Fréttir


Freyr tekur við U17 ára landsliði kvenna

05-11-2015

KSÍ hefur samið við landsliðsþjálfara kvenna, Frey Alexandersson, að hann taki einnig að sér þjálfun U17 ára landsliðs kvenna næstu tvö árin. Freyr mun því aðeins sinna starfi fyrir KSÍ næstu misseri.

Úlfar Hinriksson sem þjálfað hefur U17 ára mun verða Frey til aðstoðar auk þess að sinna verkefnum varðandi yngri landsliðshópa kvenna.

Freyr hefur þjálfað kvennalandsliðið undanfarin tvö ár en samhliða því þjálfaði hann Leikni Reykjavík.

Freyr hætti sem þjálfari Leiknis í haust en nú verður hann í fullu starfi hjá KSÍ. Sögusagnir hafa verið um að Freyr muni einnig koma að A-landsliði karla.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá landsliðum okkar og A-landslið karla er að fara í eitthvað sem við höfum aldrei upplifað áður. Að vera í kringum það er frábært og mikil reynsla fyrir mig," sagði Freyr í Innkastinu á Fótbolta.net á dögunum

„Annað sem ég hef ekki náð að gera sem landsliðsþjálfari meðan ég hef verið með Leikni er að ég hef ekki náð að fara mikið erlendis. Bæði til að fylgjast með hvernig kvennafótboltinn er að þróast annarstaðar og vera í sambandi við leikmenn mína erlendis og þjálfara þeirra. Það er eitthvað sem við verðum að bæta í.


Samstarfsaðilar