarans. Þar á eftir kom Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari mfl. kvenna hjá Val við með erindi sem heitir ,,Reynslan af þátttöku Vals í Evrópukeppninni.” Fyrir matarhlé kom Ólafur Jóhannesson þjálfari mfl. karla hjá FH: ,,Að búa til sigurvegara’’. Eftir mat kom Teitur Þórðarson yfirþjálfari og þjálfari mfl. karla hjá KR: ,,Reynslan á leið heim”. Fyrir aðalfundinn var Viðar Halldórsson, lektor í íþróttafræðum við KHÍ með erindi: ,,Félagslegt umhverfi knattspyrnuþjálfarans.” Ég þakka öllum frummælendum sem og öllum þátttakendum á ráðstefnunni fyrir mjög góða ráðstefnu.

Stjórn KÞÍ var kjörin í fyrra og skipti með sér verkum. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Njáll Eiðsson varaformaður, Úlfar Hinriksson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri og Jörundur Áki Sveinsson spjaldskrárritari. Í varastjórn voru Jóhann Gunnarsson og Þórir Bergsson. Nýr í stjórn kom Jóhann Gunnarsson í stað Elísabetar Gunnarsdóttur.

Landshlutatengiliðakerfi KÞÍ var eflt til muna og er hægt að sjá yfirlit yfir alla landshlutatengiliði á heimasíðu KÞÍ.

Á starfsárinu voru haldnir átta fundir, auk funda þar sem hluti stjórnar hittist til að undirbúa ýmis sérverkefni. Markmiðið var sem áður að fundartíminn færi ekki í framlengingu í fullum leiktíma, þ.e. 90 mínútur. Allar fundargerðir má nú sjá á heimasíðu KÞÍ.

Fjárhagur félagsins stendur ágætlega. Núna eru tæplega 300 búnir að greiða félagsgjaldið í ár sem er einungis 2500 krónur. Þeir sem greiddu fyrir 10. september fengu mjög glæsilegan og hagnýtan bakpoka frá JAKO með merki félagsins. Við erum mjög ánægð með það hversu vel það hefur mælst fyrir hjá þjálfurum að láta eitthvað gagnlegt fylgja með árgjaldinu.
Við í stjórn KÞÍ höfum verið dugleg að fara á þjálfaranámskeið KSÍ og kynna félagið og fá þannig inn nýja félagsmenn. Fjölgunin hefur verið gríðarleg síðustu árin og vonumst við að sjálfsögðu til að félagið vaxi áfram. Samstarfið við Knattspyrnusamband Íslands er mjög gott og er það mjög mikilvægt fyrir okkar félag. KSÍ tók að sér að greiða árgjaldið til evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, UEFT, sem er 1200 evrur eða rúmlega 100.000 krónur. Þess má til gamans geta að KÞÍ er eitt af stofnendum UEFT. Um leið og við þökkum veittan stuðning væntum við enn meira og betra samstarfs á næstu árum.

Styrktaraðilar KÞÍ eru: ÍSLANDSBANKI hf, MEBA og JAKO. Við þökkum þessum aðilum kærlega fyrir stuðninginn við félagið og vonumst til að eiga gott samstarf við þá áfram.

Það er skemmst frá því að segja að við gerðum þrjár tilraunir til þess að halda ráðstefnur á árinu en engin varð að veruleika. Í vor auglýstum við ráðstefnu bæði í Reykjavík og á Akureyri en við þurftum að hætta við báðar vegna þátttökuleysis sem var gífurleg vonbrigði fyrir okkur. Við höfðum lengi stefnt að því að halda ráðstefnu fyrir utan Reykjavík og svo þegar til kastanna kom var ekki nægileg þátttaka.

Einnig ætluðum við að halda ráðstefnu í tengslum við bikarúrslitaleik karla eins og við höfum gert undanfarin ár en urðum því miður að hætta við það á síðustu stundu vegna þess að aðalfyrirlesarinn afboðaði sig og við fengum engan í staðinn. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur. Erum við ekki með atburðina á réttum tíma? Er efnið ekki nægilega áhugavert? Okkur þætti gott að fá ábendingar um hvenær og hvernig efni menn vilja fá, en það er ánægjulegt að þjálfurum fannst efnið sem boðið var upp á ráðstefnunni í dag áhugavert og þátttakan var frábær.

Skýrsla frá 25. ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, UEFT sem var haldin í Lissabon í Portúgal í október í fyrra er komin á heimasíðu KÞÍ (undir fróðleikur). Einnig fengu allir þátttakendur á ráðstefnunni í dag eintak af skýrslunni, en efni ráðstefnunnar var ,,Ekkert er óhugsandi’’ en þar er vitnað í Otto Rehagel landsliðsþjálfara Grikklands sem var aðalfyrirlesarinn á ráðstefnunni.

KÞÍ var boðið að senda tvo fulltrúa á þjálfararáðstefnu í Þýskalandi og auglýstum við eftir umsóknum á heimasíðu KÞÍ. Boðið var upp á frítt uppihald og ráðstefnugjald en þátttakendur þurftu sjálfir að greiða flugfargjaldið. Bjarni Stefán Konráðsson fyrrum formaður KÞÍ fór á þessa þjálfararáðstefnu og fljótlega kemur skýrsla frá þeirri ferð inn á heimasíðu KÞÍ.

KSÍ opnaði fyrir tveimur árum sérstakan fæðsluvef á heimasíðu sinni, ksi.is en þar er að finna ýmsan gagnlegan fróðleik fyrir þjálfara, dómara, leikmenn og alla áhugamenn um knattspyrnu og menn geta skoðað þar veglegt bókasafn og myndbandasafn KSÍ. Þar er mikið æfingasafn fyrir knattspyrnuþjálfara þar sem menn geta skipst á æfingum við aðra þjálfara svo og kennslugögn frá þjálfaranámskeiðum KSÍ. Þjálfurum og íþróttakennurum er frjálst að nota kennslugögnin af þjálfaranámskeiðunum í kennslu og þjálfun hjá sér.

