4.12.08 - Íslenskir þjálfarar fá aðgang að Pro licence í Englandi

Enska knattspyrnusambandið samþykkti í dag að veita þjálfurum á Íslandi aðgang að Pro licence þjálfaranámskeiði sínu. Pro þjálfaragráðan er viðurkennd í öllum löndum Evrópu, er æðsta stig þjálfaramenntunar sem UEFA samþykkir og veitir réttindi til að þjálfa öll lið í öllum deildum í Evrópu. Möguleiki er á því að tveir þjálfarar frá Íslandi geti komist strax á næsta Pro licence námskeið en Enska knattspyrnusambandið mun velja inn á það strax um miðjan janúar.

Af þessu tilefni mun KSÍ halda sérstakan kynningarfund um Pro licence námskeið Enska knattspyrnusambandsins laugardaginn 13. desember næstkomandi klukkan 13:00 í höfuðstöðvum KSÍ. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Þar verður nánara fyrirkomulag á námskeiðinu útskýrt, farið verður yfir hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda og þátttakenda á námskeiðinu og umsóknarferlið kynnt.

Einungis um 120 þjálfarar hafa lokið Pro licence gráðu Enska knattspyrnusambandsins. Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ lauk við Pro gráðuna í sumar, en Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfari er í þessu námi núna og mun væntanlega útskrifast næsta sumar.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (
siggi@ksi.is).


3.12.08 - Íslensk knattspyrna 2008 komin út

Íslensk knattspyrna eftir Víði Sigurðsson er einstakur bókaflokkur en þar er að finna allan fróðleik um knattspyrnuiðkun ársins. Allir leikir, öll úrslit, öll mörk, allir markaskorarar, og ótrúlega margar ljósmyndir – í raun allt sem þú þarft að vita um knattspyrnu.Bók ársins 2008 er 16 síðum stærri en bókin í fyrra, enda hefur fjölgað í efstu deildum.
Bókin er gefin út í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands.
Ómissandi bók fyrir allt áhugafólk um knattspyrnu, iðkendur jafnt sem aðstandendur.
Í bókinni í ár eru ítarleg viðtöl við: Dóru Maríu Lárusdóttur Davíð Þór Viðarsson Hólmfríði Magnúsdóttur og Guðmundur Steinarsson
Litmyndir af öllum meistaraliðum í öllum flokkum á Íslandsmótinu 2008 ásamt bikarmeisturum og landsliðum. Bókin er gefin út í samstarfi við KSÍ og í henni er að finna úrslit allra leikja í KSÍ-mótum 2008.


28.11.08 - Stjórnin skiptir með sér verkum

Að loknum aðalfundi KÞÍ hélt stjórn KÞÍ stuttan fund og skipti með sér verkum fyrir næsta starfsár. Sigurður Þórir Þorsteinsson er formaður, Kristján Guðmundsson varaformaður, Ómar Jóhannsson gjaldkeri, Úlfar Hinriksson ritari og Arnar Bill Gunnarsson spjaldskrárritari. Í varastjórn eru Þórir Bergsson og Jóhann Gunnarsson.


28.11.08 - Heimir, Elísabet og Freyr þjálfarar ársins í efstu deildum karla og kvenna


Á aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands útnefndi félagið þjálfara ársins á efstu deildum karla og kvenna. Heimir Guðjónsson þjálfari Íslandsmeistara FH var útnefndur þjálfari ársins í efstu deild karla fyrir árið 2008. Elísabet Gunnarsdóttir og Freyr Alexandersson þjálfarar Íslandsmeistar Vals voru útnefndir þjálfarar ársins í efstu deild kvenna fyrir árið 2008. Á myndinni eru Heimir og Elísbet með viðurkenningar sem útnefningunni fylgja en Freyr var erlendis og gat ekki veitt viðurkenningunni móttöku.


Heimir Guðjónsson

Heimir Guðjónsson hóf knattspyrnuferil sinn hjá KR og spilaði í meistaraflokki frá 1986-2005. Hann spilaði 254 leiki í efstu deild með KR, KA,ÍA og FH og skoraði 21 mark í þeim leikjum. Hann varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með FH og tvisvar sinnum Bikarmeistari með KR. Heimir spilaði 12 U17 landsleiki, 5 U19, 2 U21 og 6 A-landsleiki.

Heimir starfaði sem aðstoðarþjálfari FH 2006-2007. Hann var síðan aðalþjálfari FH sem varð Íslandsmeistari 2008.

Elísabet Gunnarsdóttir og Freyr Alexandersson
Elísabet og Freyr leiddu Valsliðið til sigurs í Íslandsmótinu í sumar. Var þetta í fjórða sinn á síðustu fimm árum sem Elísabet stjórnar Valsliðinu til sigur í Íslandsmótinu en í annað sinn sem Freyr þjálfar með henni, sem aðstoðarþjálfari 2007 en í ár þjálfuðu þau saman.


Sumarið sem leið var síðasta tímbil Elísabetu með Val í deildinni en hún er á leið til Svíþjóðar að taka við Kristianstad og verður þar með fyrsti íslenski kvenþjálfarinn sem þjálfar lið í efstu deild kvenna erlendis.
Elísabet hóf þjálfarferilinn hjá Val þar sem að hún þjálfaði yngri flokka félagsins í 9 ár með frábærum árangri áður en hún tók meistaraflokk kvenna ÍBV í eitt tímabil. Frá Vestmannaeyjum færði hún sig til Breiðabliks og gerði 2.flokk kvenna að Íslandsmeisturum. Árið 2004 snéri hún tilbaka til Vals og tók við meistaraflokki kvenna og á 5 árum eru 4 Íslandsmeistaratitlar, bikarmeistaratitill og frábært gengi í Evrópukeppni meistaraliða kvenna.
Elísabet hefur verið mjög dugleg að fylgjast með nýjungum í þjálfun og fer reglulega erlendis til að fylgjast með þeim bestu. Elísabet er með UEFA A þjálfaragráðu og íþróttakennarapróf.


Freyr Alexandersson hóf þjálfaraferil sinn hjá Leikni árið 2002. Frá Leikni lá leið hans í Val þar sem að hann þjálfaði yngri flokka kvenna frá 2004 til 2007 er hann gerðist aðstoðarþjálfari mfl.kvenna Vals. Fyrir síðasta tímabil var hann svo ráðinn sem aðalþjálfari með Elísabetu og skilað samstarf þeirra sem áður segir Íslandsmeistaratitli.
Freyr er að ljúka íþróttakennara og íþróttafræðingsnámi við Kennaraháskóla Íslands og hefur lokið 5 stigi KSÍ.


28.11.08 - Viðurkenning fyrir vel unnin störf í þjálfun yngri flokka

 


Hákon Sverrisson, Jóna Margrét Brandsdóttir og Þorlákur Már Árnason hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka á aðalfundi KÞÍ. Öll hafa þau lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfurum til sóma við störf sín.

Hákon Sverrisson
 
 
Hákon er með UEFA B þjálfaragráðu og hefur þjálfað eins og hér segir.

7.flokkur – 1998 – 2008
8.flokkur- 2001 – 2008.
Ýmir - 3.deild 2005-2006
Augnablik - 3.deild 2007-2008
Ýmis aðstoðarþjálfun og tímabundin verkefni á árunum 1990 – 1998 með 7. fl. – 3.fl.

Leikmannaferill
Breiðablik – yngri flokkar frá 1980-1990
Breiðablik mfl. 1990-2000
Holstein Kiel (Þýskaland) 3.deild 2000-2001
Breiðablik – 2002-2004
Ýmir og Augnablik í 3.deild – 2005-2008

Fjöldi leikja
Breiðablik: 312
Holstein Kiel: 30
Ýmir og Augnablik: 70

Jóna Margrét BrandsdóttirJóna Margrét er alltaf kölluð Gréta og fæddist um miðja
síðustu öld. Hún hóf ung íþróttaiðkun, byrjaði í frjálsum í FH og fór svo
í handboltann. Uppúr 1970 fór að koma áhugi fyrir að stofna kvennalið í
fótbolta og voru nokkur lið sem skráðu lið til leiks sumarið 1972. FH mætti
með sitt handboltalið auk nokkurra annarra stúlkna sem höfðu áhuga á
fótbolta og í lok mótsins stóð FH uppi sem fyrstu sigurvegarar í
kvennaknattspyrnu utanhúss. Gréta spilaði með liðinu í nokkur ár þar til hún
fluttist erlendis. Um 1993 vorum þær að hittast nokkrar old girls sem voru í
framhaldi beðnar að mæta á æfingu hjá aðalliði FH þar sem fáar voru að mæta.
Þar kom hún aftur inn í knattspyrnuna og fór að æfa á fullu og keppti með
þeim á gamals aldri. Þá var Gréta með unga dóttur sem hafði áhuga á að æfa
en nánast ekkert starf var í yngri flokkum FH. Gréta réð sig sem þjálfara í
5. fl. og byrjaði með á innan við 10 stúlkur. Þennan hóp þjálfaði Gréta í þrjú
ár og spilaði með FH stelpunum í meistaraflokki. Enn flytur Gréta með fjölskylduna
erlendis og kom aftur sumarið 2000 og var beðin um að taka að sér þjálfun í
yngri flokkum kvenna strax um haustið. Gréta byrjaði þá aftur með 5. flokk en
það var yngsti hópurinn sem var að æfa þá. Nú er hún búin að þjálfa
stanslaust síðan en hefur verið að færa sig alltaf neðar í aldurshópa því
alltaf yngri og yngri stelpur hafa áhuga á að fara að æfa knattspyrnu. Í
framhaldi voru stofnaðir 7. og 8. flokkur stúlkna að tilstuðlan Grétu en 8. flokkur
er hópur stúlkna á leikskólaaldri og er sá hópur kallaður leikjahópur.
Nú þjálfar Gréta Brands 7. og 8. flokk.

Gréta hefur lokið námskeiði ÍSÍ í barna og unglingaþjálfun og 1. stigi KSÍ
auk ýmissa námskeiða.


Þorlákur Már ÁrnasonStúdent frá Fjölbrautarskólanum Ármúla árið 1990. Útskrifaðist sem íþróttakennari árið 1995. Lauk UEFA A gráðu í nóvember 2006. Hefur kennt á þjálfaranámskeiðum hjá Knattspyrnusambandi Íslands síðan 1996. Íþróttafulltrúi Vals 1996-1999

Þjálfara ferill
1990-1992 Leiftur Ólafsfirði, yngri flokkar karla og kvenna
1994-1996 Valur, yngri flokkar
1996 Ægir Þorlákshöfn, yfirþjálfari yngri flokka og þjálfari mfl. karla
1997-1999 Valur, 2.flokkur karla og yfirþjálfari yngri flokka
1999-2001 ÍA, yfirþjálfari yngri flokka
2001-2003 Valur, meistaraflokkur karla
2003-2005 Fylkir, meistaraflokkur karla
2005-2009 Stjarnan, yfirþjálfari yngri flokka


28.11.08 - Fundargerð aðalfundar KÞÍ

Formaður stakk upp á Bjarna Jóhannssyni sem fundarstjóra og Úlfari Hinrikssyni til sem fundarritara, var það samþykkt.

Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar: Sigurður Þórir formaður KÞÍ (sjá nánar skýrslu stjórnar)

2. Reikningar félagsins: Ómar gjaldkeri KÞÍ fer yfir (sjá nánar skýrslu stjórnar)

3. Umræður um skýrslu stjórnar eða reikninga.
Engar athugasemdir og skoðast reikningar og skýrsla stjórnar samþykkt.

4. Lagabreytingar
Engar lagabreytingatillögur.

5. Kosningar
a) Kosning formanns til tveggja ára. Tillaga um formann: Sigurður Þórir Þorsteinsson. Samþykkt einróma.

b.) Kosning meðstjórnanda til tveggja ára. Tillaga um meðstjórnendur: Arnar Bill Gunnarsson, Kristján Guðmundsson og Ómar Jóhannsson. Samþykkt einróma.

c.) Kosning varamanna í stjórn til eins árs. Tillaga um varamenn í stjórn: Jóhann Gunnarsson og Þórir Bergsson. Samþykkt einróma.

d.) Skoðunarmenn reikninga Halldór Örn Þorsteinsson og Birkir Sveinsson til næsta árs. Samþykkt

6. Ákvörðun um árgjald skv. 6.gr. laga
Gjaldkeri leggur til að árgjald verði óbreytt. 3000 krónur. Samþykkt

6. Önnur mál

Bjarni Stefán Konráðsson: Þakkar stjórninni fyrir vel unnin störf og þeim sem kjörnir voru til áframhaldandi setu, til hamingju. Segir Bjarni Stefán að félagið njóti sívaxandi virðingar og æ oftar nefnt á nafn þegar mál tengd knattspyrnu eru rædd og þá eingöngu í jákvæðum fréttum fyrir félagið. Segir hann að koma Lýðheilsustöðvar sem styrktaraðila skjóta fleiri og sterkari rótum og vera merki um vaxandi virðingu félagsins í samfélaginu.


Sagði Bjarni Stefán frá því að hann hafi verið spurður þegar hann var á ráðstefnu þýska þjálfarafélagins í sumar hvort Ísland ætli ekki að halda ráðstefnu AFECA 2010. Að lokum óskar Bjarni Stefán félaginu til hamingju með starfsárið.
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ: Þakkar Bjarna Stefáni hlý orð í garð félagsins. Þakkar Jóhanni og Þóri fyrir störf þeirra í stjórn en þeir færa sig í varastjórn.
Formaður hefur rætt við framkvæmdastjóra AEFCA um málið en eins og staðan er í dag þá er kostnaðurinn okkur ofviða. Ráðstefna AEFCA verður í Króatíu 2009 tekur Sigurður það fram að Ísland á kost á því að halda ráðstefnuna 2010 en ef Ísland gefi afsvar þá verði hún haldin í Grikklandi. Verði ráðstefnan á Íslandi þá verður þjálfurum á íslandi boðið að sitja ráðstefnuna.

Veittar viðurkenningar fyrir þjálfara ársins í efstu karla og kvenna.
Heimir Guðjónsson í mfl.ka og Elísabet Gunnarsdóttir og Freyr Alexandersson í mfl.kvenna.

Veittar viðurkenningar fyirr vel unnin störf við þjálfun yngri flokka.
Hákon Sverrisson, Jóna Margrét Brandsdóttir og Þorlákur Árnason

Fundarstjóri biður nýkjörinn formann um að slíta aðalfundi.

Formaður slítur fundi.

Fundarritari
Úlfar Hinriksson


28.11.08 - Skoðunarmenn reikninga endurkjörnir

Þeir Halldór Örn Þorsteinsson og Birkir Sveinsson sem verið hafa skoðunarmenn reikninga KÞÍ mörg undanfarin ár voru endurkjörnir sem skoðunarmenn reikninga KÞÍ fyrir næsta starfsár.


28.11.08 - Skýrsla stjórnar Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ) starfsárið 2007 – 2008

Á síðasta aðalfundi sem haldinn var 29. nóvember í fræðslusetri KSÍ var kosin stjórn sem skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundinum á starfsárinu. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Þórir Bergsson varaformaður, Úlfar Hinriksson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri og Jóhann Gunnarsson spjaldskrárritari. Í varastjórn voru kosnir Arnar Bill og Kristján Guðmundsson.
Á starfsárinu voru haldnir sjö fundir auk fjölmargra funda þar sem hluti stjórnar hittist og fór yfir ýmis mál. Einnig hefur verið mjög mikið um tölvupóstsamskipti. Markmiðið eins og áður hjá stjórninni var að fundartíminn væri ekki lengri en 90 mínútur þó það hafi ekki alltaf tekist. Allar fundargerðir er hægt að sjá á heimasíðu okkar undir liðnum KÞÍ.
Fjárhagur félagsins stendur mjög vel en alltaf má gera betur til að efla félagið enn frekar. Í ár hafa 288 greitt árgjaldið sem er ekki jafngott og í fyrra en það var metár hjá félaginu þegar 360 greiddu árgjaldið. Miðað við ástandið í þjóðfélaginu erum við mjög ánægð með þetta. Markmið stjórnar KÞÍ er að að árið 2010 þegar félagið verður 40 ára verði um 400 þjálfarar sem greiði árgjald KÞÍ. Árgjaldið er 3000 krónur og hefur verið það í nokkur ár. Við höfum haft einhverja gjöf með árgjaldinu í mörg ár og að þessu sinni fengu þeir sem greiddu fyrir 10. október skeiðklukku með merki (logo) félagsins. Skeiðklukkurnar er hægt að nálgast á skrifstofu KSÍ, með því að hafa samband við stjórnarmann og landshlutatengiliði sem hafa skeiðklukkurnar á sínu svæði.
Stjórn KÞÍ hefur verið ötul við að fara á þjálfaranámskeið KSÍ og kynna félagið til að fá inn nýja félagsmenn. Einnig höfum við fylgst vel með þjálfararáðningum hjá félögunum og höfum við verið í góðu sambandi við landshlutatengiliðina sem hafa reynst okkur mjög vel. Þeir hafa m.a. dreift til félagsmanna á sínu svæði því sem við höfum látið fylgja með árgjaldinu hverju sinni.
Við höfum átt mjög gott samstarf við KSÍ undanfarin ár og er það mjög mikilvægt fyrir okkar félag.
Knattspyrnusamband Íslands tók að sér að borga árgjald evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (AEFCA), 1200 evrur sem er á genginu í dag rúmlega 200.000 krónur.Aðalstyrktaraðilar KÞÍ eru : LANDSBANKINN, TOYOTA, LYRA, VISA OG LÝÐHEILSUSTÖÐ. Einnig fengum við styrk úr íþróttasjóði Menntamálaráðuneytisins upp á 400.000 krónur fyrir uppbyggingu á barna og unglingaþjálfun. Í dag er mjög mikilvægt að hafa góða og trausta styrktaraðila og hafa allir þessir aðilar reynst okkur mjög vel. Það er ekki sjálfgefið að fá styrktaraðila í dag og vonumst við til að þeir haldi tryggð við okkur í framtíðinni. Það kom fram á síðasta aðalfundi að við þurfum að passa vel upp á fjárhag félagsins því það tók langan tíma að rífa félagið upp aftur, og eiga sjóð til mögru áranna. Nú er það hugsanlega staðan en það er alls ekki stefna félagsins eins og kom fram á aðalfundinum í fyrra að safna sjóðum, enda vorum við með metnaðarfulla viðburði á árinu.
Við höfum verið í góðu sambandi við Lýðheilsustöð og farið á marga fundi með þeim um samvinnu með að fá þjálfara í lið með okkur um til að sporna við munntóbaksnotkun. Er verið að vinna í að finna bestu leiðir í því sambandi og verður sagt frá því síðar.

Helstu viðburðir á árinu :
Laugardaginn 31. maí stóð KÞÍ fyrir ráðstefnu um barna og unglingaþjálfun. Fyrirlesarar voru Kasper Hjulmand sem er þjálfari meistaraflokks karla hjá Lyngby í Danmörku og Vilmar Pétursson sem starfar sem stjórnendaþjálfari hjá Capacent. Hann fjallaði um hlutverk þjálfarans sem stjórnanda.
Það er skemmst frá því að segja að mikil ánægja var með þessa ráðstefnu og þótti mönnum báðir fyrirlesararnir standa sig stórkostlega og fengu menn mjög mikið út úr ráðstefnunni. Gaman hefði verið að sjá fleiri mæta.

Við héldum bikarúrslitaráðstefnu í tengslum við VISA bikarúrslitaleik karla eins og við höfum gert flest undanfarin ár í samvinnu við KSÍ. Eins og undanfarin ár voru námskeiðsþátttakendur á KSÍ IV (4) einnig á ráðstefnunni. Í ár héldu KÞÍ og KSÍ í fyrsta skipti ráðstefnu í tengslum við úrslitaleik VISA bikars kvenna. Dagskrána á báðum ráðstefnunum má sjá hér en það er óhætt að segja að þær heppnuðust báðar mjög vel og það er gaman að segja frá því að það voru ekki eingöngu þjálfarar sem mættu á kvennaráðstefnuna heldur einnig stjórnarmenn, ráðsmenn og leikmenn. Í okkar huga er það alveg ljóst að þessar ráðstefnur eru komnar til að vera en auðvitað verða útfærslubreytingar á milli ára.
Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikars kvennaLaugardaginn 20. september 2008Fræðslusetur KSÍ, Laugardalsvelli, 3. hæðDagskrá:12:00 Ávarp Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ og Ingibjörg Hinriksdóttir, formaður fræðslunefndar KSÍ12:20 Mín hugmyndafræði í þjálfun kvennalandsliðsins Sigurður Ragnar Eyjólfsson, A-landsliðsþjálfari kvenna13:10 Fjöldi erlendra leikmanna í knattspyrnu kvenna á Íslandi - Mín skoðun - Þorkell Máni Pétursson, þjálfari mfl. kvenna Stjörnunni13:40 “Spáð í spilin” hugleiðingar mínar um Visa bikarúrslitaleikinn Vanda Sigurgeirsdóttir, þjálfari mfl. kvenna Breiðabliki.14:30 Þjálfarar liðanna sem leika til úrslita Elísabet Gunnarsdóttir og Freyr Alexandersson þjálfarar Vals og Helena Ólafsdóttir þjálfari KR15:00 Veitingar í boði KSÍ og KÞÍ16:00 Úrslitaleikur VISA bikarsins, Valur-KR

Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikars karla
Laugardaginn 4. október 2008 Fræðslusetur KSÍ, Laugardalsvelli, 3. hæð
Dagskrá
09:00 Ávarp Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
09:10 Pallborðsumræður – markvarðaþjálfun á Íslandi Eiríkur Þorvarðarson, Ólafur Pétursson, Bjarni Sigurðsson
09:30 Pallborðsumræður – Landsbankadeild karla 2008 Gunnar Oddsson, Heimir Guðjónsson, Þorvaldur Örlygsson
10:10 Hvernig fyrirmynd ertu sem þjálfari !?! Ásgeir “Ironman” Jónsson Járnmaður okkar Íslendinga
11:15 Tölfræði bikarliðanna, leikstíll og leikfræði Ólafur Helgi Kristjánsson segir okkur hvernig leikurinn fer.
12:00 Þjálfarar liðanna sem leika til úrslita Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis úr Grafarvogi og Logi Ólafsson þjálfari KR úr Vesturbænum
12:40 Veitingar í boði KSÍ og KÞÍ
14:00 Úrslitaleikur VISA bikarsins, Fjölnir-KR
Ráðstefnustjóri er Kristján Guðmundsson


Við í stjórn KÞÍ höfum lengi rætt það að fara í þjálfaraferð til útlanda. Í ár létum við verða af því í samvinnu við KSÍ og fórum með 26 manna hóp til Hollands. Farið var á fimmtudeginum 9. október og komið heim á sunnudeginum 12. október. Fylgst var með æfingum hjá stórliðunum Ajax í Amsterdam og Feyenoord í Rotterdam ásamt því að fá fyrirlestra hjá báðum félögunum um uppbyggingu félaganna. Ólafur Helgi Kristjánssson fór á vegum KSÍ og var með verkefnavinnu fyrir UEFA A þjálfara en öllum öðrum þjálfurum var frjálst að taka þátt í þeim. Þeir þjálfarar sem eru með UEFA A þjálfararéttindi fengu ferðina metna sem endurmenntun fyrir réttindi sín en þau þarf að endurnýja á þriggja ára fresti. Á laugardagskvöldinu sáum við síðan A landsleik Hollands og Íslands (karla). Það er samdóma álit þeirra sem fóru í ferðina að hún hafi tekist mjög vel og er greinilega grundvöllur til að gera þetta áfram hvort sem það verður gert árlega, á tveggja ára fresti eða málin verði skoðuð hverju sinni.

Við höfum einnig verið í góðu sambandi við norska knattspyrnuþjálfarafélagið um að gefa íslenskum þjálfurum kost á að fara í ferðir á vegum félagsins. Ég var í góðu samstarfi og í bréfaskriftum við starfsmann norska þjálfarafélagsins, Teddy Moen. Í ár nýttu þrír frá Álftanesi sér þetta , þeir Ásgrímur Helgi Einarsson þjáfari meistarflokks karla, Birgir Jónasson yfirþjálfari drengja og Björgvin Júníusson framkvæmdastjóri og hittu norsku kollega sína og fylgdust með æfingum í London dagana 30. janúar – 3. febrúar og fóru meðal annars og fylgdust með æfingum hjá Watford og fóru Stamford Bridge og White Hart Lane. Þeir hafa skilað skýrslu um ferðina sem birt verður á heimasíðu félagsins. Þeir félagar mæla eindregið með því í skýrslu sinni að við notum þetta boð Norðmanna því þeir eru mjög skipulagðir í ferðum sínum.
Við fengum boð frá þýska knattspyrnuþjálfarafélaginu um að senda einn þjálfara á ráðstefnu í Wiesbaden í þýskalandi 28. júlí – 30. júlí. Var þetta KÞÍ algjörlega að kostnaðarlausu, þ.e. þýska knattspyrnuþjálfarafélagið sá um uppihaldið. Ráðstefnan fjallaði að mestu um evrópukeppnina í sumar. Eingungis einn sótti um að fá að fara en það var Bjarni Stefán Konráðsson fyrrverandi formaður KÞÍ og mun hann væntanlega skila skýrslu fljótlega. Þess ber að geta að ráðstefnan fór öll fram á þýsku.
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður og Ómar Jóhannson gjaldkeri KÞÍ fóru á ráðstefnu evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (AEFCA) sem haldin var í Frankfurt í þýskalandi dagana 25. – 29. október. Þar voru mjög áhugaverðir fyrirlestrar þar sem aðallega var fjallað um evrópukeppnina sem haldin var í Austurríki og Sviss í sumar. Skýrslan frá þeim félögum birtist í desember.Þjálfaranámskeið og viðburðir á vegum KSÍ :
KSÍ hélt fjölmörg og öflug þjálfaranámskeið eins og mörg undanfarin ár. Í skýrslu síðasta árs fjölluðum við ítarlega um þjálfaranámskeið KSÍ. Eins og segir í lögum KÞÍ þá er eitt af markmiðum félagsins að auka og viðhalda menntun knattspyrnuþjálfara. KSÍ hefur gert það með miklum sóma undanfarin ár með góðu aðhaldi frá KÞÍ. Sjá mátti á 1. stigum námskeiðanna í haust að þau voru mjög fjölmenn og endurspeglar það hugsanlega ástandið í þjóðfélaginu að menn hafi góðan tíma til að sækja þau núna. Það sem við höfum haft áhyggjur af er að þjálfarar hafa ekki skilað sér í þjálfun yngri flokkanna og erum við enn að sjá að rótgróin félög eru að auglýsa eftir þjálfurum.

KSÍ stóð fyrir opnum fyrirlestrum og verklegum æfingum laugardaginn 16. febrúar frá ensku landsliðsþjálfurunum John Peacock (U 17 og U 20 karla) og Brian Eastick. 50 þjálfarar sóttu þessa fyrirlestra.

22. ágúst – 3. september stóð akademía hollenska knattspyrnusambandsins fyrir alþjóðlegu þjálfaranámskeiði. Þórarinn Einar Engilbertsson fór á námskeiðið og var hann himinlifandi með skipulag og uppbyggingu námskeiðsins.

Í júnímánuði sóttu Sigurður Þórir Þorsteinsson og Örn Ólafsson sem báðir sitja í fræðslunefnd KSÍ, Norðurlandaráðstefnu í barna og unglingaþjálfun sem haldin var á Laugarvatni.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna og fræðslustjóri KSÍ útskifaðist á árinu með UEFA pro liecence þjálfaragráðu frá Englandi en hún veitir mönnum rétt til að þjálfa hvar sem er í heiminum. Sigurður er annar íslenski þjálfarinn sem útskrifast sem slíkur en hinn er Teitur Þórðarson. Fleiri þjálfarar eru að vinna í því að fá slík réttindi og KSÍ gerði könnun meðal UEFA A þjálfara til að athuga hversu margir hafa hug á að sækja sér slík réttindi og þá hvar í heiminum en það er líklegt að reynt verði að opna leiðir fyrir þá hjá sérsamböndum á Bretlandseyjum, á Norðurlöndunum, í þýskalandi og hugsanlega annars staðar.

KSÍ auglýsti 10 styrki til fræðslumála á árinu . Styrkjunum á að úthluta a.m.k. ársfjóðungslega. Það hefur komið á óvart hversu fáir hafa nýtt sér þetta og hvetjum við félagsmenn til að gera það.

4. júlí sendi KÞÍ frá sér eftirfarandi yfirlýsingu :
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) hvetur þjálfarara til að hafa rétt við og framfylgja lögum og reglum. Einnig hvetjum við þjálfara til að vera sjálfum sér og félögum sínum til sóma hvar og hvenær sem er og virða störf annarra þjálfara sem og störf annarra sem að leiknum standa.
Seinni hluta sumars sendi stjórn KÞÍ stjórn og leyfisstjórn KSÍ bréf þar sem skorað var á KSÍ að taka hart á leyfiskerfismálum hvað varðar þjálfara, þ.e. að félög geti ekki ráðið réttindalausa þjálfara.

Að lokum :
Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands er mjög ánægð með hvað félagsmenn sína mikinn áhuga á starfinu sem er í gangi og koma með margar hugmyndir um hvað má fara betur. Við hlustum að sjálfsögðu á allar ábendingar til að bæta starfsemina. Við viljum þó benda á að nokkur félög hafa sett það í samninga sína að ef ágreiningsefni koma upp á milli þjálfara og stjórnar félaganna skuli vísa þeim til KÞÍ. Við erum alltaf tilbúnir til að aðstoða þjálfara en höfum í sjálfu sér ekkert vald til að leysa ágreiningsefni. Við bendum hins vegar þjálfurum á á lögfræðing sem hefur reynst okkur vel og veitum þá aðstoð sem við getum, ábendingar (sálfræðiaðstoð), hvatningu og þess háttar. Á þessu tímabili voru fjölmargir þjálfararar sem hættu störfum af einhverjum ástæðum og man ég ekki eftir því á 10 ára formannsferli mínum að ég hafi hringt í eins marga þjálfara á öllum stigum og deildum og fleiri í stjórninni.
Við höfum fengið afhenda lykla af skrifstofu í höfuðstöðvum KSÍ (gömlu skrifstofurnar) og því er KÞÍ með skrifstofuaðstöðu á sama svæði og fræðslusvið og landsliðsþjálfarar. Við erum með síma (510 – 2974) og einnig styrkti KSÍ KÞÍ um tölvu sem kemur sér mjög vel fyrir félagið. Því miður erum við ekki með fastan viðverutíma á skrifstofunni enn sem komið er, vonandi verður það í framtíðinni en við nýtum okkur skrifstofuna eins mikið og unnt er og færum við Knattspyrnusambandinu kærar þakkir fyrir stuðninginn.

F.h. stjórnar KÞÍ
Sigurður Þórir Þorsteinsson , formaður.


28.11.08 - Litlar breytingar á stjórn KÞÍ

Sigurður Þórir Þorsteinsson var kosinn formaður KÞÍ til tveggja ára og Ómar Jóhannsson og Kristján Guðmundssonvoru kosnir í aðalstjórn KÞÍ til tveggja ára og Arnar Bill Gunnarsson í aðalstjórn til eins árs, þar sem Jóhann Gunnarsson óskaði eftir að hætta í aðalstjórn, en hann átti eitt ár eftir í aðalstjórn eftir að hann var kosin í hana í fyrra. Þórir Bergsson og Jóhann Gunnarsson voru síðan kosnir í varastjórn til eins árs, en þeir voru báðir í aðalstjórn fyrir.


