Fréttir


Willum Þór Þórsson áfram með KR

01-11-2016

Willum Þór Þórsson verður áfram þjálfari KR í Pepsi-deildinni en þetta var tilkynnt á fréttamannafundi í Vesturbæ nú rétt í þessu. Þar skrifaði Willum undir tveggja ára samning við KR.

„Við erum hingað komin til að svipta hulunni af best geymda leyndarmálinu í íslenska boltanum," sagði Baldur Stefánsson, varaformaður knattspyrnudeildar KR, á fréttamannafundinum í dag.

Arnar Gunnlaugsson verður áfram aðstoðarþjálfari KR en þetta var einnig tilkynnt á fréttamannafundinum. Þá verður Henrik Bödker áfram í þjálfarateyminu líkt og undanfarin tvö ár.

Willum Þór tók við KR af Bjarna Guðjónssyni í júní síðastliðnum og skilaði liðinu í Evrópusæti eftir magnaðan endasprett.

KR-ingar þurftu að bíða eftir alþingiskosningum um helgina áður en þeir gátu gengið frá þjálfaramálum sínum. Willum var í öðru sæti hjá Framsóknarflokknum í Suðvesturkjördæmi í kosningunum en náði ekki inn á þing. Í kjölfarið lá fyrir að hann gæti haldið áfram að þjálfa KR.

„Við töluðum við aðila innanlands og erlenda aðila líka en það var alltaf fyrsti kostur að halda þessu þjálfarateymi," sagði Baldur á fundinum.


Samstarfsaðilar