Samstarf KÞÍ og KSÍ hefur gengið mjög vel eins og þessi ráðstefna sýnir og sannar. Gríðarlegur fjöldi hefur sótt þjálfaranámskeið KSÍ og er það mjög ánægjulegt. Hins vegar er það staðreynd að mörg félög eiga erfitt með að manna þjálfarastöður hjá sér og er það umhugsunarefni. Hvað veldur er erfitt að segja, sumir ætla að sjá til hvort þeir fari í þjálfun eða ekki og aðrir eru einfaldlega sendir af félögunum, síðan fara leikmenn sem eru að ljúka ferlinum á námskeið til að undirbúa að taka við liði. Það er okkar skoðun að öll félög eigi að sýna þann metnað að þjálfarar þeirra hafi tilskilin réttindi.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands hvetur þjálfara áfram til þess að vanda gerð samninga. Það er að segja að þeir gangi tryggilega frá þeim þegar samið er og bíði ekki með að gera það þangað til seinna eins og við heyrum svo marga þjálfara gera, einnig mjög reynda þjálfarar. Menn vita aldrei hvað gerist hvað gengi liðs síns varðar og því er betra að hafa allan vara á. Eins hefur það gerst að heilu stjórnirnar hafi hætt á miðju keppnistímabili og þá er það bara orð gegn orði þó svo munnlegur samningur eigi að vera jafngildur og skriflegur. Ef menn verða fyrir því að vera sagt upp störfum ætlumst við til þess að menn leiti réttar síns og eins og áður hefur komið fram erum við með lögfræðing á okkar snærum sem við bendum mönnum á þegar við hringjum í þá. Mjög misjafnt er hversu mikla aðstoð menn þurfa og eru símtöl okkar við viðkomandi allt frá nokkrum mínútum upp í rúmlega klukkustund. Einnig hvetjum við þjálfara sem eru að taka við störfum að ganga úr skugga um að búið sé að gera upp við þann þjálfara sem var á undan. Við viljum benda fólki á launþega og verktakasamninga sem eru á heimasíðu félagsins en þeir eru einungis til hliðsjónar við gerð samninga.

Á eftir verða þjálfararar í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Í fyrra var Ólafur Jóhannesson valinn þjálfari ársins í efstu deild karla og Elísabet Gunnarsdóttir í efstu deild kvenna. Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka. Í fyrra hlutu þau Björn Kristinn Björnsson, Garðar Gunnar Ásgeirsson og Mist Rúnarsdóttir þessar viðurkenningar.

Njáll Eiðsson varaformaður og Jörundur Áki Sveinsson spjaldskrárritari hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa og þökkum við þeim óeigingjant starf fyrir KÞÍ á undanförnum árum og óskum þeim velfarnaðar.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarfélags Íslands þakkar ykkur öllum fyrir samstarfið og þann geysilega mikla velvilja sem félagið hefur og hvetur ykkur áfram í starfi.

F.h. stjórnar Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands,
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður.

 

23.11.05 - KÞÍ fær aðstöðu í húsakynnum KSÍ í Laugardal

Á afmælisráðstefnu KÞÍ sem haldin var fyrir stuttu á Grand hótel tilkynnti Eggert Magnússon formaður KSÍ að KÞÍ fengi skrifstofu og fundaraðstöðu í húsakynnum KSÍ í Laugardal á næsta ári. KSÍ stendur í miklum framkvæmdum á Laugardalsvelli og mun KÞÍ fá aðstöðuna þegar framkvæmdunum þar líkur. Er þetta mikið fagnaðarefni fyrir KÞÍ og ljóst að þetta á eftir að efla félagið enn frekar.

 

23.11.05 - Sigurður Þórir og Ómar fara á ráðstefnu UEFT í Basel í Sviss

Þeir félagar Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ fara á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin verðu í Sviss 26. - 30. nóvember n.k. Vænta má mikils fróðleiks frá þeim félögum að ráðstefnunni lokinni, en skýrsla um ráðstefnuna verður sett á heimasíðuna um leið og hún verður tilbúin. Skýrsluna af ráðstefnu UEFT sem haldin var í Portúgal í fyrra má sjá á heimasíðu KÞÍ undir fróðleikur. Allir sem komu á afmælisráðstefnu KÞÍ 12. nóvember síðastliðinn fengu skýrsluna afhenta þar.

 

23.11.05 - Bakpokarnir afhentir hjá KSÍ

Bakpokinn sem fylgir félagsgjaldinu í ár er afhentur á skrifstofu KSÍ í Laugardal eða hjá stjórnarmönnum í KÞÍ. Félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sækja sinn bakpoka á skrifstofu KSÍ, vegna mikils kostnaðar við að senda bakpokann með pósti. Hvetjum við félagsmenn til að sækja bakpokann á skrifstofu KSÍ við fyrsta tækifæri. Bakpokar fyrir félagsmenn á landsbyggðinni hafa verið sendir á tengiliði KÞÍ á stærstu þéttbýlisstöðunum og þeir komið bakpokunum til félagsmanna. Þeir félagsmenn af landsbyggðinni sem ekki hafa enn fengið bakpoka eru beðnir að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is og bakpoki mun verða sendur til þeirra í pósti við fyrsta tækifæri.

 

23.11.05 - Arnar Bill og Kristján koma í vararstjórn

Á aðalfundinum voru Arnar Bill Gunnarsson og Kristján Guðmundsson kjörnir í varastjórn til eins árs.

 

23.11.05 - Njáll og Jörundur Áki hætta í stjórn

Njáll Eiðsson og Jörundur Áki Sveinsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í stjórn KÞÍ og komu Jóhann Gunnarsson og Þórir Bergsson í aðalstjórn í þeirra stað. Njáll hefur verið í stjórn KÞÍ undanfarin sex ár og Jörundur Áki hefur verið í stjórn KÞÍ undanfarin fjögur ár. Njáli og Jörundi Áka er þakkað fyrir vel unnin störf fyrir KÞÍ.

 

23.11.05 - Góður fjárhagur KÞÍ

A aðalfundinum kom fram í ársreikningi KÞÍ að félagið stendur vel fjárhagslega. Reyndar var tap af starfseminni sem skýrist af gjöfum sem félagsmenn fengu með félagsgjaldinu, þ.e. regnjakkarnir og bakpokarnir voru greiddir á starfsárinu.

 

23.11.05 - Skoðunarmenn til eins árs

Félagarnir Halldór Örn Þorsteinsson og Birkir Sveinsson, starfsmenn KSÍ, voru endurkjörnir skoðunarmenn reikninga til eins árs með dynjandi lófaklappi.

 

23.11.05 - Óbreytt árgjald

Á aðalfundinum lagði stjórn KÞÍ til að árgjald félagsins yrði óbreytt næsta ár, aðeins 2.500 krónur. Eins og áður er stefnt er að því að hafa eitthvað innifalið í árgjaldinu, en hvað það verður kemur í ljós næsta sumar. Félagsmenn hafa lýst yfir mikilli ánægju með bakpokann sem fylgdi með félagsgjaldinu á þessu ári.

