Fréttir


Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendi bréf til Leyfisráðs KSÍ

16-03-2010
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sendi bréf til Leyfisráðs KSÍ þar sem KÞÍ vildi vekja athygli leyfisráðs á því að nokkurrar óánægju gætir á meðal þjálfara í efstu deildum karla og hjá þjálfurum með tilskilin réttindi til þess að þjálfa í efstu deildum.  
 
 
 
Réttindi sem þeir hafa hlotið með námi hjá Fræðslunefnd KSÍ, en nýlegar ráðningar á þjálfurum í efstu deildum fyrir komandi tímabil hafa valdið vonbrigðum þeirra á meðal.   Er þar um að ræða ráðningar á þjálfurum sem hafa ekki þau réttindi sem til þarf samkvæmt Leyfiskerfi KSÍ. Að auki eiga viðkomandi þjálfarar ekki möguleika á að sækja sér slík réttindi á næstu 12 mánuðum eftir ráðningu.
 
Hafa meðlimir í KÞÍ komið þeim skilaboðum á framfæri við stjórn KÞÍ að óviðunandi sé að félög brjóti með þessum hætti reglur Leyfiskerfisins.
 
Á undanförnum árum hafa félög komist upp með þessi vinnubrögð og notað svokallaða "leppa" eða hreinlega greitt smánarlega lágt sektargjald til þess að hafa þessa þjálfara áfram í vinnu.
 
Nokkrir af okkar helstu þjálfurum hafa undanfarið látið hafa það eftir sér að það virðist ekki skipta neinu máli hvaða réttindi þú hefur áunnið þér sem þjálfari, og að þeir geti hugsað sér fara ekki á endur-menntunarnámskeið til þess að viðhalda réttindum sínum, þar sem menntunin er nánast hunsuð af viðkomandi félögum og þá Leyfisnefnd í framhaldi. Þjálfarar fái störfin þótt þeir hafi ekki menntunina eða tilskilin leyfi til þess.
 
Það er nokkuð sérstakt að Leyfisnefnd skuli bíða með það fram í febrúar/mars, u.þ.b. fimm til sex mánuðum eftir að viðkomandi þjálfararáðning á sér stað, að hugsanlega gera athugasemd við ráðninguna þar sem hún samræmist ekki leyfiskerfinu. Hvað eiga félögin að gera þá ?
 
Á undanförnum árum hefur orðið bylting í menntunarmálum íslenskra knattspyrnuþjálfara og vel menntaðir þjálfarar með fullgild þjálfararéttindi skipta nú tugum og hundruðum.
 
Stjórn KÞÍ lýsir miklum áhyggjum vegna þeirrar staðreyndar að íslensk félagslið virðast ekki telja sig skuldbundin til fylgja eftir leyfiskerfi KSÍ þegar kemur að menntun þjálfara sinna. Því skorar KÞÍ á stjórn KSÍ að endurskoða reglur sem lúta að réttindum knattspyrnuþjálfara til starfa í efstu deildum, og/eða endurskoða sektarákvæði leyfiskerfisins og styðja þar með aukna menntun þeirra í verki.
 
f.h. KÞÍ
Sigurður Þórir Þorsteinsson
Formaður
 
 
 
 

Samstarfsaðilar