Fréttir


Skýrsla stjórnar Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ) starfsárið 2008 – 2009

21-11-2009
Á síðasta aðalfundi sem haldinn var 27. nóvember 2008 í fræðslusetri KSÍ var kosin stjórn sem skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundinum á starfsárinu. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Kristján Guðmundsson varaformaður, Úlfar Hinriksson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri og Arnar Bill Gunnarsson spjaldskrárritari. Í varastjórn voru kosnir Þórir Bergsson og Jóhann Gunnarsson.
 
Á starfsárinu voru haldnir 9 fundir auk fjölmargra funda þar sem hluti stjórnar hittist og fór yfir ýmiss mál.
Fjárhagur félagsins stendur vel og í ár hafa 255 greitt árgjaldið sem þó eru ívið færri en árið áður og spilar bankahrunið þar stærstan hlut að máli. Árgjaldið er 3000 krónur og hefur verið það í nokkur ár. Við höfum höfum látið gjafir fylgja með árgjaldinu í mörg ár og að þessu sinni fengu þeir sem greiddu fyrir 10. október senda í pósti pottþétta húfu með merki félagsins ásamt eintaki af fagtímaritinu SIS ásamt áskriftartilboði að því blaði. Ef þjálfarar haf einhverja hluta vegna ekki fengið þetta sent til sín þá eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við KÞÍ, alltaf gott að vera hlýtt á eyrunum !

Stjórn KÞÍ hefur verið ötul við að fara á þjálfaranámskeið KSÍ og kynna félagið til að fá inn nýja félagsmenn. Einnig höfum við fylgst vel með þjálfararáðningum hjá félögunum og höfum við verið í góðu sambandi við landshlutatengiliðina sem hafa reynst okkur mjög vel. Í ár bauð KÞÍ þeim landshlutatengiliðum sem áttu heimangengt og eru búnir að vera lengst landshlutatengiliðir að fara með stjórnarmönnum til Kiev í Úkraínu til að kynna sér þjálfun en ferð þessi er hluti af UEFA Study Scheme verkefninu sem KSÍ tekur þátt í á vegum UEFA. Ferðin gekk í alla staði mjög vel og var athyglisvert að fylgjast með þjálfun í landi svo langt frá okkar heimkynnum og siðum. Þökkum við KSÍ kærlega fyrir boðið. Þeir sem fóru í ferðina voru :
 
Sigurður Þórir Þorsteinsson - formaður KÞÍ
Ómar Jóhannsson - gjaldkeri KÞÍ
Úlfar Hinriksson - ritari KÞÍ
Arnar Bill Gunnarsson - spjaldskrárritari KÞÍ
Þórir Bergsson - meðstjórnandi KÞÍ
Ólafur Jósefsson - landshlutatengiliður KÞÍ á Suðurlandi
Jón Hálfdán Pétursson - landshlutatengiliður KÞÍ á Vestfjörðum
Gísli Sigurðsson - landshlutatengiliður KÞÍ á Norðurlandi vestra
Tryggvi Þór Gunnarsson - landshlutatengiliður KÞÍ á Norðurlandi eystra
Árni Ólason - landshlutatengiliður KÞÍ á Austurlandi

Við höfum átt mjög gott samstarf við KSÍ og ekki síst fræðslunefnd sambandsins undanfarin ár og er það mjög mikilvægt fyrir okkar félag og sá merki atburður í þróun menntunnar íslenskra knattspyrnuþjálfara varð er tveir þjálfarar, þeir Willum Þór Þórsson og Þorvaldur Örlygsson,  fengu inni á UEFA pro námskeið enska knattspyrnusambandsins fyrir tilstuðlan KSÍ. Búast má við að framhald verði á þessu samstarfi KSÍ og enska knattspyrnusambandsins  (FA).
Knattspyrnusamband Íslands tók að sér að borga árgjald evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (AEFCA), 1200 evrur sem er á genginu í dag rúmlega 220.000 krónur.
 
 
 
Aðalstyrktaraðilar KÞÍ eru : N1, Landsbankinn, Lýðheilsustöð og síðast en ekki síst KSÍ og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn og vonum svo sannarlega að samstarfið haldi áfram.
 
 
 
 
Aðrir helstu viðburðir á árinu :
 
Opnuð var ný heimasíða KÞÍ , vefslóðin er www.kthi.is og er síðan nú uppfærð reglulega með fréttum og fróðleik fyrir knattspyrnuþjálfara, upplagt að hafa sem heimasíðu í tölvunum okkar.
KÞÍ lokaði hrunárinu 2008 með glæsibrag er KÞÍ bauð hingað til lands Albert Capellas yfirþjálfara barna- og unglingastarfs Barcelona. Um 80 manns komu til að hlýða á fyrirlestra Alberts og fylgjast með  æfingum hans í Fífunni þann 28. desember og var gerður góður rómur að heimsókn þessari. Við tókum vissulega áhættu með því að fá þjálfara á þessum árstíma og voru ekki allir sem höfðu trú á því að þjálfarar myndu mæta en önnur var raunin.
 
