Fréttir


Hugleiðing um stöðu knattspyrnuþjálfara og KÞÍ

18-04-2019

Hugleiðing um stöðu knattspyrnuþjálfara og KÞÍ

Hinn 1. maí nk. mun Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) senda út rafræna greiðsluseðla vegna árgjalds 2019. Stjórn KÞÍ bindur vonir við að þjálfarar bregðist við þessu og greiði árgjaldið sem er 6.000 krónur. 

 

Sú breyting var gerð á lögum KÞÍ á síðasta ársfundi að reikningsárið er almanaksárið, þ.e. 1. janúar til 31. desember, í stað 1. september til 31. ágúst næsta árs. Fyrra fyrirkomulag olli tíðum misskilningi meðal félagsmanna þar sem þeir sem greiddu árgjald eftir mitt ár en fyrir 31. ágúst töldu sig vera greiða fyrir allt árið. Er það von stjórnar KÞÍ að með þessari breytingu, að miða reikningsár við almanaksár, verði þessum misskilningi eytt.

Rúmlega 200 knattspyrnuþjálfarar eru félagar í KÞÍ. Upplýsingar um hversu margir þjálfarar eru starfandi á Íslandi eru stjórn KÞÍ ókunnar. Þá eru þær upplýsingar hvergi birtar, en vísbendingar eru um að knattspyrnuþjálfarar séu mun fleiri, ýmist í fullu starfi, hlutastarfi eða jafnvel sjálfboðastarfi. Endurspeglar þetta að mörgu leyti þá umgjörð sem er um knattspyrnuþjálfara á Íslandi, þar sem skráning er af skornum skammti, engin eftirfylgni er með hæfisskilyrðum þjálfara og ekkert eftirlit er með störfum þeirra. Þá er lítið sem ekkert vitað um lýðfræðilegar upplýsingar um knattspyrnuþjálfarastarfið, s.s. um kynjahlutfall, meðalaldur þjálfara og meðalstarfsaldur. Loks liggja engar upplýsingar um atriði eins og tíðni vinnuslysa.   

 

Stjórn KÞÍ hefur ítrekað á undanförnum árum bent á ákveðna veikleika um stöðu þjálfara og hefur þeim ábendingum/athugasemdum verið komið á framfæri við fyrirsvarsmenn knattspyrnuhreyfingarinnar, þ.e. stjórn KSÍ. Hefur m.a. verið óskað eftir auknu samstarfi við KSÍ við að styrkja starfsemi KÞÍ í því skyni að styrkja stöðu og umgjörð knattspyrnuþjálfara, t.d. með auknu árlegu fjárframlagi sem nú er um 500 þúsund krónur á ári. Stjórn KSÍ hefur hafnað auknum fjárframlögum til KÞÍ og ekki verið reiðubúið til frekara samstarfs við KÞÍ en nú er. Í því felst ákveðin afstaða, sem er miður, því engar raunverulegar úrbætur geta orðið á starfsumhverfi knattspyrnuþjálfara nema stjórn KSÍ hafi um það forystu.  

 

Vel er staðið að menntunarmálum þjálfara og framboð á menntun í þjálffræðum hefur verið gott. Umhugsunarvert er hins vegar að á uppgangstímum liðinna ára, þar sem KSÍ hefur haft úr miklu fjármagni að spila, að forgangsröðun skuli hafa verið með þeim hætti að ekkert hafi verið aðhafst til að bæta stöðu þjálfara og tryggja þeim betra starfsumhverfi. Þvert á móti virðist það viðmót ríkja innan knattspyrnuhreyfingarinnar, þ.á m. innan forystu hennar, að réttindi og skyldur knattspyrnuþjálfara á vinnumarkaði sé einkamál þeirra og íþróttafélaga. Slík sjónarmið eru með öllu ótæk og spyrja mætti hvernig samkomulag á vinnumarkaði yrði ef t.d. ekki væri við kjarasamninga að styðjast, en sú er einmitt raunin þegar kemur að stöðu knattspyrnuþjálfara, ekki er við nein fyrirframgefin viðmið eða lágmarksreglur að styðjast. Skal í þessu sambandi bent á eftirfarandi:

