Fréttir


Skýrsla stjórnar KÞÍ 2015

26-11-2015

Á síðasta aðalfundi sem haldinn var 13. nóvember 2014 á 44 ára afmælisdegi KÞÍ í fræðslusetri KSÍ var kosin stjórn sem skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundinum á starfsárinu.

Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður, Kristján Guðmundsson varaformaður, Daði Rafnsson ritari, Sigurður Víðisson gjaldkeri og Theódór Sveinjónsson meðstjórnandi. Í varastjórn voru kosnir Halldór Þorvaldur Halldórsson og Davíð Snorri Jónasson. Á starfsárinu voru haldnir sex stjórnarfundir auk fjölmargra funda þar sem hluti stjórnar hittist og fór yfir ýmis mál.

Fjárhagur félagsins stendur ágætlega og í ár hafa 287 greitt árgjaldið sem við erum mjög stolt af. Í fyrra voru á sama tíma 232 búnir að borga árgjaldið. Árgjaldið er 4.000 krónur.  Að sjálfsögðu viljum við að fleiri greiði árgjaldið og hafa komið fram ýmsar hugmyndir til að fjölga þeim sem gera það.  Stjórn KÞÍ hefur verið vakandi fyrir því að fylgjast með þjálfararáðningum hjá félögunum til að fá inn nýja félagsmenn og höfum við verið í góðu sambandi við landshlutatengiliðina sem hafa reynst okkur mjög vel. Mun stjórn KÞÍ leggja til hækkun á árgjaldinu úr 4.000 kr. í 6.000 kr. Til samanburðar þá er mun hærra árgjald annars staðar í Evrópu eða oftast um 14 - 17.000 íslenskar krónur.

                                  

Oft höfum við látið eitthvað fylgja með árgjaldinu.  Í fyrra fylgdi  glæsileg húfa með sem líka er hægt að nota sem góða vörn fyrir kulda á hálsinn. Í ár fylgir glæsileg taktíkmappa með árgjaldinu.  Margir þjálfarar eru búnir að fá möppuna á ráðstefnum og fleiri viðburðum en þau sem eiga eftir að fá hana geta haft samband við stjórnarmenn KÞÍ eða sótt á skrifstofu KSÍ.  Miklar umræður hafa orðið um það í stjórn KÞÍ hvort við eigum að láta eitthvað fylgja með árgjaldinu.  Höfum við tekið ákvörðun um að þetta verði síðasta árið sem við gerum það í bili a.m.k.  Viljum við frekar verja fjármagni í fræðslumál innan sem utanlands.  Eins og ég sagði þá hefur oft eitthvað fylgt árgjaldinu og er það í ár og í fyrra en árin tvö á undan gerðum við það ekki og virtust þjálfarar ekki vera óánægðir með það.

Við höfum átt mjög gott samstarf við KSÍ og ekki síst fræðslunefnd sambandsins undanfarin ár og er það mjög mikilvægt fyrir okkar félag.  Knattspyrnusamband Íslands tók að sér að borga árgjald evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins (AEFCA) eins og undanfarin ár, samtals 1500 evrur og munar okkur mjög mikið um það í svona litlu þjálfarafélagi eins og við erum. Þökkum við KSÍ kærlega fyrir stuðninginn.

Ráðstefna AEFCA, evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins, var haldin í Zagreb í Króatíu 9. - 12. desember 2014.  Fyrir hönd Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands sóttu Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ og Kristján Guðmundsson varaforomaður KÞÍ ráðstefnuna.  Undir liðnum fróðleikur á heimasíðunni má sjá skýrslu þeirra félaga frá ráðstefnunni.

Í kjölfar stórkostlegs árangurs íslenska A landsliðsins í knattspyrnu hafa erlendir aðilar haft mikið samband við KÞÍ og KSÍ og forvitnast um hvernig uppbygging þjálfaramenntur er á Íslandi og hvernig við förum að þessu.  Tókum við á mótum tveimur hópur á árinu, frá Færeyjum og Svíþjóð.