28.11.08 - Fámennur aðalfundur

Aðalfundur KÞÍ var haldinn 27. nóvember s.l. í Fræðslusetri KSÍ á Laugardalsvelli. Fundurinn var fámennur og umræður litlar, um tuttugu og fimm félagsmenn mættu.


12.11.08 - Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands

Aðalfundur Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands verður haldinn í fræðslusetri KSÍ á Laugardalsvelli, fimmtudaginn 27. nóvember n.k. klukkan 20:00.
Dagskrá:
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Kosning formanns, meðstjórnenda og varamanna skv. ákvæði 7. gr. laga
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun um árgjald skv. 6. gr. laga
Önnur mál

Veittar viðurkenningar fyrir þjálfara ársins í efstu deild karla og kvenna
Veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Léttar veitingar

Stjórn KÞÍ hvetur félagsmenn sína til að mæta.


30.10.08 - Áskorun frá KÞÍ

Í kvöld fer fram einn allra mikilvægasti leikur íslenskrar knattspyrnusögu þegar Íslendingar taka á móti Írum á Laugardalsvelli. Leikurinn er seinni leikur þjóðanna í umspili fyrir úrslitakeppni EM 2009 sem fram fer í Finnlandi. Leikurinn hefst kl. 18:10 en miðasala hefst á Laugardalsvelli kl. 12:00. Miðasala fer einnig fram á netinu, á www.midi.is. Selt er í ónúmeruð sæti og þvi frjálst sætaval. Fólk er því hvatt til þess að mæta tímanlega til þess að tryggja sér sitt uppáhalds sæti. Miðaverði er mjög stillt í hóf, miðinn kostar einungis 1.000 krónur fyrir fullorðna en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands skorar á alla knattspyrnuþjálfara til þess að mæta á leikinn og styðja stelpurnar í þessu lokaskrefi þeirra til Finnlands. ÁFRAM ÍSLAND!


30.10.08 - KSÍ 5. stigs þjálfaranámskeið 21. - 23. nóvember

Helgina 21.-23. nóvember heldur KSÍ 5. stigs þjálfaranámskeið í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal. Þátttökurétt á námskeiðið hafa allir þeir sem fengu 70 stig eða fleiri í KSÍ B prófinu. Námskeiðsgjald er 20.000 krónur og skráning er hafin. Dagskrá námskeiðsins verður auglýst síðar. KSÍ V þjálfaranámskeið telur einnig sem endurmenntun fyrir þjálfara með KSÍ B þjálfaraskírteini.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í síma 510-2977.

Með skráningunni verða eftirfarandi upplýsingar að koma fram:
Nafn
Kennitala
Heimilisfang
Símanúmer
Félag
Tölvupóstfang


28.10.08 - KSÍ B (UEFA B) próf 10. nóvember

Mánudaginn 10. nóvember, milli kl. 16:30 og 18:30, stendur fræðslusvið KSÍ fyrir KSÍ B prófi (UEFA B prófi). Prófið er fyrir alla þjálfara sem hafa klárað KSÍ I, II, III og IV og skilað öllum verkefnum á fullnægjandi hátt (engar undantekningar eru gerðar).
Prófað er úr öllu námsefni KSÍ I, II, III og IV og úr nýjustu útgáfu af knattspyrnulögunum. Engin hjálpargögn eru leyfð í prófinu. Ef þjálfurum sem hyggjast taka prófið vantar einhver gögn, þá eru þau öll til sölu á skrifstofu KSÍ. Best er að hringja á undan sér í síma 510-2900 og láta vita hvaða gögn vantar og hvenær þau verða sótt.
Prófið fer fram í fræðslusetri KSÍ í Laugardal og hefst eins og áður segir kl. 16:30. Þátttakendur sem búa á landsbyggðinni og vilja taka prófið í sinni heimabyggð, þurfa að hafa samband strax við fræðslusvið KSÍ (
dagur@ksi.is), svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir. Prófið byrjar á sama tíma um allt land.
Próftöku- og skírteinisgjald er 3.000 krónur.

Hægt er að skrá sig með því að hringja í síma 510-2977 og einnig er hægt að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is.
Frekari upplýsingar um prófið er að finna hér að neðan.


KSÍ B próf


16.10.08 - KSÍ VI þjálfaranámskeið í Lilleshall

KSÍ heldur VI. stigs þjálfaranámskeið í Lilleshall, Englandi dagana 16.-23. janúar 2008. Reiknað er með að fleiri þjálfarar sæki um námskeiðið en hægt er að taka inn. Umsækjendur þurfa því að fylla út umsóknareyðublað. Umsækjendur verða að hafa lokið KSÍ V þjálfaranámskeiði.
Í viðhengi er umsókn að KSÍ VI þjálfaranámskeiðinu sem fer fram í Lilleshall, Englandi 16.-23. janúar næstkomandi.
KSÍ vekur athygli á því að síðasti dagur til að skila inn umsókninni er 1. nóvember næstkomandi, en auðvitað má skila umsóknum fyrr.
Síðast kostaði KSÍ VI námskeiðið 160.000 krónur. Það er líklegt að kostnaður námskeiðsins hækki eitthvað vegna hækkandi gengis og síðast var rukkað of lítið, en kostnaðurinn verður þó vonandi ekki meiri en 200.000 krónur á mann. Þegar nákvæmara verð liggur fyrir, verður það gefið út.
Hægt verður að skipta greiðslunni eitthvað niður eftir nánara samkomulagi við Pálma Jónsson fjármálastjóra KSÍ.Fræðslunefnd KSÍ stefnir á að taka inn 20-25 þjálfara á námskeiðið, eftir fjölda og hæfni umsækjenda.Á námskeiðinu er 100% mætingarskylda og það er bæði bóklegt og verklegt. Þátttakendur þurfa að taka þátt í verklegum tímum.
KSÍ VI þjálfaranámskeiðið er hluti af UEFA A þjálfaragráðu. Flesta dagana verður námskeiðið haldið í Lilleshall. Einum degi verður varið til heimsóknar í klúbb í ensku úrvalsdeildinni þar sem skoðuð verður knattspyrnuakademía. Einum degi verður varið í leikgreiningu á leik í ensku úrvalsdeildinni.
Á námskeiðinu kenna kennarar frá KSÍ og erlendir fyrirlesarar, væntanlega frá enska knattspyrnusambandinu. Hluti námskeiðsins fer fram á ensku.
Skriflegt próf verður haldið 2-3 vikum eftir KSÍ VI námskeiðið. Prófað verður úr námsefni KSÍ V og VI.
Nánari upplýsingar um Lilleshall má sjá á 
http://www.lilleshall.co.uk/
Nánari dagskrá á námskeiðinu verður gefin út þegar nær dregur.
Allar nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Dagur Sveinn Dagbjartsson (
dagur@ksi.is).
Umsókn KSÍ VI 2009


15.10.08 - Sigurður Þórir og Ómar fara á ráðstefnu AEFCA í Frankfurt

Sigurður Þórir Þorsteinsson og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ fara á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins ( AEFCA ) sem haldin verður í Frankfurt í Þýskalandi 25. - 29. október. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verða Matthias Sammer(Þýskalandi), Fatih Therim(Tyrklandi) og Andy Roxburgh(EUFA). Vænta má mikils fróðleiks frá þeim félögum, en skýrsla um ráðstefnuna verður sett á heimasíðuna um leið og hún verður tilbúin.


6.10.08 - Þjálfaraferð til Hollands

KÞÍ stendur fyrir magnaðri þjálfaraferð í tengslum við karlalandsleik Hollendinga gegn okkur Íslendingum í Rotterdam næstkomandi laugardag, 11.10.08. Munu 26 þjálfarar fara á vegum KÞÍ og KSÍ á fimmtudag til Amsterdam og kynnast þar þjálfun hjá stórliðinu Ajax Amsterdam. Á föstudeginum verður síðan haldið til annars stórliðs Hollendinga, Feyenoord í Rotterdam. Verður dvalið daglangt hjá félaginu og fylgst grannt með allri þjálfun hjá liðinu ásamt því að sjá leiki hjá yngri flokkum félagsins. Laugardagurinn fer í að fylgjast með leik hjá u-17 ára unglingaliði Feyenoord gegn AZ Alkmaar og eftir hádegi fer fram hópavinna í umsjón KSÍ, en þeir UEFA A þjálfarar sem fara í ferðina nýta hana sem endurnýjun á skírteini sínu. Rúsínan í pylsuendanum er síðan landsleikurinn Holland-Ísland á De Kuip heimavelli Feyenoord liðsins á laugardagskvöldinu.


2.10.08 - KSÍ I þjálfaranámskeið í október

Knattspyrnusamband Íslands mun á næstu vikum halda tvö 1. stigs þjálfaranámskeið. Annars vegar er um að ræða námskeið sem haldið verður helgina 10.-12. október og hins vegar námskeið sem haldið verður helgina 17.-19. október.
Bókleg kennsla á ráðstefnunni fer fram í fræðslusetri KSÍ og verkleg kennsla í knattspyrnuhúsinu Kórnum í Kópavogi. Þátttökugjald er kr. 15.000,-
Skráning á námskeiðin er í fullum gangi en hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í síma 510-2977.
Dagskrá námskeiðanna má sjá hér að neðan.


Dagskrá KSÍ I 10.-12. október

Dagskrá KSÍ I 17.-19. október


30.9.08 - Bikarráðstefna KSÍ og KÞÍ

Ráðstefna í tengslum við bikarúrslitaleik KR og Fjölnis í VISA-bikar karla

Knattspyrnusamband Íslands og Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu í tengslum við bikarúrslitaleik KR og Fjölnis í VISA-bikar karla, sem fram fer á laugardaginn. Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér að neðan.
Aðgangseyrir er 500 krónur fyrir félagsmenn í KÞÍ og 1.000 krónur fyrir ófélagsbundna. Innifalið í verðinu eru veitingar fyrir leik og miði á úrslitaleikinn. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is með upplýsingum um nafn, kennitölu og símanúmer.

