Fréttir


Fræðsluferð Færeyska þjálfarafélagsins til Íslands

08-04-2015
Dagana 27 – 30. mars síðastliðinn komu þjálfarar á vegum Færeyska þjálfarafélagins hingað til lands í fræðsluferð. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast íslenskum fótbolta sem mest á öllum stigum og kynna sér nánar uppganginn sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hér á landi.  Þjálfararnir voru 15 talsins og mátti finna í hópnum landsliðsþjálfara, meistaraflokksþjálfara og yngri flokka þjálfara en allir starfa þeir í Færeyjum.
 
 
 
Hópurinn lenti föstudaginn 27.mars og héldu strax í höfuðstöðvar KSÍ þar sem Arnar Bill fræðslustjóri fræddi hópinn um uppganginn í íslenskri knattspyrnu og hvernig við byggjum upp þjálfun í landsliðum og yngri flokkum. 
 
Stjarnan voru næsti viðkomustaður og þar tók Þórhallur Siggeirsson yfirþjálfari Stjörnunnar á móti hópnum. Þórhallur fór yfir yngri flokka starf Stjörnunnar og leyndarmálið Stjörnunnar á bak við það að skila mörgum góðum leikmönnum upp í meistaraflokk á ná árangri á sama tíma í karla og kvennaflokki. Hópurinn horfði því næst á æfingar hjá yngri flokkum meistaraflokkum félagins.  Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari meistaraflokksþjálfari karla í Stjörnunni svaraði að lokum spurningum um starf sitt sem þjálfari meistaraflokks og Stjörnuliðið almennt. Dagurinn endaði á því að hópurinn fór saman í Egilshöllina og horfði á leik KR og FH í Lengjubikar kvenna.
 
Laugardagurinn 28.mars byrjaði snemma en hópurinn var mættur 10.30 á Leiknisvöll þar sem planið var að að horfa á Meistaraflokk Leiknis æfa ásamt því að fá fræðslu um Íþróttafélagið Leikni en Leiknismenn náðu þeim merka áfanga að komast í Pepsi deild karla í fyrsta skipti í sögu félagsins. Davíð Snorri Jónasson annar af þjálfurum Leiknis fór yfir skipulagt Afreksstarf félagins ásamt því að fræða þá um hvernig skipulag þjálfunar og leiðin að Pepsi deildar sætinu var unnin.
 
Hópurinn fór út að borða um kvöldið ásamt meðlimum úr Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ sat fyrir svörum og fræddi frændur okkar um starf KÞÍ ásamt því að umræða um fótbolta fór fram langt fram eftir kvöldi.
 
Grindavík var viðkomustaður hópsins á sunnudeginum. Óli Stefán Flóventsson þjálfari hjá Grindavík tók á móti hópnum og ræddi við hópinn hvernig bæjarfélag eins og Grindavík hefur náð að halda úti góðu fótboltaliði í mörg ár og skilað leikmönnum í atvinnumennsku og landslið. Eftir fyrirlestur Óla horfði hópurinn á æfingu hjá 2.flokki sem Milan Stefán Jankovic stýrði. Grindvíkingar eru höfðingjar heim að sækja og að lokinni formlegri dagskrá var hópnum boðið í mat og í Bláa Lónið.
 
Mánudagurinn hófst snemma enda heimferð seinni partinn. Daði Rafnsson yfirþjálfari hjá Breiðabliki tók á móti hópnum í Smáranum. Viðfangsefnið var að kynnast því mikla starfi sem unnið er í Breiðablik og hvernig þjálfun er háttað hjá félaginu. Breiðablik hefur verið með leiðandi yngra flokka starf undanfarin ár og skilað mörgum leikmönnum í atvinnumennsku og í meistaraflokk félagins karla og kvenna megin.
 
Að loknum fyrirlestri Daða horfði hópurinn á Hæfileikamótun KSÍ sem fór fram í Fífunni þennan dag og fékk að ræða við Halldór Björnsson yfirþjálfara yfir verkefninu og þjálfara U17 ára landsliðs Íslands. 
Sigurður Þórir formaður KÞÍ kvaddi loks hópinn með léttri ræðu áður en hópurinn hélt aftur heim til Færeyja.
 
Hópurinn var mjög ánægður með heimsókn sína til landsins og þakklátir fyrir það að sjá nánast alla flóruna sem boðið er upp á í íslenskri knattspyrnu. KÞÍ skipulagði ferð hópsins til landsins ásamt KSÍ. Viljum við þakka félögunum fyrir frábær viðbrögð og fagleg vinnubrögð í þessari heimsókn Færeyska knattspyrnuþjálfarafélagins.
 

Samstarfsaðilar