Fræðsluferðir :

Fræðsluferð færeyska þjálfarafélagsins til Íslands

Dagana 27 – 30. mars síðastliðinn komu þjálfarar á vegum færeyska þjálfarafélagins hingað til lands í fræðsluferð. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast íslenskum fótbolta sem mest á öllum stigum og kynna sér nánar uppganginn sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hér á landi.  Þjálfararnir voru 15 talsins og mátti finna í hópnum landsliðsþjálfara, meistaraflokksþjálfara og yngri flokka þjálfara en allir starfa þeir í Færeyjum.

Hópurinn lenti föstudaginn 27.mars og héldu strax í höfuðstöðvar KSÍ þar sem Arnar Bill fræðslustjóri fræddi hópinn um uppganginn í íslenskri knattspyrnu og hvernig við byggjum upp þjálfun í landsliðum og yngri flokkum. 

Stjarnan var næsti viðkomustaður og þar tók Þórhallur Siggeirsson yfirþjálfari Stjörnunnar á móti hópnum. Þórhallur fór yfir yngri flokka starf Stjörnunnar og leyndarmálið Stjörnunnar á bak við það að skila mörgum góðum leikmönnum upp í meistaraflokk á ná árangri á sama tíma í karla og kvennaflokki. Hópurinn horfði því næst á æfingar hjá yngri flokkum meistaraflokkum félagins.  Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari meistaraflokksþjálfari karla í Stjörnunni svaraði að lokum spurningum um starf sitt sem þjálfari meistaraflokks og Stjörnuliðið almennt. Dagurinn endaði á því að hópurinn fór saman í Egilshöllina og horfði á leik KR og FH í Lengjubikar kvenna.

Laugardagurinn 28.mars byrjaði snemma en hópurinn var mættur 10.30 á Leiknisvöll þar sem meiningin var að að horfa á Meistaraflokk Leiknis æfa ásamt því að fá fræðslu um Íþróttafélagið Leikni en Leiknismenn náðu þeim merka áfanga að komast í Pepsi deild karla í fyrsta skipti í sögu félagsins. Davíð Snorri Jónasson annar af þjálfurum Leiknis fór yfir skipulagt Afreksstarf félagins ásamt því að fræða þá um hvernig skipulag þjálfunar og leiðin að Pepsi deildar sætinu var unnin.

Hópurinn fór út að borða um kvöldið ásamt meðlimum úr Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður KÞÍ sat fyrir svörum og fræddi frændur okkar um starf KÞÍ ásamt því að umræða um fótbolta fór fram langt fram eftir kvöldi.

Grindavík var viðkomustaður hópsins á sunnudeginum. Óli Stefán Flóventsson þjálfari hjá Grindavík tók á móti hópnum og ræddi við hópinn hvernig bæjarfélag eins og Grindavík hefur náð að halda úti góðu fótboltaliði í mörg ár og skilað leikmönnum í atvinnumennsku og landslið. Eftir fyrirlestur Óla horfði hópurinn á æfingu hjá 2.flokki sem Milan Stefán Jankovic stýrði. Grindvíkingar eru höfðingjar heim að sækja og að lokinni formlegri dagskrá var hópnum boðið í mat og í Bláa Lónið.

Mánudagurinn hófst snemma enda heimferð seinni partinn. Daði Rafnsson yfirþjálfari hjá Breiðabliki tók á móti hópnum í Smáranum. Viðfangsefnið var að kynnast því mikla starfi sem unnið er í Breiðablik og hvernig þjálfun er háttað hjá félaginu. Breiðablik hefur verið með leiðandi yngra flokka starf undanfarin ár og skilað mörgum leikmönnum í atvinnumennsku og í meistaraflokk félagins karla og kvenna megin.

Að loknum fyrirlestri Daða horfði hópurinn á Hæfileikamótun KSÍ sem fór fram í Fífunni þennan dag og fékk að ræða við Halldór Björnsson yfirþjálfara yfir verkefninu og þjálfara U17 ára landsliðs Íslands. 

Sigurður Þórir formaður KÞÍ kvaddi loks hópinn með léttri ræðu áður en hópurinn hélt aftur heim til Færeyja.

Hópurinn var mjög ánægður með heimsókn sína til landsins og þakklátir fyrir það að sjá nánast alla flóruna sem boðið er upp á í íslenskri knattspyrnu. KÞÍ skipulagði ferð hópsins til landsins ásamt KSÍ. Viljum við þakka félögunum fyrir frábær viðbrögð og fagleg vinnubrögð í þessari heimsókn Færeyska knattspyrnuþjálfarafélagins.

