Fréttir


Helena tekur við Selfossi

09-10-2009

Helena Ólafsdóttir var í dag ráðinn þjálfari Selfoss sem leikur í 1. deild kvenna og samdi hún við félagið til næstu tveggja ára.  Helena þjálfaði síðast lið KR en hún hætti hjá félaginu síðastliðið haust og hefur ekki komið að þjálfun síðan.

„Þeir höfðu bara samband og ég viðurkenni að ég var ekki spennt í fyrstu. En svo höfðu þeir samband aftur og ætli krafturinn þeirra og stemningin hér á Selfossi hafi drifið mig hingað," sagði Helena um aðdraganda ráðningu hennar.

Hún segir að greinilega sé mikill metnaður fyrir kvennaknattspyrnu á Selfossi. „Það hafði mikil áhrif á mig. Þetta var líka partur af fótboltanum sem ég átti eftir að prófa sem þjálfari enda byrjaði ég að þjálfa Val þegar ég var nýhætt að spila sjálf. Svo fór ég í landsliðið og loks í KR. Þetta er því eitthvað nýtt og því langaði mig að slá til."

„Hugmyndafræði okkar byggir á því að búa til lið úr uppöldum leikmönnum enda er framtíðin þeirra. Ég hafði ekki hugsað mér að umturna þessu liði en vissulega myndi ekki saka að styrkja liðið með tveimur leikmönnum eða svo. En það þyrftu þá að vera leikmenn sem myndu bæta liðið."

„En ég tel mig hafa mikið fram að færa og lít alls ekki á þetta sem skref niður á við. Sjálf ólst ég upp út á landi og það er gaman að geta komið hingað og gefið eitthvað af mér."


Samstarfsaðilar