Fréttir


Skýrsla stjórnar KÞÍ 2014

13-11-2014
Á síðasta aðalfundi sem haldinn var 21 .nóvember 2013 í fræðslusetri KSÍ var kosin stjórn sem skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundinum á starfsárinu.
 
Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Kristján Guðmundsson varaformaður, Daði Rafnsson ritari, Ómar Jóhannsson gjaldkeri og Theódór Sveinjónsson meðstjórnandi. Í varastjórn voru kosnir Halldór Þorvaldur Halldórsson og Davíð Snorri Jónasson. Á starfsárinu voru haldnir sex stjórnarfundir auk fjölmargra funda þar sem hluti stjórnar hittist og fór yfir ýmis mál.
 
Fjárhagur félagsins stendur ágætlega og í ár hafa 232 greitt árgjaldið sem við erum mjög stolt af. Árgjaldið er 4000 krónur.  Að sjálfsögðu viljum við að fleiri greiði árgjaldið og hafa komið fram ýmsar hugmyndir til að fjölga þeim sem gera það.  Stjórn KÞÍ hefur verið vakandi fyrir því að fylgjast með þjálfararáðningum hjá félögunum til að fá inn nýja félagsmenn og höfum við verið í góðu sambandi við landshlutatengiliðina sem hafa reynst okkur mjög vel.
 
Oft höfum við látið eitthvað fylgja með árgjaldinu en síðustu tvö ár ákváðum við að gera það ekki.  Í ár fylgir hins vegar glæsileg húfa með sem líka er hægt að nota sem góða vörn fyrir kulda á hálsinn.  Það vill svo skemmtilega til að hún er á leiðinni til ykkar í pósti og verður væntanleg heim til ykkar á næstu dögum.
 
Við höfum átt mjög gott samstarf við KSÍ og ekki síst fræðslunefnd sambandsins undanfarin ár og er það mjög mikilvægt fyrir okkar félag.  Knattspyrnusamband Íslands tók að sér að borga árgjald evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (AEFCA) eins og undanfarin ár, samtals 1500 evrur sem gera um 230.000 íslenskar krónur og munar okkur mjög mikið um það í svona litlu þjálfarafélagi eins og við erum. Þökkum við KSÍ kærlega fyrir stuðninginn.
  
Aðalstyrktaraðilar KÞÍ eru : N1 og  KSÍ og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn og vonum svo sannarlega að samstarfið haldi áfram.
 
Ráðstefna AEFCA, evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, var haldin í Antalya í Tyrklandi  1. - 5. desember 2013.  Fyrir hönd Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands sóttu Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ , Kristján Guðmundsson varaformaður KÞÍ og Ómar Jóhannsson gjaldkeri KÞÍ ráðstefnuna.  Undir liðnum fróðleikur á heimasíðunni má sjá skýrslu þeirra félaga frá ráðstefnunni.

Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ flutti ávarp á síðasta ársþingi KSÍ sem haldið var á Akureyri á afmælisdegi formanns KÞÍ, 15. febrúar.  KÞÍ hefur markvisst stefnt að því undanfarin ár að minna á sig á ársþingi KSÍ og höfum við oftast náð því á um tveggja ára fresti, hefur formaður KÞÍ reyndar flutt ávarp tvö síðustu ár.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stóð  fyrir tveimur fundum í desember.  Tilgangurinn var  að draga fram álit þjálfara og hagsmunaaðila í mismunandi  aldursflokkum, rýna til gagns og lagðar fram þrjár ályktanir  til KSÍ í kjölfarið.
 
Áherslur í keppni 4. og 5. flokka karla og kvenna.
a) Rætt var um hvort taka eigi upp 9 gegn 9, á hvaða aldri og hvernig keppnisfyrirkomulagið eigi að vera. Til hliðsjónar voru menn beðnir um að kynna sér nýlegar skýrslur DBU.
b) Hvaða breytingar mætti gera á keppnisfyrirkomulagi í 4. og 5. flokki. ABCD flokkun, úrslitakeppnir, leikjaálag, árgangaskipting o.fl.
Keppnisfyrirkomulag í knattspyrnu kvenna – 3. flokkur - Meistaraflokkur.
a) Rætt var um hvort breyta eigi aldursflokkasamsetningu, hvort grundvöllur sé fyrir 1. flokki eða U23 keppni.
b) Rætt verður um hvort bæta eigi við deild í meistaraflokki.   
c) Á að setja strangari reglur um álag á leikmönnum á þessum aldri eða ekki?

Samþykkt var eftirfarandi ályktun frá KÞÍ.
Nýleg skýrsla Evrópska knattspyrnusambandsins um stöðu kvennaknattspyrnu gefur til kynna að iðkendum hefur fækkað á Íslandi undanfarin ár. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands hvetur KSÍ til að gera vandaða úttekt á raunverulegum fjölda iðkenda og í framhaldinu setja fram aðgerðir til að snúa við þessari þróun.
 