Sænskir þjálfarar í heimsókn

Kynntust uppbyggingarstarfi í íslenskri knattspyrnu

Í byrjun október heimsótti hópur þjálfara frá Gautaborg undir stjórn Jóns Péturs Róbertssonar Ísland og fræddist um uppbyggingarstarf í íslenskri knattspyrnu.  Hópurinn gerði víðreist, heimsótti aðildarfélög KSÍ, skoðaði aðstöðu til keppni og æfinga og fylgdist með æfingum, og hlýddi einnig á fyrirlestur í höfuðstöðvum KSÍ.  Þrír stjórnarmenn KÞí, þeir Sigurður Þórir Þorsteinsson, Davíð Snorri Jónasson og Halldór Þorvaludur Halldórsson mættu einnig og hlustuðu á fyrirlestur þeirra um uppbyggingu þeirra í Svíþóð og við sögðum þeim frá okkar uppbyggingu á Íslandi.  Þau enduðu síðan á því að sjá landsleik Íslands og Lettlands laugardaginn 12. október.

 

 Dagskrá bikarúrslitaráðstefnu KÞÍ 2015

 

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands hélt glæsilega bikarúrslitaráðstefnu sem haldin var í tengslum við úrslitaleik Borgunarbikars karla, laugardaginn 15. ágúst.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru Aloys Wijnker, yfirþjálfari yngri flokka hjá AZ Alkmaar, og Martyn Heather, yfirmaður fræðslumála hjá ensku úrvalsdeildinni. Nánari upplýsingar um þá félaga má fá finna hér.

Á þessa ráðstefnu mættu 75 manns.

Ráðstefnan veitti 6 endurmenntunarstig á UEFA A og UEFA B þjálfaragráðum.

Dagskrá :

 10.00     Ávarp formanns KÞÍ - Sigurður Þórir Þorsteinsson

 10.10     Uppbygging yngri flokka AZ Alkmaar

               Aloys Wijnker, yfirþjálfari yngri flokka hjá AZ Alkmaar

 11.30     Sýnikennsla Aloys Wijnker

 12.30     Matur

 13.15     Elite Player Performance Plan

                  Martyn Heather, yfirmaður fræðslumála hjá Premier League í Englandi

14.15     Þjálfarar liðanna sem leika úrslitaleikinn segja frá undirbúningi liðanna

14.45     Kaffi og spáð í leikinn með sérfræðingum

16.00     Bikarúrslitaleikur

Verð á ráðstefnuna var 5.000 krónur fyrir félagsmenn KÞÍ. Verð fyrir þá sem eru ekki félagsmenn var 10.000 krónur. Innifalið í verðinu var hádegismatur og miði á bikarúrslitaleikinn.

Ráðstefnan var opin öllum. Hægt var að skrá sig með því að senda tölvupóst á arnarbill@ksi.is með upplýsingum um nafn og kennitölu. Ráðstefnan verður haldin í Laugardalnum.

Ráðstefna í tengslum við Bikarúrslitaleik kvenna

Síðan var Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands  með glæsilega bikarúrslitaráðstefnu sem haldin var í tengslum við úrslitaleik Borgunarbikars kvenna, föstudagskvöldið  28. ágúst. Ráðstefnan var haldin í Fífunni í Kópvaogi.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Jonas Eidevall, fyrrum þjálfari Rosengard í Svíþjóð. Jonas er sænskur  UEFA PRO þjálfari og gerði Rosengard að sænskum meisturum árið 2013 Hann var valinn þjálfari ársins í Svíþjóð sama ár. Jonas fjallaði um hvernig á búa til topplið í Evrópu en hann hann hefur reynslu af því eftir veru sína hjá Rosengard bæði í Evrópukeppni og deildarkeppni (frekari upplýsingar um Jónas má finna hér) Athygli þjálfara var vakin á því að ráðstefnan veittti 4 endurmenntunarstig á UEFA A og UEFA B þjálfaragráðum.

Dagskrá

19.00     Ávarp formanns KÞÍ - Sigurður Þórir Þorsteinsson og kvöldmatur.