Dagskrá


30.9.08 - Mjög góð þátttaka í þjálfaraferð til Hollands

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands og KSÍ standa fyrir þjálfaraferð til Hollands 9. - 12. október næstkomandi í tengslum við landsleik Hollands og Íslands laugardaginn 11. október. Flogið verður út að morgni fimmtudags og komið heim síðdegis á sunnudeginum. Fylgst verður með æfingum og leikjum hjá Ajax og Feyenoord ásamt því að farið verður á landsleik Hollands og Íslands. Ferðin mun gefa þjálfurum einingar í endurmenntun UEFA A. Mjög góð þátttaka er í ferðina og komust færri að en vildu, en alls fara tuttugu og sex þjálfarar. Þeir sem fara eru eftirtaldir:

Halldór Halldórsson, Sigurjón Helgi Ásgeirsson, Dean Martin, Stefán Arnalds, Sverrir Óskarsson, Hákon Sverrisson, Viktor Steingrímsson, Lárus Viðar Stefánsson, Ragnar Helgi Róbertsson, Egill Ármann Kristinsson, Bryngeir Torfason, Tryggvi Björnsson, Sigurður Þórir Þorsteinsson, Arnar Bill Gunnarsson, Kristján Guðmundsson, Þórarinn Engilbertsson, Fannar Berg Gunnólfsson, Rúnar Sigríksson, Gunnar Oddsson, Heimir Hallgrímsson, Hjalti Kristjánsson, Ólafur Helgi Kristjánsson, Heimir Guðjónsson, Jón Þór Brandsson, Dragi Pavlov og Garðar Gunnar Ásgeirsson.


29.9.08 - KSÍ IV þjálfaranámskeið 3.-5. október

KSÍ IV þjálfaranámskeið 3.-5. október
Drög að dagskrá má sjá hér að neðan

KSÍ IV þjálfaranámskeið verður haldið um næstu helgi, 3.-5. október. Drög að dagskrá námskeiðsins má sjá hér að neðan en bikarúrslitaleikur KR og Fjölnis fléttast inn í námskeiðið. Dagskrá bikarúrslitaráðstefnunnar verður birt síðar.
Bóklegi hluti námskeiðsins fer fram í höfuðstöðvum KSÍ og verklegi þátturinn í Kórnum í Kópavogi.
Þátttökurétt hafa allir þjálfarar sem setið hafa KSÍ III þjálfaranámskeið og skilað verkefni af því námskeiði.
Skráning á KSÍ IV er í fullum gangi og eru áhugasamir beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í síma 510-2977.
Eftirfarandi upplýsingar þurfa og fylgja skráningu:
Nafn
Kennitala
Heimilisfang
Símanúmer
Félag
Þátttökugjald er kr. 17.000.
Hægt er að greiða á staðnum eða með því að leggja inn á reikning Knattspyrnusambands Íslands:
0101-26-700400
Kt. 700169-3679


Dagskrá


15.9.08 - Skeiðklukkurnar tilbúnar til afhendingar á skrifstofu KSÍ

Skeiðklukkan sem fylgir félagsgjaldinu í ár eru nú tilbúin til afhendingar til félagsmanna sem greitt hafa félagsgjaldið í ár, á skrifstofu KSÍ í Laugardal. Félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sækja sína skeiðklukku á skrifstofu KSÍ, vegna mikils kostnaðar við að senda klukkurnar með pósti. Hvetjum við félagsmenn til að sækja sína klukku á skrifstofu KSÍ við fyrsta tækifæri. Skeiðklukkur fyrir félagsmenn á landsbyggðinni verða sendar við fyrsta tækifæri á tengiliði KÞÍ á stærstu þéttbýlisstöðunum og geta félagsmenn sótt klukkurnar til þeirra eða að þeim verður komið heim til félagsmanna. Allar nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið mailto:kthi@isl.is


4.9.08 - Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikars kvenna

Knattspyrnusamband Ísland og Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu í tengslum við Visa bikarúrslitaleik kvenna (KR og Vals) þann 20. september næstkomandi.
Þetta er í fyrsta skipti sem haldin verður slík ráðstefna en ætlunin er að halda hana árlega ef vel tekst til í þetta skipti. Á ráðstefnunni eru áhugaverðir fyrirlestrar, tækifæri til að spyrja spurninga, boðið verður upp á veitingar og miða á Visa bikarúrslitaleikinn.
Ráðstefnugjaldi er stillt mjög í hóf og er aðeins 1.000 krónur. Ráðstefnan er öllum opin og KSÍ vill hvetja sem flesta til að mæta og stúlkur og konur eru sérstaklega boðnar velkomnar.
Hér að neðan má sjá allar nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu og fleira:
Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA bikars kvenna
Laugardaginn 20. september 2008
Fræðslusetur KSÍ, Laugardalsvelli, 3. hæð
Dagskrá:
12:00 Ávarp Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ og Ingibjörg Hinriksdóttir, formaður fræðslunefndar KSÍ
12:20 Mín hugmyndafræði í þjálfun kvennalandsliðsins Sigurður Ragnar Eyjólfsson, A-landsliðsþjálfari kvenna
13:10 Fjöldi erlendra leikmanna í knattspyrnu kvenna á Íslandi - Mín skoðun - Þorkell Máni Pétursson, þjálfari mfl. kvenna Stjörnunni
13:40 “Spáð í spilin” hugleiðingar mínar um Visa bikarúrslitaleikinn Vanda Sigurgeirsdóttir, þjálfari mfl. kvenna Breiðabliki.
14:30 Þjálfarar liðanna sem leika til úrslita Elísabet Gunnarsdóttir og Freyr Alexandersson þjálfarar Vals og Helena Ólafsdóttir þjálfari KR
15:00 Veitingar í boði KSÍ og KÞÍ
16:00 Úrslitaleikur VISA bikarsins, Valur-KR
Verð Kr. 1.000 Veitingar og miði á Visa bikarúrslitaleikinn er innifalinn í verðinu.
Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is
Nánari upplýsingar veitir Dagur Sveinn Dagbjartsson starfsmaður á fræðslusviði KSÍ í síma 510-2977.

Dagskrá


3.9.08 - Ráðstefna um knattspyrnuþjálfun erlendis

Þriðjudaginn 16. september ætla Knattspyrnusamband Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að halda sameiginlega ráðstefnu um knattspyrnuþjálfun erlendis og er aðgangur ókeypis.
Fimm áhugaverð erindi verða flutt á ráðstefnunni:
Guðjón Þórðarsson - Reynsla mína af þjálfun í atvinnumennsku erlendis
Magni Fannberg Magnússon - Þjálfun hjá AC Milan
Heimir Guðjónsson og Ásmundur Haraldsson - Ráðstefna bandaríska þjálfarafélagsins 2008
Elísabet Gunnarsdóttir - Þjálfun kvenna í atvinnumennsku (Potsdam, LDB Malmö og Indiana)
Eysteinn Húni Hauksson - Knattspyrnuakademía Heracles og Twente
Hér er að finna drög að dagskrá ráðstefnunnar en smávægilega breytingar gætu átt sér stað á uppröðun fyrirlesara. Námskeiðið fer fram í fræðslusetri KSÍ á 3. hæð.
Aðgangur er sem fyrr segir ókeypis en áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í síma 510-2977.

Þjálfun erlendis – Hvað getum við lært?


29.8.08 - Þjálfaraferð til Hollands

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands og KSÍ stendur fyrir þjálfaraferð til Hollands 9. - 12. október næstkomandi í tengslum við landsleik Hollands og Íslands laugardaginn 11. okt.

Flogið verður út að morgni fimmtudags og komið heim síðdegis á sunnudeginum. Dagskrána má sjá hér neðar, en fylgst verður með æfingum og leikjum hjá Ajax og Feyenoord ásamt því að farið verður á landsleik Hollands og Íslands.

Verð kr. 78.500 á mann í tvíbýli, 89.900 á mann í einbýli.

Innifalið: Flug, 4 stjörnu hótel með morgunmat og miði á landsleikinn.

Ferðin mun gefa þjálfurum einingar í endurmenntun UEFA A.

KÞÍ hvetur félagsmenn til að skrá sig í ferðina sem fyrst, fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning í ferðina fer fram á netfangi 
kthi@isl.is

Dagskrá


22.8.08 - Þjálfaranámskeið KSÍ á næstu mánuðum

Nú liggja fyrir dagsetningar á flestum þjálfaranámskeiðum KSÍ fyrir árið 2008 og fyrri hluta 2009. Til að fá nánari upplýsingar skal hafa samband við Dag Svein Dagbjartsson á fræðslusviði KSÍ.
Þjálfaranámskeið KSÍ á næstu mánuðum verða haldin á eftirfarandi dagsetningum:
KSÍ I: 10.-12. október og 17.-19. október ´
KSÍ II: 31. okt – 2. nóv og 14.-16. nóvember
KSÍ III: Janúar/febrúar 2009
KSÍ IV: 3.-5. október
KSÍ V: Mars/apríl 2009
KSÍ VI: 16-23. janúar 2009 á Englandi
KSÍ VII: Febrúar-mars 2009.
KSÍ B (UEFA B) próf: Febrúar 2009
KSÍ A (UEFA A) próf: Febrúar 2009
Önnur námskeið og ráðstefnur:
Sameiginleg ráðstefna KSÍ og ÍSÍ um þjálfun hjá erlendum félögum 16. september.
Bikarúrslitaráðstefna kvenna verður haldin í samstarfi við KÞÍ þann 20. september.
Bikarúrslitaráðstefna karla verður haldin í samstarfi við KÞÍ þann 4. október.
Endurmenntunarnámskeið í Hollandi fyrir UEFA-A þjálfara, haldið í samvinnu við KÞÍ 9-12. október.
Endurmenntunarnámskeið á Íslandi fyrir UEFA-A þjálfara í janúar/febrúar 2009.
Námskeið á landsbyggðinni verða haldin eftir þörfum.
Skráning á ofangreind námskeið hefst 3 vikum fyrir viðkomandi námskeið.
Nánari upplýsingar veitir Dagur Sveinn Dagbjartsson á fræðslusviði KSÍ í síma 510-2977 (
dagur@ksi.is).


4.8.08 - Greiðsluseðlar fyrir félagsgjaldinu að berast - glæsileg skeiðklukka til þeirra sem greiða fyrir 10. október 2008

Nú fer knattspyrnuþjálfurum um allt land að berast greiðsluseðill vegna félagsgjaldsins fyrir árið 2008. Stjórn KÞÍ vonar að félagsmenn bregðist jafn vel við og hingað til og greiði greiðsluseðilinn sem allra fyrst. Allir þeir sem greiða félagsgjaldið fyrir 10. október 2008 munu fá glæsilega og vandaða skeiðklukku með merki KÞÍ á. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að unnið væri að því að láta eitthvað fylgja félagsgjaldinu eins og undandfarin ár, og telur stjórn KÞÍ að með þessu sé verulega verið að koma á móts víð félagsmenn, sem reyndar hafa staðið vel við bakið á félagi sínu fram að þessu. Í fyrra greiddu 383 knattspyrnuþjálfarar víðsvegar að af landinu félagsgjaldið og vonumst við eftir jafn góðum viðbrögðum í ár. Skeiðklukkunum verður síðan komið til félagsmanna eins fljótt og mögulegt er, með sama hætti og áður, þ.e. félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu sækja sínar á skrifstofu KSÍ en landshlutatengiliðir munu sjá um dreifingu á sínum svæðum. Stjórn KÞÍ óskar að endingu öllum félagsmönnum sínum góðs gengis í sumar og vonar að þeir verði félagi sínu til sóma á knattspyrnuvöllum landsins.


