28.12.06 - Eiður Smári og Margrét Lára valin knattspyrnufólk ársins 2006

Leikmannaval KSÍ hefur valið Eið Smára Guðjohnsen og Margréti Láru Viðarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2006. Tilkynnt var um valið í hófi á Hótel Nordica. Þetta er í þriðja skiptið sem að knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ.

 

24.12.06 - Gleðileg jól, gott og farsælt komandi knattspyrnu ár

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendir öllum knattspyrnuþjálfurum og öðrum velgjörðarmönnum KÞÍ, sínar bestu óskir um gleðileg jól, með ósk um gott og farsælt komandi knattspyrnu ár.

 

23.12.06 - Kristinn ráðinn hjá KSÍ og endurnýjaðir samningar við Luka, Frey og Ólaf Þór

KSÍ hefur gert tveggja ára samning við Kristin R. Jónsson um þjálfun U19 karlalandslið Íslands. Þá voru samningar endurnýjaðir við Luka Kostic, Frey Sverrisson og Ólaf Þór Guðbjörnsson. Kristinn er kunnur þjálfari og hefur m.a. þjálfað meistaraflokka hjá ÍBV og Fram sem og að hafa verið yfirþjálfari hjá Fjölni. Kristinn mun byrja á því vera Guðna Kjartanssyni til aðstoðar þegar að U19 leikur í milliriðlum fyrir EM í lok maí og byrjun júní.

Þá hefur KSÍ endurnýjað samninga við þrjá aðra þjálfara. Luka Kostic mun halda áfram með U17 karla næstu tvö árin. Einnig mun hann halda áfram með þjálfunar- og útbreiðsluverkefni á vegum KSÍ. Luka er einnig þjálfari U21 karla og gildir samningur hans þar út árið 2008.

Freyr Sverrisson mun halda áfram næstu tvö árin sem þjálfari U16 karla sem og hann verður aðstoðarþjálfari hjá U17 og U19 karla. Einnig heldur Freyr áfram sem skólastjóri knattspyrnuskóla KSÍ.

Ólafur Þór Guðbjörnsson hefur gert eins árs samning um áframhaldandi starf sem þjálfari U19 kvenna. Stórt verkefni er hjá liðinu í sumar þegar að úrslitakeppni EM verður haldin hér á landi í júlí.

 

14.12.06 - Aðalsteinn Örnólfsson gefur KSÍ 100 bækur

Aðalsteinn Örnólfsson knattspyrnuþjálfari hefur fært KSÍ 100 bækur að gjöf til varðveislu í bókasafni KSÍ. Bækurnar eru úr einkasafni Aðalsteins og í safninu eru margar vandfundnar og verðmætar bækur. Þessi gjöf verður til þess að bókasafn KSÍ mun stækka töluvert, en KSÍ lánar bækur og myndbandsspólur til þjálfara endurgjaldslaust. KSÍ vill nota tækifærið og koma á framfæri innilegu þakklæti til Aðalsteins fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Ef fleiri vilja fylgja í kjölfarið og færa KSÍ bækur að gjöf er það þegið með þökkum.

 

7.12.06 - Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari A landsliðs kvenna

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Sigurður Ragnar Eyjólfsson sem þjálfara A landsliðs kvenna og Guðna Kjartansson sem aðstoðarmann hans. Sigurður og Guðni munu stýra liðinu næstu tvö ár og stýra liðinu í næstu Evrópukeppni. Sigurður Ragnar er íþróttafræðingur að mennt, og hefur Mastersgráðu í æfinga- og íþróttasálfræði frá Greensboro háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Sigurður Ragnar hefur starfað sem fræðslustjóri KSÍ síðan í febrúar 2002 en eitt af hans aðal hlutverkum í því starfi hefur verið að byggja upp þjálfaramenntun á Íslandi fyrir hönd KSÍ. Guðni er íþróttakennari að mennt og er um þessar mundir að ljúka UEFA A þjálfaragráðu. Guðni er einn reynslumesti þjálfarinn í íslensku knattspyrnunni og hefur stjórnað flestum landsliðum Íslands, m.a. A-landsliði karla. Guðni hefur um árabil verið U-19 landsliðsþjálfari karla.

 

6.12.06 - Íslensk knattspyrna 2006 komin út

Bókaútgáfan Tindur hefur gefið út Íslensk knattspyrna 2006 eftir Víði Sigurðsson, íþróttafréttamann á Morgunblaðinu og er þetta 26. bókin í þessum bókaflokki sem hóf göngu sína árið 1981. Bókin í ár er 224 blaðsíður og þarf af eru 64 blaðsíður í lit. Yfir 300 myndir prýða bókina. Fjallað er ítarlega um Landsbankadeildir karla og kvenna, landsleiki, Evrópuleiki og VISA-bikarinn, einnig um neðri deildirnar, yngri flokka, deildabikarinn, Reykjavíkurmótið, innanhússmót og atvinnumennina, með meiru. Þá eru ítarleg viðtöl við knattspyrnufólkið Margréti Láru Viðarsdóttur og Tryggva Guðmundsson. Einnig skrifar knattspyrnumaðurinn Eysteinn Hauksson um annan knattspyrnumann, Ívar Ingimarsson. Bókin er gefin út í samstarfi við KSÍ og í hennir er að finna úrslit allra leikja í KSÍ-mótum á árinu 2006.

 

5.12.06 - Fjölgar í formanns fjölskyldunni

Sigurður Þórir formaður KÞÍ og Hildur kona hans eignuðust dreng kl. 02:33 í nótt í Lundi í Svíþjóð. Drengurinn vó 2,6 kg. og var 47 cm. Fjölskyldunni allri heilsast vel og sendum við þeim hamingjuóskir frá stjórn KÞÍ.

 

22.11.06 - Greiðsluseðlar til félagsmanna

Fyrir mistök sendi GLITNIR aftur greiðsluseðla til allra skráðra félaga í KÞÍ með rukkun fyrir árgjaldi fyrir árið 2006. Félagsmenn sem búnir eru að greiða félagsgjaldið eru beðnir um að henda greiðsluseðlinum, en þeir sem eiga eftir og ætla að greiða félagsgjaldið eru hvattir til að gera það hið fyrsta. KÞÍ biðst afsökunar á þessum mistökum og vonar að þau hafi ekki komið að sök.

 

19.11.06 - Ólafur og Elísabet þjálfarar ársins

Á aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 18. nóvember síðastliðinn voru Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Vals útnefndir þjálfarar ársins í Landsbankadeildum karla og kvenna fyrir árið 2006. Bæði náðu þ aumjög góðum árangri með lið sín í sumar og því vel að útnefningunni komin.

Ólafur Jóhannesson
Ólafur hóf þjálfaraferilinn fyrir tuttugu og fjórum árum þegar hann þjálfaði meistaraflokk og þriðja flokk karla hjá Einherja á Vopnafirði. Síðan þá hefur hann eingöngu þjálfað meistaraflokk karla. Ólafur hefur þjálfað tvisvar hjá Skallagrími í Borgarnesi og einnig þjálfað hjá Þrótti Reykjavík, Haukum og Selfossi. Lengst af hefur hann þó þjálfað hjá FH.
Ólafur gerði FH að Íslandsmeisturum þriðja árið í röð í ár en líklega hefru aldrei á þessum þremur árum reynt eins mikið á kænsku Ólafs og snilli. Ólafur er vel menntaður þjálfari og er nú að ljúka UEFA A þjálfaragráðu.
Þetta er fjórða árið í röð sem Ólafur er kjörinn þjálfari ársins hjá KÞÍ, en alls hefur Ólafur fimm sinnum hlotið þessa útnefningu, en fyrst hlaut Ólafur þessa útnefningu árið 1996.


Elísabet Gunnarsdóttir
Elísabet er þrítugur íþróttakennari að mennt og hefur lokið UEFA A þjálfarapróf sem er æðsta menntun hjá KSÍ. Elísabet stýrði Val til tvöfalds sigurs í sumar, bæði deild og bikar.
Hefur hún þjálfað knattspyrnu í fjórtán ár. Þar af níu ár sem yngri flokka þjálfari hjá Val, eitt ár með meistaraflokk kvenna ÍBV og eitt ár með 2.flokk kvenna Breiðabliks og síðastliðin þrjú ár þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Val.

 

19.11.06 - Sama stjórn áfram

Sigurður Þórir Þorsteinsson, Ómar Jóhannsson og Úlfar Hinriksson voru kosnir í aðalstjórn KÞÍ til tveggja ára og Kristján Guðmundsson og Arnar Bill Gunnarsson í varastjórn til eins árs.

 

19.11.06 - Hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir, Páll Viðar Gíslason og Ingvar Gísli Jónsson hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka á aðalfundi KÞÍ. Öll hafa þau lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín.

Páll Viðar Gíslason
Páll eða Palli Gísla er fyrir það fyrsta margreyndur leikmaður Þórs Akureyri til fjölda ára. Í boltanum þótti hann með eindæmum teknískur og klókur leikmaður með góðann leikskilning. Með það í vegarnesti í þjálfun auk þess að hafa menntað sig sem íþróttakennari og tekið 6. stig KSÍ má segja að Palli grunninn að frábærum árangri. Palli er nefnilega ekki bara góður þjálfari, hann er líka góður kennari.
Páll til starfa sem þjálfari 1994 go hefur starfað sleitulaust síðan. Fyrstu árin með 6. og 7.flokk karla en hefur fikrað sig ofar með árunum og í dag er hann að þjálfa 3.flokk og aðstoðar bæði í 2.flokki og meistaraflokki karla hjá Þór. Það er af mörgu að taka þegar farið er að líta á árangur þeirra flokka sem hann hefur þjálfað en nú síðast varð 3.flokkur Þórs Íslandsmeistari. Það er til marks um vönduð vinnubrögð Palla að honum bauðst að taka að sér þjálfun meistaraflokks karla fyrir nokkrum árum en honum fannst hann ekki með nægilega reynslu í þjálfun þá til að taka það að sér svo hann þáði það ekki. Hann er hins vegar kominn núna á fullt á þeim vígstöðvum enda reynslunni ríkari.


Ingvar Gísli Jónsson
Ingvar hefur lokið E stigi KSÍ og er í hópi þeirra þjálfara sem að eru á sérnámskeiði þessa dagana til að fá að ljúka Uefa A stigi. Ingvar hóf sinn þjálfaraferil hjá Leikni Reykjavík þegar hann og Pétur Arnþórsson tóku við meistaraflokk félagsins. Undir þeirra stjórn sigraði Leiknir bæði gömlu 4. deildina og 3.deildina. Frá Leikni flutti hann sig til ÍR og þjálfaði þar 2.flokk karla í tvö ár áður en hann gekk til liðs við Víkinga þar sem að hann þjálfaði í heilan áratug, mest 2. og 3. og svo 5. og 6. flokk karla. Einnig var hann aðstoðarþjálfari Lúka Kostic með meistaraflokk Víkings tímabilið, 2001 - 2002. Árið 2004 tók hann við 2.flokki karla hjá FH og þjálfar hann þar í dag ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka félagsins.


Ásdís Hrönn Viðarsdóttir
Ásdís ólst upp á fótbolta með strákunum á Stokkseyri. Hún lék með kvennaliði Stokkseyrar í fótbolta yfir blómaskeið fótboltans hjá Stokkseyringum. Ásdís aðstoðaði við þjálfun meistaraflokks Stokkseyringa og þjálfaði einnig sjálf liðið. Nokkrar af sterkustu leikmönnum Stokkseyringa hófu síðan að leika með meistaraflokki Selfoss þar sem Ásdís var burðarás um margra ára skeið og er í dag einn lækjahæsti leikmaður meistaraflokks Selfoss með um 100 leiki. Á tíunda áratugnum tók Ásdís til við að þjálfa yngri flokka kvenna hjá Selfossi og þjálfar þar allt til ársins 2003 með góðum árangri. Er hún söðlaði um og tók að sér yfirþjálfun kvennaflokka hjá Ægi í Þorlákshöfn fram á þennan dag og hefur þjálfað yngri flokka félagsins ásamt meistaraflokk félagsins með mjög góðum árangri svo að eftir hefur verið tekið í litlu plássi með ekki svo ýkja mörgu fólki en metnaðarfullu. Ásdís er einörð og ákveðin í því sem hún tekur sér fyrir hendur enda knattspyrnuáhugamanneskja frá unga aldri sem hefur ágerst með árunum ef eitthvað er. Ásdís hefur lokið 2. stigi þjálfaramenntunar KSÍ.