19.30     Hvernig á að byggja upp topplið í Evrópu

             Jonas Eidevall – sýnikennsla.

20.45     Hvernig á að byggja upp topplið í Evrópu

             Jonas Eidevall – fyrirlestur.

 21.45    Spáð í spilin fyrir bikarúrslitaleik kvenna

             Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kvenna

22.00     Veitingar og spjall.

Verð á ráðstefnuna var 3.000 krónur fyrir félagsmenn KÞÍ. Verð fyrir þá sem eru ekki félagsmenn var 6.000 krónur. Innifalið í verðinu var kvöldmatur, miði á bikarúrslitaleikinn, fræðsla og endurmenntunarstig.

Ráðstefnan var opin öllum. Hægt var að skrá sig með því að senda tölvupóst á arnarbill@ksi.is með upplýsingum um nafn og kennitölu.

Á ráðstefnuna mættu 58 manns.

Báðar þessar ráðstefnur voru mjög dýrar fyrir KÞÍ og KSÍ og komu út í tapi þrátt fyrir að hækkun hafi verið á ráðstefnugjaldi.  KÞÍ var að greiða töluvert hærri upphæð núna í ráðstefnurnar heldur en verið hefur undanfarin ár.

 

Fræðsluferðir erlendis :

Ferð fyrir þjálfara til Brommapojkarna

 

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands skipulagði ferð til Svíþjóðar til að skoða aðstæður hjá Brommapojkarna.Farið var út miðvikudaginn 21. október og  komið heim aftur mánudaginn 26. október.

 Fylgst var með æfingum hjá yngri flokkum félagsins, farið á leik í sænsku úrvalsdeildinni og bauð félagið upp á fyrirlestur um starfið sitt. 

Gist var á  fjögurra stjörnu hóteli við miðbæinn og var kostnaður við ferðina 120.000 kr. Flug, gisting með morgunmat og rúta til og frá flugvelli innifalið. 

Ferðin var ætluð þjálfurum sem eru að þjálfa á yngstu stigum knattspyrnunnar (8. - 4.flokk). KSÍ veitti þjálfurum sem hafa lokið B eða A þjálfaragráðu 15 endurmenntunarstig. 
Það fóru 6 þjálfarar frá KÞÍ í þessa ferð og var það álit þeirra sem fóru að hún hafi tekist mjög vel og voru menn ánægðir með allt skipulag hjá Brommapojkarna. Þeir Þorlákur Már Árnason og Magni Fannberg tóku mjög vel á móti hópnum og fræddu um starfsemi félagsins.

Gerum við ráð fyrir að skýrsla um ferðina frá þeim félögum komi fljótlega á heimasíðu KÞÍ.

F.h. stjórnar KÞÍ fór Halldór Þorvaldur Halldórsson og  Kristinn Sverrisson héldu utan um skipulag ferðarinnar og þökkum við þeim kærlega fyrir það.

Ráðningasamningur :

Á heimasíðu KÞÍ höfum við kappkostað að segja frá því þegar þjálfarar eru ráðnir til starfa sem og þegar þeir hætta störfum, þ.e. þegar við höfum fregnir af því.  Þegar þjálfarar hafa hætt á tímabili eða við höfum frétt af erfiðum starfslokum höfum við í stjórn KÞÍ haft samband við þjálfara.  Oft eru þjálfarar einmanna í starfi og höfum við áþreifanlega orðið varir við hvað þeim finnst gott að vita af okkur og geta talað við okkur um starfslok sín, hvort gengið hafi verið sómasamlega frá starfslokunum og hvernig þeir sjá framhaldið.  Höfum við fengið mikið hrós frá þjálfurum fyrir þetta. 

Töluvert var haft samband við okkur af fjölmiðlum og var ég f.h. félagsins fyrir svörum

Fjögur lið skiptu um þjálfara á leiktíðinni en í fyrra urðu engar þjálfarabreytingar á meðan  keppni í Pepsi-deild karla stóð yfir.

Í viðtölum í fjölmiðlum sagði ég m.a. þetta fyrir okkar hönd :

Dýrt að falla um deild

„Peningar spila heilmikið inn í þetta. Það er náttúrulega mjög dýrt að falla um deild og menn vilja tryggja sig og fá meira fé og menn eru líka að leitast eftir því að komast í Evrópukeppni því þar eru líka miklir peningar í boði,“ sagði Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands við RÚV.