Samvinna KÞÍ og norska þjálfarafélagsins er góð og í samvinnu við félagið fóru þeir  Ásgrímur Helgi Einarsson og Birgir Jónasson á vetrarmánuðum í þjálfaraferð til Englands ásamt norskum knattspyrnuþjálfurum og skoðuðu uppbyggingu barna og unglingaþjálfunar hjá Watford. Nú í haust sátu tveir stjórnarmenn KÞÍ, þeir Kristján Guðmundsson og Þórir Bergsson bikarráðstefnu þeirra í Osló í boði norska þjálfarafélagsins og fylgdust einnig með bikarúrslitaleiknum þar í landi. Úttekt frá þessum ferðum má finna á heimasíðu KÞÍ.
Knattspyrnuþjálfarafélögin á Norðurlöndunum hafa komist að samkomulagi að senda tvo frá hverju landi á merka viðburði á vegum félaganna ár hvert og var Noregur fyrsta landið sem heimsótt var.
 
Þá er að myndast gott samstarf við Sænsku Knattspyrnuakademíuna og halda þeir regluleg námskeið og fyrirlestra í Stokkhólmi opna félagsmönnum KÞÍ ásamt því að möguleiki er fyrir hendi að fá eitthvað af fyrirlsetrum þeirra til Íslands.
 
Til stóð að Janus Guðlaugsson færi á ráðstefnu þýska þjálfarafélagsins í Pforzheim 27 júlí – 29 júlí í sumar. Þýska knattspyrnuþjálfarafélagið býður KÞÍ að senda einn fulltrúa og sér um allt uppihald en því miður þurfti Janus að afþakka boðið á síðustu stundu.
 
Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ fóru á árlega ráðstefnu Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins ( AEFCA ) sem haldin var í Minsk í Hvíta Rúsllandi 24. - 28. október.
Ráðstefnan var mjög vel heppnuð og meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Guus Hiddink landsliðsþjálfari karlaliðs Rússa, Bernd Stange landsliðsþjálfari karlaliðs Hvít Rússa, Gérard Houllier tæknilegur ráðgjafi hjá franska knattspyrnusambandinu og Andy Roxburgh (UEFA).  Skýrslan frá þeim félögum birtist á heimasíðu félagsins um leið og hún verður tilbúin.
 
Stjórn KÞÍ er að vinna í stefnumótunar vinnu fyrir næstu ár og af því tilefni sendi stjórnin spurningalista til félagsmanna KÞÍ. Svörun félagsmanna var með ágætum og er vinna stjórnar enn í fullum gangi varðandi framtíðarmál okkar þjálfara.
 
Stjórn KÞÍ sendi í sumar fyrir hönd félagsmanns síns fyrirspurn til fræðslunefndar KSÍ um einstök atriðisem fram koma í starfsreglum fræðslunefndar KSÍ. Fyrirspurnin og svör við henni má sjá á heimasíðu KÞÍ.  
 
 
Sunnudaginn 28. júní hélt sænskur þjálfari að nafni Eijlert Björkman fyrirlestur í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands. Eijlert Björkman er starfandi þjálfari í unglingaakademíunni hjá IFK Göteborg. Í fyrirlestri sínum fjallaði Eijlert Björkman um hæfileikamótun í unglingaakademíunni hjá IFK Göteborg og hvernig þjálfun unglinga 16-19 ára er háttað hjá félaginu. Eijlert Björkman hélt þennan fyrirlestur í samstarfi KSÍ, Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og UMF Selfoss en hann var á landinu í boði þeirra Selfyssinga.
 
Pauliina Miettinen þjálfari kvennaliðsins Sky Blue frá New Jersey kom til landsins í byrjun nóvember og  stjórnaði opinni æfingu í Fífunni föstudaginn 6. nóvember og hélt í framhaldi fyrirlestur um þjálfun í kvennaknattspyrnu í Smáranum.  Mjög athyglisvert var að fylgjast með Miettinen en að ósekju hefðu fleiri félagsmenn sem starfa við þjálfun kvenna mátt láta sjá sig.
 
