Fréttir


Knattspyrnuskólar Gróttu, HK og Víkings fá gæðavottorð UEFA og KSÍ

30-10-2009

Síðastliðið vor ákvað útbreiðslunefnd KSÍ að bjóða knattspyrnuskólum félaga upp á úttekt á starfsemi skólanna en það er hluti af grasrótarsáttmála UEFA, sem Knattspyrnusamband Íslands er aðili af. Félög gátu sótt um slíka úttekt sem síðar var framkvæmd með heimsókn starfsmanna útbreiðslunefndar í knattspyrnuskólann. Í úttektinni var farið yfir aðstöðu og áhöld, öryggi barna, gæðastarf knattspyrnuskólans, menntun og fjölda starfsmanna og aðra þætti.

 

Knattspyrnuskólar Gróttu, HK og Víkings voru heimsóttir og stóðust fyllilega þær kröfur sem KSÍ gerir til knattspyrnuskóla. Knattspyrnuskólar þessara félaga munu því geta notast við grasrótarmerki UEFA til að auglýsa sinn knattspyrnuskóla á næsta ári. Sú viðurkenning er veitt til eins árs í senn og árlega verður haft eftirlit með þeim knattspyrnuskólum sem hljóta grasrótarviðurkenninguna.

Stefnt er að því að bjóða áfram upp á þessa úttekt næstu árin en grasrótarmerki UEFA er ákveðinn gæðastimpill sem KSÍ telur að félög ættu að hafa metnað til að sækjast eftir að fá að nota. Það er von Knattspyrnusambands Íslands að knattspyrnuskólar hér á landi byggi börnum eins öruggt og gott umhverfi til iðkunar knattspyrnu eins og kostur er.


Samstarfsaðilar