 

19.11.06 - Halldór og Birkir áfram skoðunarmenn

Þeir félagar af skrifstofu KSÍ, Halldór Örn Þorsteinsson og Birkir Sveinsson voru endurkjörnir sem skoðunarmenn reikninga KÞÍ.

 

19.11.06 - Samþykkt að hækka félagsgjaldið

Á aðalfundinum lagði stjórn KÞÍ til að árgjald félagsins yrði hækkað í þrjú þúsund krónur og var það samþykkt einróma. Eins og áður er stefnt er að því að hafa eitthvað innifalið í árgjaldinu, en hvað það verður kemur í ljós næsta sumar. Félagsmenn hafa lýst yfir mikilli ánægju með Taktik möppuna sem fylgdi með félagsgjaldinu á þessu ári.

 

19.11.06 - Fámennur aðalfundur

Aðalfundur KÞÍ var haldinn 18. nóvember s.l. í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi. Fundurinn var í rólegra móti og ekki hægt að segja að umræður hafi verið líflegar, um fimmtán félagsmenn mættu. Auk venjubundinna aðalfundastarfa voru þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir. Veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka.

 

19.11.06 - Skýrsla stjórnar Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands

Á síðasta aðalfundi sem haldinn var á sama degi og glæsileg og vegleg afmælisráðstefna í tilefni af 35 ára afmæli félagsins var kosin stjórn sem skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundinum á starfsárinu. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Þórir Bergsson varaformaður, Úlfar Hinriksson ritari, Ómar Jóhannson gjaldkeri og Jóhann Gunnarsson spjaldskrárritari. Í varastjórn voru kosnir Arnar Bill og Kristján Guðmundsson. Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir félagar í mótadeild KSÍ, Birkir Sveinsson og Halldór Örn Þorsteinsson.

Á starfsárinu voru haldnir sex fundir auk fjölmargra funda þar sem hluti stjórnar hittist og fór yfir hin og þessi mál. Einnig hafa stjórnarmenn verið duglegir við að nota sér nútímatækni og hafa mikil samskipti sín á milli með tölvupósti.
Markmiðið eins og áður hjá stjórninni var að fundartíminn væri ekki lengri en 90 mín.
Allar fundargerðirnar er hægt að sjá á heimasíðu KÞÍ undir liðnum KÞÍ.

Fjárhagur félagsins stendur mjög vel en alltaf má gera betur. Í ár hafa um 330 greitt árgjaldið sem er met hjá félaginu. Til samanburðar má nefna að í Svíþjóð borga um 700 þjálfarar árgjaldið. Markmið stjórnarinnar er að árið 2010, þegar félagið verður 40 ára verði um 400 þjálfarar sem greiði árgjald KÞÍ. Árgjald KÞÍ er einungis 2500 krónur og hefur það verð verið í mörg ár. Þeir þjálfarar sem greiddu árgjaldið fyrir 10. ágúst fengu veglega taktíkmöppu frá JAKO. Það hefur mælst gríðarlega vel hjá félagsmönnum það sem við höfum látið fylgja með árgjaldinu undanfarin ár. Á fundi með fulltrúum hinna Norðurlandanna sem formaður sat á ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins í Prag á dögunum kom fram að við erum að gera best af öllum Norðurlöndunum í þessum málum. Þar kom fram að við erum eina Norðurlandaþjóðin sem gerir slíkt og erum jafnframt með lægsta árgjaldið.
Hvað hefur stjórn KÞÍ gert til að fjölga félögum ? Stjórnarmenn KÞÍ hafa farið á þjálfaranámskeið KSÍ og kynnt félagið. Í haust var gert “powerpoint” show um félagið og sýnt á námskeiðum. Einnig hefur stjórnin verið ötul að fá inn nýja félagsmenn með því að fylgjast með þjálfararáðningum hjá félögunum og vera í góðu sambandi við landshlutatengiliðina sem hafa reynst okkur mjög vel. M.a. hafa þeir liðsinnt okkur í því að dreifa því til félagsmanna á sínu svæði sem við höfum látið fylgja með árgjaldinu hverju sinni. Ein hugmynd er að gera eins og norska Knattspyrnuþjálfarafélagið að verðlauna þá þjálfara með gjöfum sem ná inn ákveðnum fjölda af þjálfurum inn í félagið, t.d. 5 eða 10 nýir meðlimir. Þetta er eitthvað sem stjórn KÞÍ þarf að taka ákvörðun um. Fjölgunin í KÞÍ hefur verið mjög mikil undanfarin ár, úr 90 í 330 á síðustu 8 árum. Við höfum átt mjög gott samstarf við KSÍ undanfarin ár og er það mjög mikilvægt fyrir okkar félag. Knattspyrnusamband Íslands tók að sér að borga árgjald evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, 1200 evrur sem eru rúmlega 100.000 krónur.

Á afmælisráðstefnu KÞÍ sem haldin var í fyrra á Grand hótel tilkynnti Eggert Magnússon formaður KSÍ að KÞÍ fengi skrifstofu og fundaraðstöðu í húsakynnum KSÍ í Laugardal á næsta ári. KSÍ stendur í miklum framkvæmdum á Laugardalsvelli og mun KÞÍ fá aðstöðuna þegar framkvæmdunum þar lýkur. Er þetta mikið fagnaðarefni fyrir KÞÍ og ljóst að þetta á eftir að efla félagið enn frekar. Við þökkum Knattspyrnusambandi Íslands kærlega fyrir þennan frábæra stuðning við okkar félag og vonumst til að það verði áfram jafn heillaríkt.

Menntun þjálfara í knattspyrnu á Íslandi hefur stóraukist undanfarin ár. Þjálfarar hjá félögunum í Landsbankadeild karla hafa ekki verið nein undantekning þar á. Á hverju ári þurfa þjálfarar karlaflokkanna hjá félögunum í Landsbankadeild karla að uppfylla kröfur leyfiskerfisins um menntun þjálfara, en þessar kröfur eru eftirfarandi: Þjálfari meistaraflokks karla skal hafa lokið VI. stigi KSÍ eða E-stigi KSÍ, (en fljótlega verður gerð krafa um UEFA A þjálfaragráðu). Þjálfari 2. 3. og 4. flokks skal hafa lokið UEFA B þjálfaragráðu. Þjálfari 5. flokks og yngri skal hafa lokið við KSÍ II þjálfaranámskeiðið. Fyrir síðasta knattspyrnusumar voru einungis þjálfarar 5 flokka ekki með tilskilda menntun (sem samsvarar 6,3% allra flokka hjá félögunum í Landsbankadeild karla) og í þeim tilfellum fá félögin peningasekt. Góðu fréttirnar eru þær að þjálfarar 74 flokka (sem samsvarar 93.7% allra flokka hjá félögunum í Landsbankadeild karla) hafa tilskilda menntun til þess.
93.7% allra flokka hjá félögunum í Landsbankadeild karla) hafa tilskilda menntun til þess.

Mjög mörg námskeið hafa verið haldin á vegum KSÍ á starfsárinu og er mikil fjölgun á námskeiðum. M.a. hefur verið haldið námskeið í Englandi og núna stendur yfir sérnámskeið fyrir E stigs þjálfara þar sem þekktir fyrirlesara eins og Howard Wilkinson og Jens Bangsbo eru meðal kennara.

Föstudaginn 3. mars á þessu ári var stór stund í íslenskri knattspyrnuþjálfarasögu. Þá útskrifuðust 22 þjálfarar með UEFA A þjálfaragráðu í menntuna kerfi KSÍ. UEFA A gráða er hæsta þjálfaragráða sem er í boði á Íslandi og næst hæsta þjálfaragráða sem UEFA viðurkennir. Þeir 22 þjálfarar sem útskrifuðust eru þeir fyrstu sem lokið hafa þessu námi hjá KSÍ og var efnt til útskriftarveislu í Víkinni, félagsheimili Víkings, af því tilefni þar sem framkvædastjóri KSÍ, Geir Þorsteinnson, formaður fræðslunefndar KSÍ, Ingibjörg Hinriksdóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ fluttu ræður. Heimir Hallgrímsson úr Vestmannaeyjum fékk sérstök verðlaun fyrir bestan námsárangur á UEFA A prófi. Þjálfarar með UEFA A gráðu hafa leyfi til að þjálfa alla flokka og í öllum deildum á Íslandi. Jafnframt er þjálfaragráðan viðurkennd í 48 af 52 löndum sem eiga aðild að UEFA. Hæsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA Pro þjálfaragráða, en KSÍ stefnir á að bjóða upp á UEFA Pro þjálfaragráðu í samvinnu við enska knattspyrnusambandið innan fárra ára. Þess má geta að hér á landi er einungis einn þjálfari með þá þjálfaragráðu en það er Teitur Þórðarson.
Búið er að uppfæra æfingasafnið á fræðsluvef KSÍ og bætt hefur verið við 140 nýjum æfingum. Það voru þjálfarar á síðasta KSÍ V þjálfaranámskeiðinu sem sendu inn þessar 140 æfingar sem hluti af námskeiðinu. Með þessari viðbót eru æfingarnar orðnar alls 450 talsins. Alls hafa 108 þjálfarar sent inn þessar æfingar. Æfingasafnið er ómetanlegt fyrir þjálfara í knattspyrnu því þar er hægt að fá hugmyndir að nýjum æfingum og kynnast hugmyndum annarra þjálfara. Til að geta fengið aðgang að æfingasafninu er nauðsynlegt að eiga Homeground þjálfaraforritið, en KSÍ hefur selt 207 eintök af forritinu til einstakra þjálfara, félaga, íþróttabrauta, kennara og skóla. Homeground þjálfaraforritið er á ensku og er til sölu á skrifstofu KSÍ á 6.000 krónur. Æfingasafnið má sjá á fræðsluvef KSÍ. Einnig má geta þess að KSÍ selur fræðsluefni til þjálfara. Sem dæmi DVD disk frá austurríska knattspyrnusambandinu (Challenge 2008) sem miðar að því að bæta knatttækni hjá leikmönnum. DVD diskurinn nýtist þannig bæði þjálfurum og leikmönnum á öllum aldri. Disknum svipar að mörgu leyti til gömlu "Knattspyrnuskóli KSÍ" spólunnar, með gríðarlega mörgum tækniæfingum fyrir börn og unglinga. Disknum er skipt upp í: Æfingar til að halda bolta á lofti, knattraksæfingar, gabbhreyfingar, fótboltatrix landsliðsmanna Austurríkis, grunnæfingar fyrir markmenn, knatttækniæfingar fyrir markmenn, skallaæfingar, taktískar æfingar til að æfa færslur og sendingaleiðir, æfingar sem börn og unglingar geta æft sig sjálf í til að bæta knatttækni og margt fleira. Þessi DVD diskur er í hæsta gæðaflokki og hægt að spila hann báðum megin. Á disknum eru mörg hundruð æfingar og hann verður notaður til kennslu á þjálfaranámskeiðum KSÍ. Diskurinn er til sölu á skrifstofu KSÍ (ragga@ksi.is) og kostar 2500 krónur. KSÍ sendir í póstkröfu út á land.

Aðalstyrktaraðilar KÞÍ eru : GLITNIR, JAKO, MEBA og LYRA.
Við þökkum þessum aðilum kærlega fyrir stuðninginn og vonumst til að eiga gott samstarf við þá áfram.

Helstu viðburðir á árinu:

Matarfundur
Haldinn var matarfundur á Kaffi Reykjvík í vor þar sem um 30 þjálfarar mættu og áttu góða kvöldstund saman. Guðni Bergsson, fyrrverandi atvinnumaður var aðalræðumaður kvöldsins og sagði frá atvinnumennsku sinni og hvernig það er að koma til Íslands og fylgjast með íslenskri knattspyrnu. Hjálmar Hjálmarsson betur þekktur sem Haukur Hauksson, “ekki fréttamaður” tróð upp á eftirminnilegan máta. Freyr Sverrisson var veislustjóri og gerði það af sinni alkunnu snilld og húmor. Við gerðum tilraun til að halda svipaðan matarfund á Akureyri, annað árið í röð en það gekk ekki upp. Vonandi gengur það á næst ári, allt er þegar þrennt er segir máltækið.

