Fréttir


Teiður Þórðarson - þjálfarinn sem aldrei hættir

15-03-2010
Teitur er Íslendingurinn og þjálfarinn sem hefur níu líf. Eftir mörg ár sem þjálfari í efstu deildum Noregs og Íslands , tók hann þeirri áskorun að flytja til BNA og taka við þjálfun NASL félagsins Vancouver Whitecaps FC fyrir brátt þremur árum síðan. Teiti líkar vel við knattspyrnuhefðina í Bandaríkjunum.  Viðtal við Teit er í nýjasta tölublaði norska knattspyrnuþjálfarafélagsins og birtist hér með góðfúslegu leyfi Teits og norska knattspyrnuþjálfarfélagsins í lauslegri þýðingu Guðbjarts Jónssonar.
„Ég er búinn að vera „head coach“ , eða yfirþjálfari, hér í tvö ár og er búinn að framlengja samninginn um eitt ár til viðbótar. Árangurinn á þessum tveimur árum hefur verið mjög góður , þar sem við unnum deildina 2008 og komumst í úrslitaleikinn í úrslitakeppninni 2009. Ég hef verið heppinn og það hefur verið mjög gaman að upplifa þennan árangur hjá félagi sem er á meðal þeirra stærstu og sögufrægustu í Norður Ameríku“
Teddy Moen hitti Teit á hinni árlegu NSCAA-ráðstefnu fyrir knattspyrnuþjálfara í Fíladelfíu í janúar síðastliðnum. Teddy segir það  eðlislægt hjá Teiti að fara á slíkar samkomur þar sem samstarfsfélagar í knattspyrnuþjálfun hittast, þar sem hann fær innblástur og nýjar hugmyndir fyrir sína eigin þjálfun.
Mikill munur
„Munurinn á að vera þjálfari hér og í Noregi er ekki ýkja mikill inni á sjálfum vellinum, en það er í nánasta umhverfi sem munurinn liggur. Öll vinna hjá félaginu er gríðarlega fagleg og félagið er stórt um sig með um 50 manns bara í skrifstofu- og stjórnunarstöfum ! Starfsfólkið er mjög fært hvert á sínu sviði og mér finnst það vera forréttindi að vera hluti af slíku umhverfi. Leikmennirnir eru jafnframt áhugasamir um að læra meira og verða góðir knattspyrnumenn “ 
Á undanförnum árum höfum við kynnst betur knattspyrnunni í BNA  en það eru ekki allir sem vita að það eru fleiri en ein deild með alvöruliðum ?
„Munurinn á MLS (Major League Soccer) og NASL (North American Soccer League)  er ekki svo mikill, hann er  fyrst og fremst fjárhagslegur. Þar fyrir utan hefur MLS fleiri stjörnur, eins og Beckham og Ljungberg ásamt vel þekktum leikmönnum frá Suður-Ameríku og Mexíkó. Gæðin í deildinni okkar (NASL) eru þó furðu mikil. Hér áður voru þetta tvær aðskildar deildir þar sem má segja að þau félög sem ekki höfðu nægt fjármagn til þess að spila í MLS , spiluðu í NASL. Það er í fyrsta skipti nú í ár sem báðar þessar deildir falla undir stjórn USSF (United States Soccer Federation) eða Knattspyrnusamband Bandaríkjanna. Það er hvorki hægt að falla úr deild eða spila sig upp um deild þannig að ef þú vilt spila í MLS að þá þarftu að „kaupa“ sæti í deildinni. Eigandi okkar félags hefur nú keypt sæti í deildinni og Vancouver spilar því í MLS frá og með tímabilinu 2011. Þetta sæti í deildinni kostaði eigandann 40 milljón dollara!“
Hörkuvinna
Teitur segir að liðið spili leiki um öll Bandaríkin og alveg niður í Karíbahafið. Lengsta ferðin í útileik er til Púertó Ríkó. Það ferðalag tekur um 14 klukkustundir með klukkutíma millilendingu í Dallas og það er ekkert lúksuslíf sem hann lifir sem knattspyrnuþjálfari í BNA. „Ég legg af stað klukkan 8 frá heimili mínu til æfingasvæðisins og hitti leikmennina þar klukkan 9:30. Þá förum við yfir verkefni og æfingu dagsins sem hefst síðan klukkan 10:00 og er yfirleitt búin kl: 12:00. Þá held ég stuttan fund með leikmönnum áður en ég keyri frá æfingasvæðinu inn í miðborg Vancouver þar sem skrifstofur félagsins eru til húsa. Þar er ég framundir kl 17:00 er ég held heim á leið. Tvo daga í viku,þriðjudaga og fimmtudaga,æfum við tvisvar á dag og þá fer ég yfirleitt heim eftir seinni æfinguna. Þegar keppnistímabilið er í gangi  þá breytist æfingaáætlunin sífellt enda erum við meira og minna á ferðalögum tengda leikjunum. Þá er það mjög krefjandi að finna rétta jafnvægið á milli leikja, ferðalaga og hvíldar því við verðum að taka með í reikninginn að við fljúgum í gegnum mismunandi tímabelti og stundum spilum við leiki í gríðarmiklum hita“
Eigin Akademía
 