 

23.11.05 - Rólegur aðalfundur

Aðalfundur KÞÍ var haldinn 12. nóvember s.l. á Grand hótel í Reykjavík. Fundurinn var í rólegra móti og ekki hægt að segja að umræður hafi verið líflegar, um þrjátíu félagsmenn mættu. Auk venjubundinna aðalfundastarfa voru þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka.

 

22.11.05 - Heimsóknir til erlendra liða, hvað getum við lært?

Sameiginleg ráðstefna KSÍ og ÍSÍ um þjálfun hjá erlendum liðum
Heimsóknir til erlendra liða, hvað getum við lært?
Laugardagurinn 26. nóvember 2005 ? kl. 13:00 – 17:00
Íþróttamiðstöðin Laugardal ? Fundarsalir 3. hæð
Á undanförnum árum hafa fjölmargir knattspyrnuþjálfarar heimsótt erlend félagslið og kynnt sér þjálfun þeirra. Nokkrir þjálfarar hafa hlotið styrk frá Verkefnasjóði ÍSÍ vegna þessa, en sjóðurinn hefur á undanförnum árum styrkt einstaklinga til að kynna sér þjálfun erlendis. Á þessari ráðstefnu er ætlunin að kynna það helsta sem fyrir augu bar og gefa öðrum þjálfurum möguleika á að fá innsýn í heim þjálfunar í Evrópu sem eflaust kemur að góðum notum við knattspyrnuþjálfun barna- og unglinga á Íslandi.
Aðgangur er ókeypis en óskað er eftir skráningu. Hægt að skrá sig í síðasta lagi föstudaginn 25. nóvember hér að neðan, með því að senda tölvupóst á netfangið ragga@ksi.is eða með því að hringja í síma 510 2900.
Ráðstefnan fer fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

 

3.11.05 - Þjálfararáðstefna KÞÍ í samvinnu KSÍ og aðalfundur KÞÍ

KÞÍ, í samvinnu við KSÍ, heldur ráðstefnu fyrir knattspyrnuþjálfara og áhugamenn um knattspyrnu laugardaginn 12. nóvember n.k. á Grand Hótel við Sigtún kl. 10:30.
Dagskrá:
10:30 Ávarp
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
10:40 Framtíðarhugmyndir landsliðsþjálfarans
Eyjólfur Sverrisson þjálfari A-landsliðs karla
11:30 Reynslan af þátttöku Vals í Evrópukeppni kvenna
Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari mfl. kvenna hjá Val
11:55 Að búa til sigurvegara
Ólafur Jóhannesson þjálfari mfl. karla hjá FH
12:30 Hádegisverður á Grand Hótel
13:15 Reynslan á leið heim
Teitur Þórðarson yfirþjálfari KR og þjálfari mfl. karla hjá KR, UEFA-Pro þjálfari
14:15 Félagslegt umhverfi knattspyrnuþjálfarans
Viðar Halldórsson, lektor í íþróttafræðum við KÍ, Íþróttafræðasetrið Laugarvatni

15:00 Aðalfundur KÞÍ
Venjuleg aðalfundarstörf
Þjálfarar ársins
Heiðursviðurkenningar

Ráðstefnustjóri er Jörundur Áki Sveinsson

Verð Kr. 2.500,- fyrir félagsmenn KÞÍ Kr. 5.000,- fyrir ófélagsbundna
Skráning fer fram með því að senda tölvupóst hér eða í síma hjá:
Sigurður Þórir 861-9401, Njáll 862-5616, Úlfar 862-3204, Ómar 844-3252, Jörundur Áki 821-9294, Jóhann 822-2026 Þórir 896-4980
eða hjá KSÍ í síma 510-2900 fyrir kl. 15:00 föstudaginn 11. nóvember.

 

3.11.05 - Félagslegt umhverfi knattspyrnuþjálfarans, úrdráttur úr erindi Viðars Halldórssonars sem flutt verður á ráðstefnu KÞÍ og KSÍ

Erindið byggir á meistaraprófsverkefni undirritaðs í íþróttafélagsfræði. Rannsóknin beindi sjónum að knattspyrnuþjálfaranum sem lykilaðila í íþróttinni í dag og fjallar sérstaklega um hinar félagslegu hliðar þjálfaraskipta í knattspyrnu. Annars vegar var gerð tölfræðileg greining á Úrvalsdeild karla á Íslandi, með það fyrir augum að meta tíðni þjálfaraskipta og starfsöryggi knattspyrnuþjálfara. Hins vegar voru tekin fjölmörg viðtöl við knattspyrnuþjálfara og stuðst við önnur gögn með það fyrir augum að öðlast skilning á starfi þjálfarans sem og ástæðum og afleiðingum þjálfaraskipta í knattspyrnu.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að starf knattspyrnuþjálfarans er flókið og margþætt og að þjálfaraskipti eru mjög tíð í íþróttinni hér á landi. Líftími þjálfara í starfi er stuttur og benda niðurstöðurnar til þess að þau þjálfaraskipti sem eiga sér stað á leiktímabilinu séu fyrst og fremst vegna slælegs árangurs í leikjum. Einnig gefa niðurstöðurnar til kynna að knattspyrnuþjálfarinn sé mikilvægur þar sem frammistaða liða batnar í flestum tilvikum þegar skipt er um knattspyrnuþjálfara á leiktímabilinu. Niðurstöðurnar benda enn fremur til þess að knattspyrnuþjálfarar séu í stöðu þar sem ekki er samræmi milli markmiða íþróttarinnar og þeirra leiða sem þeim eru færar til að ná árangri. Þetta ósamræmi er ein af meginorsökum tíðra þjálfaraskipta í knattspyrnu og í íþróttum yfirhöfuð.
Undirritaður bendir í framhaldi af því á leiðir til að auka samræmi milli markmiða og leiða, með það fyrir augum að gera þjálfarastarfið að öruggari starfsvettvangi, leiðir eins og t.d. markvissari fræðsla til þjálfara um ákveðna þætti starfsins sem og fræðslu til annarra um eðli þjálfarastarfsins.

 

2.11.05 - Lúkas ráðinn þjálfari U-21 árs liðsins

Lúkas Kostic hefur verið ráðinn þjálfari U21 landsliðs karla. Lúka hefur stjórnað U17 landsliði karla frá 2003 en hann hafði áður þjálfað lið Þórs, Grindavíkur, KR og Víkings í efstu deild. Lúkas mun stjórna liðinu í næstu tveimur keppnum en samningur hans og KSÍ er til þriggja ára.