Þjálfarafyrirlestur um undirbúningstímabil (preseason) í Englandi
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stóð fyir fundi með Fitness þjálfara Millwall FC, Ade Mafe sem sagði frá uppbyggingu "preseason” tímabila og svaraði spurningum gesta. Fyrirlesturinn var mánudaginn 10. júlí í veitingasal Smárans, íþróttamiðstöðvar Breiðabliks í Kópavogi. Aðgangur var ókeypis. Ade Mafe er fyrverandi frjálsíþróttamaður sem hefur meðal annars keppt á Ólympíuleikum. Hann hefur verið fitness þjálfari hjá Chelsea síðan 1996 en hætti störfum þar í vor og sá nú um "preseason” þjálfun Millwall FC fyrir þetta keppnistímabil. Um 10 þjálfarar mættu á þennan fyrirlestur og voru mjög ánægðir með hann og urðu margs vísari um uppbyggingu knattspyrnumanna á undirbúningstímabili.

Ráðstefna Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og KSÍRáðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA-bikars karla.
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) í samvinnu við Knattspyrnusamband Íslands hélt sína árlegu ráðstefnu í tengslum við VISA-bikarúrslitaleik karla þann 30. september síðastliðinn. Ráðstefnan fór fram á Grand Hóteli í Reykjavík og dagskráin hófst klukkan 10.00. Ráðstefnan kostaði 2.500 krónur fyrir félagsmenn KÞÍ en annars 5.000 krónur.

Dagskrá ráðstefnunnar:
10.00 Setning. Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
10.05 Ólafur Garðarsson, UEFA umboðsmaður
10.30 Ásgeir Elíasson, fv. landsliðsþjálfari og fv. þjálfari Fram
Taktík-Almennt um knattspyrnu.
11.00 Kaffi
11.15 Hugleiðingar fræðslustjóra KSÍ - Sigurður Ragnar Eyjólfsson
11.45 Tölfræði liðanna í bikarúrslitum – Bjarni Jóhannsson
12.15 Þjálfari Keflavíkur : Kristján Guðmundsson
12.30 Þjálfari KR: Teitur Þórðarson
12.45 Hádegismatur – innifalinn í þátttökugjaldi
14.00 Bikarúrslitaleikur

Ráðstefnustjóri: Njáll Eiðsson

Það mættu um 100 manns á þessa bikarúrslitaráðstefnu, um 30 komu af 4.stigi KSÍ, um 30 frá knattspyrnuvali Kennaraháskóla Íslands að Laugarvatni og um 40 frá KÞÍ.
Menn voru almennt mjög ánægðir með þessa ráðstefnu og fannst margt athyglisvert koma í ljós. Sjá má fyrirlestur Ólafs Garðarssonar umboðsmanns á heimasíður KÞÍ.
Það er von okkar að þetta fyrirkomulag verði áfram svona, þ.e. að þjálfarara á KSÍ námskeiðum og nemendur frá Laugarvatni komi áfram á ráðstefnuna því þetta gefur henni óneitanlega meira gildi.

Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands var boðið að senda tvo fulltrúa á ráðstefnu þýska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í Hannover í sumar og auglýstum við það á heimasíðu okkar en enginn íslenskur þjálfari sá sér fært að mæta að þessu sinni.
Sigurður Þórir og Ómar fóru á ráðstefnu UEFT í Basel í Sviss. Þeir félagar Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ fóru á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í Basel í Sviss 26. - 30. nóvember í fyrra. Heiti ráðstefnunnar var “Teambuilding”. Skýrsla um ráðstefnuna verður sett á heimasíðuna um leið og hún verður tilbúin. Skýrsluna af ráðstefnu UEFT sem haldin var í Portúgal 2004 má sjá á heimasíðu KÞÍ undir fróðleikur. Allir sem komu á afmælisráðstefnu KÞÍ í fyrra fengu skýrsluna afhenta þar.

Ráðstefna UEFT í Prag
Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ. Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ og Þórir Bergsson varaformaður KÞÍ fóru á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í Prag 4. - 6. nóvember s.l. Heiti ráðstefnunnar var “Top football needs top coaches from details to creativity” Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Marcello Lippi fyrrum landsliðsþjálfari Ítalíu, Raymond Domenech landsliðsþjálfari Frakklands og Kerel Bruckner landsliðsþjálfari Tékklands auk fjölmargra tékkneskra þjálfara. Vænta má mikils fróðleiks frá þeim félögum, en skýrsla um ráðstefnuna verður sett á heimasíðuna um leið og hún verður tilbúin. Þess má geta að Sigurður Þórir fór á eigin kostnað á ráðstefnuna en hann er sem stendur búsettur í Svíþjóð og áður höfðu Ómar og Þórir verið tilkynntir sem þátttakendur KÞÍ á ráðstefnunni.

Sjö knattspyrnuþjálfarar fengu styrk frá ÍSÍ
Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, afhenti í lok síðasta árs þjálfarastyrki að upphæð kr. 50.000 hvern. Þessir styrkir hafa verið veittir síðan 1998 og þetta er í 15. sinn sem þessi afhending fer fram. Það sem er helst áberandi að þessu sinni að umsóknir frá knattspyrnuþjálfurum voru mjög margar og fáar konur sóttu um styrk að þessu sinni.
Þeir knattspyrnuþjálfarar sem hlutu styrk að þessu sinni voru:
Sigurjón Magnússon, Páll V. Gíslason, Arnar Bill Gunnarsson, Dragi Pavlóv, Guðjón Þorvarðarson, Garðar Gunnar Ásgeirsson og Andri Marteinsson.

Vel heppnuð afmælisráðstefna KÞÍ
Um eitthundrað þjálfarar mættu á afmælisráðstefnu KÞÍ á Grand Hóteli laugardaginn 12. nóvember í fyrra Ljóst var að fyrirlesarar dagsins drógu að sér mikla athygli.
Fyrsti ræðumaður ráðstefnunnar var hinn nýráðni A landsliðsþjálfari karla, Eyjólfur Sverrisson. Ræddi Eyjólfur um störf sín með U21 landsliðinu og þær áherslur sem hann ætlar að koma með inn í A landsliðið. Sagði Eyjólfur frá reynslu sinni sem atvinnumaður og hvaða þjálfarar hefðu haft mest áhrif á hann þar.

“Það er ekkert gríðarlega mikill munur á leikmönnum okkar og á Norðurlöndum í yngri landsliðunum. Við erum þó aðeins á eftir sterkari mótherjum okkar hvað varðar spyrnugetu og tækni. Hallirnar eiga þó eftir að skila okkur betri spilurum í framtíðinni. Við megum þó ekki láta hallirnar bitna á líkamlegu atgervi. Í yngri flokka þjálfun er mikilvægt að styrkja leikmanninn og bæta veikleika hjá honum en þó er enn mikilvægara að taka styrkleikana og bæta þá og gera þá einstaka. Að leikmaðurinn nái að verða mjög góður og áberandi góður í sínum styrkleika. Sem dæmi þá er David Beckham ekki sérlega góður skallamaður og ekki liggur hans styrkur í sprettum, en hann hefur frábæra spyrnugetu og hann gerir út um leiki með sínum hæfileika. Að sama skapi getur góður skallamaður, hraður leikmaður og leikmenn með einstaka hæfileika gert út um jafna leiki. Það er betra að vera frábær í einu atriði en að vera meðalmaður í ölllu.”

Í kjölfar Eyjólfs kom Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Val en Valsstúlkur komust lengra en nokkuð annað íslenskt kvennalið hefur komist áður í Evrópukeppni félagsliða kvenna. Sagði Elísabet frá reynslu liðsins og hennar sem þjálfara. Ljóst er að árangur Vals hefur opnað augu stóru liðanna í Evrópu fyrir gæðum íslenskra liða og leikmanna.

“Sú reynsla sem við fengum úr keppninni var góð. Við fengum bæði liðin sem spiluðu úrslitaleikinn í fyrra. Ég segi að við áttum fullt erindi þangað sem við komumst. Jákvæð reynsla sem leikmenn og þjálfarar fengu gegn sterkum mótherjum sem spiluðu öðruvísi en við voru vanar. Mikil persónuleg reynsla fyrir þjálfara og samningstilboð erlendis frá til leikmanna og þjálfara. Tveir leikmenn með mjög góð tilboð í höndunum. Má segja að þetta góða gengi sé búið að opna fyrir áhuga sterkustu liðanna á íslenskum leikmönnum. Við eigum mjög sterk yngri landslið og efnilegt A landslið og við þurfum að fá leikmenn sem spila erlendis til að þeir haldi áfram að verða betri. Mikilvægt að koma þeim út til að efla þá. Ljóst að einn til tveir leikmenn og jafnvel fleiri munu fara erlendis, jafnvel fyrir næsta tímabil, t.d. er Margrét Lára svo gott sem búin að gera munnlegt samkomulag við Potsdam um að koma til þeirra þegar hún er búin með skólann eftir næsta tímabil.”

Síðasta erindið fyrir matarhlé var erindi Ólafs Jóhannessonar sem sagði á mjög svo skemmtilegan hátt frá upphafi sigurgöngu FH. Ásamt því að fara vítt og breitt um völlinn og salinn í ræðu sinni. Er ljóst á ræðu Óla að FH ingar ætla sér ekki að gefa neitt eftir á komandi árum.

“Líkamlegt form manna skiptir miklu máli. Margir vilja meina að það sé óþarfi að fara í langhlaup. Ég hef alltaf viljað láta menn hlaupa og lyfta nokkuð mikið. Það er mjög gott að geta gert allar æfingar með bolta en það er ekki alltaf hægt. Ég hef notað mikið af langhlaupum og ég hef og mun halda áfram að notast við langhlaup. Í janúar, febrúar og mars er mikið um hlaup og lyftingar hjá mér. Byrjuðum að spila æfingaleiki seint í janúar og svo kom deildabikarinn. Ég breytti aldrei neinu í æfingaprógramminu og lyfti og hljóp ef það var svoleiðis æfing daginn fyrir leik. Töpuðum og töpuðum aftur og aftur í deildarbikarnum. Þeta ræddi ég við reynslumeiri leikmenn liðsins. Heimir Guðjóns hélt því fram að við værum að æfa vel og þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur. Afsökunin var að við vorum þyngri en hin liðin. En einhverra hluta vegna vorum við mjög daprir. Svo kemur að páskaferð og þá komu Danirnir með okkur og Sverrir Garðarsson líka. Úti æfðum kannski meira en aðrir, við gáfum aldrei frí og við töpuðum öllum leikjunum þar líka. Þá spurði Tommy hvort þetta væru bestu liðin á íslandi og ég játti því þá sagði hann að við værum ekki lélegri en þessi lið. Það breyttist margt með komu þessara leikmanna. Tommy Nielsen var mikilvægasti leikmaðurinn, hann kom með atvinnumannahugsun í hópinn sem hafði áhrif á alla leikmennina, hann vildi gera þetta að alvöru.”


Fyrri fyrirlesarinn eftir hádegishlé var Teitur Þórðarson sem er kominn heim eftir 30 ára veru í útlöndum sem leikmaður og þjálfari. Ræddi Teitur fyrst um feril sinn sem leikmaður og fór svo yfir þjálfaraferil sinn til dagsins í dag og hans nýja starf sem aðalþjálfara KR.

“Ég spekuleraði aldrei neitt mikið í því að gerast þjálfari þegar ég var að spila. Ég var heppinn að hafa mjög fína þjálfara sem leikmaður í Frakklandi, Arsene Wenger og Gerard Houilier sem eru heimsþekktir í dag. Á sama tíma þá byrjaði ég að skrifa dagbækur um æfingar og leikaðferðir. Einnig var ég beðinn um að þjálfa 2.fl.ka þegar ég lék með Cannes og tók ég því. Í Frakklandi tók ég nokkur námskeið í unglingaþjálfun. Þegar ég fór svo aftur til Svíþjóðar þá var mér boðið að verða skólastjóri í Markaryds akademíu og það var þar sem ég byrjaði að fá áhuga á því fyrir alvöru að verða þjálfari. Öll mín þjálfun byggðist upp á því sem ég hafði reynt sjálfur sem leikmaður. Ég hef aldrei lent í eins miklum hlaupum og þrekæfingum eins og þegar ég var í Frakklandi. Þar sem ég átti von á miklum tækni og sendingaræfingum sem voru líka en áherslan á hlaup og þrekæfingar voru miklar. Hjá okkur þjálfurum er það þannig að við þurfum að sjá til þess að leikmenn séu í formi. Mér fannst í Frakklandi vera góð blanda af þrek, tækni og spilæfingum. Hvernig ég vil þjálfa er að mestu leyti tekið frá Frakklandi. Frá því ég hóf að þjálfa hef ég farið á hverju einasta ári til að fylgjast með þjálfun, oftast til Frakklands en seinni árin hef ég líka farið til Englands og Ítalíu.”


