Fréttir


Pistill frá Sigurði Þóri Þorsteinssyni formanni KÞÍ

14-02-2009
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) var stofnað 13. nóvember árið 1970 fyrir tilstuðlan Alberts Guðmundssonar þess merka knattspyrnumanns en hann var fyrstur Íslendinga til að gerast atvinnumaður í knattspyrnu erlendis og fögnum við því að stefnt sé að því að reisa honum minnisvarða fyrir framan höfuðstöðvar Knattspyrnusambandsins. 
Það hafa margir komið að stjórn félagsins í gegnum árin og hafa stjórnirnar verið misvirkar en undanfarin ár hefur starfsemin verið  kröftug.
Þær stjórnir sem voru starfræktar við stofnun félagsins þurftu að berjast fyrir ýmsum málum fyrir knattspyrnuþjálfara og hefur því starfi verið fram haldið.
 
Markmið KÞÍ er að auka áhuga á knattspyrnuþjálfun og stuðla að því allir sem við þjálfun fást hafi hlotið undirstöðumenntun (skv. 3.grein laga félagsins). Einnig er það eitt af meginmarkmiðum félagsins að kappkosta að eiga gott samstarf við alla sem vinna að uppgangi og útbreiðslu knattspyrnunnar á Íslandi (skv. 4. grein laga félagsins).
Skráðir félagsmenn í KÞÍ eru um 800 talsins og í ár hafa um 300 greitt árgjaldið (félagsgjaldið) sem er 3000 kr. Við höfum kappkostað að láta gjöf fylgja með greiddu árgjaldi sem getur nýst þjálfurum í starfi. Í ár fylgdi skeiðklukka með árgjaldinu með merki félagsins og má nefna að undanfarin ár hefur m.a. fylgt með árgjaldinu : bakpoki, regnjakki, derhúfa, háskólabolur, stuttermabolur, mappa, taktíkmappa og margt fleira.
 
Í stjórn félagsins í ár eru : Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Kristján Guðmundsson varaformaður, Úlfar Hinriksson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri, Arnar Bill Gunnarsson spjaldskrárritari, Jóhann Gunnarsson og Þórir Bergsson meðstjórnendur. 
KÞÍ er með landshlutatengiliði sem halda utan um félagsmenn á sínu svæði.            
Slóðin á heimasíðu félagsins er kþí.is eða kthi.is.
Við erum einnig aðilar að evrópska Knattpyrnuþjálfarafélaginu (AEFCA) og var Ísland ein af  8 stofnþjóðum félagsins en það var stofnað í Austurríki árið 1980. Slóðin á heimasíðu félagsins er aefca.eu Fulltrúar KÞÍ fara á ársþing AEFCA.
 
Á síðasta ári voru margir viðburðir á vegum félagsins. Í lok maí héldum við barna og unglingaráðstefnu þar sem Kasper Hjulmand sem hefur þjálfað mikið hjá Lyngby í Danmörku og Vilmar Pétursson stjórnendaþjálfari hjá Capacent héldu fyrirlestra.
Í haust stóð KÞÍ í samvinnu við KSÍ fyrir þjálfaraferð til Hollands þar sem fylgst var með æfingum hjá stórliðunum Ajax og Feyenoord og fengu einnig þeir 26 þjálfarar sem fóru í ferðina að hlusta á fyrirlestra hjá fulltrúum félaganna um uppbyggingu þeirra.  
KSÍ og KÞÍ héldu einnig saman ráðstefnur í tengslum við bikarúrslitaleiki kvenna og karla.
Tókust þær báðar mjög vel og voru mjög vel sóttar en þetta er í fyrsta skipti sem við höldum ráðstefnu í tengslum við bikarúrslitaleik kvenna en það voru ekki eingöngu þjálfarar sem sóttu þá ráðstefnu heldur einnig ráðs, stjórnarmenn og leikmenn.
Í lok ársins fékk KÞÍ yfirþjálfara barna og unglingastarfs hjá Barcelona, Albert Capellas til að koma til landsins og var hann bæði með bóklega og verklega kennslu. Um 70 þjálfarar mættu á viðburðinn sem haldinn var 28. desember en við vorum mjög ánægð með mætinguna. Við renndum algjörlega blint í sjóinn með mætingu á þessum árstíma.
 
Við höfum valið þjálfara ársins bæði í meistarflokkum kvenna og karla og höfum veitt árlega viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka.
Við höfum einnig verið mjög dugleg við að fara á þjálfaranámskeið KSÍ og kynna félagið þar sem við bjóðum alla velkomna í félagið. Eru þjálfarar hvattir til þess að skrá sig í félagið en það er hægt að gera á heimasíðu félagsins eða með því að hafa samband við stjórnarmenn KÞÍ.
Við höfum haft samband við þá þjálfara sem hafa misst starf sitt og farið yfir málin með þeim, athugað hvort starfslok við félagið hafi verið eðlileg, ef ekki þá bendum við þeim á lögfræðing á okkar snærum. Einnig bendum við þjálfurum á að taka ekki við starfi fyrr en gengið hefur verið frá starfslokum við fyrrverandi þjálfara.
 
Stjórn KÞÍ mun fara í stefnumótunarvinnu á næstunni. M.a. varðandi þau markmið sem nefnd voru í upphafi pistilsins; að auka áhuga á knattspyrnuþjálfun og stuðla að því að allir sem við þjálfun fást hafi hlotið undirstöðumenntun. Á undanförnum árum hefur KSÍ staðið sig mjög vel í þeim málum og hafa verið haldin fjölmörg námskeið. Hlutverk KÞÍ er að styðja við það starf og láta vita af hagsmunamálum þjálfara.
 
Annað markmið félagsins er að kappkosta að eiga gott samstarf við alla sem vinna að uppgangi og útbreiðslu knattspyrnunnar á Íslandi. Það er staðreynd að við höfum átt mjög gott samstarf við KSÍ um hin ýmsu mál. KSÍ afhendi KÞÍ skrifstofu og erum við afar þakklát fyrir það. Einnig erum við ánægð með að KSÍ hafi tekið ákvörðun um að styðja við íþróttafélögin í landinu við þessar erfiðu aðstæður  sem uppi eru í þjóðfélaginu með auknum fjárframlögum. KSÍ hefur komið ýmsum málum í gegn undanfarin ár sem hafa verið knattspyrnumálum til framdráttar á Íslandi. Gott dæmi sem má nefna er að KSÍ náði samkomulagi við enska knattspyrnusambandið um að við megum senda tvo þjálfara á ári til Englands til að taka hina svokölluðu UEFA Pro þjálfaragráðu en hún veitir þjálfurum réttindi til að þjálfa hvar sem er í Evrópu.
 
Ég vil þakka öllum sem við höfum átt samskipti við í gegnum árin samstarfið og vona svo sannarlega að það eigi áfram eftir að vera gott og knattspyrnunni til heilla.
 
Sigurður Þórir Þorsteinsson,
formaður KÞÍ

Samstarfsaðilar