 

14.10.05 - Eyjólfur ráðinn landsliðsþjálfari

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Eyjólf Sverrisson sem þjálfara A landsliðs karla. Samningurinn er til næstu tveggja ára - gildir frá 1. nóvember 2005 til 31. október 2007. Haustið 2003 tók Eyjólfur við þjálfun U21 landsliðs karla og stjórnaði liðinu með góðum árangri í undankeppni EM. Eyjólfur lauk UEFA-A prófi í menntun knattspyrnuþjálfara í Þýskalandi í byrjun þessa árs. Námskeiðið var sérstaklega ætlað fyrrverandi atvinnumönnum í knattspyrnu. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands óskar Eyjólfi til hamingju með landsliðsþjálfarastöðuna og óskar Eyjólfi góðs gengis í komandi verkefnum.

 

14.10.05 - Ásgeir og Logi ekki endurráðnir, Eyjólfur líklega ráðinn

Stjórn KSÍ hefur ákveðið að endurnýja ekki samninga við þjálfara A landsliðs karla, þá Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson, en samningar þeirra renna út 31. október næstkomandi. Stjórn KSÍ hefur falið formanni KSÍ að ræða við Eyjólf Sverrisson um að taka við starfi landsliðsþjálfara.

 

3.10.05 - Þjálfarastyrkir ÍSÍ

Verkefnasjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands auglýsir hér með til umsóknar styrki fyrir íþróttaþjálfara til að sækja námskeið eða kynna sér þjálfun erlendis. Veittir verða 10 styrkir, hver að upphæð kr. 50.000.-
Við úthlutun verður leitast við að styrkja sem flestar íþróttagreinar. Þjálfarar hvers kyns hópa (afreksmanna, barna og unglinga o.s.frv.) koma jafnt til greina við úthlutun. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um styrkina.
Umsóknum með lýsingu á náms- og starfsferli, auk greinargóðrar lýsingar á fyrirhugaðri ráðstöfun styrksins og ávinningi íþróttahreyfingarinnar af henni, skal skilað til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, fyrir mánudaginn 24. október n.k. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal.

 

2.10.05 - Ólafur og Úlfar kjörnir þjálfarar ársins í Landsbankadeildunum

Á lokahófi knattspyrnumanna á Brodway voru þeir Ólafur Jóhannesson þjálfari Íslandsmeistara FH í karlaflokki og Úlfar Hinriksson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í kvennaflokki, kjörnir þjálfarar ársins í Landsbankadeildunum í sumar af íþróttafréttamönnum.

 

25.9.05 - Mikið framundan í fræðslumálum hjá KSÍ

Þjálfaranámskeið KSÍ hefjast nú fljótlega og skráning er hafin á flest námskeiðin. Undanfarin ár hefur verið gríðarleg þátttaka og því er best að skrá sig sem fyrst. Þjálfaranámskeið KSÍ eru helgarnámskeið og eru bæði bókleg og verkleg. Þau eru stigvaxandi og því þarf að byrja á KSÍ I áður en hægt er að fara á KSÍ II námskeiðið o.s.frv. Námskeiðin eru öllum opin og kosta á bilinu 14.000-16.000 krónur.
Skráning er hafin hjá Ragnheiði í síma 510-2900 (ragga@ksi.is)
Námskeiðin í haust:
14-16. okt KSÍ I í Reykjavík/Keflavík (verð 14.000 kr)
14-16. okt KSÍ I á Akureyri (verð 14.000 kr)
21-23. okt KSÍ I í Reykjavík/Keflavík (verð 14.000 kr)
28-30. okt KSÍ II í Reykjavík/Keflavík (verð 14.000 kr)
6. nóv KSÍ II í Reykjavík/Keflavík (verð 14.000 kr)
11-13.nóv KSÍ IV í Reykjavík/Keflavík (verð 16.000 kr)
Önnur námskeið/ráðstefnur í haust:
KSÍ II á Akureyri (dagsetning óákveðin)
12-13.nóv Afmælisráðstefna KÞÍ (í samvinnu við KSÍ)
26. nóv KSÍ/ÍSÍ sameiginleg ráðstefna (áætluð dagsetning)
Skriflegt próf á KSÍ VII er áætlað í seinni hluta nóvember
Öðrum námskeiðum verður bætt við ef þörf verður á vegna mikillar þátttöku.

 

19.9.05 - Ráðstefnu vegna bikarúrslitaleiks aflýst, afmælisráðstefna í nóvember

Undanfarin ár hefur KÞÍ í samvinnu við KSÍ staðið fyrir ráðstefnu í tengslum við Bikarúrslitaleik karla. Því miður hefur ráðstefnunni sem vera átti um næstu helgi verið aflýst en þess í stað mun KÞÍ í samvinnu við KSÍ standa fyrir afmælisráðststefnu 12.-13. nóvember n.k. en KÞÍ verður 35 ára þann 13. nóvember. Ljóst er að einn fyrirlesari mun mæta erlendis frá og er verið að vinna í frekari dagskrá vgna ráðstefnunnar og mun dagskráin liggja fyrir fljótlega.

 

19.9.05 - Alþjóðlegur beinverndardagur 20. október 2005

Þann 20. október n.k. heldur Beinvernd upp á alþjóðlegan beinverndardag ásamt 179 beinverndarfélögum innan alþjóða beinverndarsamtakanna IOF í yfir 80 löndum. Þema dagsins er að þessu sinni hreyfing og beinþynning undir yfirskriftinni „Sterk bein fyrir góða daga“. Af því tilefni stendur til að halda námsstefnu um hreyfingu og beinþynningu fyrir fagfólk í hreyfingu og líkamsþjálfun. Beinvernd hefur fengið til liðs við sig Dr. Örnólf Valdimarsson, MD. PhD., Sigríði Láru Guðmundsdóttur, íþróttafr. og Ellu Kolbrúnu Kristinsdóttur, dósent, til að halda fyrirlestra á námsstefnunni og mun ÍSÍ verða samstarfsaðili Beinverndar. Námsstefnan verður haldin í fundarsal ÍSÍ að Engjavegi 6, 104 Reykjavík og hefst kl. 13:00 og lýkur kl. 16:00 (sjá meðfylgjandi dagskrá). Skráning fer fram á netinu, beinvernd@beinvernd.is og skal þar koma fram: nafn, kennitala og starfsheiti auk netfangs og símanúmers. Lokadagur skráningar er föstudagurinn 14. október.
Námsstefna 20.okt. 2005. Sterk bein fyrir góða daga!
Dagskrá
13:00-13:15 Námsstefnan sett. Heilbrigðisráðherra flytur ávarp.
13:15-14:00 Fyrirlestur 1. Dr. Örnólfur Valdimarsson, Ph.D. Beinþynning - Líkamleg hreyfing í uppvextinum.
14:00-14:45 Fyrirlestur 2. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, Cand. Polit. Beinþynning - Líkamsþjálfun til að viðhalda sterkum beinum.
14:45-15:00 Kaffi og kalkríkar veitingar
15:00-15:45 Fyrirlestur 3. Ella Kolbrún Kristinsdóttir, dósent.Beinþynning -
Líkamsþjálfun fyrir fólk með beinþynningu, endurhæfing, jafnvægisþjálfun og frábendingar.
15:45-16:00 Samantekt og námsstefnuslit

 

24.8.05 - Sveinbjörn tekur að sér Sauðárkrók

Sveinbjörn Jón Arngrímsson ætlar að sjá um að dreifa bakpokunum til félagsmanna á Sauðárkróki, en til gamans má geta þess að hvorki fleiri né færri en tíu þjálfarar búsettir á Sauðárkróki hafa greitt félagsgjald KÞÍ á ár.