Síðasti fyrirlesari dagsins og sá eini sem ekki er starfandi þjálfari í meistaraflokki var Viðar Halldórsson, lektor í íþróttafræðum. Fór Viðar yfir helstu atriði úr meistaraprófsverkefni sínu um knattspyrnu-þjálfarann. Var mjög áhugavert fyrir alla þjálfara að heyra hvernig Viðar greindi hlutverk og hættur knattspyrnuþjálfara í dag.

“Erindið byggir á meistaraprófsverkefni í íþróttafélagsfræði. Rannsóknin beindi sjónum að knattspyrnuþjálfaranum sem lykilaðila í íþróttinni í dag og fjallar sérstaklega um hinar félagslegu hliðar þjálfaraskipta í knattspyrnu. Annars vegar var gerð tölfræðileg greining á Úrvalsdeild karla á Íslandi, með það fyrir augum að meta tíðni þjálfaraskipta og starfsöryggi knattspyrnu-þjálfara. Hins vegar voru tekin fjölmörg viðtöl við knattspyrnuþjálfara og stuðst við önnur gögn með það fyrir augum að öðlast skilning á starfi þjálfarans sem og ástæðum og afleiðingum þjálfaraskipta í knattspyrnu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að starf knattspyrnuþjálfarans er flókið og margþætt og að þjálfaraskipti eru mjög tíð í íþróttinni hér á landi. Líftími þjálfara í starfi er stuttur og benda niðurstöðurnar til þess að þau þjálfaraskipti sem eiga sér stað á leiktímabilinu séu fyrst og fremst vegna slælegs árangurs í leikjum. Einnig gefa niðurstöðurnar til kynna að knattspyrnuþjálfarinn sé mikilvægur þar sem frammistaða liða batnar í flestum tilvikum þegar skipt er um knattspyrnuþjálfara á leiktímabilinu. Niðurstöðurnar benda enn fremur til þess að knattspyrnuþjálfarar séu í stöðu þar sem ekki er samræmi milli markmiða íþróttarinnar og þeirra leiða sem þeim eru færar til að ná árangri. Þetta ósamræmi er ein af meginorsökum tíðra þjálfaraskipta í knattspyrnu og í íþróttum yfirhöfuð.

Viðar bendir í framhaldi af því á leiðir til að auka samræmi milli markmiða og leiða, með það fyrir augum að gera þjálfarastarfið að öruggari starfsvettvangi, leiðir eins og t.d. markvissari fræðsla til þjálfara um ákveðna þætti starfsins sem og fræðslu til annarra um eðli þjálfarastarfsins.”

Fundur með þjálfurum liða í efstu deild karla og kvennaKnattspyrnuþjálfarafélag Íslands stóð fyrir fundum með þjálfurum úrvalsdeildar félaganna bæði í karla og kvennaflokki á eftir síðasta keppnistímabil. Þar voru sameiginleg hagsmunamál knattspyrnuþjálfara í efstu deild rædd.

Ferð með Norska Knattspyrnuþjálfarafélaginu til Þýskalands
Norska knattspyrnuþjálfarafélagið bauð KÞÍ að senda fjóra þjálfara í námsferð þeirra til Þýskalands í byrjun desember. Meginþema ferðarinnar verður afreksþjálfun.
Fylgst verður með og rætt við þjálfara hjá Schalke04, stórliði í 1. Bundesligunni. Ferð þessi er kjörkomið tækifæri þeirra sem nú eru að setja á stofn Akademíu hjá sínu félagi, þeirra sem vilja kynnast nánar afreksþjálfun og fá hugmyndir fyrir framtíðina. Allar frekari upplýsingar fást hjá Sigurði Þóri Þorsteinssyni formanni KÞÍ á netfanginu sigurdurth@bhs.is

Úr fundargerðurm stjórnar KÞÍ :

• Upp hefur komið sú hugmynd að KÞÍ standi fyrir þjálfaraferð til útlanda. Það hefur verið í vinnslu og nú er komin niðurstaða í því máli. Samningur við norska knattspyrnuþjálfarafélagið um 4 pláss í ár til Þýskalands. Það er aldrei að vita nema það verði staðið fyrir séríslenskri ferð í framtíðinni.

• Formaður KÞÍ ávarpaði ársþing KSÍ sem fór fram þann 11. febrúar. Ávarpaði formaður einnig fyrstu útskrift KSÍ á þjálfurum með A stigs þjálfararéttindi.

• Rætt var um mikilvægi þess að félagið sé sýnilegt á öllum þjálfaranámskeiðum KSÍ.

• Landshlutatengiliðir KÞÍ voru allir áfram á þessu starfsári og sáu m.a. um að afhenda taktíkmöppuna.
• Einnig var hægt að nálgast hana á skrifstofu KSÍ hjá Halldóri Erni Þorsteinssyni.
• Stjórnarmenn voru líka með möppurnar og afhentu.

• Félagaskrá. Formaður lagði til að farið væri yfir hverjir væru virkir þjálfarar hjá félögunum. Stjórn KÞÍ skipti með sér verkum. Skrá nafn, kennitölu og netfang hjá þeim þjálfurum sem ekki eru fyrir á þjálfaralistanum.

• Töluvert var rætt um þá þjálfara sem höfðu hætt á árinu en 4 af 10 þjálfurum í efstu deild karla hættu af einhverjum ástæðum á árinu.
• Þetta vakti mikinn áhuga fjölmiðla og var formaður fyrir svörum um málið í Morgunblaðinu og í beinni útsendingu í hádegisíþróttum NFS.

• Þjálfarasamningar. Mikið fjallað um mikilvægi vel gerðra samninga. Við ætlum að þýða staðlaðan samning norska þjálfarafélagsins auk þess sem stjórnarmenn ætla að senda inn samninga sem þeir eiga á tölvutæku formi.

• Framkoma þjálfara og siðgæði í þjálfarastéttinni. Beina til fræðslunefndar að fara yfir þessi mál.

• Rekinn/ráðinn. Sagði þjálfari upp eða var honum sagt upp. Það skiptir miklu máli skv. leyfiskerfi KSÍ. Formaður fundaði með leyfisstjóra KSÍ um málið og í kjölfarið fór formaður sem einnig situr í fræðslunefnd með málið á fund hjá nefndinni og nefndin sendi ályktun til stjórnar KSÍ.

Á eftir verða þjálfar ársins í karla og kvennaflokki útnefndir.

Á aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands í fyrra voru Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Úlfar Hinriksson þjálfari Breiðabliks útnefndir þjálfarar ársins í Landsbankadeildum karla og kvenna fyrir árið 2005. Báðir náðu þeir mjög góðum árangri með lið sín í fyrra og því vel að útnefningunni komnir.

Ólafur hóf þjálfaraferilinn fyrir tuttugu og fjórum árum þegar hann þjálfaði meistaraflokk og þriðja flokk karla hjá Einherja á Vopnafirði. Síðan þá hefur hann eingöngu þjálfað meistaraflokk karla. Ólafur hefur þjálfað tvisvar hjá Skallagrími í Borgarnesi og hefur einnig þjálfað hjá Þrótti Reykjavík, Haukum og Selfossi en, mest hefur hann þjálfað hjá FH. Ólafur hefur þrisvar verið ráðinn til starfa þar á bæ, nú síðast haustið 2002. Fyrsta árið endaði FH í öðru sæti í deild og bikar, í fyrra varð FH undir stjórn Ólafs Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. Í ár varði FH Íslandsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum. Ólafur er vel menntaður þjálfari og hefur hann lokið UEFA B þjálfaragráðu. Þetta er þriðja árið í röð sem Ólafur er kjörinn þjálfari ársins hjá KÞÍ, en alls hefur Ólafur fjórum sinnum hlotið þessa útnefningu hjá KÞÍ, en fyrst hlaut Ólafur þessa viðurkenningu árið 1996.

Úlfar Hinriksson er 33 ára íþróttakennari að mennt og hefur lokið öllum stigum KSÍ samkvæmt eldra menntunarkerfi KSÍ. Úlfar stýrði Breiðabliki til sigurs í deild og bikar í sumar á sínu fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá Víkingi árið 1994, tók þá að þjálfa hjá Breiðablik þar sem hann þjálfaði yngri flokka í níu ár með glæstum árangri, auk þess að gegna stöðu yfirþjálfara síðustu þrjú ár. Haustið 2004 tók Úlfar við mfl. kvenna ásamt því að gegna starfi yfirþjálfara. Úlfar þjálfaði U21 kvennalandslið Íslands árin 2003 og 2004. Árið 2004 náði Ísland besta árangri sínum frá upphafi í Opna Norðurlandamótinu. Árin 2003 og 2004 gegndi Úlfar einnig starfi aðstoðarmanns hjá Helenu Ólafsdóttur, A landsliðsþjálfara kvenna. Úlfar hefur verið duglegur að sækja sér fróðleik bæði innanlands og utan og hefur meðal annars dvalist í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og á Ítalíu.


Á eftir verða einnig veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Aðalsteinn Aðalsteinsson, Garðar Smári Gunnarsson og Sævar Þór Gylfason hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka á aðalfundi KÞÍ í fyrra. Aðalsteinn hefur þjálfað hjá Víkingi, Völsungi, Gróttu, Leiftri, Aftureldingu, Sindra og undanfarin níu ár hefur Aðalsteinn þjálfað yngri flokka hjá Fylki. Garðar Smári hefur þjálfað á Ísafirði, hjá FH og Haukum í Hafnarfirði, Stjörnunni og þjálfar nú 3. flokk karla hjá Val. Sævar Þór hefur þjálfað yngri flokka hjá Sindra á Hornafirði í fjölmörg ár. Allir hafa þeir lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín.

Fjórir hlutu gullmerki KÞÍ

Á ráðstefnu Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands í fyrra veitti formaður félagsins, Sigurður Þórir Þorsteinsson, fjórum aðilum gullmerki KÞÍ fyrir framlög sín til þjálfaramenntunar í knattspyrnu hér á landi. Eggert Magnússon, formaður KSÍ, og Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, fengu gullmerki KÞÍ fyrir framlag sitt til eflingu og uppbyggingu þjálfaramenntunar í íslenskri knattspyrnu. Bjarni Stefán Konráðsson og Bjarni Jóhannsson, sem báðir eru kunnir knattspyrnuþjálfarar hér á landi, fengu gullmerki KÞÍ fyrir störf sín við þjálfun og þjálfaramenntun í íslenskri knattspyrnu og langa stjórnarsetu í KÞÍ.

Mig langar sérstaklega til að þakka þessari stjórn KÞÍ á þessu starfi fyrir mjög mikið og óeigingjarnt starf. Allt starf stjórnar er unnið í sjólfboðavinnu og það verður að segja alveg eins og er að mikið frumkvæði kemur frá stjórnarmönnum og framkvæmdir. Það hefur ekki alltaf verið þannig og er það mín von að menn sýni áfram dugnað í verki.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarfélags Íslands þakkar ykkur öllum fyrir samstarfið og þann geysilega mikla velvilja sem félagið hefur og hvetur ykkur áfram í starfi.

F.h. stjórnar Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands,
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður.

 

14.11.06 - Sigurðar Jónsson tekur við Djurgården

Forráðamenn sænska úrvalsdeildarliðsins Djurgården, staðfestu fyrir stundu að Sigurður Jónsson verður næsti þjálfari liðsins. Sigurður tekur formlega við starfi sínu um næstu mánaðamót. Þetta verður í fyrsta sinn sem Sigurður þjálfar lið utan Íslands hvar hann hefur verið við stjórnvölinn hjá FH, Víkingi og nú síðast hjá Grindavík þar sem hann hætti þegar tveimur umferðum var ólokið af Íslandsmótinu í september sl. Djurgården varð sænskur meistari og bikarmeistari á síðasta ári. Það hafnaði í sjötta sæti, 10 stigum á eftir Elfsborg sem varð sænskur meistari á nýliðinni leiktíð.

 

10.11.06 - Ókeypis fyrirlestur hjá Jens Bangsbo

KSÍ býður öllum áhugasömum upp á ókeypis fyrirlestur hjá Jens Bangsbo föstudaginn 17.nóvember klukkan 20.00 - 22.00 í fundarsal 1 í Laugardalshöllinni (nýja höllin, gervigrasmegin). Fyrirlesturinn fer fram á ensku og nefnist: "Training of a top class football player - what to learn from science and experience".

