Fréttir


Ásmundur áfram með Fylki - Reynir aðstoðarþjálfari

09-10-2014
Ásmundur Arnarsson mun halda áfram sem þjálfari Fylkis næstu árin en hann skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við félagið í dag. Ásmundu r var að klára þriggja ára samning og nú er ljóst að hann verður áfram í Árbænum. 
 
Reynir Leósson, fyrrum varnarmaður ÍA, mun verða aðstoðarmaður Ásmundar en hann skrifaði einnig undir þriggja ára samning hjá Fylki í dag. 
 
 
Fréttatilkynning Fylkis: 
Ásmundur Arnarsson skrifaði undir nýjan þriggja ára samning sem þjálfari meistaraflokks karla. Ásmundur tók við Fylki á haustmánuðum 2011 eftir að hafa stýrt Fjölnismönnum sjö ár þar á undan. Ásmundur hefur stýrt Fylkisliðinu undanfarin þrjú ár í Pepsi deildinni. Undir hans stjórn endaði Fylkir í 7. sæti tímabilin 2012 og 2013, en voru hársbreidd frá því að landa Evrópusæti á nýliðnu tímabili þar sem 6. sætið varð að lokum niðurstaðan. 
 
Reynir Leósson skrifaði undir þriggja ára samning sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og verður þetta hans fyrsta þjálfaraverkefni. Reynir er vel þekktur í knattspyrnuheiminum á Íslandi og hefur undanfarin ár starfað sem sérfræðingur um Pepsi deildina á Stöð 2 Sport. Reynir þekkir einnig ágætlega til Fylkis þar sem hann hefur setið í barna og unglingaráði félagsins um hríð. Sem leikmaður lék hann lengst af með uppeldisfélagi sínu ÍA þar sem vann Íslandsmeistaratitil og 2 bikarmeistaratitla. Þá lék hann einnig með Fram, Val, Víkingi R. og Trelleborg í Svíþjóð. 
 
Knattspyrnudeild Fylkis lýsir yfir mikilli ánægju með þessa ráðningu og væntir mikils af samstarfi þeirra Ásmundar og Reynis. Knattspyrnudeild vill einnig þakka Hauki Inga Guðnasyni fyrir hans störf hjá meistaraflokknum en hann hefur verið aðstoðarmaður Ásmundar síðastliðinn þrjú ár. Hann mun áfram gegna mikilvægu hlutverki hjá félaginu sem afreksþjálfari og yfirþjálfari yngri flokka. Einnig þökkum við Halldóri Björnssyni aðstoðar-og markmannsþjálfara sem lætur af störfum eftir eitt ár þar sem hann mun hverfa til annarra starfa.
 

Samstarfsaðilar