 

23.8.05 - Tryggvi Gunnars sér um norðurlandið

Tryggvi Gunnarsson, landshlutatengiliður KÞÍ á Norðurlandi verður með bakpokana fyrir félagsmenn KÞÍ á Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Húsavík, félagsmenn geta snúið sér til Tryggva og fengið bakpokana sína.

 

23.8.05 - Jón Óli tekur Grindavík að sér

Jón Ólafur Daníelsson, stórþjálfari í Grindavík hefur tekið að sér að dreifa bakpokunum í sínum heimabæ. Félagsmenn búsettir í Grindavík snúi sér til Jóns Óla.

 

23.8.05 - Freyr sér um Suðurnesin

Freyr Sverrisson tengiliður KÞÍ sér um dreifingu á bakpokunum fyrir Reykjanesbæ, Njarðvík, Garðinn og Sandgerði. Félagsmenn snúi sér Freys vegna bakpokanna sinna.

 

23.8.05 - Stjórnarmenn KÞÍ eru líka að dreifa

Allir stjórnarmenn KÞÍ eru með bakpoka og geta félagsmenn snúið sér til þeirra og fengið sinn poka.

 

23.8.05 - Heimir er með bakpoka fyrir Austurlandið

Heimir Þorsteinsson, knattspyrnuþjálfari á Neskaupstað er kominn með bakpokana fyrir þá sem búsettir eru á Austfjörðum, aðrir en félagsmenn á Höfn og Vopnafirði. Félagsmenn geta snúið sér til Heimis og fengið sinn bakpoka afhentann.

 

19.8.05 - Laus störf í boði

Nú fer sá árstími að koma að þjálfarastörf eru laus til umsóknar, öll félög geta auglýst frítt eftir þjálfurum á heimasíðu KÞÍ og félagsmenn KÞÍ geta einnig auglýst frítt eftir störfum. Sjá liðinn ÞJÁLFARASTÖRF hér á heimasíðunni.

 

19.8.05 - Jón Hálfdán sér um Vestfirðina

Jón Hálfdán Pétursson, knattspyrnuþjálfari á Ísafirði er kominn með bakpokana fyrir þá sem búsettir eru á Vestfjörðum, félagsmenn geta snúið sér til Jóns og fengið sinn bakpoka.

 

19.8.05 - Ólafur sér um Akranes og Borgarnes

Ólafur Jósefsson, landshlutatengiliður KÞÍ á Vesturlandi, er kominn með bakpokana fyrir þá sem greitt hafa félagsgjaldið og búsettir eru á Akranesi og í Borgarnesi. Félagsmenn á svæðinu geta snúið sér beint til Ólafs.

 

19.8.05 - Guðjón Þorvaðarson sér um Suðurlandsundirlendið

Guðjón Þorvarðarson, landshlutatengiliður KÞÍ á Suðurlandi er kominn með bakpokana fyrir þá sem greitt hafa félagsggjaldið og eru búsettir á Selfossi, Hvolsvelli og í Hveragerði. Þessir aðilar geta snúið sér beint til Guðjóns.

 

11.8.05 - Bakpokarnir tilbúnir til afhendingar á skrifstofu KSÍ

Bakpokinn sem fylgir félagsgjaldinu í ár eru nú tilbúin til afhendingar á skrifstofu KSÍ í Laugardal. Félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sækja sinn bakpoka á skrifstofu KSÍ, vegna mikils kostnaðar við að senda bakpokann með pósti. Hvetjum við félagsmenn til að sækja bakpokann á skrifstofu KSÍ við fyrsta tækifæri. Bakpokar fyrir félagsmenn á landsbyggðinni verða sendir á tengiliði KÞÍ á stæstu þéttbýlisstöðunum og komið til félagsmanna. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

11.8.05 - Howard Wilkinsson mælir með UEFA A umsókn KSÍ

Howard Wilkinson hinn þekkti enski þjálfari sem m.a. þjálfaði lið Sheffield Wednesday, Leeds og landslið Englands heimsótti KSÍ dagana 10.-12.ágúst að meta UEFA A umsókn KSÍ í þjálfaramenntun. Howard kom til landsins á vegum UEFA m.a. til þess að fylgjast með verklegum prófum á KSÍ VII þjálfaranámskeiðinu sem er í gangi um þessar mundir. Þann 27. september næstkomandi mun Howard gefa skýrslu til UEFA og þá mun hann mæla með því að UEFA A umsókn KSÍ að þjálfarasáttmála UEFA verði samþykkt.
Þegar samþykki hefur fengist getur KSÍ boðið íslenskum þjálfurum upp á UEFA A gráðu í þjálfaramenntun en sú gráða er viðurkennd í flestum löndum Evrópu.

 

9.8.05 - 253 búnir að greiða félagsgjaldið

Nú eru 253 félagsmenn búnir að greiða félagsgjaldið fyrir árið 2005. Eins og kom fram á greiðsluseðlinum fylgir glæsilegur bakpoki frá JAKO með merki KÞÍ á til þeirra sem greiða. Bakpokarnir eru væntanlegir á allra næstu dögum og verða afhentir á skriftofu KSÍ.

 

4.8.05 - Áhugaverð ráðstefna í USA í desember

Hér má sjá upplýsingar um mjög áhugaverða ráðstefnu fyrir barna og unglingaþjálfara sem haldin verður í USA í desember n.k. Margir áhugaverðir þjálfarar munu verða með fyrilestra og verklega kennslu á ráðstefnunni og hún því kærkomin fyrir áhugasama þjálfara.