25.7.08 - Heimsókn til Finnlands og Sviss

Fyrr á þessu ári setti Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) á laggirnar svokallað UEFA Study Group Scheme, eða vettvangsverkefni, sem felur í sér að knattspyrnusambönd í Evrópu geta sótt um styrk frá UEFA til að heimsækja önnur knattspyrnusambönd í álfunni með það fyrir augum að kynna sér starfsemi þar í landi.
Knattspyrnusamband Íslands hefur fengið vilyrði frá UEFA um að heimsækja Finnland til að kynna sér knattspyrnu kvenna þar í landi og ákveðið hefur verið að bjóða öllum þjálfurum liðanna í Landsbankadeild kvenna að fara í þessa ferð. Haldið er út til Finnlands þriðjudaginn 25. nóvember og komið heim föstudaginn 28. nóvermber.
Þá hefur einnig verið ákveðið að fara með hóp til Sviss dagana 3.-6. nóvember til að kynna sér þjálfun barna og unglinga. Skipulagning þeirrar ferðar er á byrjunarstigi.
Með þessu er KSÍ einnig að skuldbinda sig til að taka á móti hópum frá öðrum knattspyrnusamböndum í Evrópu. Því gæti svo farið að slíkur hópur heimsækir land og þjóð á næstu misserum en slík verkefni eru til þess fallin að styrkja samskipti aðildarsambanda UEFA enn frekar.
Knattspyrnusamband Íslands fagnar því að UEFA skuli sjá hag sinn í því að styðja við bakið á aðildarsamböndum til slíkra ferða. Enginn vafi leikur á að hér er um mikinn ávinning að ræða og möguleikarnir miklir.


15.7.08 - Norræn barna- og unglingaráðstefna

Í júnímánuði var haldin á Laugarvatni Norðurlandaráðstefna í barna- og unglingaþjálfun. Þar voru saman komnir fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum, frá hinum ýmsu sérsamböndum. Fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands á ráðstefnunni voru þeir Sigurður Þórir Þorsteinsson og Örn Ólafsson, sem báðir sitja í fræðslunefnd KSÍ.
Helstu umræðuefni ráðstefnunnar snérust um brottfall barna og unglinga í íþróttum og hlutverk félaga og stjórnenda í félögum. Auk þess voru í gangi umræðuhópar þar sem sérsamböndin ræddu það sem vel er gert og það sem betur megi gera til að auka þátttöku barna og unglinga og auka þátttöku leiðtoga í starfi félaga.
Heimasíðu ráðstefnunnar og fyrirlestra má finna hér að neðan.


http://www.isi.is/?ib_page=477&iw_language=is_IS


4.7.08 - Sigurður Ragnar Pro Licence þjálfari

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, útskrifaðist á dögnum með Pro Liecence þjálfaragráðu en Sigurður Ragnar er annar Íslendingurinn sem útskrifast með þessa gráðu en fyrstur var Teitur Þórðarson.
Sigurður Ragnar sat námskeiðið hjá enska knattspyrnusambandinu en Pro Liecence gráðan er hæsta þjálfaramenntun sem í boði er innan Evrópu og gefur réttindi til að stjórna liðum í öllum deildum innan Evrópu.
Sigurður Ragnar átti farsælan feril sem leikmaður og lék m.a. með Þrótti R., KR og ÍA hér á landi og lék sem atvinnumaður í Englandi og Belgíu. Hann var ráðinn fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands árið 2002 og var svo ráðinn landsliðsþjálfari A landsliðs kvenna í desember 2006. Hann er íþróttafræðingur að mennt, og hefur Mastersgráðu í æfinga- og íþróttasálfræði frá Greensboro háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.
Það er John Peacock sem hefur yfirumsjón með Pro Licence námskeiðunum hjá enska knattspyrnusambandinu en þessi fyrrum yfirmaður knattspyrnuakademíu Derby County, er núna landsliðsþjálfari U17 og U20 karlalandsliða Englands.
Meðal þeirra er útskrifuðust á sama tíma og Sigurður Ragnar voru Roy Keane, Gary Ablett og Maureen "Mo" Marley en þessi snjalli þjálfari U19 landsliðs kvenna hjá Englandi er aðeins önnur konan er útskrifast með Pro Licence frá enska knattspyrnusambandinu og var heiðruð sérstaklega við útskriftina. Hin er Hope Powell, landsliðsþjálfari A landsliðs kvenna hjá Englendingum.
Enska knattspyrnusambandið hefur nú útskrifað um 120 þjálfara með þessa gráðu frá upphafi en KSÍ vinnur nú að því að opna íslenskum þjálfurum leið til að geta sótt sér þessa menntun.


4.7.08 - Yfirlýsing frá Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) hvetur þjálfara til að hafa rétt við og framfylgja lögum og reglum. Einnig hvetjum við þjálfara til að vera sjálfum sér og félögum sínum til sóma hvar og hvenær sem er og virða störf annarra þjálfara sem og störf annarra sem að leiknum standa.

Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ).


20.6.08 - Bjarni Stefán fer til Wiesbaden

Bjarni Stefán Konráðsson fer á ráðstefnu þýska knattspyrnuþjálfarafélagsins í Wiesbaden 28. júlí - 30. júlí í sumar. Þýska knattspyrnuþjálfarafélagið býður KÞÍ að senda einn fulltrúa og sér um allt uppihald. Ráðstefnan mun að mestu leiti fjalla um EURO 2008. Bjarni Stefán mun skila skýrslu frá ráðstefnunni fljótlega að henni lokinni.


6.6.08 - Ráðstefna þýska Knattspyrnuþjálfarafélgsins í Wiesbaden

Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands hefur verið boðið að senda einn fulltrúa á ráðstefnu þýska knattspyrnuþjálfarafélagsins í Wiesbaden 28. júlí - 30. júlí í sumar. Ráðstefnan mun að mestu leiti fjalla um EURO 2008. Uppihaldið og námskeiðskostnaður er KÞÍ að kostnaðarlausu. Sérstaklega skal tekið fram að ráðstefnan fer öll fram á þýsku. KÞÍ vill bjóða einhverjum félagsmanni sínum að nýta sér þetta góða boð og eru áhugasamir beðnir að senda tölvupóst á kthi@isl.is fyrir 18. júní n.k. Athugið að þetta gildir eingöngu fyrir félagsmenn KÞÍ.


2.6.08 - Fyrirlestur Kaspers Hjulmand

Hér fyrir neðan má sjá fyrirlesturinn sem Kasper Hjulmand hélt á þjálfararáðstefnunni um barna og unglingaþjálfun sem haldin var 31. maí síðastliðinn.

The New Way - Kasper Hjulmland á þjálfararáðstefnu KÞÍ 31. maí 2008


1.6.08 - Vel heppnuð ráðstefna

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stóð fyrir ráðstefnu um barna og unglingaþjálfun í fræðslusetri KSÍ á Laugardalsvelli í gær. Fyrirlesarar voru Kasper Hjulmand og Vilmar Pétursson. Ráðstefnan tókst mjög vel og var mikil ánægja hjá þeim sem sóttu ráðstefnuna með fyrirlesarana.


9.5.08 - Þjálfararáðstefna KÞÍ um barna og unglingaþjálfun 31. maí

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyrir ráðstefnu um barna og unglingaþjálfun laugardagin 31. maí. Ráðstefnan hefst kl:10:00 og er hún haldin í fræðslusetri KSÍ á Laugardalsvelli. Fyrirlesarar eru Kasper Hjulmand og Vilmar Pétursson.
Kasper Hjulmand er þjálfari meistaraflokks karla hjá Lyngby í Danmörku. Barna- og unglingastarf Lyngby er margrómað og er Kasper einn af aðalskipuleggjendum þess. Kasper mun kynna sínar skoðanir á barna- og unglingaþjálfun og einnig koma inn á séræfingar fyrir efnilega leikmenn.
Vilmar Pétursson stafar sem stjórnenda þjálfari hjá Capacent og hann mun fjalla um hlutverk þjálfarans sem stjórnanda.
Þjálfarar yngri flokka eru sérstakelga hvattir til að mæta. Aðgangur er ókeypis fyrir félagsmenn í Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands en aðrir aðrir greiða 1.000 krónur.

Dagskrá:
10:00 Setning
10:10 Þjálfun barna og unglinga - Kasper Hjulmand
12:10 Matarhlé
12:40 Hlutverk þjálfarans - Vilmar Pétursson
14:00 Ráðstefnulok

Aðgangur er ókeypis á ráðstefnuna fyrir félagsmenn KÞÍ en 1.000 kr. fyrir ófélagsbundna.

KÞÍ hvetur knattspyrnuþjálfara til að nýta sér þetta tækifæri til að auka þekkingu sína., hægt er að tilkynna þátttöku til stjórnarmanna KÞÍ eða senda tölvupóst með því að smella á linkinn hér neðar.


Tilkynna þátttöku á ráðstefnu KÞÍ.

Kasper Hjulmand er fæddur 1972, lauk UEFA-A þjálfaragráðu frá DBU 2001. Kasper hefur verið A-leiðbeinandi hjá DBU en það eru þjálfarar á vegum DBU sem þjálfa efnilegustu leikmenn Danmerkur. Kasper spilaði stærstan hluta sinn ferils með B93 í dönsku 1. deildinni og úrvalsdeildinni. Kasper hefur þjálfað mikið hjá Lyngby, 1998-2004 þjálfaði hann yngri flokka Lyngby, en frá 2004 hefur hann verið þjálfari meistaraflokks karla hjá Lyngby.

Vilmar Pétursson er stjórnenda þjálfari hjá Capacent og mun ræða um hlutverk knattspyrnuþjálfarans, stjórnandinn, leiðtoginn og fyrirmyndin í skipulagsheildinni, liðið, félagið s.s. vald, ábyrgð og ákvarðanataka. Auk þess ræðir Vilmar um hvað er líkt með stjórnanda í fyrirtæki og starfi knattspyrnuþjálfara.