Jens Bangsbo verður hér á landi vegna sérnámskeiðs fyrir þjálfara sem luku E-stigi í gamla þjálfaramenntunarkerfi KSÍ, en það eru margir fremstu þjálfarar landsins í þeim hópi. KSÍ hefur ákveðið að leyfa fleirum að njóta þess að hlýða á þennan þekkta fyrirlesara.

Dr. Jens Bangsbo er prófessor í íþróttalífeðlisfræði við Kaupmannahafnar háskóla og gerði doktorsritgerð sína um lífeðlisfræði fyrir knattspyrnu. Hann starfaði sem fitnessþjálfari hjá Juventus á Ítalíu í nokkur ár og sá um líkamlegan undirbúning danska landsliðsins í knattspyrnu fyrir HM 2002 og EURO 2004. Hann hefur haldið ótal fyrirlestra á vegum UEFA og FIFA um allan heim. Hann hefur skrifað bækur um líkamsþjálfun knattspyrnumanna. Jens lék yfir 400 leiki í efstu deild í Danmörku og á að baki A-landsleiki í knattspyrnu fyrir danska landsliðið.

Það er því mikill fengur fyrir knattspyrnuþjálfara að fá að hlusta á Jens Bangsbo og það er vert að hvetja sem flesta til að mæta, enda er aðgangur ókeypis.

Það er þó nauðsynlegt að skrá sig með því að senda nafn, kennitölu, gsm síma og netfang á ragga@ksi.is

Fyrirlesturinn telur upp í 15 tíma endurmenntun sem er nauðsynleg til að viðhalda UEFA B og UEFA A þjálfaragráðu.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ.

 

8.11.06 - Fundur með þjálfurum liða í efstu deild karla

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyrir fundi með þjálfurum úrvalsdeildar félaganna á veitingastaðnum Vox á jarðhæð Hótel Nordica mánudaginn 13. nóvember n.k. klukkan 20:00. Þar verða sameiginleg hagsmunamál knattspyrnuþjálfara í efstu deild verða rædd og boðið verður upp á súpu, þátttakendur skulu ganga alveg innst á staðinn.

 

7.11.06 - Ráðstefna UEFT í Prag

Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ. Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ og Þórir Bergsson fóru á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem haldin var í Prag 4. - 6. nóvember s.l. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Marcello Lippi fyrrum landsliðsþjálfari Ítalíu, Raymond Domenech landsliðsþjálfari Frakklands og Kerel Bruckner landsliðsþjálfari Tékklands auk fjölmargra tékkneskra þjálfara. Vænta má mikils fróðleiks frá þeim félögum, en skýrsla um ráðstefnuna verður sett á heimasíðuna um leið og hún verður tilbúin. Þess má geta að Sigurður Þórir fór á eigin kostnað á ráðstefnuna en hann er sem stendur búsettur í Svíþjóð og áður höfðu Ómar og Þórir verið tilkynntir sem þátttakendur KÞÍ á ráðstefnunni.

 

7.11.06 - Ferð með Norska Knattspyrnuþjálfarafélaginu til Þýskalands

Norska knattspyrnuþjálfarafélagið hefur boðið KÞÍ að senda fjóra þjálfara í námsferð þeirra til Þýskalands í byrjun desember. Meginþema ferðarinnar er afreksþjálfun.
Fylgst verður með og rætt við þjálfara hjá Schalke04, stórliði í 1. Bundesligunni. Ferð þessi er kjörkomið tækifæri þeirra sem nú eru að setja á stofn Akademíu hjá sínu félagi, þeirra sem vilja kynnast nánar afreksþjálfun og fá hugmyndir fyrir framtíðina. Allar frekari upplýsingar fást hjá Sigurði Þóri Þorsteinssyni formanni KÞÍ á netfanginu sigurdurth@bhs.is

 

5.11.06 - KSÍ II þjálfaranámskeið um helgina

Helgina 10. - 12. nóvember stendur KSÍ fyrir 2. stigs þjálfaranámskeiði. Námskeiðið fer fram í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt.

 

2.11.06 - Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands

Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi, laugardaginn 18. nóvember n.k. klukkan 17:00.

Dagskrá:
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Kosning formanns, meðstjórnenda og varamanna skv. ákvæði 7. gr. laga
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald skv. 6. gr. laga
Önnur mál

Þjálfarar ársins í efstu deild karla og kvenna útnefndir
Veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Stjórn KÞÍ hvetur félagsmenn sína til að mæta.

 

26.10.06 - Stefnuyfirlýsing KSÍ um þjálfun barna og unglinga

Knattspyrnuiðkun skal vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt
Stefna KSÍ hefur það að leiðarljósi að knattspyrnuiðkun skuli vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt. Með því móti má skapa aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga til að njóta sín innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Skipulögð og markviss þjálfun getur skapað börnum og unglingum aðstæður til að verða afreksmenn seinna meir á lands- og/eða alþjóða mælikvarða þegar þeir hafa mesta líkamlega og sálræna hæfileika til þess. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem ekki velja afreksmennsku fái tækifæri til að stunda knattspyrnu við sitt hæfi. Þjálfun barna á við 12 ára og yngri, en þjálfun unglinga á við 13 ára til og með 19 ára.

Markmið, leiðir, verðlaun og viðurkenningar
a) 8 ára og yngri
Auka hreyfiþroska.
Fyrstu kynni af knattspyrnu verði jákvæð.
Æfingar séu fjölþættar og stuðli að bættum hreyfiþroska. Hér er átt við æfingar sem örva hinar ýmsu skynstöðvar og unnið sé með grófhreyfingar og fínhreyfingar.
Þjálfun fari fram í leikformi.
Æfingar séu skemmtilegar.
Leikið verði í 4ra til 6 manna liðum.
Keppni í þessum flokki á ekki að vera markmið í sjálfu sér. Sé keppni viðhöfð skal hún fara fram á félagsmótum og mótum þar sem félagar úr nágrannafélögum keppa.
Leikur og leikgleði ráði ríkjum í keppni.
Mikil áhersla skal lögð á að allir fái tækifæri til að vera með, að öll börn fái jöfn tækifæri til þátttöku og að allir fái sömu viðurkenningu fyrir þátttöku.
b) 9 til 12 ára.
Aðaláhersla sé á þjálfun tæknilegrar færni.
Kynna einföld leikfræðileg atriði.
Þjálfun feli í sér þol, kraft og liðleikaæfingar.
Að vekja knattspyrnuáhuga fyrir lífstíð.
Æfingar séu fjölþættar og skemmtilegar.
Börn séu hvött til að kynna sér og reyna sem flestar íþróttagreinar.
Háttvísi og íþróttamannsleg framkoma sé kennd.
Öll börn fái tækifæri til æfinga og keppni miðað við þroska og getu.
Leikið verði í 7 manna liðum.
Fyrir 9 og 10 ára skal keppni fara fram á félagsmótum sem og á héraðs- og landshlutavísu. Áhersla skal lögð á að allir fái tækifæri til að vera með óháð getu og allir fái sömu viðurkenningu fyrir þátttöku.
Fyrir 11 og 12 ára skal keppni fara fram á félags-, héraðs-, landshluta- og landsvísu. Áhersla skal lögð á að allir fái tækifæri til að vera með óháð getu. Lið vinna til verðlauna.
c) 13 - 16 ára.
Þjálfun byggist meira en áður á þoli, krafti og hraðaæfingum ásamt liðleikaþjálfun.
Viðhalda og bæta áður lærða tæknilega færni.
Auka skilning á leikfræðilegum atriðum.
Skapa félagslega jákvæðar aðstæður og umhverfi með knattspyrnustarfinu. Sérstök áhersla sé lögð á að skapa unglingum félagslega góðar aðstæður innan félagsins. Til þess skulu öll tækifæri sem bjóðast til hópþátttöku, hópferða og félagslegra athafna innan vallar sem utan nýtt til hins ítrasta.
Kynna keppnis- og afreksíþróttamennsku og þann hugsunarhátt sem nauðsynlegur er til að árangur náist.
Kynna þá möguleika sem bjóðast þeim sem vilja iðka knattspyrnu sem líkamsrækt og vegna félagsskaparins.
Æfingar séu fjölþættar.
Sérhæfing hefjist.
Fræðsla um vöxt og þroska fari fram.
Fræðsla um heilbrigðan lífsstíl fari fram.
Allir unglingar fái tækifæri til æfinga og keppni miðað við þroska og getu.
Öll félög sjái til þess að skapa sem jöfnust tækifæri til að stunda knattspyrnu sem keppnisíþrótt annars vegar og líkamsrækt hins vegar.
Leikið verði í 11 manna liðum. Einnig verði áfram leikið í 7 manna liðum.
Fyrir 13 og 14 ára skal keppni fara fram á félags-, héraðs-, landshluta- og landsvísu og hugsanlega erlendis. Lið sem og einstaklingar vinna til verðlauna.
Fyrir 15 og 16 ára skal keppni fara fram á félags-, héraðs-, landshluta- og landsvísu og erlendis. Árangur í keppni orðinn markmið sem stefnt er að og þjálfunin miðast við. Lið sem og einstaklingar vinna til verðlauna.
d) 17 til 19 ára.
Allir þjálfunarþættir séu teknir fyrir.
Auka þjálfunarálagið verulega.
Innleiða afrekshugsunarhátt hjá þeim sem stefna að þátttöku í keppnis- og afreksknattspyrnu.
Skapa möguleika fyrir þá sem vilja iðka knattspyrnu sem líkamsrækt og vegna félagsskaparins.
Æfingar séu alhliða og fjölþættar þannig að allir þjálfunarþættir séu teknir fyrir með tilliti til stöðu og hæfileika hvers einstaklings.
Val á milli íþróttagreina fari fram ef fyrir liggur áhugi til sérhæfingar.
Sérhæfð afreksþjálfun fari fram og æfingaálagið sé aukið verulega frá því sem áður var.
Unglingum sé gerð full grein fyrir hvaða hugarfar, álag og hæfileika þarf til að ná árangri í afreksknattspyrnu.
Öll félög geri greinarmun á afreksknattspyrnu eða knattspyrnu þar sem árangur í keppni er aðalmarkmiðið annars vegar og hins vegar knattspyrnu þar sem áhersla er lögð á líkamsrækt og félagsskapinn umfram árangur í keppni sem slíkri.
Keppni skal fara fram á félags-, héraðs-, landshluta- og landsvísu og erlendis. Árangur í keppni orðinn markmið sem stefnt er að og þjálfunin miðast við. Lið sem og einstaklingar vinna til verðlauna.
Með stefnuyfirlýsingu þessari er aðildarfélögum KSÍ markaður rammi til að vinna eftir við þjálfun barna og unglinga en knattspyrnuhreyfingin stefnir ávallt að því að skapa kjöraðstæður fyrir börn og unglinga þannig að þau fái notið sín. Jafnfram gerir stefnuyfirlýsing þessi ráð fyrir því að ekki sé gerður greinarmunur á aldursflokkaskiptingu hjá piltum og stúlkum.

 

26.10.06 - KSÍ heldur sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara

KSÍ heldur sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara 15.-19. nóvember. Alls hafa rúmlega 40 þjálfarar boðað komu sína á námskeiðið. Á námskeiðið koma tveir heimsþekktir fyrirlesarar Howard Wilkinson frá Englandi og Jens Bangsbo frá Danmörku. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)

 

26.10.06 - KSÍ heldur 6. stigs þjálfaranámskeið í Englandi

KSÍ heldur 6.stigs þjálfaranámskeið í Englandi dagana 29.október – 5.nóvember næstkomandi. Að námskeiðinu koma margir færir fyrirlesarar, m.a. frá enska knattspyrnusambandinu ásamt því að heimsótt verður Knattspyrnuakaademía Manchester United og leikgreindur leikur í ensku úrvalsdeildinni. Alls fara 25 þjálfarar á þetta námskeið en færri komust að en vildu.

Námskeiðið er mikilvægur hluti af KSÍ (UEFA) A þjálfaragráðu en þessir þjálfarar útskrifast væntanlega með slíka gráðu í febrúar á næsta ári. UEFA A þjálfaragráðan veitir réttindi til að þjálfa alla flokka og í öllum deildum á Íslandi. Nánari upplýsingar um þjálfaramenntun KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)

 

26.10.06 - Námskeið í Futsal um helgina

Um helgina mun KSÍ standa fyrir námskeiði í "Futsal" fyrir þjálfara og dómara. Á námskeiðinu munu tveir kennarar frá FIFA kenna fræðin, Patrick Willemarck mun halda námskeið fyrir dómara og Benny Meurs fyrir þjálfara. Takmarka þarf þátttöku á námskeiðin en hægt er að koma fjórum áhugasömum þjálfurum til viðbótar fyrir á þjálfaranámskeiðið. Áhugasamir geta sent póst á thorvaldur@ksi.is eða hringt í síma 510-2900.