Teitur segir okkur einnig frá því að félagið er ekki einungis með úrvalsdeildarlið. Nú er verið að byggja félagið upp í takt við það hvernig félögin í Evrópu vinna hlutina. „Félagið hefur nú komið á laggirnar mjög faglegri knattspyrnuakademíu með 20 ungum og efnilegum leikmönnum á aldrinum 16 – 19 ára frá ólíkum heimshornum. Yfirþjálfari akademíunnar er Þjóðverjinn Thomas Niendorf. Við erum jafnframt með æfingahóp 15-16 ára leikmanna ásamt fjöldan allan af yngri flokkum. Við erum líka með þjálfara, Hollendinginn Bart Chaufour , sem sér um tækniþjálfun hjá efnilegum leikmönnum okkar. Við erum líka með kvennaflokka hluta af árinu, þar sem unnið er mjög faglega. Ég er með frábært fólk mér til aðstoðar ; tvo aðstoðarþjálfara, markmannsþjálfara (sem hefur þjálfað hjá Arsenal m.a.) tvo sjúkraþjálfara,nuddara, næringarfræðing, sálfræðing,  bæklunarlækni ásamt tveimur venjulegum læknum. Þessu til viðbótar er forsvarsmaður liðsins og tveir búningastjórar“
Teitur segir að þjálfunin fari aðeins öðruvísi fram hér en í Noregi , hér er meira verið að þjálfa einstaklinginn heldur en skipulag liðsins eins og í Noregi. Þess vegna vill hann meina að leikskipulag liðanna í BNA sé ekki eins gott og hann er vanur frá liðunum í Noregi.   En, eins og hann segir, það gerir leikinn opnari og sóknarsinnaðri. Það er pláss fyrir leikmenn að sýna skemmtilega takta og skemmta áhorfendum.
Framtíðin opin
„Ég sakna þess að liðin geti ekki fallið eða komist upp um deild og spennunar sem því fylgir. Framtíð fótboltans hérna er jákvæð og áhuginn fyrir fótboltanum eykst sífellt. Hér eru líka margir „ríkir frændur“ sem elska fótbolta og eru góðir í viðskiptum. Slíkt hefur úrslitaáhrif í landi eins og BNA“
Teitur hefur enn mikinn metnað sem knattspyrnuþjálfari og segir að reynslan sem hann hefur fengið af tíma sínum í BNA skipti miklu fyrir hann á allan hátt. Hvað gerist þegar samningur hans rennur út í lok þessa tímabils er hann ekki viss um en hann hefur vissulega áhuga fyrir því að fylgja liðinu inn í MLS deildina árið 2011. 
„Ég hef fengið mörg áhugaverð tilboð þennan tíma sem ég hef verið að þjálfa hér í BNA en við skulum sjá til með hvað gerist. Mér leið mjög vel í Noregi og ég lít á það sem heimili mitt þegar ég á börn og barnabörn sem búa þar. Ég á ennþá íbúð í Osló þar sem ég hélt upp á Jólin í fyrra og þar sem ég tengist Noregi mjög sterkt að þá er líklegt að ég snúi þangað aftur. Og hver veit , kannski á ég eftir að þjálfa Norskt lið aftur“ 

Samstarfsaðilar