Fréttir


Steinar Ingimundarson þjálfar áfram Keflavíkurkonur

26-10-2010
Steinar Örn Ingimundarson verður áfram þjálfari kvennaliðs Keflavíkur en á vef félagsins kemur fram að hann hafi skrifað undir framlengingu á samningi sínum á föstudag sem gildi út tímabilið 2011.

Þar kemur einnig fram að báðir aðilar höfðu lýst yfir vilja til áframhaldandi samstarfs og hafði samkomulag þar um verið handsalað nokkru áður.

,,Því mun framhald verða á þeirri gríðarlega góðu uppbyggingu sem Steinar hefur staðið að með liðinu á nýliðnu tímabili þar sem mjög góður árangur náðist. Liðið er mjög ungt en uppbyggingin gengur vel og stelpurnar okkar eru orðnar mjög öflugar og styrkjast enn," segir á vef félagsins.

Að sögn Andrésar Hjaltasonar formanns kvennaráðs þá höfðu önnur félög falast eftir Steinari, en hann hafði gert munnlegt samkomulag við félagið um framhald og það stóð.

,,Við kunnum að meta fólk sem stendur við orð sín það er ekki sjálfgefið nú á dögum," sagði hann.

Lið Keflavíkur leikur annað árið í röð í 1. deild kvenna á komandi leiktíð en liðið komst í undanúrslit í sumar.

Samstarfsaðilar