  1. Starf knattspyrnuþjálfara hefur ekki verið skilgreint, engir kjarasamningar eru hafðir til hliðsjónar við ráðningu þjálfara og starfið nýtur takmarkaðrar réttarverndar og helgast helst af þeim samningi sem þjálfari gerir við íþróttafélag.
  2. Samningsform er ekki staðlað og eru því samningsform jafnmörg og samningar eru. Eru þjálfarar ýmist launamenn eða verktakar. Þá eru dæmi um að ráðningarsamningar séu settir í búning verksamninga og/eða samningsformum blandað saman með óljósum hætti.
  3. Gerðir er samningar við erlenda þjálfara með litla sem enga íslenskukunnáttu á íslensku.
  4. Við uppsögn samnings virðist ekki ávallt vera gerður greinarmunur á uppsögn og riftun og dæmi eru um að tímabundnum og óuppsegjanlegum samningi sé sagt upp í formi riftunar, án þess að samningur hafi verið vanefndur.  
  5. Komi til ágreinings milli þjálfara og íþróttafélags er ekkert málsskotsúrræði innan knattspyrnuhreyfingarinnar og þarf því að leita til dómstóla til að leysa úr ágreiningi sem er kostnaðarsamt og hallar þar á þjálfara.

Stjórn KÞÍ fær árlega inn á borð til sín nokkur ágreiningsmál þjálfara við íþróttafélag. Sé þjálfari félagsmaður í KÞÍ reynir stjórn KÞÍ eftir fremsta megni að miðla málum og tryggja hagsmuni þjálfara, en stjórn KÞÍ hefur í því sambandi enga formlega stöðu innan knattspyrnuhreyfingarinnar og engin úrræði til að knýja fram efndir íþróttafélags. Sé þjálfari ófélagsbundinn hefur KÞÍ ekki aðkomu að málum og vísar þeim frá sér. Oftast gengur vel að miðla málum félagsmanna en dæmi eru þó um að þjálfarar hafi þurft að gefa eftir hagsmuni og talið slíkt vænlegra en að skjóta ágreiningi til dómstóla vegna fjárhagslegrar áhættu. Nýlegt dæmi er um að gerð var sátt fyrir héraðsdómi milli þjálfara og íþróttafélags. KÞÍ reyndi að miðla málum, án árangurs, en styrkti félagsmann við kostnað sem af því leiddi að stefna íþróttafélaginu. Á endanum urðu sættir í málinu en lausnin var hin sama og KÞÍ hafði lagt til í upphafi en íþróttafélag hafnað. Er hér aðeins um eitt dæmi af mörgum.

 

Trúnaður ríkir um þau mál sem stjórn KÞÍ hefur aðkomu að og um þau verður ekki upplýst af hálfu stjórnar KÞÍ. Í langflestum tilvikum er þó um að ræða mál þar sem komið hefur til einhliða uppsagnar þjálfara af hálfu íþróttafélags og ágreiningur rís um uppgjör. Það er þungbært fyrir þjálfara að vera sagt upp störfum. Oftast á slík uppsögn sér ekki langan aðdraganda og kann að vera óvænt og koma þjálfara í opna skjöldu. Dæmi eru um að þjálfarar séu við þær aðstæður beðnir um að staðfesta einhliða uppsögn íþróttafélags með undirritun sem felur í sér afsal ákveðinna samningsbundinna réttinda. Stjórn KÞÍ hvetur félagsmenn sína og aðra knattspyrnuþjálfara til þess að flýta sér hægt komi til starfsloka, rasa ekki um ráð fram og annaðhvort kynna sér vel ákvæði samnings og skuldbindingar og réttindi þar að baki eða leita eftir ráðgjöf, áður en einhliða uppsögn er samþykkt og/eða til uppgjörs kemur.            

 

Það er hagsmunamál að sem flestir þjálfarar séu í KÞÍ, það gerir félagið sterkara og öflugri þrýstihóp um úrbætur. Um næstu mánaðamót verða um 900 greiðsluseðlar sendir út eða til allra þeirra sem hafa einhvern tímann greitt árgjald KÞÍ. Um valfrjálsa greiðslu í heimabanka verður að ræða. Eru knattspyrnuþjálfarar hvattir til þess að bregðast vel við.  

 

 

Knattspyrnukveðjur,

Birgir Jónasson, stjórnarmaður í KÞÍ.


Samstarfsaðilar