Fréttir


Jörundur Áki aðstoðarmaður Kristjáns hjá Leikni

29-10-2015

Leiknir hefur náð samkomulagi við Jörund Áka Sveinsson um að hann verði aðstoðarþjálfari Kristjáns Guðmundssonar sem nýlega var ráðinn aðalþjálfari.

Þetta staðfesti Þórður Einarsson, framkvæmdastjóri Leiknis.


Kristján og Jörundur taka við af Frey Alexanderssyni og Davíð Snorra Jónassyni sem stýrt hafa Breiðhyltingum síðustu þrjú ár. Undir þeirra stjórn lék liðið í fyrsta sinn í efstu deild á liðnu tímabili en hlutskipti þess var ellefta sæti og fall aftur niður í 1. deildina.

Jörundur þekkir vel til í Breiðholtinu en hann starfar í Fjölbrautaskólanum í hverfinu.

Hann starfaði sem þjálfari kvennaliðs Fylkis í Pepsi-deildinni síðasta sumar en þar áður var hann meðal annars þjálfari BÍ/Bolungarvíkur og aðstoðarþjálfari FH.

„Það þarf að vinna menn upp eftir sumarið í sumar. Það tekur á að falla og tapa fleiri leikjum en maður vinnur. Við verðum að setja allt aftur í gang og finna samheldnina, orkuna og kraftinn sem fleytti þeim upp," sagði Kristján þegar hann var ráðinn þjálfari fyrr í þessum mánuði.


Samstarfsaðilar