Áhugaverð ráðstefna í desember

 

18.7.05 - 181 búinn að greiða félagsgjaldið

Nú hafa 181 knattspyrnuþjálfari greitt félagsgjald KÞÍ fyrir árið 2005. Ljóst er að ánægja er með bakpokann sem fylgir félagsgjaldinu, en það skal ítrekað að greiða verður fyrir 10. ágúst til að tryggt sé að fá bakpoka. Bakpokarnir verða tilbúnir til afhendingar um miðjan ágúst, hvernig þeim verður komið til félagsmanna er ekki komið á hreint en skýrist fljótlega. Stjórn KÞÍ vil þakka þeim sem þegar hafa greitt og hvetja alla hina sem eftir eru, til að greiða félagsgjaldið sem allra fyrst.

 

16.7.05 - Sigurður Þórir formaður KÞÍ óg Hildur Hrönn gengu í hjónbaband

Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ gekk að eiga Hildi Hrönn Oddsdóttir í dag. Athöfnin fór fram í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ að viðstöddu fjölmenni og mátti sjá marga félagsmenn úr KÞÍ á staðnum. KÞÍ sendir brúðhjónunum innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.

 

14.6.05 - Glæsilegur bakpoki fylgir félagsgjaldinu í ár

Nú fer knattspyrnuþjálfurum um allt land að berast greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2005. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og hingað til og greiði greiðsluseðilinn sem allra fyrst. Allir þeir sem greiða félagsgjaldið fyrir 10. ágúst 2005 munu fá glæsilegan og vandaðan bakpoka frá JAKO (sjá mynd) með merki KÞÍ á. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að unnið væri að því að láta eitthvað fylgja félagsgjaldinu eins og undandfarin ár, og telur stjórn KÞÍ að með þessu sé verulega verið að koma á móts víð félagsmenn, sem reyndar hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. Í fyrra greiddu um 320 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar að af landinu félagsgjaldið og vonumst við eftir jafn góðum viðbrögðum í ár. Vissulega er þetta dýrt, en góð fjárhagsstaða KÞÍ leyfir að hafa gjöfina jafn veglega og raun ber vitni að þessu sinni. Bakpokunum verður síðan komið til félagsmanna eins fljótt og mögulegt er.

Stjórn KÞÍ óskar að endingu öllum félagsmönnum sínum góðs gengis í sumar og vonar að þeir verði félagi sínu til sóma á knattspyrnuvöllum landsins.

 

27.5.05 - Þjálfararáðstefna í Þýskalandi

Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands hefur verið boðið að senda fulltrúa á ráðstefnu þýska knattspyrnuþjálfarafélagsins í Dusseldorf 17. - 20. júlí í sumar. Uppihaldið og námkskeiðskostnaður er KÞÍ að kostnaðarlausu. Sérstaklega skal tekið fram að ráðstefnan fer öll fram á þýsku. KÞÍ vill bjóða einhverjum félagsmanni sínum að nýta sér þetta góða boð og eru áhugasamir beðnir að senda tölvupóst á kthi@isl.is fyrir 8. júní n.k.

 

19.5.05 - Teitur menntaðastur íslenskra þjálfara

Norska knattspyrnusambandið hefur sent KSÍ bréf sem staðfestir að íslenski þjálfarinn Teitur Þórðarson hefur nú lokið UEFA-Pro þjálfaranámskeiði í Noregi. Teitur er því fyrstur íslendinga til að afla sér þessara þjálfararéttinda.UEFA-Pro þjálfaragráðan veitir Teiti m.a. réttindi til að þjálfa félög í efstu deild í öllum löndum Evrópu sem eiga aðild að þjálfarasáttmála UEFA (39 lönd). Teitur hefur þjálfað í Eistlandi og í Noregi þar sem hann hefur stýrt Brann, Lilleström, Lyn og nú Ull/Kisa.

 

17.5.05 - Nói fer ekki í leikbann

Dómstóll KSÍ hefur hnekkt úrskurði stjórnar KSÍ um leikbann Nóa Björnssonar, þjálfara Leifturs/Dalvíkur, en Nói var úrskurðaður í tveggja mánaða leikbann af stjórn KSÍ þann 14. apríl síðastliðinn.

 

28.4.05 - Þjálfarabíll á lausu

Er með Hyundai Getz á þjálfararekstrarleigu sem ég þarf að losna við. Samningurinn gildir til febrúar 2007 og mánaðargreiðslur eru á bilinu 17.500 kr til 19.500 kr. Áhugasamir á að taka yfir þennan samning geta haft samband við Guðmund Magnússon í síma 868-0653 eða gummimagg@simnet.is

 

22.4.05 - Þjálfararáðstefnu á Akureyri einnig frestað

Þjálfararáðstefnu sem vera átti á Akureyri á morgun hefur verið frestað vegna dræmrar þátttöku. Stefnt er á að ráðstefnan verði haldin síðar.

 

19.4.05 - Matarfundinum á Kaffi Reykjavík frestað

Matarfundinum sem vera átti á Kaffi Reykjavík á morgun 20. apríl kl. 19:00 hefur verið frestað vegna dræmrar þátttöku. Ætlunin er að halda fundinn í byrjun júní þegar landsleikir verða hér á landi gegn Ungverjalandi og Möltu. Nánar auglýst síðar.

 

15.4.05 - Tveir þjálfarar úrskurðaðir í tveggja mánaða leikbann

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum 14. apríl að úrskurða tvo þjálfara í tveggja mánaða leikbann, þá Nóa Björnsson þjálfara Leifturs/Dalvíkur og Jón Steinar Guðmundsson þjálfara Bolungarvíkur. Báðir þjálfarar tefldu fram leikmanni í Deildabikarkeppni KSÍ sem ekki var skráður á leikskýrslu. Í báðum tilfellum stendur bannið frá 14. apríl til og með 13. júní og gildir í öllum leikjum innan vébanda KSÍ.

 

5.4.05 - Þjálfararáðstefna á Akureyri

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyrir þjálfararáðstefnu á Greifanum á Akureyri laugardaginn 23. apríl.
11:00 Setning
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
11:05 Hugrenningar og betri tækni við þjálfun
Ólafur Kristjánsson, þjálfari mfl. karla hjá Fram
11:45 Álagsmeiðsli
Einar Einarsson sjúkraþjálfari
12:15 Matur
Súpa, fiskréttur, kaffi og kaka
13:15 Þjónusta ÍSÍ á Norðurlandi
Viðar Sigurjónsson starfsmaður ÍSÍ á Norðurlandi
13:45 Umræður

Miðaverð er 2.000 kr. og þátttöku skal tilkynna hér eða til Tryggva Gunnarssona á Akureyri í síma 660-4020.