17.4.08 - KSÍ veitir styrki til fræðslumála

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum á dögunum að styðja enn fremur við fræðslumál innan sambandsins. Mun KSÍ veita 10 ferðastyrki á ári til fræðslumála sem nemur ráðstöfun flugmiða á áfangastaði Icelandair.
Styrkjum verður úthlutað a.m.k. ársfjórðungslega. Umsækjendur skulu skila inn umsókn um styrk í síðasta lagi 3 vikum fyrir brottför.
Fræðslunefnd KSÍ úthlutar styrkjunum í samráði við framkvæmdastjóra en styrkurinn getur nýst t.d. þjálfurum, dómurum, stjórnendum eða öðrum þeim einstaklingum innan knattspyrnuhreyfingarinnar sem afla sér menntunar erlendis.
Það er von stjórnar KSÍ að styrkir þessir nýtist einstaklingum vel innan hreyfingarinnar en sífellt meiri kröfur eru gerðar til þeirra er starfa fyrir hönd knattspyrnunnar.
Úthlutunarreglur
Styrkur KSÍ er háður eftirfarandi skilyrðum:
Umsækjandi skal vera í starfi innan aðildarfélags KSÍ.
Styrkþega ber að skila skýrslu um námskeiðið/ráðstefnuna til birtingar á fræðsluvef KSÍ. Skýrslan skal berast innan 3 vikna frá heimkomu með tölvupósti til fræðslustjóra KSÍ (
siggi@ksi.is).
Styrkþegi samþykkir að halda stutt erindi á ráðstefnu á vegum KSÍ (um skýrsluna) óski KSÍ eftir því.
Umsækjendur um styrkinn þurfa að fylla út meðfylgjandi umsóknareyðublað og skila til fræðslustjóra KSÍ.
Nánari upplýsingar veitir fræðslusvið KSÍ í síma 510-2900

Umsókn


4.4.08 - Arnar Bill sem er í varastjórn KÞÍ í viðtali á ksi.is

Arnar Bill, sem situr í varastjórn KÞÍ er í viðtali á heimasíðu KSÍ. Sjá viðtalið.


24.3.08 - Munntóbakneysla eykur hættu á að fá krabbamein

Ný sænsk rannsókn bendir til þess, að neysla munntóbaks auki hættu á að fá krabbamein í vélinda og maga. Fjallað er um rannsóknina í Upsala Nya Tidning og er þar haft eftir prófessor við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi, að þótt tóbaksreykingar séu mun hættulegri en munntóbaksneysla bendi rannsóknin til að munntóbak geti einnig valdið krabbameini.
Um er að ræða samanburðarrannsókn, sem gerð var á 336 þúsund byggingaverkamönnum á 20 ára tímabili. Hún leiddi í ljós, að þrisvar sinnum meiri líkur voru á að þeir sem notuðu munntóbak fengju krabbamein í vélinda en þeir sem ekki notuðu tóbak. Þá var krabbamein í maga 40% algengara meðal þeirra sem notuðu munntóbak en tóbakslausra. Algengast var að krabbameinið gerði vart við sig eftir að mennirnir urðu sjötugir.
Olof Nyrén, prófessor, segir að rannsóknin geti ekki svarað því, hvort krabbameinsvaldandi efni í munntóbaki hafi þessi áhrif á mjög löngum tíma eða hvort eldri mennirnir hafi notað eldri gerðir munntóbaks, sem innihéldu meira magn krabbameinsvaldandi efna en þær yngri.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands hefur ásamt Lýðheilsustöð barist gegn notkun munntóbaks og sendi stjórn KÞÍ m.a. eftirfarandi ályktun út 2. júlí 2007.

Stjórn KÞÍ skorar á knattspyrnuþjálfara þessa lands að sporna gegn notkun á Snusi. Ósiður þessi er innfluttur og á ekki heima í knattspyrnuflóru Íslands. Við skorum á þjálfara að vera til fyrirmyndar í þessum efnum og nota ekki Snusið og sjá til þess að fyrirmyndir í meistaraflokkum félaganna sem og landsliðsfólk yngri landsliða okkar noti ekki þenann sóða sem Snusið er.


17.3.08 - KSÍ V þjálfaranámskeið

Helgina 11.-13. apríl heldur KSÍ 5. stigs þjálfaranámskeið í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal. Þátttökurétt á námskeiðið hafa allir þeir sem fengu 70 stig eða fleiri í KSÍ B prófinu. Námskeiðsgjald er 20.000 krónur og skráning er hafin.
KSÍ V þjálfaranámskeið telur einnig sem endurmenntun fyrir þjálfara með KSÍ B þjálfaraskírteini.
Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í síma 510-2977.
Með skráningunni verða eftirfarandi upplýsingar að koma fram:
Nafn
Kennitala
Heimilisfang
Símanúmer
Félag
Tölvupóstfang
Dagskrá námskeiðsins verður auglýst síðar.


17.3.08 - Alþjóðlegt þjálfaranámskeið í Hollandi

Dagana 22. ágúst til 3. september stendur akademía hollenska knattspyrnusambandið fyrir alþjóðlegu þjálfaranámskeiði. Þetta er í tíunda árið í röð sem akademía hollenska knattspyrnusambandsins heldur slíkt námskeið og hingað til hafa 250 þjálfarar frá 63 löndum sótt námskeiðið. Aðeins 25 þjálfarar fá þátttökurétt á námskeiðið.
Þátttakendur verða að:
Hafa reynslu sem leikmaður
Hafa reynslu sem þjálfari barna
Hafa þekkingu á þjálffræði
Geta tekið þátt í verklegum æfingum
Tala góða ensku og geta stýrt æfingu á ensku
Allar frekari upplýsingar um námskeiðið er hægt að nálgast hér fyrir neðan. Þeir sem skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is fá 10% afslátt.
Alþjóðlegt þjálfaranámskeið í Hollandi


2.3.08 - Skráðu þig á póstlista KSÍ

Þeir sem skrá sig á póstlista KSÍ munu fá sendar ýmsar upplýsingar sem tengjast þjálfurum á Íslandi, upplýsingar um þjálfaranámskeið KSÍ, auglýstar ráðstefnur og fleira sem tengist knattspyrnuþjálfun og knattspyrnuiðkun. Um það bil 400 einstaklingar eru nú þegar skráðir á póstlista KSÍ. Skráningin er ókeypis og er hugsuð sem þjónusta fyrir knattspyrnuþjálfara og aðra áhugasama. Öllum er frjálst að skrá sig á póstlistann. Hægt er að skrá sig með því að fara á fara á slóðina www.ksi.is/fraedsla/postlisti og velja Skráning neðst á skjánum.


25.2.08 - KSÍ V þjálfaranámskeið haldið í apríl

Helgina 11.-13. apríl mun KSÍ standa fyrir 5. stigs þjálfaranámskeiði í höfuðstöðvum KSÍ. Þátttökurétt á námskeiðið hafa allir þeir þjálfarar sem eru með KSÍ B þjálfaragráðu og fengu a.m.k. 70 af 100 í KSÍ B prófinu (UEFA B prófinu).
Námskeiðið er 28 kennslustundir og kostar 20.000 krónur. Dagskrá námskeiðsins verður auglýst síðar.
Þátttaka á KSÍ V þjálfaranámskeiði framlengir einnig gildistíma KSÍ B skírteina þjálfara með KSÍ B gráðu um þrjú ár.
KSÍ V þjálfaranámskeið eru undanfari KSÍ VI þjálfaranámskeiðsins sem fyrirhugað er að halda á Englandi í október. Skráning á KSÍ V námskeiðið er hafin og geta áhugasamir skráð sig með þvi að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í 510-2977.
Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram við skráningu:nafn, kennitala, heimilisfang, félag, símanúmer og tölvupóstfang.

Reglugerð KSÍ um menntun knattspyrnuþjálfara
Skipulag þjálfaranámskeiða KSÍ


18.2.08 - 50 þjálfarar sóttu fyrirlestra ensku landsliðsþjálfaranna

John Peacock og Brian Eastick héldu opinn fyrirlestur fyrir 50 þjálfara í fræðslusetri KSÍ síðastliðin laugardag. Þeir John og Brian eru landsliðsþjálfarar Englands í U17, U-18, U-19 og U-20 ára aldurshópunum. Fyrst var haldinn bóklegur fyrirlestur í höfuðstöðvum KSÍ og eftir það var haldið í Egilshöllina, þar sem þeir félagar voru með verklega kennslu hjá leikmönnum 2.flokks Vals. Margt fróðlegt kom fram í fyrirlestrunum og æfingunum sem voru settar upp.

Á sunnudeginum héldu John og Brian svo þjálfarafund með öllum landsliðsþjálfurum, aðstoðarlandsliðsþjálfurum og markmannsþjálfurum landsliðanna og fóru þar yfir ýmis atriði sem tengjast starfi landsliðsþjálfarans, leikaðferðina 4-3-3, hugmyndafræði þeirra og enska knattspyrnusambandsins þegar kemur að starfi landsliðanna og fleira.

Á næstu mánuðum stefnir KSÍ á að fá fleiri erlenda fyrirlesara til landsins og halda þannig áfram að leggja ríka áherslu á þjálfaramenntun hjá íslenskum þjálfurum.


11.2.08 - KSÍ býður upp á opna fyrirlestra

Laugardaginn 16. febrúar klukkan 13.30 mun KSÍ bjóða upp á opna fyrirlestra frá ensku landsliðsþjálfurunum John Peacock og Brian Eastick. Fyrirlestrarnir verða bæði bóklegir og verklegir og fara fram á ensku. Skráning er hafin hjá KSÍ. Verð er 2.000 kr og hægt verður að gera upp við KSÍ á staðnum eða leggja inn á reikning KSÍ.

John Peacock er U-17 ára og U-20 ára landsliðsþjálfari Englands og fór á síðasta ári með U-17 ára landsliðið í úrslitaleik Evrópukeppni landsliða. John hefur yfirumsjón yfir Pro Licence þjálfaranámskeiði enska knattspyrnusambandsins. John hefur stýrt yngri landsliðum Englands í yfir 100 leikjum og er einn af einungis 6 mönnum sem hafa lokið bæði við Akademíustjóra námskeið og Pro licence námskeið enska knattspyrnusambandsins. John hefur þjálfað fjölmarga leikmenn sem hafa skilað sér upp í enska A-landsliðið. Áður en John hóf störf hjá enska knattspyrnusambandinu starfaði hann hjá Coventry og var yfirmaður knattspyrnuakademíunnar hjá Derby County. Sem leikmaður spilaði hann m.a. yfir 200 leiki með Scunthorpe.

