Fréttir


Úlfur Blandon tekur við Gróttu

29-09-2015
Úlfur Blandon hefur verið ráðinn nýr þjálfari meistaraflokks karla hjá Gróttu en hann hefur gert tveggja ára samning við félagið.
 
Á síðasta tímabili þjálfaði Úlfur 2. flokk karla hjá Víkingi og 2. flokk kvenna hjá HK/Víkingi en árið 2014 starfaði hann sem aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki Fram í Pepsi-deildinni.

Úlfur er Gróttumönnum að góðu kunnur en hann var yfirþjálfari yngri flokka félagsins frá 2011 til 2013.

Úlfur tekur við starfinu af Gunnari Guðmundssyni sem stýrði Gróttuliðinu á síðustu leiktíð en Kristján Ómar Björnsson var aðstoðarþjálfari hans. „Knattspyrnudeild Gróttu þakkar Gunnari og Kristjáni Ómari Björnssyni fyrir störf sín í þágu félagsins og óskar þeim velfarnaðar á nýjum vígstöðvum," segir í fréttatilkynningu frá Gróttu.

„Stjórn knattspyrnudeildar lýsir yfir mikilli ánægju með að fá Úlf til Gróttu. Úlfur þekkir vel til yngri leikmanna félagsins eftir að hafa verið yfirþjálfari hjá Gróttu en efniviðurinn er sannarlega til staðar á Nesinu. Grótta leikur í 2. deild á næsta ári og það er spennandi uppbyggingarstarf í vændum undir stjórn Úlfs," segir Hilmar S Sigurðsson formaður knattspyrnudeildar Gróttu.
 

Samstarfsaðilar