 

31.3.05 - Matarfundur á Kaffi Reykjavík

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyrir matarfundi á veitingastaðnum Kaffi Reykjavík við Vesturgötu í Reykjavík, miðvikudaginn 20. apríl kl. 19.00.

Viðar Halldórsson, lektor í íþróttafélagsfræði við Kennaraháskóla Íslands, fjallar um félagslegt umhverfi knattspyrnuþjálfarans.

Hjálmar Hjálmarsson, betur þekktur sem Haukur Hauksson ekkifréttamaður, fer með gamanmál.

Veislustjóri er Freyr Sverrisson.

Miðaverð er 3500 kr. og þátttöku skal tilkynna hér eða til einhvers stjórnarmanna KÞÍ.

 

30.3.05 - KSÍ VII þjálfaranámskeiðið verður 30.apríl.

KSÍ hefur ákveðið að halda KSÍ VII þjálfaranámskeiðið í fyrsta skipti laugardaginn 30.apríl. Þessi dagur er undirbúningsdagur fyrir æfingakennslu sem lýkur svo á tveimur mánuðum. Þátttökurétt hafa aðeins starfandi aðalþjálfarar sem hafa lokið KSÍ VI þjálfaranámskeiðinu sem var haldið í Englandi síðastliðið haust.

Skráning er hafin á tölvupósti siggi@ksi.is Nánari upplýsingar og verð námskeiðsins mun liggja fyrir um miðjan aprílmánuð.

 

21.3.05 -

KSÍ-V þjálfaranámskeið

KSÍ-V þjálfaranámskeið fer fram í Reykjavík dagana 15. - 17. apríl næstkomandi. Fjöldi þátttakenda á KSÍ-V er takmarkaður, þannig að áhugasamir aðilar þurfa að sækja um þátttöku og mun fræðslunefnd KSÍ velja úr umsækjendum. Umsóknarfrestur rennur út 1. apríl. Þátttökugjald á KSÍ-V verður á bilinu kr. 16.000 - 20.000 og eru öll námskeiðsgögn innifalin, auk þjálfaraforritsins Homeground. KSÍ-V er upphafið að UEFA-A þjálfaragráðunni. Minnt er á að umsækjendur þurfa að hafa lokið UEFA-B prófi með 70 í einkunn eða hærra.

Umsóknareyðublað

 

15.3.05 -

Ráðstefna UEFT í Portúgal

Í október fóru Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ á 24. ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, sem að þessu sinni var haldin í Portúgal. Skýrslu frá ráðstefnunni má finna hér á síðunni undir liðnum fróðleikur, skýrslan ber nafnið "Ekkert er óhugsandi" en þar er vitnað í Otto Rehhagel landsliðsþjálfara Grikklands sem var aðal fyrilesarinn á ráðstefnunni.

 

11.3.05 -

80 þjálfarar útskrifuðust með KSÍ-B gráðu

Á miðvikudag fór fram útskrift fyrir 80 þjálfara sem luku nýlega KSÍ-B þjálfaragráðunni. KSÍ-B þjálfaragráðan gefur réttindi til að þjálfa alla yngri flokka á Íslandi. Alls hafa nú 202 knattspyrnuþjálfarar þessi réttindi hér á landi. Nöfn KSÍ-B þjálfara eru birt á fræðsluvef KSÍ. KSÍ óskar þjálfurunum til hamingju með þennan áfanga.

 

23.2.05 -

Nýjar reglur varðandi lyfjamál

Kynntar hafa verið nýjar reglur um lyfjamál hjá ÍSÍ og hjá UEFA. Helstu breytingar eru þær að nú þurfa allir leikmenn innan knattspyrnuhreyfingarinnar að sækja um undanþágu fyrir efni sem þeir nota af læknisfræðilegum ástæðum og eru á bannlista WADA. ÍSÍ hefur boðað aukinn fjölda lyfjaprófa og verða þau tekin allt árið um kring, hvort sem um er að ræða í keppni eða við æfingar. Nánari upplýsingar má sjá með því að smella hér að neðan og með því að skoða Lyfjavef ÍSÍ.

Nánar

 

16.2.05 -

KSÍ III þjálfaranámskeið 4-6.mars

KSÍ III þjálfaranámskeiðið fer fram helgina 4-6.mars. Þátttökurétt hafa þeir sem hafa lokið KSÍ II eða B-stigi KSÍ. Námskeiðið fer fram í fundarsal D (hjá kaffiteríu ÍSÍ í Laugardal). Skráning er hafin á tölvupósti siggi@ksi.is Vinsamlegast takið fram nafn og kennitölu við skráningu. Námskeiðið er bóklegt og verklegt og kostar 16.000 krónur. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ í síma 510-2900.

 

31.1.05 -

Njáll var fulltrúi KÞÍ á ársþingi KSÍ

59. ársþing KSÍ var haldið laugardaginn 12. febrúar s.l. á Hótel Loftleiðum í Reykjavík og að venju voru ýmis mál tekin fyrir. KSÍ bauð KÞÍ að senda áheyrnafulltrúa á þingið og sat Njáll Eiðsson þingið sem fulltrúi KÞÍ.

 

30.1.05 -

Halldór Örn er þjálfarinn 

Undir liðnum þjálfarinn hér á heimasíðunni sýnir Halldór Örn Þorsteinsson nokkrar góðar æfingar.

 

29.1.05 -

Stjórnin skiptir með sér verkum

Á fundi stjórnar KÞÍ í dag var skipað í störf innan stjórnarinnar. Sigurður Þórir er formaður, Njáll varaformaður, Ómar gjaldkeri, Úlfar ritari og Jörndur Áki spjaldskrárritari. Meðstjórnendur eru Jóhann og Þórir.

 

26.1.05 -

UEFA B próf á laugardaginn

Alls hafa 56 þjálfarar skráð sig í UEFA B prófið sem fer fram í annað skipti á Íslandi á laugardaginn 29. janúar klukkan 11.00. Prófið fer fram í Verzlunarskóla Íslands í stofum 205 og 206 (gengið inn að ofanverðu, hjá íþróttahúsinu, ekki Kringlumegin). KSÍ mun halda prófið á sama tíma á Akureyri, Vestmannaeyjum, Ólafsvík og á Djúpavogi. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ í síma 510-2909.

 

12.1.05 -

Kennslugögn þjálfaranámskeiða KSÍ uppfærð 

Öll kennslugögn þjálfaranámskeiða KSÍ hafa nú verið uppfærð á Fræðsluvefnum. Smávægilegar breytingar verða á kennsluefni þjálfaranámskeiðanna á hverju ári en nú hafa þau verið uppfærð. Þjálfarar sem eru á leið í UEFA-B prófið ættu að athuga kennslugögnin vel fyrir prófið.

