Óli Brynjólfs nýr aðstoðarþjálfari Fram
Ólafur Brynjólfsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Fram en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Ólafur verður hægri hönd Ásmundar Arnarssonar þjálfara á næsta tímabili.
Undanfarin tvö tímabil hefur Ólafur þjálfað kvennalið Vals en ljóst varð á dögunum að hann myndi ekki halda áfram þar.
„Fleiri félög en Fram voru að reyna að ná í þennan hæfa þjálfara til sín en Ólafur ákvað að taka slaginn með Fram," segir á heimasíðu Fram.
Ólafur er 41 árs en hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá Gróttu í tvö ár áður en hann tók við kvennaliði Vals.
Fram endaði í 6. sæti í Inkasso-deildinni á nýliðnu tímabili.