 

3.10.06 - Erindi Ólafs Garðarssonar umboðsmanns á ráðstefnu KÞÍ

Ólafur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður flutti erindi á rráðstefnu KÞÍ í samvinnu við KSÍ laugardaginn 30. september.

Ólafur fjallaði um starf umboðsmanns og á hvaða aldri ungir knattspyrnumenn eigi að fara til útlanda. Upphafið að því að Ólafur fór að vinna fyrir íslenska knattspyrnumenn er fyrir um 10 árum þegar nokkrir leikmenn komu til hans til fá aðstoð við samningsgerð við útlend lið og umboðsmenn. Síðan þá hefur hann unnið sem umboðsmaður samhliða lögfræðinni. Í heildina hefur hann aðstoðað um 40 leikmenn við að gera samninga við útlend félög og um 20 samninga milli félaga í Evrópu á þessu tímabili.

Í upphafi hélt hann að nóg væri að fylgjast með leikjum og leikmönnum hérna heima og bíða eftir því að lið í Evrópu hefðu samband við sig. En það er til full mikils ætlast að erlendir knattspyrnustjórar vakni á morgnanna og hugsi um Ísland og leikmenn frá Íslandi. Hann fór því systematískt að kynna sig og íslenska leikmenn í Evrópu. Í hverri ferð heimsótti hann ákveðið svæði og nokkur félög í leiðinni. Reyndist starfið miklu meiri markaðsstarfsemi en hann hélt í upphafi. Ólafur vinnur mestmegnis einn en er í samfloti með nokkrum umboðsmönnum á meginlandinu en hann vinnur einn á Bretlandseyjum. Um England sagði hann að væru um 300 umboðsmenn og er misjafn sauður í mörgu fé þar eins í öðru.

Hluti af starfinu er að "scouta" leikmenn. Við það myndast ákveðin sérþekking sem safnast saman. Helstu ókostir umboðsmannsstarfsins eru mikil ferðalög, einn á hóteli og fjarlægð frá fjöldskyldu. Einnig eru tilfinningar forsvarsmanna liða þegar leikmenn eru að fara erlendis stundum neikvæðar í garð umboðsmannsins. Það virðist stundum gleymast að umboðsmaður er ber hag leikmannsins í huga og stundum getur farið að hagsmunir leikmanns og félags fari ekki saman. Kostirnir eru þó fleiri. Það er gaman að umgangast strákana, bæði þá eldri og yngri og maður kynnist fullt af fólki í fótboltaheiminum, flestir þeirra eru hafsjór af fróðleik og með mikla frásagnarþörf. Fyrsti stjórinn sem Ólafur gerði samning við var Graham Taylor þegar Jóhann B. Guðmundsson fór til Watford.

Starf umboðsmanns er að starfa eftir reglum UEFA, FIFA og KSÍ en annars er hlutverk hans að ná eins góðum kjörum fyrir leikmanninn og hægt er. Því fleiri félög sem vilja fá leikmanninn því betri samningsstaða. Þarna gildir lögmálið um framboð og eftirspurn.

Að jafnaði eru leikmenn ekki að safna peningum á fyrsta samningi en ef menn sanna sig í viðkomandi landi þá eru góðar upphæðir í boði, 20 - 50 milljónir.

Ólafur er talsmaður þess að ungir leikmenn fari ungir út, þú ert að selja von. Félög í Evrópu skoða leikmennina út frá því við hvaða aðstæður þeir æfa hér á Íslandi og hve mikið þeir gætu bætt sig við að komast í betri aðstæður. Þar með er alls ekki sagt þjálfunin sé betri, en klúbbarnir hafa fleiri þjálfara, æft meira og betri aðstöðu.

Af þeim 16 - 18 ára strákum sem farið hafa út - hafa um 25% komið heim, þó ekki alltaf vegna þess að þeir hafi ekki verið nógu góðir, frekar tengt meiðslum, kærustum og þess háttar. Úti núna séu margir mjög efnilegir ungir strákar sem eiga eftir að láta að sér kveða á næstu árum og mynda kjarnann hjá A landsliðinu eftir 4 - 6 ár.

Um þá ungu stráka sem koma heim sagði Ólafur að það væri einstaklingsbundið, vissulega væri ákveðið áfall en ef með eru nógu sterkir þá rífa þeir sig upp úr þessu. Þó þeir hafi ekki náð að festa sig í sessi úti þá hafa fengið margt líka. Þeir hafa lært nýtt tungumál, komist í kynni við nýja menningu og eru sjálfstæðari eftir að hafa flutt að heiman. Ólafur segist vera hættur að senda leikmenn til stóru liðanna, þau taki marga leikmenn til sín en en losi sig líka við mikið af leikmönnum. Annað sem hann passar upp á er að yngri strákarnir fái flugferðir heim, hótel fyrir fjölskyldur þegar þær koma í heimsóknir, nýja tölvu og internet samband til að auðvelt sé að vera í sambandi við Ísland. Viðhorf til menntunar er mjög mismunandi milli landa, Skandinavía og Holland eru á fínu plani en á Bretlandseyjunum er menntun ungra leikmanna á lágu plani.

Starfi umboðsmannsins lýkur ekki þegar leikmenn fara úr landi eða ná samning. Sérstaklega þegar illa gengur eða leikmaðurinn er meiddur er umboðsmaðurinn mikið í sambandi við leikmanninn þar sem að fjölskyldan er ekki alltaf nálægt. En þegar vel gengur þarf leikmaðurinn ekkert á umboðsmanninum að halda.

Spurningar úr sal:

Hvað getur þú haft marga leikmenn á samningi í einu?
Mismunandi, Ólafur skiptir lögmannstörfunum og umboðsmennskunni ca til helminga. Þó er starf umboðsmannsins árstíðabundið. Í dag er hann með um 25 leikmenn spilandi erlendis og 7 - 8 á Íslandi sem hann er fulltrúi fyrir.

Hvenær má fara að tala við leikmenn, aldur? 
Leikmaðurinn verður að vera 16 ára til að geta gert samning við umboðsmann. Foreldrar koma þó oft fyrr og vilja oft að hann hugi að möguleikanum fyrir þá.

Tekur þú að þér að vera umboðsmaður fyrir þjálfara?

Miklu meira um að þjálfarar vilji koma til Íslands.

 

26.9.06 - Ráðstefna Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og KSÍ

Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA-bikars karla
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) í samvinnu við Knattspyrnusamband Íslands heldur sína árlegu ráðstefnu í tengslum við VISA-bikarúrslitaleik karla þann 30. september næstkomandi. Ráðstefnan fer fram á Grand Hóteli í Reykjavík og dagskráin hefst klukkan 10.00. Ráðstefnan kostar 2.500 krónur fyrir félagsmenn KÞÍ en annars 5.000 krónur fyrir aðra og gengið er frá greiðslum fyrir upphaf ráðstefnunnar.

Dagskrá ráðstefnunnar:
10.00 Setning. Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
10.05 Ólafur Garðarsson, UEFA umboðsmaður
10.30 Ásgeir Elíasson, fv. landsliðsþjálfari og fv. þjálfari Fram
Taktík-Almennt um knattspyrnu.
11.00 Kaffi
11.15 Hugleiðingar fræðslustjóra KSÍ - Sigurður Ragnar Eyjólfsson
11.45 Tölfræði liðanna í bikarúrslitum – Bjarni Jóhannsson
12.15 Þjálfari Keflavíkur : Kristján Guðmundsson
12.30 Þjálfari KR: Teitur Þórðarson
12.45 Hádegismatur – innifalin í þátttökugjaldi
14.00 Bikarúrslitaleikur

Ráðstefnustjóri: Njáll Eiðsson

Skráning fer fram á netfangið kthi@isl.is eða hjá stjórnarmönnum KÞÍ (Sigurður Þórir Þorsteinsson, Jóhann Gunnarsson, Ómar Jóhannsson, Úlfar Hinriksson, Þórir Bergsson, Arnar Bill Gunnarsson og Kristján Guðmundsson). Einnig er hægt að skrá sig á skrifstofu KSÍ (siggi@ksi.is).

 

13.9.06 - Gaui Þorvarðar sér um Suðurlandið

guðjón Þorvarðarsson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á Suðurlandinu, þ.e. Hveragerði, Selfoss, Hella, Hvolsvöllur og Laugarvatn. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Gaua við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

13.9.06 - Tryggvi í MUBLU er með möppur fyrir Norðurlandið

Tryggvi Gunnarsson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á Norðurlandi, þ.e. Akureyri, Ólafsfjörður, Dalvík og Húsavík. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Tryggva við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

31.8.06 - Óli Jósefs sér um Akranes

Ólafur Jósefsson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á Akranesi. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Ólafs við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

31.8.06 - Jón Óli sér um Grindavík

Jón Ólafur Daníelsson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa í Grindavík. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Jóns Óla við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

25.8.06 - Jón Hálfdán sér um Vestfirði

Jón Hálfdán Pétursson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á Vestfjörðum. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Jóns Hálfdáns við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

25.8.06 - Heimir sér um Vestmannaeyingana

Heimir Hallgrímsson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á perlu Atlantshafsins, þ.e. í Vestmannaeyjum. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Heimis við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

25.8.06 - Freyr sér um Suðurnes

Freyr Sverrisson er kominn með Taktik möppurnar fyrir þá félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á suðurnesjum, að Grindavík undanskildri. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu til Freys við fyrsta tækifæri. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

17.8.06 - 290 búnir að greiða félagsgjaldið

Nú eru 290 félagsmenn búnir að greiða félagsgjaldið fyrir árið 2006. Eins og kom fram á greiðsluseðlinum fylgir glæsileg TAKTIK mappa frá JAKO með merki KÞÍ á til þeirra sem greiða. TAKTIK möppurnar eru komnar og þeir sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á höfuðborgarsvæðinu geta sótt sínar möppu á skrifstofu KSÍ eða hjá einhverjum stjórnarmanni KÞÍ. Möppur fyrir félagsmenn á landsbyggðinni vrða sendar á tengiliði KÞÍ fljótlega.

 

15.8.06 - 25 þjálfarar fara til Englands á KSÍ VI þjálfaranámskeiðið

Fræðslunefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur valið úr 35 umsóknum sem bárust frá þjálfurum sem vildu komast inn á KSÍ VI þjálfaranámskeiðið sem verður haldið á Lilleshall, Englandi þann 29.október - 5.nóvember næstkomandi. Fræðslunefndin ákvað að veita 25 þjálfurum inngöngu á námskeiðið, en setja hina 10 þjálfarana á biðlista. Við valið var tekið tillit til núverandi þjálfarastöðu, þjálfunarreynslu, leikmannsferils og annarra þátta. Þjálfarar meistaraflokks, 2.flokks og yfirþjálfarar áttu að mörgu leyti meiri möguleika að komast á námskeiðið enda er námsefnið sniðið að þjálfun þessara flokka. Eins og sjá má á lista umsækjenda eru mjög margir færir þjálfarar sem sóttust eftir að komast á námskeiðið og var val fræðslunefndar því mjög erfitt.

 

14.8.06 - TAKTIK möppurnar tilbúnar til afhendingar á skrifstofu KSÍ

Taktik mappan sem fylgir félagsgjaldinu í ár eru nú tilbúin til afhendingar á skrifstofu KSÍ í Laugardal. Félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sækja sína Taktik möppu á skrifstofu KSÍ, vegna mikils kostnaðar við að senda möppurnar með pósti. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína möppu á skrifstofu KSÍ við fyrsta tækifæri. Taktik möppur fyrir félagsmenn á landsbyggðinni verða sendir á tengiliði KÞÍ á stæstu þéttbýlisstöðunum og geta félagsmenn sótt möppurnar til þeirra eða að þeim verður komið til félagsmanna. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið kthi@isl.is

 

10.7.06 - Þjálfarafyrirlestur um undirbúningstímabil (preseason) í Englandi

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyir fundi með Fitness þjálfari Millwall FC, Ade Mafe sem mun segja frá uppbyggingu "preseason” tímabila og svara spurningum gesta. Fyrirlestur hefst kl 20:00 mánudaginn 10. júlí í veitingasal Smárans, íþróttamiðstöðvar Breiðabliks í Kópavogi. Aðgangur er ókeypis.