 

12.1.05 -

Erna ráðin þjálfari U17 kvenna 

KSÍ hefur ráðið Ernu Þorleifsdóttur sem þjálfara U17 landsliðs kvenna og mun hún stýra liðinu næstu tvö árin. Erna, sem tekur við U17 kvenna af Ragnhildi Skúladóttur, hóf þjálfaraferil sinn hjá ÍBV árið 1992 og þjálfaði yngri flokka kvenna í Vestmannaeyjum í 9 ár. Með ÍBV náði hún frábærum árangri og vann nokkra Íslandsmeistaratitla, auk þess að vinna fjölmarga titla með lið sín í öðrum mótum. Haustið 2002 hóf Erna störf hjá Breiðabliki sem þjálfari 3. flokks kvenna og undir hennar stjórn vann flokkurinn fjóra Íslandsmeistaratitla, auk annarra minni titla. Erna tók síðan við 2. flokki kvenna hjá félaginu síðastliðið haust. Erna er íþróttakennari að mennt og mun taka UEFA-B próf fyrir knattspyrnuþjálfara síðar í mánuðinum. Erna hlaut viðurkenningu frá Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands árið 1998 fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka.

 

11.1.05 -

Regnjakkarnir afhentir á skrifstofu KSÍ

Félagsmenn KÞÍ sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sækja regnjakkann sinn á skrifstofu KSÍ, vegna mikils kostnaðar við að senda regnjakkana með pósti. Ennþá eiga fjölmargir félagsmenn eftir að sækja regnjakakkann sinn og hvetjum við félagsmenn til að gera það við fyrsta tækifæri. Regnjakkarnir eru löngu farnir í póst til þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, og hafa sent tölvupóst til KÞÍ um stærðina sem þeir óskuðu eftir, auk nokkurra annarra sem við þekktum frá fyrri tíð og þóttumst vita stærðina á, en þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa ekki sent okkur tölvupóst með stærðinni sem þeir óska eftir er bent á að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

10.1.05 -

Undirbúningsfundur fyrir UEFA B próf á fimmtudaginn

KSÍ hefur ákveðið að bjóða þeim þjálfurum sem vilja, upp á undirbúningsfund fyrir UEFA B prófið. Fundurinn fer fram núna á fimmtudaginn (13.janúar) í félagsheimili Þróttar í Laugardal og hefst klukkan 17:30. Reiknað er með að fundurinn standi yfir í klukkutíma eða svo. Á fundinum fá þjálfararnir fræðslu um uppsetningu UEFA B prófsins og hvaða kennsluefni þeir ættu að leggja áherslu á að lesa fyrir prófið og önnur praktísk atriði. Þjálfarar fá jafnframt tækifæri til að spyrja spurninga. Eftir fundinn verða helstu upplýsingarnar af fundinum settar á fræðsluvef KSÍ. Aðgangur er ókeypis og ekki er nauðsynlegt að skrá sig.

 

7.1.05 -

Námskeið um forvarnir meiðsla í knattspyrnu og sprengikraftsþjálfun

Miðvikudaginn 12. janúar 2005 kl. 17:30 – 21:30
Rannsóknir hafa sýnt að með skipulögðu forvarnarstarfi er hægt að draga mikið úr meiðslatíðni í íþróttum. Einnig hafa þær sýnt að því færri meiðsladagar sem eru hjá liðinu, því betri árangur. Forvarnarstarf er því mjög mikilvægur þáttur til þess að ná árangri. Rannsókn sem gerð var árið 2000 sýndi að þau tvö úrvalsdeildarlið sem voru með hæstu hopphæðina í upphafi keppnistímabils, urðu í tveimur efstu sætunum í deildinni. Þannig að rétt uppbygging sprengikraftsþjálfunar er mjög mikilvæg til að ná árangri. Lögð verður sérstök áhersla á æfingar í tengslum við forvarnir meiðsla og sprengikraftsþjálfun.
Dagskrá:
17:30 – 19:00 Fyrirlestur um forvarnir í knattspyrnu (FEJ).
19:00 – 19:30 Fyrirlestur um sprengikraftsþjálfun (JM).
19:30 – 20:00 Hlé.
20:00 – 21:30 Verklegt: Farið verður yfir forvarnaræfingar og æfingar til
að þjálfa upp sprengikraft í tækjasal Sjúkraþjálfunar
Íslands (3. hæð).
Námskeiðsgjald er 2.000 kr. Staðfestið þátttöku með því að leggja inná reikning nr: 0537 14 601630, kt. 0211732909. Látið nafn koma fram í tilvísun. Vinsamlegast staðfestið þátttöku fyrir mánudaginn 10. janúar.
Námskeiðið fer fram í Orkuhúsinu, Suðurlandsbraut 34, 6. hæð.
Fyrirlesarar: Friðrik Ellert Jónsson, Sjúkraþjálfari
Jóhannes Marteinsson, Sjúkraþjálfari og frjálsíþróttaþjálfari

 

6.1.05 -

Ólafur Þór endurráðinn til tveggja ára

Ólafur Þór Guðbjörnsson hefur verið endurráðinn þjálfari U19 landsliðs kvenna til næstu tveggja ára. Ólafur Þór hefur þjálfað U19 kvenna síðan 1999 og hefur stjórnað því í 32 leikjum, öllum leikjum þess nema þeim fyrsta, sem fram fór 1997.

 

5.1.05 -

Skráning er hafin í UEFA B prófið 2005

Skráning er hafin í UEFA B prófið sem fer fram í Reykjavík 29.janúar klukkan 11.00-13.00. Prófstaður verður auglýstur síðar. Undirbúningsfundur verður haldinn fyrir prófið en hann verður líka auglýstur nánar í vikunni á heimasíðu KSÍ. Skráning í UEFA B prófið fer fram með tölvupósti siggi@ksi.is þar sem taka þarf fram eftirfarandi: Nafn (eins og það á að birtast á þjálfaraskírteini), kennitala, fullt heimilisfang með póstnúmeri, GSM sími, netfang og fæðingarstaður. Myndataka fer fram að prófi loknu. Þátttökurétt hafa allir sem hafa lokið fyrstu fjórum þjálfaranámskeiðum KSÍ (I, II, III og IV). Þátttakendur sem óska eftir að taka prófið annars staðar en í Reykjavík þurfa að hringja í Sigurð Ragnar fræðslustjóra KSÍ sem fyrst í síma 510-2909.

Samstarfsaðilar