Sigurður telur að félögin hafi meira fé milli handana í ár en í fyrra og því geti stjórnarmenn jafnvel leyft sér að vera óþolinmóðari þegar kemur að því að ná árangri.

Kanna hvernig staðið er að uppsögnum

Knattspyrnuþjálfarafélagið er í nánu sambandi við þjálfara sem láta af störfum í deildakeppninni á Íslandi. „Það fer ákveðið ferli í gang þegar þjálfari er rekinn. Ég eða annar stjórnarmaður hefur samband við viðkomandi þjálfara og spyrjum að því hvernig staðið var að uppsögninni. Hvernig er með peningamál og annað slíkt. Í mörgum tilvikum geta þessi símtöl orðið mjög löng. Stundum eru þau stutt. Við erum með lögfræðing á okkar snærum líka ef á þarf að halda,“ sagði Sigurður.

 „Það er misjafnt hvernig staðið er að samningum sem gerðir eru við þjálfara. Sumir eru með launþegasamninga en aðrir vinna sem verktakar. Við erum búnir að hafa samband við ýmsa, meðal annars KSÍ, lögfræðinga, endurskoðanda og fleiri, og erum að vinna að því að útbúa staðlaðan samning fyrir þjálfara sem við ætlum að kynna fyrir næsta tímabil. Því þessir samningar eru misjafnlega úr garði gerðir og það skiptir máli að vera með góða samninga,“ sagði Sigurður.

Viðtalið við Sigurð Þóri Þorsteinsson formann Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands má sjá í heild sinni hér

Á starfsárinu var klárað að gera ráðningsamning fyrir knattspyrnuþjálfara eins og sagt var frá að væri á döfinni.  Mjög margir hafa beðið eftir slíkum samningi.

Eins og fram kom á seinasta aðalfundi KÞÍ  hefur stjórn félagsins, í samvinnu við lögfræðing, verið að vinna að gerð samninga knattspyrnuþjálfara við íþróttafélögin.

Í haust sögðum við frá nýjum ráðningarsamningi fyrir knattspyrnuþjálfara

 

Nýr ráðningarsamningur sem stjórn KÞÍ mælist til að knattspyrnuþjálfarar sem eru á launþegasamningum við þjálfun noti við samningagerð við knattspyrnufélög. Samningurinn er unnin af KÞÍ í samvinnu við lögfræðing og endurskoðanda og í anda samninga sem þjálfarar á Norðurlöndum nota. Ráðningasamninginn má nálgast hér.

Einnig sögðum við frá því í haust að við erum með ráðgjöf tl knattspyrnuþjálfara við gerð ráðningarsamninga   

Nú er tíminn þar sem þjálfarar eru að endurnýja eða gera nýja samninga við knattspyrnufélög.  KÞÍ vill vekja athygli á þeirri þjónustu sem endurskoðandi og ráðgjafi KÞÍ í samningamálum býður félagsmönnum KÞÍ upp á.

Diljá Mist Einarsdóttir (dilja@logmal.is) er tilbúin til þess að lesa yfir samninga þjálfara áður en skrifað er undir og koma með ábendingar ef þess þarf varðandi atriði í samningum.  KÞÍ hefur samið um sanngjarnt fast gjald til handa þjálfurum fyrir þessa þjónustu sem þjálfarinn greiðir.  Við skorum á þjálfara að nýta sér þessa þjónustu ef þeir eru í einhverjum vafa um atriði í samningum sínum.

Á síðasta aðalfundi sögðum við frá því að í vinnslu væri að setja upp teymi til að aðstoða félagsmenn í erfiðum málum sem upp koma í þjálfarastarfinu.   Hugmyndin er að teymið skipi tveir fulltrúar úr stjórn KÞÍ ásamt trúnaðarmönnum, lögfræðingi og sálfræðingi. Málefnin geta verið misjöfn eins og t.d. foreldrasamskipti, hegðunarvandamál,  o.sfrv.  Þetta mál er í vinnslu.