Samþykkt var eftirfarandi ályktun frá KÞÍ.
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands hvetur KSÍ til að skoða vel hvort taka eigi upp reglur sem takmarka hlutgengi leikmanna yngri en tuttugu ára í keppnisleikjum kvennaflokka á vegum KSÍ. Tilgangurinn er að sporna við álagi á unga leikmenn sem geta verið að spila með 2-3 flokkum á sama keppnistímabili. Horfa skuli til aðgerða nágrannaþjóða í þessum efnum, til dæmis skoða reglur sem Danir hafa um að leikmaður sem spili leik með 2. flokki megi ekki spila næsta leik með 3. flokki.
 
Samþykkt var eftirfarandi ályktun frá KÞÍ.
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands fagnar nýbreitni sem Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur tekið upp varðandi skilyrði í samningum starfsmanna, þjálfara og leikmanna um að þeir veðji ekki á leiki félagsins, né samstarfsfélaga á borð við Augnablik.   KÞÍ telur þetta vera gott framtak sem önnur félög geta tekið sér til fyrirmyndar.
 
 Í tengslum við úrslitaleik í Borgunarbikarkeppni karla  þann 16 ágúst stóðu Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands fyrir ráðstefnu.  Aðalfyrirlesarar voru Lars Lagerback, annar þjálfari A-landsliðs karla og landi hans, Björn Andersson.  Lars fjallaði um hvernig maður setur saman lið sem þarf að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi og stýrði  síðan  æfingu þar hann vann með  efnið.  Björn  fjallaði um reynslu sína í FC Bayern München en hann var yfirþjálfari yngri flokka þar í fjölda ára og gaf hann góð ráð varðandi þjálfun yngri leikmanna og stýrði æfingu sem tengdist viðfangsefninu.  Þátttaka á ráðstefnunni gaf  7 tíma í endurmenntun KSÍ A (UEFA A) og KSÍ B (UEFA B) þjálfara.
 
Dagskrá, laugardaginn 16. ágúst:
9:00       Ávarp formanns KÞÍ - Sigurður Þórir Þorsteinsson
9:10       Hvernig setur maður saman lið sem þarf að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi – Lars Lagerback (Bóklegt)
10:00     Þjálfun yngri leikmanna – leið FC Bayern München - Björn Andersson (Bókleg)
11:00     Matarhlé
11:45     Lars Lagerback (Verklegt)
13:00     Björn Andersson (Verklegt)
14.15     Fjallað um liðin sem leika til úrslita
14:30     Þjálfari liðanna sem leika til úrslita spjalla um leikinn og undirbúning
15:00     Ráðstefnuslit
16:00     Úrslitaleikur Borgunarbikars karla
 
  
Jaime Torcal unglingaþjálfari frá Real Madrid hélt fyrirlestur um unglingastarf félagsins sunnudaginn 17. ágúst í Smáranum. Torcal sem vinnur með yngri flokkum Evrópumeistaranna var jafnframt  með tvær verklegar æfingar þar sem unnið var m.a. með  að klára sóknir eftir að boltinn vinnst.  Þátttaka á ráðstefnunni gaf  6 tíma í endurmenntun KSÍ A (UEFA A) og KSÍ B (UEFA B) þjálfara.
Var það mál manna að báðar þessar ráðstefnur hafi tekist mjög vel og þjálfarar almennt mjög ánægðir með það sem fram fór á þeim, ýmsir höfðu á orði að maturinn á bikarúrslitaráðstefnunni hafi verið sérstaklega góður í ár.
 
Farin var fræðsluferð til Þýskalands 23. - 26. október á vegum KÞÍ.
Sautján þjálfarar heimsóttu  þýsku félögin  Borussia Dortmund og Mainz 05 þar sem fylgst var með æfingum yngri liða félaganna sem og meistaraflokka og félögin buðu upp á fyrirlestra um starf sitt. Jafnframt sá hópurinn viðureign  Borussia Dortmund og Hannover 96 Í þýsku Bundesligunni. Um var að ræða ferð sem sett var upp fyrir þá sem vilja kynna sér elítuþjálfun unglinga (14 - 19 ára). KÞÍ ráðgerir að setja upp fleiri ferðir á næstu misserum fyrir aðra markhópa, t.d. barnaþjálfun eða þjálfun meistaraflokka.  Þátttaka í ferðinni  gaf  15 tíma í endurmenntun KSÍ A (UEFA A) og KSÍ B (UEFA B) þjálfara.

Á heimasíðu KÞÍ höfum við kappkostað að segja frá því þegar þjálfarar eru ráðnir til starfa sem og þegar þeir hætta störfum, þ.e. þegar við höfum fregnir af því.  Þegar þjálfarar hafa hætt á tímabili eða við höfum frétt af erfiðum starfslokum höfum við í stjórn KÞÍ haft samband við þjálfara.  Oft eru þjálfarar einmanna í starfi og höfum við áþreifanlega orðið varir við hvað þeim finnst gott að vita af okkur og geta talað við okkur um starfslok sín, hvort gengið hafi verið sómasamlega frá starfslokunum og hvernig þeir sjá framhaldið.  Höfum við fengið mikið hrós frá þjálfurum fyrir þetta. 

