Fréttir


Pistill frá stjórn KÞÍ

14-04-2020

Kæru knattspyrnuþjálfarar.

Stjórn Knattspyrnuþjálfafélags Íslands (KÞÍ) vill byrja á að þakka þeim fjölmörgu sem hafa brugðist við að undanförnu og greitt árgjald félagsins. Brýnt er nú um stundir að þjálfarar standi saman og bindist samtökum.  

Eins og við öll vitum þá eru þetta sérstakir tíma hjá öllum og hafa knattspyrnuþjálfarar margir hverjir fengið sinn skerf af því. Stjórn KÞÍ er með fulltrúa í nefnd á vegum KSÍ sem vinnur að fjármálum vegna þessarar krísu. Staðan er þó ekki auðleysanleg og engin heildarlausn er enn í sjónmáli, t.d. aðkoma hins opinbera með beinu fjárframlagi. 

KÞÍ gerði á dögunum könnun meðal þjálfara vegna ástandsins og var þátttaka mjög góð. Erum við mjög þakklát fyrir það. Niðurstöður könnunarinnar verða birtar fljótlega.

Í ár er stórt ár hjá KÞÍ þar sem félagið var stofnað 13. nóvember árið 1970 og verður því 50 ára í ár. Allir þjálfarar sem greiða árgjald KÞÍ fá frítt á þá viðburði sem félagið stendur fyrir á stórafmælisárinu og einnig mun fylgja með bók fyrir þjálfara sem hægt er að hafa í vasa í þjálfaraúlpunni og hægt er að nota fyrir æfingar og leiki.

Einnig geta þjálfarar sem greiða í ár og síðustu tvö ár sótt um styrk í haust til endurmenntunar. Í ár verða fjórir styrkir í boði í ár að fjárhæð 100 þús. kr. Um ræðir þriðja árið í röð sem slíkir styrkir verða í boði. Fram til þessa hefur þátttaka verið dræm meðal félagsmanna og styrkir ekki að öllu leyti gengið út vegna þess.

Síðast en ekki síst bjóðum við upp á aðstoð fyrir þjálfara sem á því þurfa að halda en enginn veit hvernig mál þróast á þjálfaraferli sínum og á hverju ári leita til okkar þjálfarar í erfiðri stöðu, oftast vegna uppsagnar. Mikil vinna er á bak við tjöldin hjá stjórn KÞÍ í slíkum málum sem hinn almenni félagsmaður sér ekki en á hverju ári koma upp erfið og „ljót“ mál. Oftast er aðstoð þessi lögfræðiaðstoð, s.s. greining á réttarstöðu og milliganga um samskipti við félag. Sé mál flókið og umfangsmikið hefur stjórn KÞÍ aðstoðað félagsmenn, að hluta, við að standa straum af lögmannskostnaði vegna málaferla. 

Við leggjum mikla áherslu á það að sinna öllum félagsmönnum og einungis þeir sem greiða árgjaldið fá þjónustu okkar. Við hvetjum því knattspyrnuþjálfara að greiða árgjaldið.

KÞÍ sendi í byrjun ársins rafrænan greiðsluseðil í heimabanka hjá um 900 þjálfurum. Hafi sá rafræni seðill ekki borist er unnt að greiða inn reikning félagsins með skýringuna „árgjald 2020“: 0140-26-051279 (kt. 501279-0139). Árgjaldið er hóflegt, 6.000 kr. (500 krónur á mánuði).

Þá er athygli vakin á því að unnt er að skrá sig í félagið á heimasíðu félagsins, www.kthi.is  - Gerast félagi.

Vísbendingar eru um of margir þjálfarar gleymi að greiða árgjaldið. Einnig eru vísbendingar um að sumir gleymi að athuga að árgjaldið er valgreiðsla og kemur því neðst í heimabankanum. Sýnum ábyrgð og greiðum árgjaldið!

Loks eru félagsmenn hvattir til þess að hafa samband við KÞÍ ef einhverjar spurningar eru eða álitaefni koma upp.

Stjórn KÞÍ.


Samstarfsaðilar