Ade Mafe er fyrverandi frjálsíþróttamaður sem hefur meðal annars keppt á Ólympíuleikum. Hann hefur verið fitness þjálfari hjá Chelsea síðan 1996 en hætti störfum þar í vor og sér nú um "preseason” þjálfun Millwall FC fyrir komandi tímabil.

 

26.6.06 - Fjölmörg þjálfaranámskeið fyrirhuguð í haust

Dagsetningar þjálfaranámskeiða KSÍ í haust hafa verið ákveðnar. Byrjað verður að skrá á hvert þjálfaranámskeið um mánuði áður en það á að hefjast. Eftirfarandi námskeið verða haldin í haust:

8-10. sept Námskeið úti á landi (eftir óskum)
15-17. sept Námskeið úti á landi (eftir óskum)
29. sept - 1.okt KSÍ IV (líklega í tengslum við bikarúrslitaráðstefnu KÞÍ)
6-8. október KSÍ I
13-15.október KSÍ I
20-27.október KSÍ VI í Englandi
3-5. nóvember KSÍ II
10-12. nóvember KSÍ II
15-19. nóvember Sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara
25. nóvember UEFA A skriflegt próf

Endurmenntunarnámskeið fyrir UEFA B og UEFA A þjálfara verður haldið í tengslum við heimsókn erlendra fyrirlesara 15-19.nóvember, 1-2 dagar. KSÍ VII námskeiðið verður haldið eftir sérnámskeiðið fyrir E-stigs þjálfara. Nánara fyrirkomulag á því námskeiði verður auglýst síðar. Allar nánari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)

 

22.6.06 - Úrskurður aganefndar vegna ummæla þjálfara

Framkvæmdastjóri KSÍ ákvað að vísa ummælum tveggja þjálfara, þeirra Kristjáns Guðmundssonar þjálfara Keflavíkur og Leifs Garðarssonar þjálfara Fylkis, til aganefndar vegna ósæmilegra ummæla um dómara á opinberum vettvangi í kjölfar leikja í 6. umferð Landsbankadeildar karla. Þetta gerði hann í samræmi við 11. grein starfsreglna aganefndar KSÍ. Aganefnd KSÍ ákvað í gær að ávíta Kristján Guðmundsson fyrir ummæli sín og sekta Knattspyrnudeild Keflavíkur um 10.000 kr. vegna þeirra. Þá ákvað aganefnd einnig að veita Leifi Garðarssyni áminningu vegna umæla hans.

 

22.6.06 - Glæsileg Taktik mappa fylgir félagsgjaldinu í ár

Nú fer knattspyrnuþjálfurum um allt land að berast greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2006. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og hingað til og greiði greiðsluseðilinn sem allra fyrst. Allir þeir sem greiða félagsgjaldið fyrir 10. ágúst 2006 munu fá glæsilega og vandaða Taktik möppu frá JAKO með merki KÞÍ á. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að unnið væri að því að láta eitthvað fylgja félagsgjaldinu eins og undandfarin ár, og telur stjórn KÞÍ að með þessu sé verulega verið að koma á móts víð félagsmenn, sem reyndar hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. Í fyrra greiddu um 320 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar að af landinu félagsgjaldið og vonumst við eftir jafn góðum viðbrögðum í ár. Vissulega er þetta dýrt, en góð fjárhagsstaða KÞÍ leyfir að hafa gjöfina jafn veglega og raun ber vitni að þessu sinni. Taktik möppunum verður síðan komið til félagsmanna eins fljótt og mögulegt er. Stjórn KÞÍ óskar að endingu öllum félagsmönnum sínum góðs gengis í sumar og vonar að þeir verði félagi sínu til sóma á knattspyrnuvöllum landsins.

 

20.6.06 - Nýjar æfingar í æfingasafnið hjá KSÍ

Búið er að uppfæra æfingasafnið á fræðsluvef KSÍ og bætt hefur verið við 140 nýjum æfingum. Það voru þjálfarar á síðasta KSÍ V þjálfaranámskeiðinu sem sendu inn þessar 140 æfingar sem hluti af námskeiðinu. Með þessari viðbót eru æfingarnar orðnar alls 450 talsins. Alls hafa 108 þjálfarar sent inn þessar æfingar. Æfingasafnið er ómetanlegt fyrir þjálfara í knattspyrnu því þar er hægt að fá hugmyndir að nýjum æfingum og kynnast hugmyndum annarra þjálfara. Til að geta fengið aðgang að æfingasafninu er nauðsynlegt að eiga Homeground þjálfaraforritið, en KSÍ hefur selt 207 eintök af forritinu til einstakra þjálfara, félaga, íþróttabrauta, kennara og skóla. Homeground þjálfaraforritið er á ensku og er til sölu á skrifstofu KSÍ á 6.000 krónur. Æfingasafnið má sjá á fræðsluvef KSÍ.

 

12.6.06 - KSÍ VI þjálfaranámskeiðið verður haldið 20-27. október

KSÍ heldur VI. stigs þjálfaranámskeið í Lilleshall, Englandi dagana 20-27. október 2006. Reiknað er með að fleiri þjálfarar sæki um námskeiðið en hægt er að taka inn. Umsækjendur þurfa því að fylla út umsóknareyðublað. KSÍ vekur athygli á því að síðasti dagur til að skila inn umsókninni er 1.ágúst næstkomandi, en auðvitað má skila umsóknum fyrr. Síðast kostaði KSÍ VI námskeiðið 120.000 krónur. Það er líklegt að kostnaður námskeiðsins hækki eitthvað vegna hækkandi gengis og síðast var rukkað of lítið, en kostnaðurinn verður þó vonandi ekki meiri en 150.000 krónur á mann. Þegar nákvæmara verð liggur fyrir, verður það gefið út. Hægt verður að skipta greiðslunni eitthvað niður eftir nánara samkomulagi við Pálma Jónsson fjármálastjóra KSÍ. Fræðslunefnd KSÍ stefnir á að taka inn 20-25 þjálfara á námskeiðið, eftir fjölda og hæfni umsækjenda. Á námskeiðinu er 100% mætingarskylda og það er bæði bóklegt og verklegt. Þátttakendur þurfa að taka þátt í verklegum tímum. Sjá nánar á ksi.is

 

12.6.06 - Þjálfararáðstefna í Þýskalandi

Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands hefur verið boðið að senda tvo fulltrúa á ráðstefnu þýska knattspyrnuþjálfarafélagsins í Hannover 31. júlí - 2. ágúst í sumar. Uppihaldið og námkskeiðskostnaður er KÞÍ að kostnaðarlausu. Sérstaklega skal tekið fram að ráðstefnan fer öll fram á þýsku. KÞÍ vill bjóða einhverjum félagsmanni sínum að nýta sér þetta góða boð og eru áhugasamir beðnir að senda tölvupóst á kthi@isl.is fyrir 17. júní n.k.

 

30.5.06 - Arnar Bill er þjálfarinn

Arnar Bill Gunnarsson þjálfri hjá Breiðablik er þjálfarinn á heimasíðu KÞÍ. Sjá nánar undir liðnum þjálfarinn.

 

26.5.06 - Þjálfara vantar í Knattspyrnuskóla Íslands

Auglýst er eftir þjálfurum til starfa við Knattspyrnuskóla Íslands, sjá nánar undir liðnum þjálfarastörf.

 

22.5.06 - UEFA hefur samþykkt umsókn KSÍ

UEFA hefur samþykkt umsókn KSÍ um að fá að halda sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara. Alls voru 41 E-stigs þjálfari sem sóttist eftir að fara á námskeiðið. KSÍ fékk leyfi til að halda námskeiðið í aðeins eitt skipti og það mun fara fram í nóvember á þessu ári. Nánara fyrirkomulag á námskeiðinu verður auglýst á næstu 2-3 vikum. E-stigs þjálfarar geta vel við unað þar sem þeir munu sleppa algjörlega við KSÍ VI námskeiðið í Englandi sem er dýrasti og tímafrekasti hluti UEFA A þjálfaragráðunnar. Nánara fyrirkomulag, (verð, tímasetning, nöfn fyrirlesara o.fl. verður kynnt fyrir E-stigs þjálfurum á næstu vikum).

 

5.5.06 - Umsókn um námskeið fyrir E-stigs þjálfara skilað til UEFA

KSÍ hefur í dag skilað inn umsókn til UEFA um að fá að halda sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara í nóvember á þessu ári. Umsóknin verður tekin fyrir hjá nefnd UEFA um þjálfaramenntun (JIRA nefnd) á fundi þann 10. maí. Niðurstöður UEFA frá fundinum verða svo kynntar fyrir E-stigs þjálfurum um leið og þær berast. Alls eru 70 þjálfarar á Íslandi með E-stig og þar af margir af þekktustu þjálfurum landsins.
Alls voru það 41 E-stigs þjálfari sem sóttist eftir að fara á sérnámskeið í haust, en það þýðir að 29 E-stigs þjálfarar kusu frekar að fara hefðbundna leið í þjálfaramenntunarkerfi KSÍ til að fá UEFA A þjálfaragráðu. Ekki er víst að UEFA samþykki alla þjálfarana inn á sérnámskeiðið. Nánari upplýsingar um þjálfaramenntun KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson (siggi@ksi.is) fræðslustjóri KSÍ.

 

6.4.06 - E-stigs þjálfarar þurfa að velja sér framhaldsnámskeið

E-stigs þjálfarar þurfa að velja sér framhaldsnámskeið
Nauðsynlegt að skila inn svari til KSÍ fyrir 21. apríl 2006
KSÍ hefur í dag sent út tölvupóst og bréf til allra þjálfara sem hafa lokið við E-stigs þjálfaranámskeið KSÍ, en þjálfararnir eru 71 talsins. Í þessu bréfi eru útskýrðar tvær leiðir fyrir E-stigs þjálfara svo þeir geti náð sér í UEFA A þjálfaragráðu. Það er nauðsynlegt fyrir E-stigs þjálfarana að velja sér framhaldsleið í kerfinu okkar og láta fræðslustjóra KSÍ vita af vali sínu fyrir 21. apríl næstkomandi. Margir af fremstu þjálfurum landsins hafa lokið E-stiginu, en það var vikunámskeið haldið í Þýskalandi árin 1991, 1995 og 1998. Það eru t.d. 6 E-stigs þjálfarar að þjálfa í Landsbankadeild karla. Bréfið í heild sinni og svarblöðin sem þarf að fylla út og senda til Sigurðar Ragnars Eyjólfsssonar fræðslustjóra KSÍ (siggi@ksi.is) má sjá á ksi.is . Sigurður Ragnar veitir nánari upplýsingar í síma 510-2909.

 

2.4.06 - Matarfundur á Kaffi Reykjavík

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyrir matarfundi á veitingastaðnum Kaffi Reykjavík við Vesturgötu í Reykjavík, föstudaginn 21. apríl kl. 19.00. Miðaverð er 3000 kr. og innifalið í því þriggja rétta kvöldverður.

Guðni Bergsson fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu er ræðumaður kvöldsins

Hjálmar Hjálmarsson, betur þekktur sem Haukur Hauksson ekkifréttamaður, fer með gamanmál.

Tilkynna þátttöku á matarfund KÞÍ hér eða til einhvers stjórnarmanna KÞÍ.

 

27.3.06 - Menntun þjálfara í knattspyrnu á Íslandi hefur stóraukist

Menntun þjálfara í knattspyrnu á Íslandi hefur stóraukist undanfarin ár. Þjálfarar hjá félögunum í Landsbankadeild karla hafa ekki verið nein undantekning þar á. Á hverju ári þurfa þjálfarar karlaflokkanna hjá félögunum í Landsbankadeild karla að uppfylla kröfur leyfiskerfisins um menntun þjálfara, en þessar kröfur eru eftirfarandi:
Þjálfari meistaraflokks karla skal hafa lokið VI. stigi KSÍ eða E-stigi KSÍ, (en fljótlega verður gerð krafa um UEFA A þjálfaragráðu).
Þjálfari 2. 3. og 4. flokks skal hafa lokið UEFA B þjálfaragráðu.
Þjálfari 5. flokks og yngri skal hafa lokið við KSÍ II þjálfaranámskeiðið.
Fyrir knattspyrnusumarið framundan eru einungis þjálfarar 5 flokka ekki með tilskilda menntun (sem samsvarar 6,3% allra flokka hjá félögunum í Landsbankadeild karla) og í þeim tilfellum fá félögin peningasekt. Góðu fréttirnar eru þær að þjálfarar 74 flokka (sem samsvarar 93.7% allra flokka hjá félögunum í Landsbankadeild karla) hafa tilskilda menntun til þess.

