Fréttir


Formsatriði að skrifa undir

19-09-2009
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir aðeins formsatriði að ganga frá nýjum samningi sambandsins við Ólaf Jóhannesson, landsliðsþjálfara. Sjálfur hefur Ólafur mikinn hug á að halda áfram en undir hans stjórn varð liðið í neðsta sæti síns riðils í undankeppni HM 2010.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að liðið sé á réttri leið undir stjórn Ólafs," sagði Geir. „Það eru margir ungir leikmenn að stíga fram á sjónarsviðið og þá fannst mér einnig jákvætt að Eiður Smári Guðjohnsen lýsti því yfir fyrir stuttu að hann ætli að halda áfram að spila með landsliðinu. Það skiptir miklu máli."

Ólafur hefur stýrt landsliðinu í um 20 leikjum og segir stefnuna hafa verið markaða strax í upphafi. „Við höfum lagt áherslu á að notast alltaf við sömu leikaðferð með ákveðnum áherslubreytingum þó. Ég viðurkenni að þetta hefur allt tekið sinn tíma en síðustu leikir hafa verið betri. Í þeim þorðum við að halda boltanum meira innan liðsins og tel ég það nauðsynlegt til að ná lengra á þessum vettvangi. Ef við gerum það ekki stöndum við alltaf í stað."

Ólafur hefur notast við marga leikmenn á þessum tveimur árum og var það með ráðum gert. „Í dag tel ég mig vita nánast allt það sem ég vil og þarf að vita um þá leikmenn sem koma til greina í landsliðið. Auðvitað koma alltaf nýir leikmenn fram á sjónarsviðið og það er enginn útilokaður frá landsliðinu. En við vitum mikið um leikmennina í dag," sagði Ólafur. „Ég er því ekki viss um að það verði miklar breytingar á landsliðinu á næstunni og lítið um tilraunastarfsemi með leikmenn."

Þátttöku Íslands í undankeppni HM 2010 er lokið en framundan eru tveir vináttulandsleikir. Ísland mætir Suður-Afríku á Laugardalsvelli þann 13. október næstkomandi og svo Lúxemborg ytra þann 14. nóvember.
Dregið verður svo í riðla í undankeppni EM 2012 í byrjun febrúar á næsta ári.


Samstarfsaðilar