Fréttir


Íslendingar þurfa að spila boltanum meira

29-12-2008
 
 
Albert Capellas yfirþjálfari barna- og unglingastarfs Barcelona hélt fyrirlestra og stjórnaði æfingum í Fífunni í gær en yfir 70 þjálfarar mættu til að hlýða á hann og sjá æfingarnar sem hann hafði fram að færa.
 
Capellas var hér á landi í boði Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og Fótbolti.net ræddi stuttlega við hann í gær.

,,Ég er að kenna þjálfurum frá Íslandi. Ég er að tala um stefnu fótboltafélagsins Barcelona, ég tala um æfingar, akademíuna hjá okkur í Barcelona og markmið okkar þar," sagði Capellas við Fótbolta.net.

,,Ég veit ekki mikið um fótboltann á Íslandi því landið er svo langt frá Barcelona en ég held að Íslendingar þurfi að spila boltanum meira og hlaupa minna. Ég held að það yrði betra fyrir áhorfendurna en ég veit ekki mikið um íslenskan fótbolta."

Capellas vinnur með börnum og unglingum hjá Barcelona og heilræði hans fyrir unga fóboltamenn er einfalt, börn eiga að hafa gaman af því að spila fótbolta.

,,Mikilvægast er að njóta þess að spila fótbolta, sigur skiptir ekki svo miklu máli. Í atvinnumennsku skiptir það máli en hjá börnum skiptir mestu máli að njóta þess að spila uppáhalds íþróttina sína og ég segi þeim að spila boltanum," sagði Capellas að lokum.
 

Samstarfsaðilar