 

20.3.06 - Starf í boði á skrifstofu KSÍ

Hefur þú brennandi áhuga á knattspyrnu?
Starf í boði á skrifstofu KSÍ - Helstu verkefni eru mótamál og umsjón ksi.is
KSÍ óskar að ráða starfsmann á skrifstofu sambandsins frá og með 1. apríl næstkomandi. Meginverkefnin eru störf sem tengjast mótamálum, ásamt því að hafa umsjón með vef KSÍ. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gott vald á íslensku, ensku og hvers kyns tölvuvinnslu. Einnig er nauðsynlegt að umsækjandi hafi góða almenna þekkingu á knattspyrnu. Upplýsingar veitir mótastjóri í síma 510 2900. Umsóknum skal skilað með tölvupósti til birkir@ksi.is, eigi síðar en 20. mars.

 

20.3.06 - Luka Kostic heimsækir aðildarfélögin

Luka Kostic, sem sinnir útbreiðslu- og þjálfunarverkefnum fyrir KSÍ í hlutastarfi, hefur nú þegar hafið störf og mun fara í sínar fyrstu heimsóknir til aðildarfélaga í þessari viku. Luka starfar einnig sem þjálfari U17 og U21 landsliða karla. Á mánudag verður Luka í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ (kl. 16:20), á þriðjudag verður hann á Höfn í Hornafirði (kl. 15:00) og á fimmtudag á Selfossi (kl. 17:30). Starf Luka er tvíþætt: Í fyrsta lagi mun Luka heimsækja aðildarfélögin, halda erindi um knattspyrnuþjálfun, sýna þjálfurum æfingar úti á velli, vera til ráðgjafar og svara spurningum sem kunna að vakna. Landshlutafulltrúar KSÍ munu verða Luka til halds og trausts þegar tækifæri gefast, en Luka mun jafnframt vera í sambandi við framkvæmdastjóra, yfirþjálfara og aðra þjálfara hjá viðkomandi aðildarfélögum vegna þessara heimsókna.
Í öðru lagi mun Luka halda æfingar með landliðsmönnum, landsliðskonum og landsliðsefnum (U-17, U-19 og U-21) í einstaklingsþjálfun. KSÍ hefur óskað eftir samstarfi við aðildarfélögin í þessu verkefni, enda ekki gerlegt án samþykkis viðkomandi aðildarfélags/aðildarfélaga í hvert sinn. Að sjálfsögðu verður haft náið samband við þjálfara leikmanns (leikmanna) í hverju tilfelli og leitað eftir samþykki. Hér er fyrst og fremst um samvinnuverkefni að ræða þar sem markmiðið er að bæta okkar efnilegustu leikmenn enn frekar.

 

13.3.06 - KSÍ hefur sölu á DVD disk með knatttækniæfingum

KSÍ hefur hafið sölu á DVD diski frá austurríska knattspyrnusambandinu (Challenge 2008) sem miðar að því að bæta knatttækni hjá leikmönnum. DVD diskurinn nýtist þannig bæði þjálfurum og leikmönnum á öllum aldri. Disknum svipar að mörgu leyti til gömlu "Knattspyrnuskóli KSÍ" spólunnar, með gríðarlega mörgum tækniæfingum fyrir börn og unglinga. Disknum er skipt upp í: Æfingar til að halda bolta á lofti, knattraksæfingar, gabbhreyfingar, fótboltatrix landsliðsmanna Austurríkis, grunnæfingar fyrir markmenn, knatttækniæfingar fyrir markmenn, skallaæfingar, taktískar æfingar til að æfa færslur og sendingaleiðir, æfingar sem börn og unglingar geta æft sig sjálf í til að bæta knatttækni og margt fleira. Þessi DVD diskur er í hæsta gæðaflokki og hægt að spila hann báðum megin. Á disknum eru mörg hundruð æfingar og hann verður notaður til kennslu á þjálfaranámskeiðum KSÍ. Diskurinn er til sölu á skrifstofu KSÍ (ragga@ksi.is) og kostar 2500 krónur. KSÍ sendir í póstkröfu út á land.

 

6.3.06 - Heimir með besta námsárangurinn

Síðastliðið föstudagskvöld útskrifuðust 22 þjálfarar með UEFA A þjálfaragráðu í menntunar kerfi KSÍ. UEFA A gráða er hæsta þjálfaragráða sem er í boði á Íslandi og næst hæsta þjálfaragráða sem UEFA viðurkennir. Þeir 22 þjálfarar sem útskrifuðust eru þeir fyrstu sem lokið hafa þessu námi hjá KSÍ og var efnt til útskriftarveislu í Víkinni, félagsheimili Víkings, af því tilefni. Heimir Hallgrímsson úr Vestmannaeyjum fékk sérstök verðlaun fyrir bestan námsárangur á UEFA A prófi.
Þjálfarar með UEFA A gráðu hafa leyfi til að þjálfa alla flokka og í öllum deildum á Íslandi. Jafnframt er þjálfaragráðan viðurkennd í 48 af 52 löndum sem eiga aðild að UEFA. Hæsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA Pro þjálfaragráða, en KSÍ stefnir á að bjóða upp á UEFA Pro þjálfaragráðu í samvinnu við enska knattspyrnusambandið innan fárra ára.

 

3.3.06 - KSÍ útskrifar 22 þjálfara með UEFA A þjálfararéttindi

KSÍ stendur fyrir útskrift í kvöld fyrir 22 þjálfara sem hafa lokið UEFA A prófi í þjálfaramenntun KSÍ. UEFA A þjálfaragráða eru hæstu þjálfararéttindi sem eru í boði á Íslandi og næst hæsta þjálfaragráða sem UEFA viðurkennir. Þjálfararnir 22 sem útskrifast í kvöld eru þeir fyrstu sem lokið hafa þessu námi hjá KSÍ. Af þessu tilefni boðar KSÍ til útskriftar klukkan 18.00 í kvöld (3.mars) í Víkinni, félagsheimili Víkings. Gert er ráð fyrir að útskriftin taki um klukkutíma, haldnar verða stuttar ræður, viðurkenningarskjöl verða afhent og veitingar verða í boði KSÍ.
Þjálfarar með UEFA A þjálfaragráðu hafa leyfi til að þjálfa alla flokka og í öllum deildum á Íslandi. Jafnframt er þjálfaragráðan viðurkennd í 48 af 52 löndum sem eiga aðild að UEFA. Hæsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA Pro þjálfaragráða en KSÍ stefnir á að bjóða upp á UEFA Pro þjálfaragráðu í samvinnu við enska knattspyrnusambandið innan fárra ára. Fjölmiðlar og aðrir áhugasamir aðilar eru boðnir velkomnir á útskriftina í kvöld.

 

23.2.06 - KSÍ V þjálfaranámskeið haldið 17-19. mars í Reykjavík

KSÍ heldur V.stigs þjálfaranámskeið helgina 17-19.mars í Reykjavík. Þátttökurétt hafa allir þjálfarar sem hafa náð 70 stigum eða meira á UEFA B prófinu sínu.
KSÍ V námskeiðið er upphafið á UEFA A þjálfaragráðunni og undanfari fyrir KSÍ VI þjálfaranámskeiðið sem fer fram á Englandi í október á þessu ári. Skráning er hafin á námskeiðið. Í fyrra komust færri að en vildu svo það er best að skrá sig sem fyrst. Þátttökugjald er 16.000 krónur. Vinsamlegast sendið nafn, kennitölu, fullt heimilisfang, nafn félags, GSM síma og netfang á tölvupóstinn siggi@ksi.is til að skrá ykkur. E-stigs þjálfarar fara ekki á þetta námskeið heldur á sérnámskeið sem verður boðið upp á fyrir E-stigs þjálfara. Nánari upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is) í síma 510-2909.

 

6.2.06 - KSÍ heldur III. stigs þjálfaranámskeið 24-26. febrúar

KSÍ heldur III. stigs þjálfaranámskeið helgina 24-26. febrúar næstkomandi í fundarsal D hjá ÍSÍ í Laugardal. Námskeiðið er opið þeim sem lokið hafa KSÍ I og II námskeiðunum eða A og B stigi í gamla þjálfaramenntunarkerfi KSÍ. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt. Þátttakendur þurfa að hafa með sér dót til knattspyrnuiðkunar. Allt námskeiðið fer fram í Reykjavík. Hluti af námskeiðinu er 20 tímar þjálfun hjá íþróttafélagi, en það er verkefni sem verður útskýrt betur á námskeiðinu. Skráning er hafin á skrifstofu KSÍ í síma 510-2900 eða á tölvupósti: siggi@ksi.is taka þarf fram nafn, kennitölu, heimilisfang, félag, gsm síma og netfang. Verð námskeiðsins er 16.000 krónur og innifalin eru öll námskeiðsgögn.
Rétt er að benda á að mikil þátttaka er jafnan á þjálfaranámskeið KSÍ og því best að skrá sig sem fyrst. Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).

 

18.1.06 - Íþróttir, fjölmiðlar og staðalímyndir

Lokaráðstefna á Hótel Loftleiðum 20. janúar 2006 frá kl. 13-17.
Nú fer að líða að lokum verkefnisins ,,Sports, Media and Sterotypes“ eða ,,Íþróttir, fjölmiðlar og staðalímyndir“ sem unnið hefur verið að síðan í nóvember 2004. Verkefnið er fjölþjóðlegt og undir stjórn Jafnréttisstofu. Samstarfsaðilar koma frá stofnunum í Noregi, Austurríki, Litháen og Ítalíu. Samstarfsaðilar verkefnisins á Íslandi eru Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, námsbraut í fjölmiðlafræði við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

Verkefnið samanstendur af rannsókn sem gerð var í fimm Evrópulöndum á staðalímyndum og endurspeglun kynjanna í íþróttum og íþróttafréttum. Niðurstöður rannsóknarinnar eru notaðar til að hanna fræðsluefni fyrir íþróttafréttamenn, íþróttakennara og þjálfara, sem gefið er út á margmiðlunarformi. Markmið fræðsluefnisins er að hvetja til breytinga á birtingamyndum kynjanna í íþróttum og íþróttafréttum með því að auka meðvitund um áhrif einsleitrar endurspeglunnar af íþróttakonum og körlum. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á jafnretti.is/sms.

Lokaráðstefna verkefnisins verður haldin á Hótel Loftleiðum Reykjavík þann 20. janúar næstkomandi. Ráðstefnan er öllum opinn án endurgjalds, en á henni verða niðurstöður rannsóknarinnar kynntar sem og fræðsluefnið. Meðfylgjandi er dagskrá ráðstefnunnar. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið jafnretti@jafnretti.is. fyrir 19. janúar. Ráðstefnan fer fram á ensku.

 

5.1.06 - KSÍ heldur UEFA B próf í þjálfaramenntun

KSÍ heldur UEFA B próf í þjálfaramenntun laugardaginn 21. janúar klukkan 10.00 í fundarsal D og E í Íþróttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal. Þetta er í þriðja sinn sem prófið fer fram, en alls hafa rúmlega 200 knattspyrnuþjálfarar á Íslandi UEFA B þjálfararéttindi. Réttindi til að taka prófið hafa allir þjálfarar sem hafa lokið fyrstu 4 þjálfarastigum KSÍ (KSÍ I, II, III og IV) á fullnægjandi hátt og jafnframt skilað inn fullnægjandi verkefni af KSÍ III þjálfaranámskeiðinu.
KSÍ hefur ákveðið að bjóða upp á undirbúningsfund fyrir þjálfara sem ætla að þreyta prófið. Undirbúningsfundurinn fer fram þriðjudaginn 10. janúar klukkan 19.30 í fundarsal E í Íþróttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal. Á fundinum verður farið í uppsetningu prófsins og þjálfarar hafa tækifæri til að spyrja spurninga. KSÍ mun bjóða þeim sem búa á landsbyggðinni að taka prófið í sinni heimabyggð og áríðandi er að viðkomandi þjálfarar skrái sig sem fyrst. Próftöku- og skírteinisgjald er 2.500 krónur og skal greiðast sem fyrst eftir skráningu. Skráning í prófið er hafin og fer fram á tölvupósti (siggi@ksi.is). Taka þarf fram við skráningu fullt nafn, fæðingarstað og hvaða stærð viðkomandi notar af regnjakka. UEFA B þjálfararéttindin veita réttindi til að þjálfa alla yngri flokka á Íslandi og er undanfari UEFA A þjálfaragráðunnar sem KSÍ hefur nýlega fengið samþykki til að veita. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is) í síma 510-2909.

Samstarfsaðilar