Brian Eastick er U-18 og U-19 ára landsliðsþjálfari Englands. Hann á að baki 30 ára reynslu sem þjálfari hjá Q.P.R., Chelsea, Brighton & Hove Albion, Charlton, Leyton Orient, Coventry, Crewe og Sheffield United. Brian var yfirmaður knattspyrnuakademíunnar hjá Newcastle í tvö ár og yfirmaður knattspyrnuakademíunnar hjá Birmingham í sjö ár. Brian hefur einnig starfað sem þjálfari U-21 landsliðs Írlands. Brian hefur undanfarin ár starfað sem kennari á Pro licence námskeiðum enska knattspyrnusambandsins.
Brian á að baki landsleiki með U-18 ára landsliði Englands og lék m.a. sem atvinnumaður með Crystal Palace.

Laugardagur, 16. febrúar
13.30 Bóklegir fyrirlestrar í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal (3. hæð)
15.45 Kaffi og veitingar
16.30-19.00 Verklegar æfingar í Egilshöll og svör við spurningum

Fyrirlestraefni:
Pro licence þjálfaranámskeið enska knattspyrnusambandsins (bóklegt)
Sóknarleikur í 4-3-3 (bóklegt og verklegt)
Snjall og hugmyndaríkur leikur á miðju- og sóknarþriðjungi (bóklegt og verklegt)
Hvað getum við lært af bestu U-17 ára landsliðum í heimi? DVD frá HM í Perú.
Svör við spurningum

Skráning er hafin hjá KSÍ. Sendið tölvupóst með nafni, kennitölu, gsm og netfangi á 
dagur@ksi.is eða hringið í síma 510-2977. Námskeiðið telur upp í endurmenntun KSÍ B þjálfara.


9.2.08 - 62. ársþingi KSÍ lokið

62. ársþingi KSÍ er lokið en þingið fór fram í dag í höfuðstöðvum KSÍ. Geir Þorsteinsson sleit þinginu og þakkaði sérstaklega þeim Ástráði Gunnarssyni og Halldóri B. Jónssyni fyrir þeirra farsælu störf til handa íslenskrar knattspyrnu en þeir stigu báðir úr stjórn KSÍ á þessu þingi. Þeir Rúnar Arnarson og Þórarinn Gunnarsson voru kjörnir í stjórn KSÍ. Þá var Sigvaldi Einarsson kjörinn í varastjórn KSÍ en hann tekur þar sæti Þórarins Gunnarsonar.


3.2.08 - Púlsklukkurnar komnar til landshlutatengiliða

Nú eru 363 félagsmenn búnir að greiða félagsgjaldið fyrir árið 2007. Eins og kom fram á greiðsluseðlinum fylgir glæsileg púlsklukka með til þeirra sem greiða félagsgjaldið. Púlsklukkurnar eru komnar og þeir sem greitt hafa félagsgjaldið og búa á höfuðborgarsvæðinu geta sótt sínar púlsklukkur á skrifstofu KSÍ. Púlsklukkur fyrir félagsmenn á landsbyggðinni hafa verið sendar á tengiliði KÞÍ og félagsmenn geta sótt púlsklukkurnar sínar til þeirra. Hér má sjá hverjir eru landshlutatengiliðir KÞÍ


1.2.08 - Endurmenntun KSÍ B þjálfara

KSÍ hvetur þjálfara til þess að sækja sér endurmenntun og endurnýja KSÍ B þjálfararéttindin. Fjöldi menntaðra knattspyrnuþjálfara hér á landi hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Árið í ár fór vel af stað, því þau þrjú námskeið sem haldin hafa verið hingað til á árinu hafa verið vel sótt.

Alls hafa 271 þjálfarar útskrifast með KSÍ B gráðu hér á landi á undanförnum árum. 77 þeirra hafa haldið áfram í þjálfaramenntunarkerfi KSÍ og hafa þar með endurnýjað KSÍ B gráðuna sína. Til viðbótar eru 115 KSÍ B þjálfarar með tilskilin réttindi fyrir sumarið 2008. Eftir standa því 79 þjálfarar sem þurfa að sækja sér endurmenntun fyrir sumarið 2008 (KSÍ B réttindi þeirra eru útrunnin).

Fræðslunefnd KSÍ hvetur þessa þjálfara til að sækja sér endurmenntun sem fyrst og þar með endurnýja KSÍ B þjálfararéttindin sín.

KSÍ bíður upp á ýmsa möguleika fyrir þjálfara til að endurnýja KSÍ B skírteini sín á næstu vikum og mánuðum. Laugardaginn 16. febrúar munu ensku ungmennalandsliðsþjálfararnir John Peacock og Brian Eastick heimsækja Ísland og halda námskeið sem opið er öllum þjálfurum. Þeir Peacock og Eastick eru sannkallaðir sérfræðingar í sínu fagi og hvetjum við alla sem möguleika hafa á að skrá sig með því að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is eða með því að hringja í 510-2977. Dagskrá verður nánar auglýst síðar.

Þá er fyrirhugað að halda leiðtogafræðslu í samvinnu við ÍSÍ í mars og einnig er fyrirhugað að halda opið þjálfaranámskeið í apríl, en það námskeið er hluti af Grasrótarstarfi KSÍ. KSÍ V þjálfaranámskeið verður svo haldið mars eða apríl og seta á því námskeiði framlengir gildistíma skírteina KSÍ B þjálfara um þrjú ár.


Endurmenntun UEFA B
Endurmenntun knattspyrnuþjálfara
Reglugerð KSÍ um menntun knattspyrnuþjálfara
Skipulag þjálfaranámskeiða KSÍ


1.2.08 - KSÍ innkallar allt fræsluefni

KSÍ óskar eftir því að þjálfarar sem fengið hafa fræðsluefni (bækur, VHS spólur, DVD diska o.s.frv.) skili því inn, sama hve gamalt efnið er. Verið er að taka í gegn bókasafn og vídeósafn sambandsins og nauðsynlegt er að fólk skili því efni sem það hefur fengið lánað, svo hægt sé að meta hvað sé til og hvað sé glatað.

Betra safn fræðsluefnis er hagur allra þjálfara á Íslandi og því brýnt að samviskusamir aðilar skili.


31.1.08 - KSÍ aðili að Grasrótarsáttmála UEFA

Í dag var undirrituð staðfesting þess efnis að KSÍ hafi verið samþykkt inn í Grasrótarsáttmála UEFA. Undirritunin fór fram á ársþingi UEFA í Zagreb að viðstöddum Michel Platini, forseta UEFA og David Taylor framkvæmdastjóra UEFA. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ, undirrituðu sáttmálann fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands.

Það voru 9 þjóðir sem voru samþykktar inn í Grasrótarsáttmála UEFA að þessu sinni og eru 30 þjóðir orðnar aðilar að sáttmálanum en 53 þjóðir eru aðilar að UEFA. Þjóðirnar halda svo áfram að bæta sitt grasrótarstarf og geta með því bætt við sig stjörnum eftir viðmiðunum frá UEFA en allar nýjar þjóðir í sáttmálanum byrja með eina stjörnu.

Grasrótarstarf getur verið af margvíslegum toga og eru það aðildarfélög KSÍ sem bera þungann af þessu starfi með margvíslegum hætti í hreyfingunni. KSÍ hefur einnig verið í samstarfi við Íþróttafélag fatlaða varðandi grasrótarstarf og í desember fékk Íþróttafélagið Nes viðurkenningu fyrir Íslandsleika fatlaðra í knattspyrnu er fór fram á síðasta ári.


29.1.08 - KSÍ B próf (UEFA B próf) laugardaginn 16. febrúar

Laugardaginn 16. febrúar, milli kl. 10:00 og 12:00, stendur fræðslusvið KSÍ fyrir KSÍ B prófi (UEFA B prófi). Prófið er fyrir alla þjálfara sem hafa klárað KSÍ I, II, III og IV og skilað öllum verkefnum á fullnægjandi hátt (engar undantekningar eru gerðar). Þeir þjálfarar sem eiga eftir að skila verkefninu af KSÍ III verða að skila því fyrir laugardaginn 16. febrúar til að öðlast þátttökurétt í prófinu.

Prófað er úr öllu námsefni KSÍ I, II, III og IV og úr nýjustu útgáfu af dómaralögunum. Engin hjálpargögn eru leyfð í prófinu. Ef þjálfurum sem hyggjast taka prófið vantar einhver gögn, þá eru þau öll til sölu á skrifstofu KSÍ. Best er að hringja á undan sér í síma 510-2900 og láta vita hvaða gögn vantar og hvenær þau verða sótt.

Prófið fer fram í fræðslusetri KSÍ í Laugardal og hefst eins og áður segir kl. 10:00. Þátttakendur sem búa á landsbyggðinni og vilja taka prófið í sinni heimabyggð, þurfa að hafa samband tímanlega við fræðslustjóra KSÍ ( 
siggi@ksi.is ), svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir. Prófið byrjar á sama tíma um allt land.

Próftöku- og skírteinisgjald er 3.000 krónur.

Hægt er að skrá sig með því að hringja í síma 510-2977 / 692-3920 og einnig er hægt að senda tölvupóst á 
dagur@ksi.is

Upplýsingar um KSÍ B próf.


3.1.08 - Nýr starfsmaður í fræðslumálum hjá KSÍ

Dagur Sveinn Dagbjartsson er nýr starfsmaður í fræðslumálum hjá KSÍ og hefur hann hafið störf. Dagur hefur lokið B.S. gráðu í íþróttafræðum frá KHÍ á Laugarvatni og mun vinna með Sigurði R. Eyjólfssyni í fræðslumálum KSÍ.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands býður Dag Svein velkomin til starfa og væntir góðs samstarfs við hann.


3.1.08 - Þjálfaranámskeið hjá KSÍ á næstu mánuðum

KSÍ heldur að venju fjölda þjálfaranámskeiða á þessu ári og eru fyrstu námskeiðin á dagskránni strax í janúar. Hér að neðan má sjá þau námskeið sem liggja fyrir árið 2008.

Þjálfaranámskeið

18. - 20. janúar KSÍ II á Reyðarfirði
18. - 20. janúar KSÍ III í Reykjavík
25. - 27. janúar KSÍ III á Akureyri
15. - 17. febrúar Erlendir fyrirlesarar (telur líka sem endurmenntun), John Peacock og Brian Eastick frá enska knattspyrnusambandinu
16. febrúar KSÍ B próf (UEFA B próf)
Mars/apríl KSÍ V í Reykjavík
Apríl/október KSÍ VI á Englandi

Önnur námskeið og fyrirlestrar eru í vinnslu og verða auglýst nánar síðar á 
ksi.is.

Samstarfsaðilar