Helgina 3. og 4. október stóð Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands og Knattspyrnusamband Íslands sameiginlega að ráðstefnum í tengslum við bikarúrslitaleiki karla og kvenna. Báðar tókust ráðstefnurnar feykilega vel og var margt fróðlegra erinda flutt ásamt innihaldsríkum umæðum um þjálfun í tengslum við viðfangsefni ráðstefnanna og má sjá hluta af fyrirlestrum á heimasíðu KÞÍ, sem er www.kthi.is .
Dagskrá má sjá hér : 
Bikarráðstefnuhelgi KSÍ og KÞÍ
3. – 4. október 2009
Bikarráðstefna karla – laugardaginn 3. október.
10:00     Ávarp formanns KÞÍ:  Sigurður Þórir Þorsteinsson            
10:10     Er hægt að lengja tímabilið á Íslandi með betri umhirðu knattspyrnuvalla og betra grasi?
                Einar Friðrik Brynjarsson grasvallasérfræðingur
10:40     Er íslenska A-landslið karla á réttri leið?  Reynslan af þjálfun liðsins         fyrstu tvö árin.   
                Ólafur Jóhannesson þjálfari A-landsliðs karla
11:20     Kaffi
11:30     Bikarkeppni KSÍ í 50 ár
                Skapti Hallgrímsson
12:00     Liðin í úrslitaleiknum – spáð í spilin
Þjálfarar Fram og Breiðabliks mæta og leggja upp leikinn
Veitingar og miði á völlinn í boði KSÍ og KÞÍ
14:00     Úrslitaleikur VISA-bikars karla þar sem Fram og Breiðablik mætast        
Ráðstefnustjóri:  Jóhann Gunnarsson
 
Bikarráðstefna kvenna – sunnudaginn 4. október.
10:00     Ávarp formanns fræðslunefndar KSÍ:  Ingibjörg Hinriksdóttir
10:10     Munur á þjálfun stúlkna og pilta.
                Þorlákur Már Árnason þjálfari U17 landsliðs kvenna og yfirþjálfari yngri flokka Stjörnunnar.
10:40     Leiðin í úrslit – U19 landslið kvenna. 
                Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari U19 landsliðs kvenna
11:10     Kaffi
11:20     Ísland í lokakeppni EM 2009.
              Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari A-landsliðs kvenna, fræðslustjóri KSÍ.
12:00     Liðin í úrslitaleiknum – spáð í spilin
                Þorkell Máni Pétursson þjálfari mfl.kvenna Stjörnunnar
Þjálfarar Vals og Breiðabliks mæta og leggja upp leikinn
Veitingar og miði á völlinn í boði KSÍ og KÞÍ
14:00     Úrslitaleikur VISA-bikars kvenna þar sem Valur og Breiðablik mætast
Ráðstefnustjóri:  Úlfar Hinriksson
 
 
Lokaorð :
Það eru mörg mál sem koma á borð okkar í stjórn KÞÍ sem hinn almenni félagsmaður veit ekki um. Það eru t.d. mál tengd samningum þjálfara við félög og skuldbindingar þeirra við þjálfara. Ýmiss mál þurfa að fara til lögfræðinga og hefur Brynjar Níelsson reynst okkur mjög vel í þessum efnum sem öðrum sem upp hafa komið.
 
Nauðsynlegt er fyrir KÞÍ að semja siðareglur. Ýmiss mál hafa komið upp, mál þjálfara gagnvart stjórnum, mál milli þjálfara og leikmanna og mál milli félaga. Óvenju mörg slík mál hafa komið upp að undanförnu og telur sú stjórn sem nú situr að það sé eitt af forgangsverkefnum nýrrar stjórnar að semja siðareglur fyrir félagið.
 
Annað stórt verkefni nýrrar stjórnar er undirbúningur stórafmælis félagsins á næsta ári en þá verður félagið hvorki meira né minna en 40 ára. Það verður nauðsynlegt að vekja athygli á starfi þjálfarans og starfsumhverfi og síðast en ekki síst á Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands.  
Vonandi verður hægt að hafa spennandi viðburði á árinu og veglega veislu.
Að lokum vill stjórn KÞÍ þakka þeim þjálfurum og styrktaraðilum sem hafa stutt félagið í blíðu og stríðu og ekki síst KSÍ sem hefur stutt félagið vel undanfarin ár og vonum við svo sannarlega að það verði áfram en Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands er eina félagið sem er fyrir þjálfara á Íslandi, engin önnur íþróttagrein hefur slíkt félag.
Jóhann Gunnarsson sem verið hefur í stjórn KÞÍ undanfarin ár með árs hléi gefur ekki kost á sér áfram og þökkum við honum kærlega fyrir vel unnin störf fyrir félagið.
 
F.h. Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands      
Sigurður Þórir þorsteinsson
Formaður                          
 
 
 

Samstarfsaðilar