Enn og aftur langar okkur að segja frá því hversu gott og mikilvægt samstarf okkar við KSÍ er bæði faglega og fjárhagslega. Þegar félagið var stofnað árið 1970 þá var einn aðal tilgangur félagsins að bæta þjálfaramenntun í landinu og var stundum mikill ágreiningur á milli KÞÍ og KSÍ um hvernig ætti að standa að henni.  Nú er það svo að þjálfaramenntun hjá KSÍ er til mikillar fyrirmyndar en við höldum að sjálfsögðu áfram því hlutverki okkar að benda á hvað má betur fara, hvaða námskeið væri æskilegt að halda miðað við stöðu mála í þjálfaramenntun hverju sinni og erum óhikað áfram í góðu samstarfi við KSÍ  með námskeið og ráðstefnur.  Í dag er þjálfaramenntun í landinu á mjög háu stigi og í góðum málum og eigum við þjálfara á öllum stigum, UEFA pro, KSÍ A og KSÍ B þjálfara. Hefur árangur landsliða Íslands vakið mjög mikla athygli og sérstaklega árangur A landsliðs karla og hafa forsvarsmenn liðsins verið duglegir að segja í viðtölum frá því hversu vel KSÍ hefur staðið sig í þjálfaramenntun og það er lykillinn að góðum árangri okkar.  A landslið kvenna hefur farið á lokakeppnir og núna A landslið karla á lokakeppni EM í Frakklandi árið 2016.  Þetta er magnaður árangur hjá ekki fjölmennari þjóð en við erum. Núna snýst þetta mikið um að við bendum fræðslunefnd KSÍ á atriði sem okkur finnst að þurfi að bæta og vinnum sameiginlega að ýmsum viðburðum eins og t.d. bikarúrslitaráðsefnum og að fá þjálfara hingað til lands og vera með fyrirlestra og æfingar.

Erlent samstarf hefur verið með ágætum hjá félaginu og eigum við mjög gott samstarf við Norðurlandaþjóðirnar og þá sérstaklega Norðmenn en við erum með samkomulag við þá um að mega senda þjálfara á viðburði sem þeir standa fyrir erlendis. Þýska knattspyrnuþjálfarafélagið býður KÞÍ að senda einn fulltrúa á árlega ráðstefnu sína og sér um allt uppihald. Í ár fór enginn frá KÞÍ þrátt fyrir auglýsingu og er það bagalegt.

KÞÍ er ein af 8 stofnþjóðum evrópska knattspyrnuþjálfarfélagsins og höfum við ávallt kappkostað að eiga gott samstarf við erlendar þjóðir og hefur það tekist mjög vel.  Höfum við fengið góð sambönd á þessum ráðstefnum og öðrum ráðstefnum og náðu t.a.m. formaðurinn og varaformaðurinn mjög góðum samböndum á ráðstefnu AEFCA sem haldin var í Sochi í Rússlandi í lok október.  Fólk vill koma til Íslands og halda fyrirlestra og vera með æfingar.  

Við höfum áður sagt frá lávarðadeildinni sem við stofnuðum en þar eru þjálfarar sem hætt hafa störfum en hittast t.a.m í kringum leiki í efstu deild karla og hefur starf deildarinnar verið í þróun undanfarin ár. Eru forsvarsmenn deildarinnar ávallt boðnir og búnir að gera það sem við biðjum þá um að gera og er mjög gott og mikilvægt fyrir okkur að geta átt tækifæri til að leita til þeirra í allan reynslubanka þeirra.

Töluverð endurnýjun hefur verið á stjórn knattspyrnuþjálfarafélags Íslands undanfarin ár en nú ber svo við að allir stjórnarmenn gefa kosta á sér áfram til stjórnarsetu.

Að lokum langar okkur til að þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn við félagið og vonumst að sjálfsögðu til þess að hann haldi áfram og hvetjum ykkur eindregið til að hafa samband við okkur ef það eru einhverjar ábendingar sem þið hafið um hvað má betur fara í starfi okkar.

Hvetjum við ykkur öll til að mæta á afmælisfagnað KÞÍ til að fagna 45 ára afmæli félagsins sem var stofnað 13. nóvember 1970.

Fagnaðurinn verður haldin á Solon í Bankastræti og hefst kl. 20.00 og stendur fram að miðnætti.

F.h. stjórnar KÞÍ

Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður KÞÍ

 

 


Samstarfsaðilar