Eins og fram kom á seinasta aðalfundi KÞÍ  hefur stjórn félagsins, í samvinnu við lögfræðing, verið að vinna að gerð samninga knattspyrnuþjálfara við íþróttafélögin. Samningurinn  liggur nú fyrir og er í yfirlestri hjá fagaðilum innan íþróttahreyfingarinnar.  Líklegt er að samningurinn verði fljótlega kynntur félagsmönnum á heimasíðu félagsins.

Í vinnslu er að setja upp teymi til að aðstoða félagsmenn í erfiðum málum sem upp koma í þjálfarastarfinu.   Hugmyndin er að teymið skipi tveir fulltrúar úr stjórn KÞÍ ásamt trúnaðarmönnum, lögfræðingi og sálfræðingi. Málefnin geta verið misjöfn eins og t.d. foreldrasamskipti, hegðunarvandamál,  o.sfrv.
 
Enn og aftur langar okkur að segja frá því hversu gott og mikilvægt samstarf okkar við KSÍ er bæði faglega og fjárhagslega. Þegar félagið var stofnað árið 1970 þá var einn aðaltilgangur félagsins að bæta þjálfaramenntun í landinu og var stundum mikill ágreiningur á milli KÞÍ og KSÍ um hvernig ætti að standa að henni.  Nú er það svo að þjálfaramenntun hjá KSÍ er til mikillar fyrirmyndar en við höldum að sjálfsögðu áfram því hlutverki okkar að benda á hvað má betur fara, hvaða námskeið væri æskilegt að halda miðað við stöðu mála í þjálfaramenntun hverju sinni og erum óhikað áfram í góðu samstarfi við KSÍ  með námskeið og ráðstefnur.  Í dag er þjálfaramenntun í landinu á mjög háu stigi og í góðum málum og eigum við þjálfara á öllum stigum, UEFA pro, KSÍ A og KSÍ B þjálfara. Þorum við að fullyrða að þjálfun almennt er betri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum fram að 16 ára aldri. Hefur árangur landsliða Íslands vakið mjög mikla athygli og sérstaklega árangur A landsliðs karla og hafa forsvarsmenn liðsins verið duglegir að segja í viðtölum frá því hversu vel KSÍ hefur staðið sig í þjálfaramenntun og það er lykillinn að góðum árangri okkar.  Núna snýst þetta mikið um að við bendum fræðslunefnd KSÍ á atriði sem okkur finnst að þurfi að bæta og vinnum sameiginlega að ýmsum viðburðum eins og t.d. bikarúrslitaráðsefnum og að fá þjálfara hingað til lands og vera með fyrirlestra og æfingar.
 
Erlent samstarf hefur verið með ágætum hjá félaginu og eigum við mjög gott samstarf við Norðurlandaþjóðirnar og þá sérstaklega Norðmenn en við erum með samkomulag við þá um að mega senda þjálfara á viðburði sem þeir standa fyrir erlendis. Þýska knattspyrnuþjálfarafélagið býður KÞÍ að senda einn fulltrúa á árlega ráðstefnu sína og sér um allt uppihald. Í ár fór Daði Rafnsson á ráðstefnuna sem haldin var í Mannheim 28. - 30. júlí í sumar. Greinargerð frá Daða er á heimasíðu KÞÍ undir fræðsla. Breytingar urðu á stjórn evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (AEFCA)  þar sem formanns og framkvæmdastjóraskipti urðu og í kjölfarið sett upp nýtt skipurit.  Formaður er nú Walter Gagg og nýr framkvæmdastjóri er Philip J Muller en báðir eru Svisslendingar.  Sjá má allar nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins, www.aefca.eu
  
Við höfum áður sagt frá lávarðadeildinni sem við stofnuðum en þar eru þjálfarar sem hætt hafa störfum en hittast t.a.m í kringum leiki í efstu deild karla og hefur starf deildarinnar verið í þróun undanfarin ár. Eru forsvarsmenn deildarinnar ávallt boðnir og búnir að gera það sem við biðjum þá um að gera og er mjög gott og mikilvægt fyrir okkur að geta átt tækifæri til að leita til þeirra í allan reynslubanka þeirra.
 
Einn stjórnarmaður KÞÍ hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram til stjórnarsetu en það er Ómar Jóhannsson  sem hefur verið í stjórn KÞÍ og sinnt stöðu gjaldkera í 16 ár. Við þökkum Ómari kærlega fyrir frábær störf fyrir félagið og vonumst að sjálfsögðu til þess að hann vinni áfram að vegferð knattspyrnuþjálfunar á Íslandi sem við erum sannfærð um að hann geri áfram.
 
Að lokum langar okkur til að þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn við félagið og vonumst að sjálfsögðu til þess að hann haldi áfram og hvetjum ykkur eindregið til að hafa samband við okkur ef það eru einhverjar ábendingar sem þið hafið um hvað má betur fara í starfi okkar.
 
F.h. stjórnar KÞÍ
Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ
 
 

Samstarfsaðilar