Fréttir


Yfirlýsing vegna MeToo

02-03-2018

Í tilefni af MeToo-byltingunni og umfjöllun af sögum um ofbeldi af ýmsu tagi innan íþróttahreyfingarinnar vill stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ) koma eftirfarandi á framfæri.

Inn á borð stjórnar KÞÍ hafa engin mál komið þar sem knattspyrnuþjálfarar hafa annaðhvort verið gerendur eða þolendur í háttsemi sem felur í sér ósiðlegt athæfi, einelti, mismunun, kynbundna eða kynferðislega áreitni, kynferðislegt ofbeldi eða annað ofbeldi. Stjórn þjálfarafélagsins fordæmir alla slíka háttsemi, innan sem utan íþróttahreyfingarinnar.

Stjórn þjálfarafélagsins brýnir fyrir félagsmönnum sínum, sem og öðrum knattspyrnuþjálfurum, að starf þjálfara er krefjandi starf sem byggir öðrum fremur á trausti. Að baki liggja faglegar dyggðir eins og færni, áreiðanleiki, gætni, góður vilji og heilindi. Slíkt traust má þjálfari aldrei misnota. Vanda þarf öll samskipti við iðkendur og aðra hlutaðeigandi og öll hegðun þjálfara þarf að standast skoðun, þ. á m. á opinberum vettvangi. Gildir það ekki síst um börn sem eru sérstaklega berskjölduð gagnvart hvers konar ofbeldi og annarri óviðeigandi hegðun.

ÍSÍ hefur tekið saman fræðslu um þetta mikilvæga málefni og hvetjum við þjálfara og forsvarsmenn íþróttafélaga að kynna sér það efni. 

Stjórn KÞÍ.


Samstarfsaðilar