Fréttir


Jörundur Áki tekur við kvennaliði Fylkis

09-10-2014
Jörundur Áki Sveinsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Fylkis en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag. 
 
Ragna Lóa Stefánsdóttir hætti með Fylki á dögunum eftir tveggja ára starf og Jörundur Áki hefur nú tekið við stjórnvölunum. 
 
 
Fréttatilkynning frá Fylki 
Jörundur Áki Sveinsson skrifaði undir þriggja ára samning sem þjálfari meistaraflokks kvenna. Jörundur hefur þjálfað lið BÍ/Bolungarvíkur í 1.deild karla undanfarin þrjú ár með prýðilegum árangri. Þar áður var hann aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar hjá FH frá 2008-2010. Jörundur hefur einnig talsverða reynslu af þjálfun kvennaliða þar sem hann hefur þjálfað kvennalið Stjörnunnar og Breiðabliks og stýrði A-landsliði kvenna í tvígang fyrst frá 2001-2003 og síðan 2005-2006. 
 
Þóra Björg Helgadóttir skrifaði undir þriggja ára samning sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna. Þóra gekk til liðs við Fylki í júlí síðastliðnum og spilaði seinni hluta tímabilsins í Pepsi deildinni. Hún er ein farsælasta knattspyrnukona Íslands frá upphafi og hefur spilað í Noregi, Svíþjóð, Belgíu og Ástralíu og þar áður með Breiðabliki og KR á Íslandi. Þá á hún að baki 108 leiki með íslenska kvennalandsliðinu. 
 
Möguleiki er á að Þóra muni leika áfram með Fylki samhliða þjálfun en það mun skýrast síðar. 
 
Knattspyrnudeild Fylkis lýsir sömuleiðis yfir mikilli ánægju með ráðningu þjálfara í meistaraflokki kvenna og telur að framtíðin í Fylki sé björt undir stjórn öflugra þjálfara.
 

Samstarfsaðilar