Fréttir


Peningar spila inn í þjálfarabrottrekstra

23-07-2015
ÍBV var í gær fjórða liðið í Pepsi-deild karla í sumar sem skiptir um aðalþjálfara en Ásmundur Arnarsson var þá ráðinn þjálfari liðsins eftir að Jóhannes Harðarson hætti vegna veikinda í fjölskyldunni.  Þrjú félög hafa rekið þjálfara sinn í sumar og formaður Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands telur að peningar vegi þungt í því. 
 
Þrír reknir
Keflavík var fyrsta liðið til að gera breytingar þegar félagið rak Kristján Guðmundsson þann 4. júní. Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson tóku við Keflvíkingum. Sjötta júlí rak Fylkir Ásmund Arnarsson úr starfi sem þjálfara og Hermann Hreiðarsson var ráðinn í stað Ásmundar. Í síðustu viku eða 15. júlí var svo Ólafi Þórðarsyni sagt upp störfum hjá Víkingi en Milos Milojevic sem hafði þjálfað Víking með Ólafi hélt áfram sem þjálfari liðsins. Í gær var svo tilkynnt að Jóhannes Harðarson myndi ekki stýra ÍBV aftur á leiktíðinni vegna veikinda í fjölskyldu hans og Ásmundur Arnarsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍBV út leiktíðina.
 
Fjögur lið hafa því skipt um þjálfara á leiktíðinni en í fyrra urðu engar þjálfarabreytingar á meðan keppni í Pepsi-deild karla stóð yfir.
 
Dýrt að falla um deild
„Peningar spila heilmikið inn í þetta. Það er náttúrulega mjög dýrt að falla um deild og menn vilja tryggja sig og fá meira fé og menn eru líka að leitast eftir því að komast í Evrópukeppni því þar eru líka miklir peningar í boði,“ sagði Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands við RÚV.
 
Sigurður telur að félögin hafi meira fé milli handana í ár en í fyrra og því geti stjórnarmenn jafnvel leyft sér að vera óþolinmóðari þegar kemur að því að ná árangri.
 
Kanna hvernig staðið er að uppsögnum
Knattspyrnuþjálfarafélagið er í nánu sambandi við þjálfara sem láta af störfum í deildakeppninni á Íslandi. „Það fer ákveðið ferli í gang þegar þjálfari er rekinn. Ég eða annar stjórnarmaður hefur samband við viðkomandi þjálfara og spyrjum að því hvernig staðið var að uppsögninni. Hvernig er með peningamál og annað slíkt. Í mörgum tilvikum geta þessi símtöl orðið mjög löng. Stundum eru þau stutt. Við erum með lögfræðing á okkar snærum líka ef á þarf að halda,“ sagði Sigurður.
 
 „Það er misjafnt hvernig staðið er að samningum sem gerðir eru við þjálfara. Sumir eru með launþegasamninga en aðrir vinna sem verktakar. Við erum búnir að hafa samband við ýmsa, meðal annars KSÍ, lögfræðinga, endurskoðanda og fleiri, og erum að vinna að því að útbúa staðlaðan samning fyrir þjálfara sem við ætlum að kynna fyrir næsta tímabil. Því þessir samningar eru misjafnlega úr garði gerðir og það skiptir máli að vera með góða samninga,“ sagði Sigurður.
 
Viðtalið við Sigurð Þóri Þorsteinsson formann Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands má sjá í heild sinni hér
 

Samstarfsaðilar