Fréttir


Brynjar Gests nýr aðstoðarþjálfari Þróttar

16-10-2015

Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, hefur fengið nýjan aðstoðarmann en það er Brynjar Gestsson, fyrrum þjálfari Fjarðabyggðar. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Þróttur hafnaði í öðru sæti 1. deildarinnar í sumar og leikur í Pepsi-deildinni á næsta ári.

Af heimasíðu Þróttar:
Þróttur Reykjavík hefur ráðið til sín aðstoðarþjálfara fyrir meistaraflokk karla, en þar er á ferðinni Brynjar Þór Gestsson, sem þjálfað hefur lið Fjarðabyggðar með góðum árangri undanfarin ár.

Brynjar Þór tekur við keflinu af Ásmundi Haraldssyni, sem var aðstoðarþjálfari hjá Gregg Ryder og meistaraflokki karla á síðasta keppnistímabili. Þróttur hefur miklar væntingar til Brynjars.

Þess má geta að Brynjar Þór, sem er gjarnan kallaður Binni Gests, átti nokkuð farsælan feril sem leikmaður, en hann spilaði um fjórtán ára skeið í meistaraflokki á árunum 1997 til 2011.

Haukar, FH, Huginn, ÍBV, ÍR, ÍH, Álftanes og Víðir voru liðin hans. Kappinn þótti nokkuð lunkinn upp við markið og skoraði 32 mörk í 107 leikjum.


Samstarfsaðilar